Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 22. nóvember 2008
"Ég hafði ekki glóru"
Hvers vegna borgaði fjárfestingarfyrirtæki á Wall Street 24 ára gömlum manni hundruð þúsunda dollara til að "veita fullorðnum ráðgjöf um verðbréfakaup"? Þessi maður lítur til baka, nú rúmlega 20 árum síðar, og skilur enn ekkert í þessu.
Sjá grein Michael Lewis hér.
Þriðjudagur, 18. nóvember 2008
Vissulega brugðust fjölmiðlar
Ástandið var eins og á unglingafylleríi: Allir urðu að drekka með, þeir sem skoruðust undan voru álitnir leiðinlegir og reknir úr partíinu.
Þess vegna er það rétt sem borgarafundur á NASA samþykkti í gær, fjölmiðlar brugðust í aðdraganda kreppunnar. Ástæðan er ofangreind fylleríslíking.
Á fjölmiðlum á Íslandi hefur lengi ríkt kreppa. Hugarfarskreppa. Flest starfsfólk hefur búið við ótta um atvinnumissi. Lengi. Ég veit ekki hvað margar "uppsagnabylgjur" hafa gengið yfir íslenska fjölmiðla undanfarin ár.
Alltaf beið maður milli vonar og ótta.
Misjafnt hvernig fólk brást við. Flestir fóru þá leið að passa sig vandlega að rugga ekki bátnum. Ef eitthvað, þá reyndu menn að "hlaupa eins hratt og þeir gátu", þ.e. gera sig ómissandi í augum stjórnenda.
Það gerir maður með því að taka undir, hátt og skýrt, í kórstarfinu. Dæmin um afleiðingar hins gagnstæða voru þarna til að varast þau.
Þótt það sé eðli mínu fjarstætt að taka undir með Davið Oddssyni get ég ekki annað en gert það nú. Á fjölmiðlunum vissum við vel hverjir "áttu okkur." Og við vissum að maður bítur ekki í höndina sem gefur manni að borða. Þeir sem það gerðu voru álitnir heimskir.
Hver man ekki eftir því þegar Mogginn bjó til sérblað (það hét að vísu ekki það) um Björgólfinn í London, eins og um væri að ræða hálfguð?
George Orwell sagði einu sinni, að versta ritskoðunin væri sjálfsritskoðunin. Það var satt hjá honum. En orsök sjálfsritskoðunar er einfaldlega óttinn við útskúfun.
Af hverju ofurseldu stjórnendur íslenskra fjölmiðla þá auðmönnunum? Í því var fólgið það sem kalla mætti "faglegt sjálfsmorð." Fjölmiðill sem ætlar að standa undir nafni getur ekki verið á klafa eigenda sem eru um leið eigendur þess sem fjölmiðlarnir eiga, eðli sínu samkvæmt, að hafa eftirlit með.
Varla er þetta svo flókið.
Samt hengdu fjölmiðlarnir sig á slíkan klafa, sem sýnir að þeir tóku sig sennilega ekki alvarlega sem fjölmiðlar.
Spurningin er: Í hvaða leik voru þeir?
Laugardagur, 18. október 2008
Ísland gangi Noregskonungi á hönd
Ég hef oft haldið því fram, alls ekki bara í gríni, að Íslendingar ættu að ganga Noregskonungi á hönd. Þau kynni sem ég hef haft af Norðmönnum og Noregi hafa sannfært mig um þetta, auk þeirrar langvinnu fullvissu minnar að það sé eitthvað í grundvallaratriðum bilað í íslensku samfélagi.
Nú hefur það síðarnefnda komið heiftarlega á daginn. Við einfaldlega kunnum ekki að höndla frelsið. Við kunnum okkur ekki hóf. Því til sönnunar blasir við smátt og stórt: Bílarnir okkar og bankarnir. Hvort tveggja vaxið okkur svo ævintýralega yfir höfuð að helst minnir á skrípamynd. Enda erum við orðin aðhlátursefni á alþjóðavettvangi og rúin ærunni, eins og glöggt kom í ljós þegar Japanar hættu við að bjóða Sinfóníuhljómsveitinni í heimsókn.
Dapurlegt hvað það blasir við að Ísland er núna í hlutverki keisarans sem sprangaði um nakinn af því að hann lét svikahrappa plata sig. En þetta hefur einhvernveginn alltaf verið hlutskipti Íslendinga. Við erum heimsþorpsfíflið, þótt við séum kannski fyrst núna að gera okkur grein fyrir því sjálf. Eina góða er, að við gleymum því líklega ekki í bráð.
Þegar fram líða stundir munu festast í erlendum tungum máltæki byggð á skírskotun í íslenskt stórmennskubrjálæði, svona eins og til eru orðtök um þýska stálið og enska séntilmanninn. Við þetta mun bætast íslenska drambið.
Þrátt fyrir þetta eigum við góða að, og Norðmenn líklega þar fremsta í flokki. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor sagði nýlega í viðtali við norskan fréttavef að það sé praktískara fyrir okkur, til skemmri tíma litið, að taka upp einhverskonar myntsamstarf við Noreg, og þar með norsku krónuna, en að halda inn í Evrópusambandið og taka upp evru, þótt það hljóti að vera langtímamarkmið. Seðlabanki Íslands verði einfaldlega gerður að deild í norska seðlabankanum.
Ég legg til að við göngum enn lengra, og gerum Ísland að fylki í Noregi. Það er leið til að bjarga bæði efnahag okkar og mannorði. Við einfaldlega lýsum því yfir að tilraunin Ísland hafi mistekist. Við klúðruðum henni.
Mér er nokk sama þótt efnahagsundrið Ísland hafi reynst vera eins og nýju fötin keisarans. Mér er líka alveg sama þótt útlendingum finnist við hallærisleg. Mér hefur hvort eð er alltaf fundist Ísland hallærislegt og oft skammast mín fyrir stærilæti íslenskra ráðamanna erlendis. En ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög dapurlegt að sjá fram á að þurfa að kenna börnunum mínum að skammast sín fyrir að vera Íslendingar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)