Sunnudagur, 25. mars 2007
Snjöllin trúa ekki á huldufólk
Lesbók, 4. september 2004
Bandaríski heimspekiprófessorinn Daniel C. Dennett lýsti því yfir í grein í The New York Times í fyrra, að tími væri kominn til að "snjöllin" kæmu út úr skápnum. "Snjöll" er íslensk þýðing á enska orðinu "Brights", sem Dennett notar, og er því hvorugkynsnafnorð í fleirtölu - í nefnifalli eintölu er það "snjall", og beygist að sjálfsögðu eins og "fjall".
En hvað er "snjall"? Dennett segir: "Snjall er einstaklingur sem er náttúruhyggjusinni og trúir ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri. Við snjöllin trúum ekki á drauga, álfa eða páskahérann - og ekki heldur á Guð." Dennett tekur lesendum sínum vara við að líta á "snjall" sem lýsingarorð. ""Ég er snjall" er ekki mont, heldur yfirlýsing um að lífsviðhorf manns einkennist af þekkingarþorsta," segir hann.
Dennett fullyrðir að snjöllin þurfi að taka höndum saman því að þau eigi undir högg að sækja í Bandaríkjunum, þar sem þeir er ekki trúi á Guð eigi á hættu að vera gerðir hornreka í samfélagi sem einkennist af miklum trúarhita. Óneitanlega hvarflar það svo að manni, að ekki sé útlit fyrir að samtök sem beinlínis hafa það í stofnskrá sinni að félagsmenn trúi ekki á álfa gætu átt upp á pallborðið á Íslandi, því telja má víst, að huldufólk falli í þann fyrirbæraflokk sem snjöllin afneita. Og samkvæmt þessu myndi meirihluti Íslendinga ekki geta talist til snjalla.
Dennett er einn af þekktari heimspekingum samtímans, og bækur hans, sem eru ófáar, seljast vel og verða umdeildar. Afstaða hans er skýr. Í grein um hann í The Guardian í apríl síðastliðnum var vitnað í næstu bók sem væntanleg er frá honum. Þar segir meðal annars:
"Ég efast ekki um það eitt andartak, að hin veraldlega og vísindalega heimsmynd er rétt, og að hana ættu allir að hafa. Undanfarin árþúsund hefur orðið ljóst, að hjátrú og trúarsetningar verða einfaldlega að víkja." Viðbúið er að póstmódernistum detti í hug að Dennett sé í rauninni sjálfur heittrúaður - það er að segja að hann sé vísindatrúar.
Að minnsta kosti virðist ekki fara mikið fyrir efasemdum hjá honum um það mikilvæga hlutverk er hann telur snjöllin gegna í bandarísku þjóðlífi. Í greininni í NYT segir hann: "Við [snjöllin] erum í rauninni siðferðisleg undirstaða þjóðlífsins: Snjöll taka borgaralegar skyldur sínar alvarlega, einmitt vegna þess að þau treysta Guði ekki til að bjarga mannkyninu frá villuráfi."
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að kaldhæðnislegum viðbrögðum við skrifum Dennetts rigndi yfir snjöllin. Dinesh D'Souza, rithöfundur og sérfræðingur við Hoover-stofnunina, skrifaði í The Wall Street Journal að ekki færi milli mála hvað fælist í orðum Dennetts: "Snjöll eru gáfaða fólkið sem lætur ekki blekkjast af heimskulegri hjátrú."
Dennett, líkt og margir trúleysingjar, skrifar D'Souza, telur að trúleysingjar séu einfaldlega snjallari - skynsamari - en trúaðir. Þeir hugsi sem svo: "Við trúleysingjarnir beitum gagnrýnni hugsun, en þeir trúuðu trúa í blindni." En ef nánar sé að gáð komi í ljós að Dennett og hin snjöllin vaði í rökvillu, sem ef til vill megi kenna við Upplýsinguna.
Þessi Upplýsingarrökvilla sé fólgin í þeirri sannfæringu, að mannkynið geti uppgötvað sífellt meira um heiminn uns þar komi, að ekki sé meira að uppgötva. Með skynsemina og vísindin að vopni geti mennirnir afhjúpað raunveruleikan allan eins og hann leggur sig. D'Souza vísar í engan annan en Immanúel Kant, sem hann segir hafa sýnt fram á að þessi sannfæring Upplýsingarinnar gangi ekki upp.
Það má ef til vill hrista þessar athugasemdir D'Souzas af sér með því að segja að hann sé alræmt íhald og WSJ helsta hægrimannamálgagnið í Bandaríkjunum. En það verður ekki sagt um bandaríska "ríkisútvarpið", National Public Radio, að það sé íhaldsmálpípa og því ekki hægt að gera þannig lítið úr orðum Stevens Waldmans í NPR, sem var engu hrifnari af "Snjallahreyfingunni" en D'Souza.
"Ekki veit ég hvað ímyndarsmiðirnir ætluðu sér, en orðið "snjall" bendir til að þetta fólk telji sig gáfaðra en aðra. Ég geri ráð fyrir að við hin séum þá einhverskonar "ósnjöll"," segir Waldman. Þetta orðaval sé svo óheppilegt að þeir sem fundu upp á þessu (einhver tvö "snjöll" í Kaliforníu, að því er Dennett upplýsir) hefðu eins getað valið orðið "oflátungar" eða "monthanar".
Margir sem hafa tjáð sig á prenti um þetta nýja fyrirbæri - snjöllin - virðast í rauninni ekki hafa neitt á móti þessu nema orðið "snjall". Það sem orðið vísar til - einstaklings sem ekki trúir á guð og telur að finna megi náttúrulegar útskýringar á hverjueina - er enda vel þekkt fyrirbæri, og jafnvel enn frekar hér í Skandinavíu en í Bandaríkjunum. (Þó að þetta með álfana og huldufólkið veki stórar spurningar um möguleika snjalla í íslensku samfélagi).
Að skilgreina sjálfan sig sem "snjall" felur óhjákvæmilega í sér að maður aðgreinir sig með því frá öðrum og þannig er í rauninni ekki hægt að nota orðið "snjall" nema vekja um leið óminn af einhverskonar andheiti þess - ósnjall, heimskur, vitgrannur, eða eitthvað þvíumlíkt. Linda Seebach, dálkahöfundur á blaðinu Rocky Mountain News, bendir á að þessari aðferð hafi áður verið beitt með góðum árangri: "Þegar við tölum um Upplýsinguna erum við í rauninni að samsinna þeim dómi mannanna sem fundu upp það nafn, að þeir sem ekki gengu Upplýsingunni á hönd hafi setið áfram í myrkri."
Af áðurnefndri grein í Guardian að dæma er reyndar ólíklegt að sjálfsupphafningin sem manni finnst óþægilega nálæg í orðinu "snjall" valdi Dennett miklu hugarangri. Hann virðist ekki sérlega plagaður af efasemdum um eigið ágæti og réttmæti skoðana sinna. Það virðist sem hann hafi helst skapað sér nafn innan heimspekinnar með því að útskýra hvernig mörg helstu ljós hugmyndasögunnar, til dæmis Descartes og Quine, höfðu kolrangt fyrir sér. Svoleiðis gerir maður ekki nema sjálfsöryggið sé í góðu lagi og maður telji sjálfan sig bara harla snjallan.
Heimasíða snjallahreyfingarinnar er the-brights.com, og þaðan eru tenglar í margar áttir, meðal annars í það sem virðast vera kóresk og ítölsk systursamtök. Hvar eru nú íslensku snjöllin?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.