Sunnudagur, 22. apríl 2007
Vandráður viðutan
Viðhorf, Morgunblaðið 6. apríl 2006:
Íslenskar grunnskólastúlkur hafa lítinn áhuga á að verða vísindamenn, og skólabræður þeirra hafa lítið meiri áhuga á því. Þetta kemur alveg greinilega fram í könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum og sagt er frá í Rannísblaðinu 30. mars síðastliðinn. Þessar fréttir voru svo sem ekki óvæntar, fyrir ekki löngu síðan sagði fréttavefur breska ríkisútvarpsins frá því að þarlend grunnskólabörn hefðu ekki mikinn áhuga á að helga sig vísindunum.
Það er reyndar fleira sem íslensk og bresk grunnskólabörn eiga sameiginlegt í afstöðunni til vísinda. Til dæmis hafa börn í báðum löndum þá ímynd af vísindamönnum að þeir séu "utan við sig og nördalegir". Það má því ætla að prófessor Vandráður viðutan, góðvinur Tinna, lifi enn góðu lífi í hugum íslenskra og breskra skólabarna.
Það kemur ekki fram í greininni í Rannísblaðinu hvort íslenskir vísindamenn hafi einhverjar áhyggjur af þessu, en í fréttum BBC var haft eftir þarlendum starfsbræðrum þeirra að þetta væri mikið áhyggjuefni. Það hefur reyndar líka komið fram, að í Bretlandi hafa menn áhyggjur af því hversu fáir nemendur leggja stund á raungreinar, og þá sérstaklega eðlisfræði.
Nú má gerast svolítið raunvísindalegur og velta því fyrir sér hvort eitthvert orsakasamhengi sé milli ímyndar vísindamanna meðal grunnskólabarna og lítils áhuga barnanna á að leggja raunvísindi fyrir sig. Börnin - bæði á Íslandi og Bretlandi - töldu að starf vísindamannanna skipti miklu máli fyrir samfélagið allt, en það dugði ekki til.
Eitt af því sem fram kom hjá íslensku börnunum var sú hugmynd að "vísindamaður" sé karlmaður í hvítum slopp. Skyldi þetta vera ein ástæða þess að stúlkur eru síður líklegar til að verða vísindamenn. Eigum við að fara að tala um vísindakonur, þegar það á við, rétt eins og farið er að tala um þingkonur? Ef ég man rétt gildir það sama um stúlkur í Bretlandi og á Íslandi, að þær eru ólíklegri en strákar til að hafa áhuga á að gerast vísindamenn, og þar skiptir orðið ("scientist") engu máli þar sem það er kynlaust. Líklega er skýringin því flóknari.
Bresku vísindamennirnir, sem hafa áhyggjur af þessari þróun mála þar í landi, telja að ein helsta ástæðan fyrir því hvernig komið er sé sú, að kennsla í raunvísindagreinum í grunnskólum sé einfaldlega ekki nógu góð. Það vanti til dæmis kennara með menntun í þeim greinum sem kenndar eru. Of mikil áhersla sé lögð á að kennarar hafi kennaramenntun.
Í greininni í Rannísblaðinu, þar sem fjallað er um rannsókn sem Kristján Ketill Stefánsson, kennslufræðinemi í Ósló, gerði, er látið að því liggja að skortur á sjálfstrausti til að takast á við raunvísindi sé helsta ástæðan fyrir því að íslensk skólabörn geta ekki hugsað sér að verða vísindamenn. Stelpurnar hafa þá líklega minna sjálfstraust en strákarnir, ef þessar niðurstöður eru lagðar saman við þær sem áður voru nefndar, að stelpur séu ólíklegri en strákar til að vilja verða vísindamenn.
En líklega er ástæðan enn flóknari. Því er haldið fram, að stúlkur séu jafnan fyrri til að öðlast félagsþroska en drengir og að þær séu félagslega meðvitaðri en þeir. Kennarar hafa sagt frá dæmum um að stelpur beinlínis þykist heimskari en þær eru til þess að forðast að fá á sig nördastimpil. Nördar eiga nefnilega erfitt með að falla inn í jafningjahópa. Það er eiginlega partur af skilgreiningunni á "nörd" að hann á fáa vini, einfaldlega vegna þess að aðrir krakkar skilja hann ekki. Og flestum krökkum - kannski stelpum sérstaklega - finnst mest um vert að eiga vini. Það er í þeirra augum mikilvægara en að vinna einhver afrek, og lykillinn að hamingjunni. Sumir krakkar hafa sagt eftir á, að í barnaskóla skipti vinirnir mestu - á efri skólastigum fari námið að verða meira um vert.
Þess vegna langar grunnskólakrakkana ekki til að verða vísindamenn, jafnvel þótt þeim finnist starf vísindamanna mikilvægt. Vísindamenn hafa nefnilega enn þá ímynd að þeir séu nördar. Þeir eru Vandráður viðutan.
Þetta er slæmt af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að þetta er á misskilningi byggt. Vísindamenn eru ekki meira viðutan en gengur og gerist. Ímyndin er röng. Í öðru lagi vegna þess að þetta dregur úr möguleikum krakkanna á að öðlast þekkingu og skilning sem þau gætu vel öðlast án þess að verða þar með að nördum. Vísindaleg þekking er öllum aðgengileg - ekki bara einhverjum "snillingum".
Og þarna dúkkaði svo ef til vill upp toppur á borgarísjakanum sem þetta mál er: Rómantíska hugmyndin um snillinginn - mann sem af innsæi sínu og náðargáfu getur fundið svör við stórum spurningum - lifir enn góðu lífi í fjölmiðlum og afþreyingarefni. Það þarf að drepa þennan snilling. Eða öllu heldur, það þarf að útrýma þessari rómantísku dellu.
Hvernig er hægt að fara að því? Það sem þyrfti fyrst og fremst að breytast er sú hugsun að vísindamenn séu gáfaðri en annað fólk. Þá myndi nördastimpillinn um leið hverfa af vísindamönnum og krökkum gæti farið að finnast óhætt að hugsa sér að verða vísindamaður. Þetta myndi ekki aðeins létta krökkunum lífið, þetta myndi líka auka veg vísindanna.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.