Börn að leik

Keilir

Viðhorf, Morgunblaðið 17. október 2006. 

Bandarískir barnalæknar sáu ástæðu til þess um daginn að gefa út skýrslu í nafni akademíu sinnar. Skilaboðin í þessari skýrslu voru til foreldra og harla einföld: Börn þurfa að fá að leika sér. Það er nauðsynlegt til að heilinn í þeim vaxi eðlilega og þau nái fullum þroska, líkamlegum, andlegum og félagslegum. Að ekki sé nú minnst á hvað þau hafa gaman að því að leika sér.

Þeirri viðvörun sem ljóslega er fólgin í skýrslunni er fyrst og fremst beint til bandarískra foreldra, sem læknunum þykja margir hverjir fullduglegir við að skipuleggja líf barnanna út í ystu æsar, með þeim afleiðingum að börnin fái orðið lítinn tíma til að leika sér upp á gamla mátann, að legg og skel - nú eða Barbí og Ken eða í löggu og bófa, ef börnin vilja það heldur.

Það er ekki síst athyglisvert sem fram kemur í skýrslu læknanna, að því er segir í frétt frá AFP í síðustu viku, að það sé beinlínis hollt fyrir vöxt heilans í börnum að þau fái að leika sér. En ég held að það sé ekki nóg með að leikur sé forsenda þess að heilinn í börnum þroskist, það má beinlínis halda því fram að leikur sé forsenda þess að börn læri að vera hamingjusöm.

Ekki svo að skilja að læknarnir telji að foreldrarnir séu vísvitandi að gera börnunum illt til að fullnægja eigin löngunum og þrám. Foreldrarnir einfaldlega sjáist ekki fyrir í kapphlaupinu - læðist að vísu að manni sá grunur að oft sé þetta kapphlaup við foreldra annarra barna - við að tryggja börnunum sínum öll hugsanleg tækifæri til að skara fram úr og þroska þá hæfileika sem þau búa yfir.

En þrátt fyrir að þetta sé afskaplega vel meint, segja læknarnir, getur þetta haft þveröfug áhrif og leitt til þess að börnin verði kvíðin, stressuð og jafnvel þunglynd. En þegar börn fái að leika sér frjáls geti þau "beitt sköpunargáfu sinni, þroskað ímyndunaraflið og fínhreyfingar, og aukið líkamlegan, vitsmunalegan og tilfinningalegan styrk sinn". Með leik læri börnin "snemma að takast á við heiminn".

Sem fyrr segir má ráða af fréttum um skýrslu læknanna að henni sé beint til bandarískra foreldra, og þá líklega fyrst og fremst til efnaðra og langskólagenginna foreldra. En það er áreiðanlega alveg sama hvar í heiminum borið er niður, von allra foreldra til handa börnunum sínum, hvort sem um er að ræða efnaða Bandaríkjamenn eða íslenska meðaljóna, er að þau séu hamingjusöm. Líklega væru flestir foreldrar meira að segja reiðubúnir að fórna eigin hamingju til að tryggja börnunum sínum hamingju.

En hvað er hamingja? Ef til vill þykir einhverjum þetta óviðeigandi spurning í þessu samhengi, og ekki annað en ávísun á hártoganir. Vissulega er þetta heimspekileg spurning, og jafnvel sú heimspekilegasta sem til er. En ég held að vangaveltur um börn, þroska þeirra og leik, sé einmitt rétta samhengið til að spyrja hennar í.

Þá á ég ekki við að maður eigi að spyrja börn að því hvað hamingja sé, alls ekki. Þau myndu aldrei geta svarað því. Börn eru ekki góðir heimspekingar. Þau eru hreint alls engir heimspekingar. Heilbrigt barn í andlegu jafnvægi myndi aldrei spyrja hvað hamingja sé. Aftur á móti eru allar líkur á að andlega heilbrigt barn - jafnvel þótt það sé ekki líkamlega heilbrigt - geti verið hamingjusamt. Þannig að þótt börn spyrji ekki hvað hamingja sé geta þau líklega betur en aðrar manneskjur veitt svar við spurningunni, þó að vísu ekki með orðum heldur æði.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég er ekki að halda því fram að "barnslegt sakleysi" jafngildi hamingju. Hamingjan er ekki fólgin í sælukenndu vitundarleysi um illsku heimsins. Og hún er ekki heldur fólgin í því að öðlast sem mesta vitsmuni, eins og John Stuart Mill virtist halda fram þegar hann sagði í Nytjastefnunni þau frægu orð að það sé betra að vera óánægður Sókrates en ánægt svín.

Þeir fræðimenn sem nú velta hamingjunni fyrir sér virðast flestir hallir undir það viðhorf að hamingjan sé hvorki eitthvað sem maður hefur (og ætti þar með að geta öðlast með réttri ástundun) né fólgin í því að vera laus undan einhverju, heldur sé hún fólgin í upplifun. Þá eiga þeir ekki við að hún búi í því sem er upplifað (og sé þar með undir því komin að hið rétta sé upplifað), heldur upplifuninni sjálfri. Þetta hefur stundum verið kallað að "vera í flæði" - sem fúslega skal viðurkennt að er hræðileg íslenska, kannski væri nær lagi að tala um að "ná sér á flug".

Það er svo sannarlega erfitt að útskýra á skiljanlegan máta hvað fræðingarnir eiga við með þessu, og þá er gott að geta nefnt dæmi. (Það er alltaf gott í heimspekilegum pælingum að geta nefnt dæmi - og því einfaldara og almennara sem það er, því betra.) Börn sem ná sér á flug í frjálsum leik, hvort heldur ein eða í hóp, eru áreiðanlega tærasta birtingarmynd hreinnar hamingju. Þegar ímyndunaraflið tekur öll völd, og vitund barnsins beinlínis rennur saman við veröld leggsins og skeljarinnar (eða Barbíar og Kens, löggunnar og bófans).

Kannski má orða þetta eitthvað á þá lund, að þegar barnið er í upplifuninni, án þess að vera sér beinlínis meðvitað um að það sé í henni, þá sé komið það ástand sem fræðingarnir virðast nú flestir hallast að sem skilgreiningu á hamingju. Leikur er því ekki aðeins forsenda líkamlegs, andlegs og félagslegs þroska barnanna, hann er forsenda þess að þau læri á unga aldri í hverju hamingjan er fólgin, og viti því þegar þau komast á fullorðinsár hvar og hvernig beri að leita hennar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband