Laugardagur, 11. nóvember 2006
Eru karlar svona?
Viðhorf, Morgunblaðið, 6. desember, 2005
Fyrir mörgum árum sagði góður vinur minn mér frá því að hann hefði einhverju sinni farið með dóttur sína, sem þá hefur líklega verið tveggja eða þriggja ára, niður að Tjörninni í Reykjavík að gefa öndunum á sunnudagseftirmiðdegi. En hann kvaðst hafa flýtt sér að drita brauðinu í fuglana og forðað sér. Það hefði nefnilega runnið upp fyrir sér að fólk sem sæi þau feðginin myndi halda að hann væri helgarpabbi. Og það vildi þessi vinur minn ekki að fólk héldi.
Ég spurði hann ekki hvers vegna hann vildi ekki að fólk héldi það. Og ég spurði hann heldur ekki hvers vegna hann hafi haldið að fólk héldi það. Því síður spurði ég hann hvers vegna honum væri ekki skítsama hvað fólk héldi. Enda hefðu svör hans við þessum spurningum ekki skipt neinu máli - hann hafði einfaldlega sagt mér hvaða tilfinningar hann upplifði, og það er ekkert vit í því að vega og meta hvort það hafi verið rétt eða rangt af honum að hafa þessar tilfinningar. Og þar að auki var ég ekki orðinn pabbi sjálfur og hefði ekki átt séns í að skilja svarið.
Þessi frásögn vinar míns rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég var einn með dóttur mína, sem er á svipuðum aldri og dóttir hans var þá, á almannafæri. Og ég fór að hugsa eins og vinur minn hafði hugsað við Tjörnina þarna fyrir mörgum árum: "Skyldi einhver sem tekur eftir okkur halda að ég sé helgarpabbi?" Eins og ég nefndi eru mörg ár liðin síðan vinur minn var við Tjörnina með dóttur sína (hún er orðin mamma og hann þar með afi, sagði hann mér um daginn) og kannski hefur tíðarandinn breyst. Ég lagði að vísu ekki á flótta, en samt: Ég skil núna hvað hann átti við þarna um árið.
Þetta voru auðvitað fordómar í okkur báðum: Við gerðum ráð fyrir að annað fólk hugsaði á einhvern tiltekinn hátt. Og það má líka segja að þetta hafi verið óþarfa viðkæmni - kannski sérstaklega í mér, þar sem tíðarandinn er svo sannarlega breyttur.
Eða hvað? Þetta er spurning um almennt viðhorf í samfélaginu til föðurhlutverksins. Undir þá spurningu falla aðrar þrengri spurningar eins og til dæmis sú, hvort karlmenn séu jafnhæfir og konur til að ala upp börn, og einnig hvort það teljist karlmannlegt að njóta þess að eiga börn. Þetta er svo auðvitað á endanum mjög mikilvægt atriði í jafnréttisumræðunni. Og ég er ekki frá því að kannski hafi verið, og sé enn, einhver fótur fyrir fordómum okkar vinanna. Hér koma tvær sögur sem benda til þess að kannski hafi tilfinningar okkar ekki verið alveg út í hött (um leið og viðurkennt skal fúslega að tvö dæmi eru ekki sönnun á neinu):
Fyrir stuttu barst í tal hjá kunningja mínum sem á barn með konu sem hann býr ekki með að barnið yrði hjá honum um komandi helgi - að hann væri altso helgarpabbi þessa barns. Ung kona sem heyrði á tal okkar greip þetta á lofti og sagði hátt, snjallt og glaðhlakkalega: "Svona eru þessir karlmenn! Troðandi typpinu á sér hvar sem er!" Þessi unga kona hafði ekki hugmynd um aðstæður kunningja míns eða forsendur þess að hann var helgarpabbi barnsins síns. Samt lét hún sig hafa það að dæma hann hástöfum, að því er virðist fyrst og fremst fyrir það að vera karlmaður.
Víst voru orð hennar alhæfing og sem slík ekki marktæk, og segja má kunningja mínum til hróss að hann virti þau að vettugi. En ég verð að viðurkenna að sjálfum hefur mér þótt þessi kona fremur ómerkilegur pappír síðan. Í orðum hennar fólst það viðhorf að hvað börn varðaði hafi karlmenn ekki áhuga á öðru en samförunum sem leiða til barna.
Um daginn skrifaði svo Guðrún Guðlaugsdóttir grein í Morgunblaðið (10. nóv.) og hélt því fram að börn væru að öllu jöfnu betur komin hjá móður en föður. Það væri einfaldlega spurning um "líkamlega gerð mannfólks". Ef að er gáð kemur í ljós að röksemdafærslan í grein Guðrúnar er í grundvallaratriðum sú sama og liggur að baki því viðhorfi að það sé æskilegra að karlmenn fari með stjórnun - bæði í samfélaginu og fyrirtækjum - eins og best megi sjá af því að þannig hafi málum verið háttað frá aldaöðli. Það sé einfaldlega staðreynd að karlar hafi jafnan verið duglegri við að mynda ríkisstjórnir og stofna fyrirtæki og stýra þeim, og fái enda miklu hærra kaup en konur. Þetta síðasta er svo sagt endanleg sönnun þess að karlar séu hæfari til stjórnunarstarfa en konur: Fyrst þeir fá hærra kaup hljóta þeir að vera starfinu betur vaxnir. Hér er ekki pláss til að útlista hvað er athugavert við þessa lógík. (Það er efni í annan pistil). Viðhorf Guðrúnar er klassísk íhaldshyggja í samfélagsmálum.
Þessi tvö dæmi held ég að dugi til að útskýra hvers vegna vinur minn forðaði sér frá Tjörninni og hvers vegna frásögn hans af því rifjaðist upp fyrir mér mörgum árum síðar. Innst inni óttumst við að ef fólk heldur að við séum helgarpabbar álíti það þar með að við séum menn sem höfum enga stjórn á typpinu á okkur og sitji nú uppi með afleiðingarnar - barn sem við eðlis okkar vegna sem karlmenn getum ekki veitt það sem það helst þarfnast, alveg sama hversu mikið við elskum það og hversu mikla ástúð og kærleika við veitum því. Og þá væri eðlilegt að fólk færi að vorkenna okkur. Kannski hugsar það: En sætt að hann skuli þó reyna...
Við frábiðjum okkur slíka meðaumkun. En umfram allt frábiðjum við okkur þá fordóma sem birtast í glaðhlakkalegri yfirlýsingu ungu konunnar og grein Guðrúnar Guðlaugsdóttur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.