Sunnudagur, 6. ágúst 2006
Bull
Viðhorf, Morgunblaðið þriðjudaginn 16. ágúst, 2005
Það er fullkomlega óljóst hvernig best færi á því að þýða á íslensku það ágæta enska orð "bullshit". Þá verður heldur ekki séð að komin sé hefð á að nota eina þýðingu fremur en aðra. Úr þessu þarf að bæta því að fyrirbærið sem enska orðið vísar til þrífst svo sannarlega í íslensku samfélagi, ekki síður en ensku. Að ekki skuli vera til orð á íslensku um þetta fyrirbæri er í raun óheppilegt, vegna þess að fyrir vikið verður erfiðara að festa hendur á þessu fyrirbæri og jafnvel losna við það ef svo ber undir. En það er með þetta eins og svo margt, fátækt íslenskunnar eykur fátækt hugsunarinnar.
En þetta er nú kannski ekki alveg svona bölvað. Líklega er óhætt að nota bara það ágæta orð "bull" til að þýða "bullshit" ("kjaftæði" kæmi líka til greina), og verður það því notað hér í þessu viðhorfi. En hvað nákvæmlega er "bull" ("bullshit") og af hverju skyldi maður vilja losna við það? Fyrr á þessu ári kom út í Bandaríkjunum mjög athyglisverð en líka mjög lítil bók sem heitir einmitt Um bull, eða á frummálinu On Bullshit, eftir bandaríska heimspekinginn Harry G. Frankfurt.
Í þessari agnarlitlu bók (hún er ekki nema tæpar 70 síður í litlu broti á stærð við Lærdómsrit Bókmenntafélagsins og lítið á hverri síðu) skilgreinir Frankfurt bull í fáum en einkar hnitmiðuðum orðum. Bull, samkvæmt skilgreiningu Frankfurts, er ekki lygi. Og það sem meira er, bull er í rauninni verra en lygi, og sá sem bullar (bullarinn) er hættulegri en lygarinn. Lygi felur nefnilega í sér ákveðna afstöðu til sannleikans og í rauninni viðurkenningu á tilvist sannleikans - með því að það er vísvitandi gengið gegn honum. En bull er hvorki satt né logið, og bullarinn setur "sannleikann" jafnan í gæsalappir vegna þess að bullarinn veltir því í rauninni ekki fyrir sér hvort það sem hann segir - bullið - hefur einhverja skírskotun til raunveruleika (þ.e. jákvæða ef um er að ræða sannleika en neikvæða ef um er að ræða lygi). "Það er einmitt þetta fullkomna sinnuleysi um sannleikann - að hafa engan áhuga á því hvernig málum er í raun háttað - sem ég tel vera kjarnann í bulli," segir Frankfurt (bls. 33-34).
Lygar gera mann ekki óhæfan til að segja satt, vegna þess að lygari veit jafnan hver sannleikur málsins er þótt hann hafni honum. En hætt er við að bullarinn verði smám saman ófær um að greina á milli þess hvað er satt og hvað er lygi. Að bulla, segir Frankfurt, felur í sér að fullyrða eitthvað alveg án tillits til annars en þess hvað hentar manni að segja. Því er hætt við, að bullarinn missi smám saman alveg tengsl við áþreifanlegan veruleika, og endi á akkerislausu sveimi í einhverjum orðaháloftum.
Af því að hér að ofan var kvartað undan skorti á góðu íslensku orði yfir "bullshit" er gaman að nefna að bull, eins og Frankfurt skilgreinir það, er náskylt fyrirbæri sem gott og gilt íslenskt orð nær yfir, þ.e. uppskafning, sem Þórbergur Þórðarson gerði eftirminnileg skil. Uppskafning felur í sér tildur og tilgerð, eða einskonar flottræfilshátt í orðalagi. Það sem vakir fyrir uppskafningunum er ekki að ljúga beinlínis að lesendum sínum eða áheyrendum heldur er hann fyrst og fremst að hugsa um og hafa áhrif á hvað áheyrendur eða lesendur halda um hann, segir Frankfurt. Uppskafningurinn er að reyna, með orðum sínum og/eða framkomu, að láta áheyrendur eða viðmælanda sinn fá jákvæðar hugmyndir um sig. Uppskafningurinn og bullarinn eiga það því sameiginlegt að vera ekki beinlínis að ljúga.
En þeir eru samt báðir að villa á sér heimildir. Munurinn á þeim er þó kannski sá, að uppskafningurinn er alltaf að reyna að varpa á sig jákvæðu ljósi, upphefja sjálfan sig í hugum annarra. Hann hugsar því um það, og þarf að hafa einhverja tilfinningu fyrir því, hvernig málum er í raun háttað. Hann er því ekki algerlega sinnulaus um sannleikann, eins og Frankfurt segir bullarann vera. Uppskafningurinn er bara að reyna að berja í brestina sem hann veit vera í sér. (Og hver gerir það ekki öðru hvoru?)
Kannski sýnir ævintýrið Nýju fötin keisarans ágætlega hvernig bull virkar: Einungis skraddararnir voru eiginlegir lygarar, því að þeir vissu sannleikann í málinu. Segja má, að allir hinir í sögunni, fyrir utan barnið í lokin, hafi orðið bulli að bráð. Fólkið var ekki að ljúga þegar það dáðist að fötunum sem í raun voru engin, vegna þess að ótti fólksins við að vera heimskingjar blindaði það fyrir sannleikanum. Það sá hann þess vegna ekki og var því ekki að ganga vísvitandi gegn honum, eins og lygarar gera. Fólkið var ekki heldur sekt um einfalda uppskafningu vegna þess að það var ekki að hugsa um hvað aðrir héldu um það. Það óttaðist ekki að vera álitið heimskingjar. Fólkið var fyrst og fremst að hugsa um sínar eigin hugmyndir um sjálft sig. Það óttaðist að vera heimskingjar. Hugsun þess var eitthvað á þessa leið: Ef ég held vera rétt það sem mér sýnist vera rétt, þá er ég heimskingi; en ég er ekki heimskingi (eða öllu heldur, ég vil ekki undir nokkrum kringumstæðum vera heimskingi); ergó: það sem mér sýnist er ekki rétt.
Til að forðast það hlutskipti að vera heimskingjar leitaði fólkið skjóls í almennu áliti, eða einskonar allsherjarbulli. Ástæða þess að barn gat sagt sannleikann var sú, að börn vita ekki hvað það er að vera heimskur.
Dægurmál | Breytt 8.11.2006 kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)