Miðvikudagur, 8. nóvember 2006
Góðir grannar
Viðhorf, Morgunblaðið, 30. ágúst, 2005.
Ég bjó einu sinni í snyrtilegri blokk í Vesturbænum. Hún var meira að segja snyrtilegri en aðrar blokkir í því þrifalega hverfi, enda nýrri. Nágrennið, bæði úti og inni, var harla gott. Nema stundum. Í stigaganginum mínum, sem var alltaf ryksugaður og fínn og keimur af síðustu hreingerningu lá í loftinu, bjó fólk sem greinilega fannst gott og mikilvægt að hafa umhverfi sitt snyrtilegt og góða granna. Í næstu íbúð við mig á stigapallinum bjuggu, ef ég man rétt ung hjón með barn, þótt reyndar hafi ég aldrei nokkurntíma heyrt það barn gráta. Í næstu íbúð við þau bjó flugfreyja sem átti kærasta. Í næstu íbúð við hana, og beint á móti minni á stigaganginum, bjó miðaldra maður sem sagði mér oftar en einu sinni, með sinni djúpu og brakandi rödd, að hann væri á frystitogara.
Ef ekki hefði verið þetta þykka, fína og eins og nýja teppi á stigaganginum hefði mátt heyra þar saumnál detta svo að segja allan sólarhringinn. Svefnfriðurinn var alger. Nema stundum. Ég hitti satt best að segja ekki oft fólkið sem bjó á sama stigapalli og ég. Nú má til sanns vegar færa að ég sé sjálfur ekkert sérstaklega félagslyndur, en ég held að í rauninni höfum við öll, eins og góðra granna er siður, lagt okkur svolítið fram um að láta nágranna okkar í friði. Ekki vegna þess að okkur væri sama um þá, heldur þvert á móti af virðingu fyrir þeim.
Þetta kom reyndar mest af sjálfu sér hvað manninn beint á móti varðaði - þennan sem sagði mér ítrekað að hann væri á frystitogara - þar sem hann var mánuðum saman fjarri heimili sínu. En þegar hann var heima, þá munaði ekki um það. Þá hvarf alveg keimurinn af síðustu hreingerningu í stigaganginum; svefnfriðurinn var gjörsamlega úti og stundum - jafnvel um miðjar nætur - hefði maður ekki heyrt Fokker fljúga yfir, hvað þá saumnál detta á stigaganginum, sökum drynjandi "stemmningar" úr íbúðinni beint á móti mér á stigaganginum. Þessi nágranni okkar, sem ítrekað hafði sagt mér að hann væri á frystitogara, lagði sig ekki beint í framkróka við að láta granna sína í friði. Sem er til marks um að hann hafi ekki borið mikla virðingu fyrir þeim.
Þegar hann var í landi ríkti terror í stigaganginum. Maður vissi aldrei hvað kæmi næst. En reynslan kenndi manni að maður gat þó verið viss um að lögreglan kæmi fljótlega. Lífsgleði þessa manns hékk eins og demóklesarsverð yfir höfðum nágranna hans.
Eina nóttina vaknaði ég og hafði á tilfinningunni að það hefði komið jarðskjálfti. En svo heyrði ég kunnugleg óhljóð framan af stigagangi og vissi að maðurinn á frystitogaranum væri kominn í land. Því til staðfestingar heyrði ég ryðgaða röddina í honum þegar hann hrópaði eitthvað um að einhverjir skulduðu sér mörg þúsund krónur. Síðan sagði hann hátt og snjallt að hann ætlaði að kalla á lögregluna. Nú þótti mér týra. Það hlaut eitthvað óvenju mikið að hafa gengið á ef þessi ryðkláfur, sem hlaut að vera því vanastur að lögreglunni væri sigað á sig, var farinn að hóta að kalla hana sér til liðsinnis.
Forvitnin varð því fýlunni í mér yfirsterkari og ég stóðst ekki mátið og rauk framúr og lagðist á gægjugatið í hurðinni fram á gang. Fyrir utan opnar dyrnar á íbúðinni sinni stóð nágranni minn og sendi tóninn einhverju fólki sem var að hrekjast niður stigann. Svo fór hann inn og lokaði á eftir sér og þá sá ég hvers kyns var: Það vantaði neðri helminginn á útihurðina hjá honum. Það var þá bresturinn sem hafði vakið mig - ekki jarðskjálfti. En þetta var sterkbyggð hurð og greinilegt að ekki hafði kostað nein smáræðis átök að brjóta hana svona snyrtilega í tvennt og rífa neðri helminginn af.
Eftir þetta lagðist allt í dúnalogn - gott ef ekki í nokkra daga, ef ég man rétt. Samt reyndist þessi atburður marka nokkur þáttaskil, því að upp úr þessu fór að bera á því að íbúarnir í stigaganginum hefðu misst þolinmæðina. Ungu hjónin í íbúðinni við hliðina á mér seldu og fluttu burt, enda ekki búandi með lítið barn við svona aðstæður. Ég frétti að kærasti flugfreyjunnar hefði verið kominn á fremsta hlunn með að berja óværuna niður, og ekki lái ég honum það. (Ég heyrði líka skömmu eftir þetta að konan sem átt hafði íbúðina sem ég bjó í hefði selt og flutt burt vegna þess að hún var búin að fá alveg nóg af þessu mannkerti beint á móti.) Ég flutti svo sjálfur burtu ekki löngu síðar. Og ég held að svo hafi farið að íbúunum í stigaganginum tókst að hrekja óværuna af höndum sér. Gott hjá þeim. Svona fólki, sem ber enga virðingu fyrir nágrönnum sínum, á maður að henda út.
En nábýlið við manninn sem ítrekað sagði mér að hann væri á frystitogara kenndi mér í eitt skiptið fyrir öll þá lexíu að góðir grannar eru mikilvægari en flest annað. Og ég get ekki ímyndað mér að hægt væri að hafa verri nágranna en hann. Ég vissi fátt um þennan mann annað en að hann var á frystitogara og Íslendingur í húð og hár. Ég veit ekkert hverrar trúar hann var en það bendir allt til að hann hafi verið þessarar venjulegu, íslensku lúterstrúar. Og þá verður vísast einhver, ef marka má nýlega skoðanakönnun, til að benda mér á að ég eigi sko ekki að vera að kvarta undan honum. Ég eigi bara að þakka fyrir að hann var ekki múslími.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.