Færsluflokkur: Dægurmál

List og siðleysi

Ég veit að það þykir ekki fínt að hneykslast á listamönnum. Sumum finnst slíkt jafnvel hneykslanlegt. En ég ætla nú samt að láta mig hafa það. Tek þó fram áður en lengra er haldið, að ég er ekki á nokkurn hátt að alhæfa um listafólk og list. Ég er að tala um eitt ákveðið tilvik, eitt ákveðið „listaverk" og einn ákveðinn „listamann".

Grátbroslegustu fréttir síðustu viku voru án efa af unga, íslenska listamanninum sem olli miklu uppnámi í Toronto í Kanada með „listgjörningi" sem fólst í því að koma fyrir eftirlíkingu af sprengju á menningarsögusafni þar í borg, með þeim afleiðingum að lögregla var kölluð til, safninu lokað og þúsundir manna urðu fyrir barðinu á listinni.

Sjálfur sagði listamaðurinn í viðtali við Morgunblaðið að viðbrögð fólksins hefðu verið hluti af listaverkinu. Þau orð hans eru athyglisverð. Fyrir utan að vera kannski í meira lagi sjálfbirgingsleg eru þau til marks um að listamaðurinn hafi meðvitað notað fólkið, án þess að láta það vita - hvað þá að fá beinlínis leyfi - sem efnivið í listaverkið sitt. Að nota annað fólk er hámark siðleysisins.

En kannski var þetta bara hugsunarleysi ungs manns. Umræddur „listamaður" er ekki nema 24 ára, og líklega verður það virt honum til vorkunnar.

Hann sagði ennfremur í viðtali við Morgunblaðið á föstudaginn að hann hefði með verkinu verið að feta í fótspor Marcels Duchamps, sem varð frægur fyrir að stilla upp klósetti og kalla það listaverk. Munurinn er þó sá, að verk Duchamps kom ekki illa við nokkurn mann (raskaði í mesta lagi hugmyndum einhverra um hvað sé list - og það er gott og gilt).

Listamaðurinn íslenski bætti því svo við, að með því að setja skúlptúrinn (af sprengjunni) „í annað samhengi" hafi skúlptúrinn hætt að vera skúlptúr og orðið að sprengju. Þetta er einfaldlega rangt. Sprengja er hlutur sem getur sprungið og valdið skaða og jafnvel manntjóni. Skúlptúr getur ekki gert slíkt, og breyting á samhengi getur ekki breytt eðli efnisins sem skúlptúrinn er gerður úr.

Það sem hér að ofan er nefnt bendir allt til þess að blessaður listamaðurinn ungi hafi kannski svolítið ofvaxnar hugmyndir um listaverk og mátt þeirra, og að þetta ofmat hafi nú orðið til þess að hann gæti endað í fangelsi. Þó er rétt að nota hér tækifærið og höfða til vel þekkts umburðarlyndis Torontobúa og biðja þá að sýna sjálfhverfum og skammsýnum íslenskum listamanni skilning.

Hann nefndi líka - í Fréttablaðinu, held ég - að „listaverkið" hafi haft eitthvað með að gera breytt viðbrögð fólks við sprengjuhótunum eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum fyrir sex árum. Ja, ég segi nú bara eins og Ameríkanar: Döö!

Allt vekur þetta gamalkunnar spurningar um inntak og hlutverk listarinnar í samfélaginu, og ekki úr vegi að nota tækifærið og velta þessum spurningum fyrir sér rétt eina ferðina. Ég skal viðurkenna að þetta eru ekki frumlegar vangaveltur, fjarri því.

Það hefur löngum verið mörgum listamanninum hjartfólgið að ýta smáborgaranum út úr fastskorðuðum veruleika hans. Róta í hugmyndaheimi hans og „vekja hann til umhugsunar." Listamenn hafa um langan aldur tuggið þessa klisju, og eru enn að því. En hvenær ganga þeir of langt?

Jú, þegar þeir fara að nota fólk, valda því tjóni eða meiða það, þá er of langt gengið. Það er allt í lagi að róta við hugmyndum fólks, og ég held að flest fólk sé ákaflega opið fyrir að láta róta við hugsun sinni. Tökum dæmi af klósettskál ofannefnds Duchamps. Hún hafði eflaust mikil áhrif á hugmyndir fólks um list. En Duchamp notaði ekki fólk við að búa til þetta listaverk, og hann olli engum tjóni með því.

„Listamaðurinn" íslenski í Toronto, sem hér um ræðir, sýndi aftur á móti fólki lítilsvirðingu, notaði það til að ná sínu eigin markmiði (að búa til list) og olli beinlínis skaða sem á ekkert skylt við að róta við viðteknum hugmyndum smáborgaralegs samfélags.

Það má svo ennfremur velta því fyrir sér hvaða hvatir geti legið að baki uppátæki á borð við meintan „listgjörning" íslenska listamannsins. Er það sköpunarþrá? Ef til vill. En þar sem ætla má að listamaðurinn hafi vel gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar verkið myndi hafa - koma róti á líf og fyrirætlanir fjölda manns - er ekki út í hött að álykta að hin eiginlega hvöt að baki verkinu hafi verið drottnunargirnd. Löngun til að sýna vald sitt.

Gott og vel, margir eru haldnir drottnunargirnd og vísast getur maður fengið „kikk" út úr því að beita annað fólk valdi. En það er harla ómerkilegt að fá útrás fyrir svona hvatir með því að koma óorði á listir og listafólk.

Og þó, það er ef til vill of djúpt í árinni tekið að tala um drottnunargirnd; kannski var þetta ekki annað en ómæld sjálfhverfa. Þess eru jú dæmi að listamenn séu kannski svolítið í sjálfhverfari kantinum, ekki satt?

Svo má auðvitað velta því fyrir sér hvort ekki sé réttlætanlegt að færa fórnir fyrir listina? Mega ekki listamenn gera ýmislegt sem enginn óbreyttur almúgamaður kæmist upp með?

Ég verð víst að viðurkenna að ég hef aldrei skilið þá hugsun að listamönnum leyfist, í nafni listarinnar, eitt og annað sem aðrir mega ekki gera. Ég kemst aldrei yfir þá hugsun að þetta sé afsökun fyrir sjálfhverfu og frekju. Enda hef ég oft verið sakaður um að hafa ekkert vit á listum, og jafnvel að vera öfundsjúkur út í fólk með frumlega hugsun.

Mér til afbötunar segist ég hafa það prinsipp að ekkert geti verið meira um vert en virðing fyrir manneskjum. Jafnvel ekki list eða „frumleg hugsun." Og ég er alveg sannfærður um að það er hámark siðleysisins að nota annað fólk án þess að fá hjá því heimild fyrst.

(Viðhorf, Morgunblaðið 3. desember 2007)


Skot í tilefni dagsins

Dagur íslenskrar tungu er af mörgum talinn hátíðisdagur, og af þeim sökum eru í dag haldnar ófáar hátíðarræðurnar þar sem tilefni dagsins - íslenskan - er mært og hlaðið lofi. En eins og allir vita eru hátíðis- og tyllidagar líka dagar innantómra orða sem enginn man eftir þegar hátíðarskapið er runnið af mönnum og þeir mættir í blákaldan veruleikann daginn eftir.

 

Það eru bara skáld og fyrirmenni sem geta leyft sér að vera í hátíðarskapi á hverjum einasta degi, þar sem upphafning hversdagsins er jú vinnan þeirra. Við hin höldum áfram að púla í klóakkinu, eins og skáldið komst að orði.

Eitt af því sem eflaust mun heyrast í dag eða sjást á prenti er að íslenskir fjölmiðlar séu helstu útverðir íslenskrar tungu og að fjölmiðlafólki sé því lögð á herðar sú skylda að vanda mál sitt. Hvort tveggja er þetta þó í rauninni rangt. Þetta eru einmitt dæmi um innantóm hátíðisdagaorð.

Íslensku fjölmiðlafólki er ekki lögð sú skylda á herðar að vanda mál sitt. Raunin (í tvennum skilningi) er aftur á móti sú að íslensku fjölmiðlafólki eru lagðar þær skyldur á herðar að vinna hratt og afkasta miklu, og gæta vandlega að útliti sínu og ímynd. Ef einhver verður til að mótmæla þessu vil ég einfaldlega biðja þann hinn sama að lesa íslenska fjölmiðla, eða hlusta á þá og horfa.

Á þessu hafa reyndar löngum verið tvær ágætar undantekningar. Það eru Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Þetta eru einu fjölmiðlarnir á Íslandi sem hafa beinlínis kostað einhverju til - tíma og peningum - að vanda málfar sitt. Athyglisvert er að þetta eru um leið einu fjölmiðlarnir sem eru hluti af sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Þarna eru áreiðanlega tengsl á milli.

Almenna reglan á íslenskum fjölmiðlum er þó sú, að ef maður er „kúl og krisp" (og jafnvel líka „slikk"), vinnur hratt og mokar miklu skiptir engu máli þótt maður geti ekki komið út úr sér óbjagaðri setningu eða sett heila hugsun á blað.

Við sjálft liggur að það sé fjölmiðlafólki fjötur um fót á framabrautinni að leggja meiri áherslu á málfar sitt en útlit og framkomu. Ég er ekki að halda því fram að við eigum öll að fara að sitja í lopapeysu og gallabuxum við að setja saman gullaldaríslensku. Ég á við að stjórnendur fjölmiðla virðast hiklaust telja mest um vert að hafa „flott" starfsfólk, og skiptir þá engu þótt þetta sama fólk geti ekki tjáð sig nema í gatslitnum orðaleppum og bjöguðu máli.

Þess vegna held ég því hiklaust fram að íslenskir fjölmiðlar séu í raun og veru ekki útverðir íslenskrar tungu, þó svo að þeir á hátíðis- og tyllidögum segist vera það. Ef íslenskir fjölmiðlar vilja standa við stóru, hátíðlegu orðin þurfa þeir að verja peningum og tíma í að vanda mál sitt. Það gera þeir ekki. Aftur á móti verja þeir stórfé og löngum stundum í að bæta útlit sitt og ímynd; gera hana „kúl og krisp".

Ef fjölmiðlum væri einhver alvara með að vanda mál sitt myndu þeir borga starfsfólki sínu fyrir gott málfar. Raunin er þó sú að miðlarnir borga alls konar ímyndarráðgjöfum og málhöltum stjörnum stórfé, á meðan almennir fréttamenn, þýðendur og prófarkalesarar (fólkið sem setur saman megnið af því íslenska máli sem miðlarnir bera á borð) eru tiltölulega lágt launaðir, eins og glögglega kemur í ljós á hverju ári í tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Hver veit, ef til vill rennur upp sá dagur að enginn verður jafn kúl og sexí og sá sem hefur vald á málinu; getur talað án þess að tafsa og hika, gefur sér tíma til að vanda sig við að skrifa og hefur hugsun á öðru en útjöskuðum orðaleppum.

Þeir fjölmiðlar sem á hátíðisdögum á borð við daginn í dag fara mikinn um gildi þess að tala og skrifa góða íslensku gætu reyndar með ýmsum hætti sýnt viljann í verki. Eins og hér að framan var nefnt gætu þeir beinlínis borgað fyrir gott mál, fremur en flott útlit.

Einnig mætti gefa fjölmiðlafólki kost á - og jafnvel skylda það margt hvað - til að læra að beita íslenskunni vel. Til dæmis væri hægt að bjóða upp á endurmenntunarnámskeið í íslensku, rétt eins og fjölmiðlafólki er sífellt boðið upp á námskeið í fréttamennsku, kaupsýslufræðum, notkun hinna og þessara tölvuforrita og guð má vita hverju. Ekki rekur mig minni til þess að hafa séð fjölmiðlafólki boðið upp á íslenskunámskeið.

Slíkt námskeið gæti orðið verulega skemmtilegt. Ég er ekki að tala um að þeir fari og fái fyrirlestur um stafsetningu og málfræði. Það væri nær að þeir fengju að lesa góðar bækur og pæla í þeim með leiðsögn skemmtilegs kennara. Hvernig væri til dæmis að blaðamönnum yrði boðið á Njálunámskeið? Eða fengju að velta sér upp úr Moby Dick í svo sem eins og mánuð?

Væru stjórnendur íslenskra fjölmiðlafyrirtækja tilbúnir að borga fyrir slíkt og sleppa því að kaupa enn einn fundinn með ímyndarráðgjafa? (Flestir þessara funda eru hvort eð er í rauninni vitagagnslausir, er það ekki?)

Það gæti meira að segja farið svo að ef raunveruleg, áþreifanleg áhersla væri lögð á gott málfar þyrftu fjölmiðlar minna á öllum ímyndar- og markaðsráðgjöfunum að halda. Vegna þess að reynslan sýnir að fátt þykir lesendum, áheyrendum og áhorfendum jafn traustvekjandi og gott málfar.

Þeir tveir fjölmiðlar sem ég nefndi áðan að hefðu í gegnum tíðina lagt raunverulega áherslu á gott mál, Ríkisútvarpið og Morgunblaðið, eru líka þeir miðlar sem Íslendingar treysta best. Ekkert er betra fyrir ímynd fjölmiðils en að vera traustvekjandi. Og ekkert er meira traustvekjandi en gott og skilmerkilegt mál. Þar af leiðandi blasir við að í rauninni er ekkert betra fyrir ímyndina en gott málfar.

(Viðhorf, Morgunblaðið, 16. nóvember 2007)


Hámörkun hagnaðar

Það getur vel verið að sameining Reykjavik Energy Invest, hins svonefnda "útrásararms" Orkuveitu Reykjavíkur, og Geysir Green Energy sé til hagsbóta fyrir eigendur Orkuveitunnar, það er að segja íbúa þeirra sveitarfélaga sem standa að henni. Því má vel vera að það hafi verið ágætt frumkvæði borgarfulltrúanna sem stuðluðu að sameingingunni að drífa í henni.

En með hvaða hætti var hag íbúanna best borgið með sameiningunni? Jú, Orkuveitan hagnast að öllum líkindum mest með þessum hætti. En til þess að tryggja að þessi hámarkshagnaður næðist þurfti að vísu að sniðganga nokkrar reglur, eins og til dæmis um boðun eigendafundar með vikufyrirvara.

Til þess að tryggja þennan hámarkshagnað almennings þurfti ennfremur að láta nokkrum einstaklingum eftir að skammta sjálfum sér svo og svo mikinn persónulegan gróða af sameiningunni. Það mætti reyndar líka segja að sérþekking þessara manna á hagnaðarhámörkun hafi verið keypt á sanngjörnu verði. Miðað við heildarhagnað almennings séu launin sem þessir menn þiggi einungis smotterí.

Vinstri græn hafa eins og þeim einum er lagið verið með nöldur. En kannski má segja að oft ratist kjöftugum satt á munn, og að það hafi gerst í þessu tilviki. Ef til vill flýttu strákarnir sér aðeins of mikið í sameiningunni. Að minnsta kosti virðist allmörgum eigendum Orkuveitunnar - það er að segja almennum borgurum - vera dálítið misboðið. En hvað nákvæmlega misbýður þessu fólki? Veit þetta fólki ekki að það er að græða alveg rosalega mikið?

Sameining REI og GGE, það er að segja með hvaða hætti fyrirtækin voru sameinuð, er ef til vill gott dæmi til að draga fram helstu einkenni þess gildismats sem liggur til grundvallar forgangsröðuninni í íslensku þjóðfélagi - að minnsta kosti tilteknum geira þess - nú um stundir.

Þeir sem stóðu að því að drífa í sameiningunni gáfu í skyn að það hefði legið á til að fá sem mestan hagnað af henni. Þess vegna hafa menn væntanlega verið fúsir að finna orð og setningar í samstarfssamningi Orkuveitunnar sem túlka mátti á þann veg að úr fengist sú niðurstaða að ekki þyrfti í rauninni að boða eigendafund með heillar viku fyrirvara, nú eða að sú regla væri frávíkjanleg að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem líta mátti á sem uppfyllt ef eitt eða annað væri skilið og túlkað á ákveðinn máta.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þeir borgarfulltrúar sem að sameiningunni stuðluðu hafi vísvitandi gengið gegn því sem þeir telja vera bestu hagsmuni borgarbúa í því skyni að skara eld að eigin köku. Með öðrum orðum, mér dettur ekki í hug að halda því fram að þessir menn séu á nokkurn hátt spilltir stjórnmálamenn.

Mér dettur ekki heldur í hug að halda því fram að annarlegar ástæður hafi legið að baki hjá þeim mönnum sem sátu hinumegin við borðið og tókust á hendur að fá sem mestan hagnað af sölu á íslenskri jarðvarmaorku. Með öðrum orðum, mér dettur ekki í hug að halda því fram að þeir hafi vísvitandi verið að sölsa undir sig peninga og eigur skattgreiðenda. Þeir voru einfaldlega að bjóðast til að gera það sem þeir eru bestir í: Græða peninga. Og þarna liggur líklega hundurinn grafinn.

Áður en lesendur stimpla mig sósíalista og hætta að nenna að lesa þetta vil ég fá að taka fram að ég hef ekkert á móti peningum og ekkert á móti gróða. Og ég veit hreinlega ekki hvort ég er með eða á móti sameiningu REI og GGE (ég veit of lítið um málið til að taka afstöðu til þess).

En ég held, eins og ég nefndi hér að ofan, að sameiningarferlið hafi ef til vill svipt hulunni af gildismati sem kann að vera dálítið skrítið, að ekki sé sagt vafasamt. Það virðist sem menn hafi ákveðið, að ef svo og svo mikill hagnaður er í húfi sé réttlætanlegt að sleppa því að fara að með lýðræðislegum hætti. Það er að segja, ef velja þarf á milli lýðræðislegra "formsatriða" og hagnaðarhámörkunar er það síðarnefnda valið. Hagnaðarhámörkunin hefur meira gildi en lýðræðislegar leikreglur, ef á hólminn er komið.

Gott og vel, kannski er allt í lagi að sniðganga lýðræðið svona einu sinni til að græða. Ekki síst ef maður er harla viss um að lýðurinn verði ánægður með gróðann og alveg til í að þiggja hann og afsala sér í staðinn forræði í málinu. Maður á ekki að alhæfa út frá einu tilviki. Það er ekki eins og Reykjavík sé orðin að lögregluríki þótt í þessu eina tilviki hafi kannski ekki verið fylgt til hins Ýtrasta bókstaf eigendasamnings Orkuveitu Reykjavíkur.

Það mætti jafnvel halda því fram að það sé til marks um að lýðræðið hafi djúpar rætur í samfélaginu ef ekki verður mikið upphlaup út af því að lýðræðislegum leikreglum sé ekki fylgt í einu og einu tilviki. Fólk sé einfaldlega sannfært um að lýðræðið sé svo sterkt að því sé engin hætta búin þótt það sé sniðgengið svona einu sinni.

En einhvernveginn dettur manni nú samt í hug að líta á sameininguna, og hvernig að henni var staðið, sem merki um að ákveðið gildismat sé að ryðja sér til rúms í þjóðfélaginu um þessar mundir. Helsta einkenni þessa gildismats er sú skoðun að hagnaðarhámörkun hljóti að vega þyngra en nokkuð annað, jafnvel lýðræði, þegar til kastanna komi.

Enginn veit hversu útbreitt þetta gildismat er orðið meðal þjóðarinnar, en svo mikið er víst að orðstír sumra þeirra sem tekið hafa þátt í sameiningu REI og GGE verður að því máli loknu ekki jafn góður og hann var fyrir. Og þá á ég ekki eingöngu við stjórnmálamenn.

(Viðhorf, Morgunblaðið 9. október, 2007)


Íslenska til útflutnings

Viðhorf, Morgunblaðið 5. október, 2007

Ég, líkt og sennilega milljónir manna um heim allan, á hægindastól sem heitir Poäng og bókahillur sem heita Billy, að ógleymdum farsímanum mínum, sem heitir "Sótsvartur," eða eitthvað í þá áttina, en er þó betur þekktur sem Nokia.

Hlutdeild Nokia á farsímamarkaðinum í heiminum er yfirgnæfandi. Nokia 1100 síminn, sem var upphaflega hannaður fyrir fimm eða sex árum, mun vera orðinn mest selda raftæki sögunnar. Þau Poäng og Billy, ásamt öllum hinum IKEA húsgögnunum sem heita syngjandi sænskum nöfnum, eru líklega frægustu húsgögn í heimi - mun frægari en jafnvel stóllinn Barcelona eða Eames-hægindastóllinn (veit einhver lesandi hvaða stólar þetta eru?)

Þessari gríðarlegu útbreiðslu, eða "markaðshlutdeild" eins og það heitir á útrásaríslensku, hafa Nokiasímarnir og IKEAhúsgögnin náð þrátt fyrir sín norrænu nöfn, sem ekki hefur verið vikið til hliðar fyrir enskum nöfnum. (Söguna um IKEA-nafnið sjálft þekkja líklega allir, en svo að öllu sé nú til haga haldið er rétt að útskýra hér að IKEA er skammstöfun og stendur fyrir nafn Ingvars Kamprads, sem stofnaði fyrirtækið árið 1943, nafn bóndabæjarins sem hann ólst upp á í Smálöndunum, Elmtaryd, og þorpið sem bærinn tilheyrði, Agunnaryd).

Nafnið Nokia á sér aftur á móti ævafornar rætur í Finnlandi og finnskunni, svo fornar reyndar, að menn virðast ekki alveg sammála um hvernig þær liggi. En til er bærinn Nokia, sem stendur á bökkum Nokianvirta, sem er á í Suður-Finnlandi, og mun "nokia" vera fleirtölumynd orðsins "noki," sem þýðir "sót." Til að flækja málið má finna skyldleika með "nokia" og fornu, finnsku orði sem skírskotar til dýra með dökkan feld.

Út úr þessu öllusaman, með lítilsháttar blöndun við íslenska málvenju, fékk ég út hérna að ofan að síminn minn heiti "Sótsvartur." Jahérna. Hversu margir ánægðir eigendur Nokiasíma skyldu hafa hugmynd um þetta alltsaman? Líklega fæstir.

Á rölti í gegnum risastóru IKEA-búðina í Garðabænum um daginn fór ég að velta því fyrir mér, á meðan augun hvörfluðu frá snúningsstólnum Snille til hillunnar Järpen, að líklega hefðu fá tungumál í sögunni gert jafn víðreist í heiminum á jafn skömmum tíma og sænskan hefur gert með IKEA.

Þegar svo bætist við, að sænskan er fráleitt mikið heimsmál verður áreiðanlega úr alveg einstakt fyrirbæri. Látum vera þótt sænskar bókmenntir stuðli að útbreiðslu sænskunnar í heiminum - en að húsgagnaverslun skuli gera slíkt er áreiðanlega fátítt. Og með svipuðum hætti hefur Nokia laumað smáræði af finnskri menningararfleifð út um víða veröld og gert hana tungutama allri heimsbyggðinni.

Skyldu nú vera til einhver hliðstæð íslensk dæmi? Björk kemur auðvitað strax upp í hugann. Eða á maður frekað að segja Bjork? Og það verður ekki séð að "Baugur" hafi orðið því fyrirtæki til trafala í útrásinni, eða "Kaupþing" (Kaupthing?) sett þann banka í spennitreyju.

Nei, dæmin sýna að íslenskunni er alveg jafn vel treystandi á alþjóðavettvangi og sænskunni og finnskunni. Það er fullkominn óþarfi að búa til ónefni á borð við "Reykjavik Energy Invest," svo tekið sé alveg splunkunýtt dæmi.

Af hverju mátti það fyrirtæki ekki eins heita til dæmis "Reykjavíkurorka"? Mætti svo einfalda nafnið í "Reykjavík orka" þegar farið verður að selja afurðina, jarðvarmaorku, á erlendum vettvangi - nú eða nefna fyrirtækið einfaldlega "Orka," sem er alveg ekta íslenska, en um leið jafn þjált og til dæmis "Nokia."

Það er ekki gott að segja hvort menn óttast að verða álitnir sveitó ef þeir vilja nota íslensk orð á alþjóðavettvangi, eða hvort þá skortir einfaldlega ímyndunarafl, kjark og þor. Ef eitthvað af þessu er ástæðan má benda mönnunum á, að Baugi (Group) verður líklega seint borin nesjamennska eða roluskapur á brýn. Og að "Björk" er áreiðanlega eitthvert verðmætasta vörumerki sem til hefur orðið á Íslandi fyrr og síðar.

En þeim sem ekki treysta sér til að hafa íslensk nöfn á fyrirtækjunum sínum þegar þeir fara með þau á alþjóðlegan vettvang er vorkunn. Sú hugmynd að íslenska geti beinlínis verið útflutningsvara virðist í fyrstu vera í besta falli langsótt, og í versta falli uppskrift að markaðssjálfsvígi.

Hvorki IKEA né Nokia voru upphaflega ætluð til útflutnings. Það er ómögulegt að segja hvort þessi nöfn hefðu orðið fyrir valinu ef útrás hefði beinlínis verið markmiðið með stofnun þessara fyrirtækja. Mér er þó sem ég sjái íslenskan nútímaviðskiptajöfur fara með vörur sínar í verslun í New York undir rammíslenskum nöfnum - til dæmis hægindastólinn "Bókaorm" - þótt sala á honum hafi gengið vel á Íslandi undir því nafni. Nei, bókaormurinn kæmi áreiðanlega til New York undir nafninu "Bookworm," eða jafnvel einhverju allsendis óskyldu nafni.

En við nánari athugun kemur í ljós, að ef vel er að verki staðið og ekki rasað um ráð fram getur íslenska orðið fyrirtaks útflutningsvara, sem þar að auki er alveg ókeypis og birgðirnar óþrjótandi.

Í þessu efni sem öðru skiptir þó einna mestu að kunna sér hóf, og kannski væri til dæmis óráðlegt að reyna að selja íslenska vöru í Los Angeles undir nafninu "Vaðlaheiði." Af eigin reynslu veit ég að enskumælandi fólki getur beinlínis "vafist tunga um höfuð" ef það þarf að segja "Arngrímsson" upphátt. En því tekst það nú reyndar með smá æfingu.


Á valdi fúlmenna

Viðhorf, Morgunblaðið 8. ágúst, 2007

Ég get ekki annað en verið ósammála frænda mínum, Oddi Helga Halldórssyni, bæjarfulltrúa á Akureyri, um að það hafi verið misráðið að banna fólki á aldrinum 18-23 ára aðgang að tjaldstæðum í bænum um verslunarmannahelgina. Það má vissulega til sanns vegar færa að þetta hafi verið róttækar ráðstafanir, en það má líka færa sterk rök fyrir réttmæti þeirra.

Oddur sagði að það ætti að bjóða alla velkomna til bæjarins. Og svo undarlega sem það kann að hljóma var það einmitt tilgangurinn með banninu að gera bæinn aðlaðandi fyrir sem flesta um verslunarmannahelgina. Reynsla undanfarinna ára hafði nefnilega leitt í ljós að um þessa helgi tókst tiltölulega fámennum minnihluta að breyta bænum í hálfgert átakasvæði sem ekki var sérlega notalegt að heimsækja.

Þessi fámenni minnihluti var að sjálfsögðu ekki allir Íslendingar á aldrinum 18-23 ára. Einungis hluti þessa aldurshóps - og þar að auki líklega aðeins lítill hluti - sá um að koma óorði á hópinn allan. Ekki nema von að fólk á þessum aldri hafi sumt hvað brugðist ókvæða við og fundist fjölmiðlar stimpla hópinn allan drykkjusvola og afbrotamenn.

Það eru reyndar ýkjur að fjölmiðlar hafi gerst sekir um slíka fordóma; vissulega hafa fjölmiðlar lengi tíðkað að fjalla um drykkjulæti og dólgshátt ungs fólks, en hlutfallslega ekkert umfram það sem fjallað hefur verið um dólgshátt og drykkjulæti fólks yfirleitt.

Hafi fjölmiðlar fjallað oftar um drykkju ungs fólks en miðaldra er það einfaldlega vegna þess að drykkja ungs fólks er tíðari og líklegri en drykkja annarra aldurshópa til að fara þannig úr böndunum að það verði öðru fólki til ama, og jafnvel tjóns.

Það unga fólk sem kveinkaði sér undan því að vera borið tilhæfulausum sökum hefði ekki átt að skella skuldinni á fjölmiðla heldur þá jafnaldra sína sem með virðingarleysi fyrir rétti fólks til að fá frið kemur óorði á allan aldurshópinn. Það er jú þekkt staðreynd að óeirðaseggir og hávaðamenn, jafnvel þótt þeir séu ekki nema einn eða tveir, geta með látum sínum náð stjórn á stórum hópi í kringum sig, og þannig mótað ímynd hópsins alls út á við.

Það unga fólk sem ekki er með dólgshátt og drykkjulæti verður einfaldlega að gæta þess að "hinir seku" verði ekki allsráðandi í hópnum. En þetta er vissulega ekki auðvelt, eins og þeir vita sem kynnst hafa. Þeir sem eru hávaðasamir, frekir og veigra sér ekki við fantabrögðum eiga jafnan auðvelt með að komast til áhrifa innan hóps þar sem metorðastiginn er ekki mannaður með lýðræðislegum hætti.

En þeir sem vilja forðast hávaða, dólgslæti og fantabrögð, og finnst óþægilegt að vera frekir, eiga aftur á móti enga möguleika á að fá nokkru ráðið innan slíks hóps, og þeir reyna frekar að híma í höm á meðan óveðrið geisar í þeirri von að flugnahöfðingjarnir annaðhvort misstígi sig eða - eins og í tilviki íslenskra unglingahópa - lognist út af sökum ofdrykkju.

Einmitt vegna þess að hópeflið í samfélagi unga fólksins er með þessum hætti - að þar ráða þeir freku og hávaðasömu ferðinni - verður ekki hjá því komist að gera ráð fyrir að hópnum í heild sé eignað framferði þessara fáu dólga sem stjórna honum. Hvort það getur talist sanngjarnt eða ekki að eigna hópum öllum framferði hinna frekustu er svo aftur annað mál.

Þess vegna var í rauninni ekkert athugavert við þær ráðstafanir sem gerðar voru á Akureyri fyrir helgina. Þvert á móti. Þar var einfaldlega tekin sú ákvörðun að láta ekki lítinn minnihluta dusilmenna halda miklum meirihluta hófsemdarfólks í hálfgerðri gíslingu. Það er vissulega rangt að meirihlutinn kúgi minnihlutann, en það er alveg jafn rangt að minnihlutinn fái að kúga meirihlutann.

Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur á Akureyri, tók saman í bloggfærslu um daginn afrakstur verslunarmannahelgarinnar í bænum í fyrra: "Nauðganir, 66 upplýst fíkniefnamál, unglingadrykkja, slagsmál, ofbeldi, skemmdarverk (m.a. 30 bílar) og á þriðja hundrað gesta á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins... " Hvernig tókst til árið áður? Eða þar áður? Mátti ef til vill greina mynstur? Mátti ef til vill ráða af reynslu fyrri ára hvernig fara myndi á þessu ári ef ekkert yrði að gert?

Það er til marks um sjúklegt ástand þegar fyrri reynsla er að engu höfð, og haldið áfram að berja höfðinu við steininn í þeirri von að steinninn mýkist. Þeir sem kynnst hafa áfengissjúklingum vel og orðið meðvirkir, en náð áttum og tekist að losna undan ægivaldi fíkilsins, vita upp á hár hvað ég á við.

Það var því jafnvel vonum seinna að sú ákvörðun var tekin að gera eitthvað róttækt í málinu. En þannig er því nú víst oftast farið þegar brennivínsberserkir eru annars vegar; langlundargeð hinna sem mega þola þá er með eindæmum.

Fréttir af framvindu mála um nýliðna helgi benda reyndar til þess að "ungmennabannið" á Akureyri hafi skilað tilætluðum árangri. Þannig herma fregnir að það hafi jafnvel gefist svefnfriður á tjaldstæðum í bænum, en svo hefur ekki verið lengi um verslunarmannahelgi, og ekki hafa borist tíðindi af þvaglátum utan í hús í nágrenni tjaldstæðanna.

Ýmis teikn eru reyndar á lofti um að verslunarmannahelgin fari brátt að syngja sitt síðasta sem skylduferðalaga- og útihátíðarhelgi. Það væri mikið framfaraskref ef tækist að leggja þessa helgi niður. Hún er fyrir löngu orðin eitt af þessum hefðarskrípum sem enginn kann lengur skýringu á hvers vegna viðhelst. Svona eins og undarlegar manndómsvígslur hjá frumstæðum þjóðum og bandarískum háskólakrökkum. Innst inni þrá flestir að losna undan oki þessa hefðarskrípis.


Mikil ölvun

Viðhorf, Morgunblaðið 1. ágúst 2007

Um og eftir næstu helgi fyllast fjölmiðlar af árstíðarbundnum fréttum af ölæði barna og unglinga og öðrum ólifnaði. Sýndar verða myndir af tjaldstæðum sem líta helst út eins og ruslahaugar og rætt verður við misölvaða unga menn sem eru að skemmta sér í haugunum miðjum.

Ég er ekki búinn að nefna það versta af öllu: Það verða líka fréttir af nauðgunum, ofsaakstri og öðru ofbeldi. Eiginleg viðbrögð verða eins og venjulega ekki önnur en þau að setja atburði helgarinnar í tölulegt samhengi og bera saman við fyrri ár. Í kjölfarið fylgja svo viðtöl við skemmtanahaldara sem segja að það hafi verið örfáir sem hafi hagað sér illa, flestir gestir hafi verið siðsamt fjölskyldufólk.

Þetta verður með öðrum orðum hefðbundinn verslunarmannahelgarfréttaflutningur, alveg eins og verið hefur undanfarin ár og verður líklega um komandi ár. Liður í þessum árvissa fréttaflutningi eru tíðindi af "óviðunandi barna- og unglingadrykkju," sem hefur jú tíðkast á Íslandi frá örófi alda og virðist hér teljast nauðsynlegur þáttur í uppvextinum, rétt eins og það er hefðbundinn þáttur í umræðunni að óskapast yfir þessu.

En þetta mun ekki breytast, hvað sem allri hefðbundinni umræðu líður. Börn og unglingar á Íslandi munu halda áfram óhóflegri áfengisneyslu með tilheyrandi fórnarkostnaði og umönnunarkostnaði. Af einhverjum ástæðum, sem ég hef aldrei skilið hverjar eru, telst þetta eðlilegt. Vænt þætti mér um ef einhver gæti útskýrt fyrir mér hvernig þetta getur verið eðlilegt, og hvers vegna þessi (meinti) "fámenni" hópur fær sífellt að ráða ferðinni.

Við hin, þessi furðufyrirbæri sem vita fátt leiðinlegra en fyllirí og ölvað fólk, munum halda áfram að borga brúsann og verða fyrir barðinu á skemmdarfýsninni sem unglingarnir fá útrás fyrir í ölæðinu. Og við höldum áfram að láta þetta yfir okkur ganga vegna þess að frekjan í fyllibyttunum er okkur einfaldlega ofviða. Eða vegna þess að við erum svona meðvirk, ég skal ekki segja.

Ég held samt að það sé kominn tími til að við hættum þessari meðvirkni, hættum að láta í minni pokann og skerum upp herör gegn byttunum. Í þeim tilgangi legg ég til að fyrir verslunarmannahelgina á næsta ári verði settar upp sérstakar ölbúðir einhvers staðar á hálendinu og öllum börnum og unglingum landsins boðið þangað á mikið fyllirí á kostnað hins opinbera. Svæðið verði girt af og innan þess haft friðargæslulið og sjúkralið.

Þetta svæði þyrfti að hafa svo langt í burtu frá allri mannabyggð að við teprurnar yrðum ekki varar við óeirðirnar og mannfallið innan girðingarinnar. Til að fá smá tekjur af þessu má selja erlendum ferðamönnum safaríferðir í rammbyggðum jeppum um svæðið. Einnig mætti hleypa þangað ýmsum vísindamönnum, til dæmis félagsfræðingum, mannfræðingum og afbrotafræðingum, sem vísast gætu aflað þarna mikilvægra gagna í rannsóknir.

Þeir sem veljast til friðargæslu- og hjúkrunarstarfa á svæðinu þurfa að vera þrautreyndir og fá há laun með mikilli áhættuþóknun. Ég verð að viðurkenna að sjálfur myndi ég ekki vera tilbúinn í starfann, sama hve há laun væru í boði. Ég er einfaldlega ekki nógu sterkur til þess, hvorki líkamlega né andlega.

Þessar búðir myndu ennfremur hafa forvarnargildi, því að þær yrðu einskonar darvinsk skilvinda sem myndi greina þá einstaklinga, sem hafa erfðabundna tilhneigingu til ofneyslu áfengis, frá hinum en kosturinn væri sá að þarna kæmi erfðagallinn snemma fram og hægt væri að senda viðkomandi einstaklinga strax í meðferð og spara þannig samfélaginu mikinn umönnunarkostnað í framtíðinni, að ekki sé nú minnst á að samfélaginu yrði hlíft við ónæðinu af þessu fólki og jafnvel misindisverkum þess.

Þótt vissulega myndi þetta kosta ríkissjóð eitthvað væri þar einfaldlega um að ræða kostnað við sjálfsagða þjónustu við stóran, þögulan þjóðfélagshóp sem fram að þessu hefur sætt hálfgerðri kúgun af hálfu minnihlutans sem ekki kann að fara með áfengi og hefur talið sjálfsagt að láta hina borga brúsann.

Hvernig stendur til dæmis á því að almennir skattgreiðendur þurfa að borga "hótelkostnaðinn" fyrir þá sem lögreglan hirðir upp af götunni um helgar og vistar í fangageymslum? Af hverju má ekki rukka þessa einstaklinga þegar þeir rakna úr rotinu? Hvers vegna er þeim sem lögreglan þarf að hafa afskipti af vegna ölvunar ekki sendur reikningur fyrir "umönnunarkostnaði?" Ég er afskaplega ósáttur við að það sem ég borga í skatta skuli að einhverju leyti fara í að greiða kostnaðinn af annarra manna fylliríum.

Hjá þessu mætti að miklu leyti komast með því að sía snemma úr þá sem hafa erfðabundna tilhneigingu til stjórnlausrar áfengisneyslu, og hefja þegar í stað viðeigandi meðhöndlun. Áfengissýki er bæði sjúkdómur og samfélagsmein, og því er nauðsynlegt að koma upp einskonar "leitarstöð," líkt og starfræktar eru í forvarnarskyni gegn öðrum sjúkdómum, eins og til dæmis krabbameini. Ölbúðir á afskekktum stað gætu orðið slík leitarstöð.

Til að fyrirbyggja misskilning vil ég að lokum taka fram að ég er ekki bindindismaður. Þvert á móti. Enginn dagur án bjórs. En ég verð víst að viðurkenna að ég fell í hóp þessara undarlegu einstaklinga sem drekka ofboðslega lítið í einu. Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir á yngri árum tókst mér ekki að tileinka mér hið hefðbundna íslenska ofdrykkjumynstur, enda hef ég aldrei náð að falla í neinn hóp.

Ég hef hingað til farið með þennan ágalla minn eins og mannsmorð, að viðlagðri fyrirlitningu og útskúfun samfélagsins. En núna er ég kominn út úr skápnum og ætla að berjast fyrir viðurkenningu og réttindum hófdrykkjufólks á Íslandi.


Á orðaskýjum eitthvað út í bláinn

Svo að MR sigraði í mælskukeppninni Morfís. Verði þeim að góðu. Þeir eru þá orðnir Íslandsmeistarar í innihaldslausu þvaðri. En svo maður sleppi nú fýlunni, þá eru mælskukeppnir afskaplega vafasamar, ég myndi jafnvel segja vafasamari en fegurðarsamkeppnir.

Ef til vill væri nær að kalla mælskukeppnir fagurgalakeppnir því að þar er jú ekki keppt í öðru en orðavaðli alveg burtséð frá því hvort eitthvert innihald er í honum. Reyndar hafa ýmsir heimspekingar verið duglegir við að halda því fram að með orðunum komi hugsunin, en ég held að þar sleppi þeir jarðsambandinu og komi óorði á heimspekina.

Hvert getur verið markmið manns með því að efna til rökræðu (eða bara samræðu) við einhvern annan? Í mælskukeppni er markmiðið að tala andstæðinginn í kaf, bera sigurorð af honum - vinna. Vera liprari í að "one-uppa" og kveða í kútinn. Með öðrum orðum, markmiðið er ekki að komast að hinu sanna eða komast að því hvaða skoðanir hinn hefur. Nei, alls ekki. Þetta tvennt, sannleikurinn og skoðanir hinna, skipta þvert á móti engu máli í fagurgalakeppni.

Stundum gæti maður haldið að þeim gangi best í svona keppni sem geta algjörlega sleppt takinu af veruleikanum og látið berast á orðaskýjum eitthvað út í bláinn.


Alter Ego

Alteregó - heitir það ekki hliðarsjálf á íslensku? - eru merkileg fyrirbæri. Sennilega ekkert frægara en Herra Hyde, myrka hliðin á lækninum Jeckyll. Er það tilviljun eða einhver ríkjandi þáttur í íslensku nútímasamfélagi sem ræður því að nákvæmlega núna eru tvær frægustu persónurnar í dægurmálaheiminum báðar hliðarsjálf? Gilsenegger og Silvía Nótt, það er að segja.

 Getur verið að svo sé komið að eina leiðin til að vekja almennilega athygli í íslenskum afþreyingariðnaði nú um stundir sé að vera svo svakalega ýktur og absúrd að fólk verði að koma sér upp hliðarsjálfi til að eiga ekki á hættu að týna sjálfu sér í óðagotinu? Eða er þetta til marks um aukna siðvendni, með þeim hætti að ungt fólk velji nú þann kostinn að fara í hlutverkaleik til að fá útrás fyrir allar kenndirnar sem eru vafasamar: Hégómagirndina, sýniþörfina, lostann, yfirlætið, fyrirlitninguna og svo vísast eitthvað sem er einstaklingsbundið. Með því að eigna fáránlegu hliðarsjálfi allar þessar fordæmdu kenndir getur maður fengið útrás fyrir þær án þess að vera sjálfur ábyrgur fyrir þeim.

Og með því að senda Silvíu Nótt í Júróvisjón er þjóðin líka búin að tryggja sig gegn vonbrigðunum sem hún undir niðri gerir ráð fyrir að finna fyrir þegar Ísland rétt eina ferðina vinnur ekki - við getum sagt sem svo: Iss, þetta var nú bara grín - við vorum ekki með í neinni alvöru þannig að það er allt í lagi þótt við höfum ekki unnið (les: þótt við höfum tapað).


Nornabrækur

margar_myndir_054.jpg

Í norðannepjunni sem hefur herjað á Vesturbæinn undanfarna daga hafa safnast nokkrar nornabrækur í tréin í húsagarðinum. Þar berjast þær í vindinum eins og - ja, brækur. Nornabrækur eru altso plastpokarnir sem berast undan vindi og krækjast í tré, girðingar, snúrustaura eða eitthvað annað sem hefur gripanga og sitja þar fastir. Mér skilst að sú hugdetta að kalla þetta fyrirbæri nornabrækur sé komin frá Írlandi. "Witches' Knickers" heitir þetta þar.

Ég fór að hafa orð á þessu yfir morgunmatnum einhverntíma í vikunni og benda heimilisfólkinu á þetta. Margrét, sem bráðum verður fjögurra ára, hefur síðan reglulega athugað hvort "nornanærbuxurnar", eins og hún kýs að kalla þetta, séu enn á sínum stað. Í morgun héngu þær þarna enn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband