Er græðgi góð?

Viðhorf sem birtist í Morgunblaðinu 14. október 2005.

Fyrirsögnin á þessum pistli skírskotar til frægrar setningar úr kvikmyndasögunni. Michael Douglas mælti hana af vörum í hlutverki Gordons nokkurs Gekkos í kvikmyndinni Wall Street sem Oliver Stone gerði 1987. "Græðgi er góð," sagði hann.

Hann sagði reyndar margt fleira en þessi setning var þungamiðja myndarinnar og það sem er minnisstæðast úr henni. Græðgi var nákvæmlega það sem myndin fjallaði um og var meira að segja vinnuheiti hennar.

Þessi setning sem endurómaði af hvíta tjaldinu var hluti af lengri ræðu sem Gekko hélt í myndinni. Ræðunni lýkur svona: "Það sem ég á við, dömur mínar og herrar, er að græðgi - ef svo má að orði komast - er góð. Græðgi er rétt. Græðgi skilar árangri. Græðgi skerpir, tekur af allan vafa og er kjarninn í allri framþróun. Græðgi í öllum sínum myndum - lífsgræðgi, peningagræðgi, ástargræðgi, þekkingargræðgi - hefur einkennt framrás mannkynsins."

Því hefur verið haldið fram undanfarið að græðgi sé nú farin að setja meiri svip á íslenskt samfélag en nokkru sinni fyrr. Og það fylgir í flestum tilfellum slíkum fullyrðingum sú afstaða að þetta sé slæmt. Að vísu hafa einhverjir orðið til þess í umræðunni núna að taka undir með Gekko og þá einmitt á einhverjum svipuðum forsendum - að græðgi sé drifkraftur. Komi í veg fyrir stöðnun. Að án hennar væru mennirnir enn á steinaldarstigi.

Án þess að hérna í þessum pistli verði tekin afstaða til þess hvort græðgi er góð eða vond verður ekki hjá því komist að segja að hún sé dálítið vafasöm. Af einhverjum ástæðum fyrirverður maður sig ef maður verður var við hana í sjálfum sér - og hver verður það ekki? Getur verið að maður sé bara svona bældur eða lifir virkilega enn í þeim gömlu glæðum sem eru dauðasyndirnar sjö - þar sem græðgi var ofarlega á blaði?

Það sem Grétar Þorsteinsson vék að á ársfundi Starfsgreinasambands Íslands í síðustu viku

og kemur fram í tilvitnuninni hér að ofan er reyndar öllu líklegri ástæða þess að græðgi þykir harla nöturleg - hún er talin fela í sér afneitun á gildum á borð við samkennd og samhjálp. Hún feli í sér að sá gráðugi einblíni á eigin langanir og þrár, taki sjálfan sig fram yfir aðra. Græðgi leiði þannig til síngirni og yfirgangssemi. Hvorugt er sérlega aðlaðandi.

Hvers vegna er maður gráðugur? (Ég leyfi mér að fullyrða að enginn sé alveg laus við græðgi - þótt fólki gangi misjafnlega vel að bæla hana með sér.) Græðgi er í grundvallaratriðum óseðjandi þrá eftir meiru. Sífellt ósætti við ríkjandi ástand. En græðgi er ekki andhverfa samhjálpar (síngirni er andhverfa hennar) heldur ánægju. Að una sínu - vera ánægður - er andstæða þess að vera gráðugur.

Þetta er ekki einungis spurning um mismunandi hugtök. Þetta er beinlínis spurning um mismunandi staði í heilanum, ef marka má taugalíffræðina. Óseðjandi þráin eftir meiru á rætur að rekja til heilastöðva sem þróuðust í árdaga mannkynsins og gegnir þar efnið dópamín lykilhlutverki. Þessar heilastöðvar hafa með að gera löngunina til að seðja hungur og svölun fíkna. Ánægja á aftur á móti rætur að rekja til annarra svæða í heilanum og þar leika önnur efni aðalhlutverkið - með serótónín fremst í flokki.

Þessir tveir staðir í heilanum starfa hvor í sínu lagi. Og það er lykilatriðið. Löngunarstöðvarnar eru sívirkar og þess vegna veldur sumt manni stanslausri löngun en aldrei neinni ánægju. Eins og til dæmis nikótín. Skilin á milli heilastöðvanna valda því að ánægjustöðin getur aldrei sagt löngunarstöðinni að nú sé komið nóg og mál að hætta að langa. Nei, löngunarstöðin heldur endalaust áfram, jafnvel þótt ánægjustöðin sé á fullu. Þess vegna eru sífella og endaleysi grundvallaratriði í græðgi.

Nýlega var í The Sunday Times haft eftir breskum sálfræðingi að vestrænt hagkerfi beinlínis höfði til löngunarstöðvanna en ekki ánægjustöðvanna. (Reyndar mætti velta því fyrir sér hvort vestrænt hagkerfi - þ.e. kapítalismi - sé ekki einfaldlega afsprengi þess hvernig löngunarstöðvar mannsheilans virka, en það er önnur og flóknari saga.)

Í þessum orðum sálfræðingsins er fólgin skemmtileg og hugsanlega frjó tenging á milli taugalíffræði og hagfræði sem gefur möguleika á að fjalla um græðgi á svolítið öðrum forsendum en siðferðilegum og trúarlegum. En rétt er að taka skýrt fram, að það er ekki þar með sagt að siðferðilegu og trúarlegu forsendunum sé ýtt til hliðar og græðgi réttlætt sem "mannlegt eðli".

En af þessum líffræðilegu skýringum á græðgi má draga ályktanir sem veitt geta svör við því hvers vegna jafnvel sannfærðustu sósíalistar standa sjálfa sig að því að langa í stærri jeppa og stærra hús. Og af þessum skýringum má einnig draga ályktun sem getur útskýrt hvers vegna græðgi er í það minnsta vafasöm:

Græðgi er í rauninni andhverfa ánægju en ekki samhjálpar og samvinnu. Ályktunin sem við blasir er því sú, að græðgi eigi sér rætur í sífelldri og endalausri óánægju með það sem er. Óánægja er grunnstefið í allri tilveru þess gráðuga og ekkert útlit fyrir að nokkurntíma verði breyting á því.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband