Skot í tilefni dagsins

Dagur íslenskrar tungu er af mörgum talinn hátíðisdagur, og af þeim sökum eru í dag haldnar ófáar hátíðarræðurnar þar sem tilefni dagsins - íslenskan - er mært og hlaðið lofi. En eins og allir vita eru hátíðis- og tyllidagar líka dagar innantómra orða sem enginn man eftir þegar hátíðarskapið er runnið af mönnum og þeir mættir í blákaldan veruleikann daginn eftir.

 

Það eru bara skáld og fyrirmenni sem geta leyft sér að vera í hátíðarskapi á hverjum einasta degi, þar sem upphafning hversdagsins er jú vinnan þeirra. Við hin höldum áfram að púla í klóakkinu, eins og skáldið komst að orði.

Eitt af því sem eflaust mun heyrast í dag eða sjást á prenti er að íslenskir fjölmiðlar séu helstu útverðir íslenskrar tungu og að fjölmiðlafólki sé því lögð á herðar sú skylda að vanda mál sitt. Hvort tveggja er þetta þó í rauninni rangt. Þetta eru einmitt dæmi um innantóm hátíðisdagaorð.

Íslensku fjölmiðlafólki er ekki lögð sú skylda á herðar að vanda mál sitt. Raunin (í tvennum skilningi) er aftur á móti sú að íslensku fjölmiðlafólki eru lagðar þær skyldur á herðar að vinna hratt og afkasta miklu, og gæta vandlega að útliti sínu og ímynd. Ef einhver verður til að mótmæla þessu vil ég einfaldlega biðja þann hinn sama að lesa íslenska fjölmiðla, eða hlusta á þá og horfa.

Á þessu hafa reyndar löngum verið tvær ágætar undantekningar. Það eru Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Þetta eru einu fjölmiðlarnir á Íslandi sem hafa beinlínis kostað einhverju til - tíma og peningum - að vanda málfar sitt. Athyglisvert er að þetta eru um leið einu fjölmiðlarnir sem eru hluti af sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Þarna eru áreiðanlega tengsl á milli.

Almenna reglan á íslenskum fjölmiðlum er þó sú, að ef maður er „kúl og krisp" (og jafnvel líka „slikk"), vinnur hratt og mokar miklu skiptir engu máli þótt maður geti ekki komið út úr sér óbjagaðri setningu eða sett heila hugsun á blað.

Við sjálft liggur að það sé fjölmiðlafólki fjötur um fót á framabrautinni að leggja meiri áherslu á málfar sitt en útlit og framkomu. Ég er ekki að halda því fram að við eigum öll að fara að sitja í lopapeysu og gallabuxum við að setja saman gullaldaríslensku. Ég á við að stjórnendur fjölmiðla virðast hiklaust telja mest um vert að hafa „flott" starfsfólk, og skiptir þá engu þótt þetta sama fólk geti ekki tjáð sig nema í gatslitnum orðaleppum og bjöguðu máli.

Þess vegna held ég því hiklaust fram að íslenskir fjölmiðlar séu í raun og veru ekki útverðir íslenskrar tungu, þó svo að þeir á hátíðis- og tyllidögum segist vera það. Ef íslenskir fjölmiðlar vilja standa við stóru, hátíðlegu orðin þurfa þeir að verja peningum og tíma í að vanda mál sitt. Það gera þeir ekki. Aftur á móti verja þeir stórfé og löngum stundum í að bæta útlit sitt og ímynd; gera hana „kúl og krisp".

Ef fjölmiðlum væri einhver alvara með að vanda mál sitt myndu þeir borga starfsfólki sínu fyrir gott málfar. Raunin er þó sú að miðlarnir borga alls konar ímyndarráðgjöfum og málhöltum stjörnum stórfé, á meðan almennir fréttamenn, þýðendur og prófarkalesarar (fólkið sem setur saman megnið af því íslenska máli sem miðlarnir bera á borð) eru tiltölulega lágt launaðir, eins og glögglega kemur í ljós á hverju ári í tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Hver veit, ef til vill rennur upp sá dagur að enginn verður jafn kúl og sexí og sá sem hefur vald á málinu; getur talað án þess að tafsa og hika, gefur sér tíma til að vanda sig við að skrifa og hefur hugsun á öðru en útjöskuðum orðaleppum.

Þeir fjölmiðlar sem á hátíðisdögum á borð við daginn í dag fara mikinn um gildi þess að tala og skrifa góða íslensku gætu reyndar með ýmsum hætti sýnt viljann í verki. Eins og hér að framan var nefnt gætu þeir beinlínis borgað fyrir gott mál, fremur en flott útlit.

Einnig mætti gefa fjölmiðlafólki kost á - og jafnvel skylda það margt hvað - til að læra að beita íslenskunni vel. Til dæmis væri hægt að bjóða upp á endurmenntunarnámskeið í íslensku, rétt eins og fjölmiðlafólki er sífellt boðið upp á námskeið í fréttamennsku, kaupsýslufræðum, notkun hinna og þessara tölvuforrita og guð má vita hverju. Ekki rekur mig minni til þess að hafa séð fjölmiðlafólki boðið upp á íslenskunámskeið.

Slíkt námskeið gæti orðið verulega skemmtilegt. Ég er ekki að tala um að þeir fari og fái fyrirlestur um stafsetningu og málfræði. Það væri nær að þeir fengju að lesa góðar bækur og pæla í þeim með leiðsögn skemmtilegs kennara. Hvernig væri til dæmis að blaðamönnum yrði boðið á Njálunámskeið? Eða fengju að velta sér upp úr Moby Dick í svo sem eins og mánuð?

Væru stjórnendur íslenskra fjölmiðlafyrirtækja tilbúnir að borga fyrir slíkt og sleppa því að kaupa enn einn fundinn með ímyndarráðgjafa? (Flestir þessara funda eru hvort eð er í rauninni vitagagnslausir, er það ekki?)

Það gæti meira að segja farið svo að ef raunveruleg, áþreifanleg áhersla væri lögð á gott málfar þyrftu fjölmiðlar minna á öllum ímyndar- og markaðsráðgjöfunum að halda. Vegna þess að reynslan sýnir að fátt þykir lesendum, áheyrendum og áhorfendum jafn traustvekjandi og gott málfar.

Þeir tveir fjölmiðlar sem ég nefndi áðan að hefðu í gegnum tíðina lagt raunverulega áherslu á gott mál, Ríkisútvarpið og Morgunblaðið, eru líka þeir miðlar sem Íslendingar treysta best. Ekkert er betra fyrir ímynd fjölmiðils en að vera traustvekjandi. Og ekkert er meira traustvekjandi en gott og skilmerkilegt mál. Þar af leiðandi blasir við að í rauninni er ekkert betra fyrir ímyndina en gott málfar.

(Viðhorf, Morgunblaðið, 16. nóvember 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband