List og siðleysi

Ég veit að það þykir ekki fínt að hneykslast á listamönnum. Sumum finnst slíkt jafnvel hneykslanlegt. En ég ætla nú samt að láta mig hafa það. Tek þó fram áður en lengra er haldið, að ég er ekki á nokkurn hátt að alhæfa um listafólk og list. Ég er að tala um eitt ákveðið tilvik, eitt ákveðið „listaverk" og einn ákveðinn „listamann".

Grátbroslegustu fréttir síðustu viku voru án efa af unga, íslenska listamanninum sem olli miklu uppnámi í Toronto í Kanada með „listgjörningi" sem fólst í því að koma fyrir eftirlíkingu af sprengju á menningarsögusafni þar í borg, með þeim afleiðingum að lögregla var kölluð til, safninu lokað og þúsundir manna urðu fyrir barðinu á listinni.

Sjálfur sagði listamaðurinn í viðtali við Morgunblaðið að viðbrögð fólksins hefðu verið hluti af listaverkinu. Þau orð hans eru athyglisverð. Fyrir utan að vera kannski í meira lagi sjálfbirgingsleg eru þau til marks um að listamaðurinn hafi meðvitað notað fólkið, án þess að láta það vita - hvað þá að fá beinlínis leyfi - sem efnivið í listaverkið sitt. Að nota annað fólk er hámark siðleysisins.

En kannski var þetta bara hugsunarleysi ungs manns. Umræddur „listamaður" er ekki nema 24 ára, og líklega verður það virt honum til vorkunnar.

Hann sagði ennfremur í viðtali við Morgunblaðið á föstudaginn að hann hefði með verkinu verið að feta í fótspor Marcels Duchamps, sem varð frægur fyrir að stilla upp klósetti og kalla það listaverk. Munurinn er þó sá, að verk Duchamps kom ekki illa við nokkurn mann (raskaði í mesta lagi hugmyndum einhverra um hvað sé list - og það er gott og gilt).

Listamaðurinn íslenski bætti því svo við, að með því að setja skúlptúrinn (af sprengjunni) „í annað samhengi" hafi skúlptúrinn hætt að vera skúlptúr og orðið að sprengju. Þetta er einfaldlega rangt. Sprengja er hlutur sem getur sprungið og valdið skaða og jafnvel manntjóni. Skúlptúr getur ekki gert slíkt, og breyting á samhengi getur ekki breytt eðli efnisins sem skúlptúrinn er gerður úr.

Það sem hér að ofan er nefnt bendir allt til þess að blessaður listamaðurinn ungi hafi kannski svolítið ofvaxnar hugmyndir um listaverk og mátt þeirra, og að þetta ofmat hafi nú orðið til þess að hann gæti endað í fangelsi. Þó er rétt að nota hér tækifærið og höfða til vel þekkts umburðarlyndis Torontobúa og biðja þá að sýna sjálfhverfum og skammsýnum íslenskum listamanni skilning.

Hann nefndi líka - í Fréttablaðinu, held ég - að „listaverkið" hafi haft eitthvað með að gera breytt viðbrögð fólks við sprengjuhótunum eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum fyrir sex árum. Ja, ég segi nú bara eins og Ameríkanar: Döö!

Allt vekur þetta gamalkunnar spurningar um inntak og hlutverk listarinnar í samfélaginu, og ekki úr vegi að nota tækifærið og velta þessum spurningum fyrir sér rétt eina ferðina. Ég skal viðurkenna að þetta eru ekki frumlegar vangaveltur, fjarri því.

Það hefur löngum verið mörgum listamanninum hjartfólgið að ýta smáborgaranum út úr fastskorðuðum veruleika hans. Róta í hugmyndaheimi hans og „vekja hann til umhugsunar." Listamenn hafa um langan aldur tuggið þessa klisju, og eru enn að því. En hvenær ganga þeir of langt?

Jú, þegar þeir fara að nota fólk, valda því tjóni eða meiða það, þá er of langt gengið. Það er allt í lagi að róta við hugmyndum fólks, og ég held að flest fólk sé ákaflega opið fyrir að láta róta við hugsun sinni. Tökum dæmi af klósettskál ofannefnds Duchamps. Hún hafði eflaust mikil áhrif á hugmyndir fólks um list. En Duchamp notaði ekki fólk við að búa til þetta listaverk, og hann olli engum tjóni með því.

„Listamaðurinn" íslenski í Toronto, sem hér um ræðir, sýndi aftur á móti fólki lítilsvirðingu, notaði það til að ná sínu eigin markmiði (að búa til list) og olli beinlínis skaða sem á ekkert skylt við að róta við viðteknum hugmyndum smáborgaralegs samfélags.

Það má svo ennfremur velta því fyrir sér hvaða hvatir geti legið að baki uppátæki á borð við meintan „listgjörning" íslenska listamannsins. Er það sköpunarþrá? Ef til vill. En þar sem ætla má að listamaðurinn hafi vel gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar verkið myndi hafa - koma róti á líf og fyrirætlanir fjölda manns - er ekki út í hött að álykta að hin eiginlega hvöt að baki verkinu hafi verið drottnunargirnd. Löngun til að sýna vald sitt.

Gott og vel, margir eru haldnir drottnunargirnd og vísast getur maður fengið „kikk" út úr því að beita annað fólk valdi. En það er harla ómerkilegt að fá útrás fyrir svona hvatir með því að koma óorði á listir og listafólk.

Og þó, það er ef til vill of djúpt í árinni tekið að tala um drottnunargirnd; kannski var þetta ekki annað en ómæld sjálfhverfa. Þess eru jú dæmi að listamenn séu kannski svolítið í sjálfhverfari kantinum, ekki satt?

Svo má auðvitað velta því fyrir sér hvort ekki sé réttlætanlegt að færa fórnir fyrir listina? Mega ekki listamenn gera ýmislegt sem enginn óbreyttur almúgamaður kæmist upp með?

Ég verð víst að viðurkenna að ég hef aldrei skilið þá hugsun að listamönnum leyfist, í nafni listarinnar, eitt og annað sem aðrir mega ekki gera. Ég kemst aldrei yfir þá hugsun að þetta sé afsökun fyrir sjálfhverfu og frekju. Enda hef ég oft verið sakaður um að hafa ekkert vit á listum, og jafnvel að vera öfundsjúkur út í fólk með frumlega hugsun.

Mér til afbötunar segist ég hafa það prinsipp að ekkert geti verið meira um vert en virðing fyrir manneskjum. Jafnvel ekki list eða „frumleg hugsun." Og ég er alveg sannfærður um að það er hámark siðleysisins að nota annað fólk án þess að fá hjá því heimild fyrst.

(Viðhorf, Morgunblaðið 3. desember 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Jóhannsson Malmquist

Þetta er eins og fullyrðing leikhúsgestsins um "málfrelsið", að hann sé í rétti þegar hann rís upp í miðri leikhússýningu og orgar: „Eldur, eldur!“.

Finnur Jóhannsson Malmquist, 9.12.2007 kl. 14:34

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já. Nákvæmlega.

Kristján G. Arngrímsson, 11.12.2007 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband