Slæðubann

Viðhorf, Morgunblaðið, 31. mars, 2004

Einhverjar undarlegustu fréttir sem borist hafa utan úr heimi undanfarið eru - við fyrstu sýn, að minnsta kosti - fregnirnar af svokölluðu slæðubanni í Frakklandi. Þingið þar í landi hefur samþykkt lög sem banna að borin séu sýnileg, áberandi trúartákn, eins og til dæmis róðukross, gyðingakollhúfa eða slæða um höfuðið, í ríkisreknum grunn- og framhaldsskólum. Slæðubannið, sem lögin hafa verið kennd við, varðar múslímskar stúlkur.

Samkvæmt fréttum eru frönsk yfirvöld með þessu að vernda veraldarhyggjuna sem er grunnforsenda franska lýðveldisins, og draga úr hættunni á ofbeldi af trúarlegum ástæðum. Það sem ekki síst gerði þetta mál hið undarlegasta var að manni sýndist blasa við að þetta væri brot á tjáningarfrelsi, og að verið væri að vernda hugmyndir fyrir fólki sem talið væri að bæri ekki skynbragð á mikilvægi þeirra. En ef nánar er að gáð kemur í ljós að ástæða bannsins er ef til vill öllu einfaldari.

Það var nítján manna óháð nefnd, skipuð af Jacques Chirac Frakklandsforseta í júlí í fyrra, sem samdi lögin. Einn nefndarmannanna, Patrick Weil, skrifaði nýverið grein í veftímaritið openDemocracy.net þar sem hann útskýrði ástæður þess að lögin voru sett. Tilgangurinn var ekki, segir hann, að lögbinda háleitar hugmyndir um franska veraldarhyggju, heldur að vernda múslímskar stúlkur sem ekki vildu bera slæðu (hijab) fyrir ofbeldi og yfirgangi af hálfu þeirra - karlmanna í flestum tilvikum - sem vildu að þær hegðuðu sér í samræmi við boð Kóransins.

Weil rifjar upp, að 1989 hafi hæstiréttur Frakklands komist að þeirri niðurstöðu að múslímaslæður séu ekki áberandi trúartákn sem mætti banna í opinberum skólum. Þær mætti einungis banna ef farið yrði að nota þær sem tæki til að þrýsta á stúlkur sem vildu helst ekki bera þær.

Weil skrifar ennfremur: "Á undanförnum tveim til þrem árum hefur orðið deginum ljósara, að í þeim skólum þar sem sumar múslímskar stúlkur bera slæðu en aðrar ekki er því haldið stíft að þeim síðarnefndu að fylgja fordæmi hinna fyrrnefndu. Þær verða daglega fyrir þrýstingi, allt frá móðgunum til líkamsmeiðinga. Að mati ofbeldisseggjanna (sem flestir eru karlar) eru þessar stúlkur "vondir múslímir" og "hórur" sem ættu að fara að dæmi kynsystra sinna er virða boð Kóransins."

Nefndin hafi átt um tvennt að velja hvað varðaði múslímskar stúlkur í opinberum skólum: "Annaðhvort myndum við ekki gera neinar breytingar, og þar með í raun svipta þær stúlkur sem ekki vildu bera slæðu - þær voru í miklum meirihluta - valfrelsi; eða þá að við myndum leggja til að sett yrðu lög sem sviptu þær sem vildu bera slæðuna valfrelsi. Við ákváðum að veita þeim fyrrnefndu valfrelsi þann tíma sem þær eru í skólanum, en þær síðarnefndu njóta fulls frelsis þegar þær eru ekki í skólanum...Þess var því miður ekki kostur, að veita öllum fullkomið frelsi."

Það sem vakti fyrir nefndarmönnum, segir Weil, var að stúlkur sem ekki vildu bera slæðuna gætu borið fyrir sig landslög til að forðast áreiti.

Á endanum hafi ekki þótt koma til greina að fela það í hendur hverrar og einnar skólastjórnar hvort áberandi trúartákn væru bönnuð, þar sem slæðuburður sé orðinn að baráttumáli bókstafstrúarhópa um allt Frakkland, og þessi barátta fari fyrst og fremst fram í skólum landsins. Nefndin taldi ástæðu til að ætla, að hefðu skólastjórnir fengið ákvörðunarvaldið í sínar hendur hefði hætta verið á að þær lentu í bardaga við bókstafstrúarhópana.

Weil segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem lög séu sett í Frakklandi til að vernda fólk fyrir þrýstingi sem eigi sér trúarlegar rætur. Árið 1905 hafi ríki og kirkja - sú kaþólska - verið aðskilin og það hafi verið mikill sigur fyrir meirihluta Frakka, sem vildi draga úr áhrifum kirkjunnar í þjóðfélaginu og menntakerfinu. Reyndar hafi veraldlega hefðin í Frakklandi beinlínis orðið til sem vernd gegn áhrifum og í raun yfirráðum kaþólsku kirkjunnar í þjóðfélaginu. Samkvæmt þessari hefð sé það hlutverk ríkisins að vernda einstaklinginn fyrir hópþrýstingi.

En Weil segir að það hafi þó ekki verið þessi veraldlega hefð sem var forsenda niðurstöðu nefndarinnar, heldur hafi málið snúist um velferð múslímskra stúlkna. Ekki hefði komið til greina að setja bann sem þetta í háskólum eða öðrum stöðum þar sem um væri að ræða fullorðið fólk.

Þetta er mikilvægur greinarmunur sem einfaldar málið og dregur það niður á jörðina, ef svo má segja. Þessi áhersla, að banninu sé ætlað að bæta velferð barna og unglinga fremur en að tryggja viðgang veraldarhyggjunnar sem grundvallarhugsjónar í frönsku samfélagi, gerir orð Weils - og þá líklega einnig sjálft slæðubannið - fremur sannfærandi.

Samkvæmt þessu miðar slæðubannið því ekki, þegar allt kemur til alls, að því að tryggja viðgang hugmynda, heldur að öllu áþreifanlegra marki, og það breytir málinu. Verndun franskrar veraldarhyggju gæti varla talist réttlæta að tjáningarfrelsi manna væri skert. En verndun franskra barna er öllu betri og gildari ástæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband