Áfengi í þverpokum

Það er athyglisvert að heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, skuli vera fylgjandi afnámi á einkasölu ríkisins á léttvíni og bjór. Sérstaklega í ljósi þess að landlæknisembættið lýsti því yfir í tilefni af enn einu afnámsfrumvarpinu að ríkiseinokun á áfengissölu sé til þess fallin að draga úr áfengisneyslu og um leið því samfélagstjóni sem af henni hlýst. Vísar landlæknir til tilgreindra rannsókna máli sínu til stuðnings.

Þetta vekur óhjákvæmilega þá spurningu hvort heilbrigðisráðherrann taki ekkert mark á landlækni, eða telji það vera í lagi að samfélagstjón af völdum áfengisneyslu aukist. Hvort heldur sem er má það kallast merkileg afstaða ráðherrans. Að vísu hafði hann uppi einhver orð um að hann vildi líka auka forvarnir, en samkvæmt heimildum sem landlæknir vísar í eru forvarnir ekki meðal þess sem talið er draga úr áfengisneyslu.

Eftir situr sú spurning hvort ráðherra Guðlaugur tekur ekki mark á landlækni eða hefur ekkert á móti því að samfélagslegur heilsuskaði aukist. Er þetta ekki dálítið undarlegt viðhorf hjá æðsta manni heilbrigðismála í landinu?

Áður en Guðlaugur varð heilbrigðisráðherra hafði hann sjálfur staðið að því að reyna að fá einkasölu ríkisins á áfengi afnumda, og flutningsmaður tillögunnar núna er Sigurður Kári Kristjánsson, flokksbróðir Guðlaugs, og kannski telur ráðherrann flokkstengslin meira um verð en heilbrigðismál þjóðarinnar.

Þegar mbl.is flutti fregnir af afstöðu landlæknis hlóðust á fréttina bloggfærslur og voru ófáir bloggarar þeirrar skoðunar að auðvitað ætti að afnema einokunina. Kannski er ástæðan fyrir afstöðu ráðherrans sú að honum er illa við að taka óvinsæla afstöðu, jafnvel þótt hún sé studd vísindalegum rökum. Enda er það ekki nýtt í stjórnmálum að hugmyndafræði vegi þyngra en skynsamleg rök.

Á vef landlæknisembættisins er vísað til nýlegrar bókar um áfengismál, Alcohol: No Ordinary Commodity - Research and Public Policy. Í bókinni "hefur verið rýnt í allar helstu rannsóknir sem nýtast við stefnumótun í áfengismálum," segir á vef landlæknis. Titill bókarinnar segir mikið af því sem segja þarf: "No Ordinary Commodity," áfengi er "engin venjuleg vara." Hvers vegna ekki?

Svarið er einfalt: "Áfengi er vímuefni sem getur valdið fíkn og er því engin venjuleg neysluvara." Í þessari bók er meðal annars fjallað "um vísindaleg rök fyrir ýmsum leiðum til að koma í veg fyrir eða draga úr skaða sem rekja má til áfengisneyslu." Ein þessara leiða er ríkiseinkasala áfengis.

Kannski hefur ráðherra Guðlaugur ekki séð þessa umfjöllun á vef landlæknis. Eða er afstaða hans byggð á einhverjum öðrum rökum og sterkari? Ef svo er væri gaman að Guðlaugur tíndi þau til og birti, eða benti á hvar þau er að finna. Það er ekki nóg að hann flaggi einhverjum klisjum um að hann sé fylgjandi auknum forvörnum.

Allt um það. Núna er í fyrsta sinn útlit fyrir að frumvarpið um ríkiseinokunina verði að veruleika. Mbl.is sagði frá því um daginn að Bónus biði spenntur eftir því að geta farið að selja ódýran bjór undir merkinu Euroshopper. Verði það að veruleika leysist kannski "vandinn" sem fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, reyndi að bregðast við með því að láta fjarlægja bjórkælinn úr ríkinu í Austurstræti.

Fastir viðskiptavinir ÁTVR, sem borgarstjórinn fyrrverandi vildi losna við úr miðborginni, flytja sig þá væntanlega þangað sem bjórinn er ódýrastur, það er að segja til þeirra verslana sem selja hann. (Að vísu er ein slík á Laugaveginum, svo þessir kúnnar þurfa kannski ekki að fara langt).

Í nágrannaríkjum okkar, þar sem bjór er seldur í matvöruverslunum, er málum einmitt svona háttað; utangarðsmennirnir halda sig fyrir utan verslanirnar, milli þess sem þeir skreppa inn og kaupa meiri bjór - og kannski brauðhleif til að hafa með. Ég veit ekki hvort verslunarstjórar Bónuss yrðu hrifnir af þessari viðbót við kúnnahópinn.

Sú afstaða að áfengi eigi að vera eins og hver önnur neysluvara og fást í venjulegum matvörubúðum er byggð á tiltekinni hugmyndafræði - það er að segja, hugmyndum um hvernig hlutunum eigi að vera háttað, en ekki með tilliti til þess hvernig þeir eru í raun og veru. Það er væntanlega forsendan fyrir viðhorfi heilbrigðisráðherrans til málsins.

Hin afstaðan, að áfengi sé ekki venjuleg neysluvara og eigi ekki að vera eins aðgengilegt og venjulegar vörur, er aftur á móti ekki byggð á hugmyndafræði heldur vísindalegum rannsóknum, það er að segja athugunum á því hvernig hlutunum er í raun og veru háttað (burtséð frá því hvort maður vilji að þeim sé þannig háttað). Þetta er tilfært á vef landlæknis:

"Niðurstöður rannsókna benda eindregið til þess að einkasala ríkisins á áfengi dragi úr neyslu og tjóni sem af henni hlýst og ef einkasölunni er aflétt aukist heildarneysla áfengis. Athygli vekur [...] að fræðsla skilar ekki mælanlegum árangri en opinberar aðgerðir verulegum."

Vinur minn einn var á sínum yngri árum - eins og gjarnt er um unga menn sem vilja sýnast hörkutól - staðráðinn í að maður ætti jafnvel að hafa fullt frelsi til að fara til helvítis ef maður kysi það. Svo mikilvæga taldi hann frelsishugsjónina, að mannslífum væri fórnandi fyrir hana.

Þetta var óneitanlega kúl afstaða og dramatísk en að sama skapi óskynsamleg. En eins og ég sagði, þessa afstöðu hafði vinur minn þegar hann var ungur, og ungir menn hafa jú aldrei verið þekktir fyrir að reiða skynsemina í þverpokum.

(Viðhorf, Morgunblaðið 22. október 2007)


Almannahagsmunir

Fyrir mann sem hefur alltaf átt í mestu erfiðleikum með að skilja út á hvað stjórnmál í raun og veru ganga, og með naumindum getað ákveðið sig á kjördag, var síðasta vika næstum því eins og skyndinámskeið.

Að vísu má ætla af umræðunni að margir botni betur í framvindu mála en ofangreint pólitískt viðrini, sem er þrátt fyrir allt ekki enn með það á hreinu hver er eiginlega júdasinn, hver gekk erinda hvaða auðmanna og hver hefur í raun og veru gætt almannahagsmuna.

Að eigin sögn hafa reyndar allir aðilar málsins gengið erinda almennings og fylgt ströngum meginreglum, eða prinsippum. En getur það verið að aðilar sem eru svo heiftarlega ósammála að þeir láta sig ekki muna um að brjóta blað í íslenskri stjórnmálasögu séu báðir - eða allir - að gæta almannahagsmuna? Hlýtur ekki einhver að vera að villa á sér heimildir?

Það er ekki til þess fallið að auka pólitísku viðrini skilning að svörin við ofangreindum spurningum eru eftirfarandi: Já, það getur vel verið að allir aðilar hafi litið svo á, af fullum heilindum, að þeir væru að gæta almannahagsmuna; nei, það er ekki einboðið að einhver hafi verið að villa á sér heimildir.

Engu að síður verður hinu pólitíska viðrini starsýnna á suma þætti málsins en aðra. Mestan áhuga hefur það á þessu með almannahagsmunina, sem það telur í fyrsta lagi að séu í raun og veru til og í öðru lagi að skipti í raun og veru máli - og séu jafnvel það sem allir stjórnmálamenn ættu að hafa í huga umfram annað. (Þó verður að viðurkennast að ofangreint viðrini hefur alltaf haft grun um að hugmyndir sínar um gildi almannahagsmuna sé til marks um pólitíska einfeldni).

Þegar hugsað er um þennan þátt málsins - almannahagsmuni - verður áleitin sú spurning hvort ekki hefði verið hægt að vísa málinu til þeirra sem eiga umræddra hagsmuna að gæta, það er að segja almennings. Með öðrum orðum, hefði ekki verið einfaldara að slíta meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn og mynda ekki nýjan meirihluta heldur boða til kosninga?

Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort einhverjir formlegir annmarkar eru á því að halda borgarstjórnarkosningar á miðju kjörtímabili. Kannski er það bannað með lögum, en það eru þá eitthvað undarleg lög. Kannski er einfaldlega ekkert fordæmi fyrir slíkum kosningum á miðju tímabili, en hefði ekki eins mátt brjóta þar blað eins og í því að slíta samstarfinu á miðju kjörtímabili, það er að segja ef lög banna ekki kosningar við slíkar kringumstæður?

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að manni dettur í hug að best hefði verið að halda kosningar. Meginástæðan er sú, að í ljósi orða sem fallið hafa í aðdraganda stjórnarslitanna er vægast sagt furðulegt að þeir sem standa að nýja meirihlutanum skyldu vera tilbúnir til samstarfs.

En kannski skín þarna í eina helstu ástæðuna fyrir því að maður hefur aldrei náð að átta sig á því hvernig stjórnmál fara fram: Í stjórnmálum eru orð eins og föt; maður grípur til þess sem hentar hverju tækifæri og tilefni, og suma daga ræðst valið af því hvernig liggur á manni þegar maður vaknar; og reglulega verður að skipta um, yst sem innst, því að annars sjúskast og slitnar, og maður fer að líta út eins og fátæklingur eða sérvitringur.

Með þessa líkingu að vopni er hægt að skilja hvernig það má vera að fólk sem hljómaði eins og svarnir óvinir fyrir tæpri viku er nú sest hlið við hlið og ætlar að fara að dansa saman. Þetta verður kannski líkt og tangó: Hvert spor eins og hótun um banvæna hnífsstungu.

En án gamans og samlíkinga: Það sem áhugamenn um stjórnmál bíða nú spenntir eftir að fá að sjá er ekki hvernig nýi meirihlutinn fer að því að leysa vanda leikskólanna í borginni - þótt það sé raunar mikilvægasta verkefnið sem bíður nýju borgarstjórnarinnar - heldur hvernig borgarfulltrúar flokkanna fjögurra (kannski þá helst fulltrúi VG) fara að því að kjafta sig út úr horninu sem þeir töluðu sig svo rækilega inn í í aðdraganda stjórnarslitanna.

Kannski finnst einhverjum að þá muni virkilega koma í ljós eiginleg pólitísk hæfni þessara borgarfulltrúa, og að þá muni þeir virkilega sýna hvað í þeim býr og hvort þeir séu í raun og veru efni í nýja leiðtoga flokka sinna, eins og sumir fréttaskýrendur hafa talað um.

En pólitísku viðrini, sem er enn ekki búið að fatta almennilega út á hvað stjórnmál ganga, þrátt fyrir skyndinámskeiðið í síðustu viku, finnst eiginlega að málið sé búið. Héðan af verða þessir borgarfulltrúar varla trúverðugir.

Nema þá helst borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Svo furðulega sem það nú hljómar. Þeir sem voru "sviknir," eins og þeir sögðu sjálfir, og sviptir völdum, virðast þegar allt kemur til alls hafa sýnt mest heilindin. (Vilhjálmur Þ. er farinn að minna mest á tragíska hetju sem hvikar ekki frá sannfæringu sinni og fellur því fyrir hendi undirförulla keppinauta.)

En eins og ég segi, ef til vill byggist þessi niðurstaða mín fremur á pólitískum viðvaningshætti en pólitískri sannfæringu. Af sömu sökum kemst ég ekki undan þeirri hugsun, að leiðtogi VG í borginni, sem sýndi afburðaframmistöðu í aðdraganda stjórnarslitanna, hefði átt að neita þátttöku í nýjum meirihluta á þeirri forsendu að of mikið bæri í milli.

Í ljósi þess hve duglegir fulltrúar allra flokka hafa verið við að segjast vilja gæta almannahagsmuna hefðu þeir einfaldlega átt að vísa málinu til almennings, sem hefði verið meira en tilbúinn til að fella dóm í málinu.

(Viðhorf, Morgunblaðið 15. október 2007)


Hámörkun hagnaðar

Það getur vel verið að sameining Reykjavik Energy Invest, hins svonefnda "útrásararms" Orkuveitu Reykjavíkur, og Geysir Green Energy sé til hagsbóta fyrir eigendur Orkuveitunnar, það er að segja íbúa þeirra sveitarfélaga sem standa að henni. Því má vel vera að það hafi verið ágætt frumkvæði borgarfulltrúanna sem stuðluðu að sameingingunni að drífa í henni.

En með hvaða hætti var hag íbúanna best borgið með sameiningunni? Jú, Orkuveitan hagnast að öllum líkindum mest með þessum hætti. En til þess að tryggja að þessi hámarkshagnaður næðist þurfti að vísu að sniðganga nokkrar reglur, eins og til dæmis um boðun eigendafundar með vikufyrirvara.

Til þess að tryggja þennan hámarkshagnað almennings þurfti ennfremur að láta nokkrum einstaklingum eftir að skammta sjálfum sér svo og svo mikinn persónulegan gróða af sameiningunni. Það mætti reyndar líka segja að sérþekking þessara manna á hagnaðarhámörkun hafi verið keypt á sanngjörnu verði. Miðað við heildarhagnað almennings séu launin sem þessir menn þiggi einungis smotterí.

Vinstri græn hafa eins og þeim einum er lagið verið með nöldur. En kannski má segja að oft ratist kjöftugum satt á munn, og að það hafi gerst í þessu tilviki. Ef til vill flýttu strákarnir sér aðeins of mikið í sameiningunni. Að minnsta kosti virðist allmörgum eigendum Orkuveitunnar - það er að segja almennum borgurum - vera dálítið misboðið. En hvað nákvæmlega misbýður þessu fólki? Veit þetta fólki ekki að það er að græða alveg rosalega mikið?

Sameining REI og GGE, það er að segja með hvaða hætti fyrirtækin voru sameinuð, er ef til vill gott dæmi til að draga fram helstu einkenni þess gildismats sem liggur til grundvallar forgangsröðuninni í íslensku þjóðfélagi - að minnsta kosti tilteknum geira þess - nú um stundir.

Þeir sem stóðu að því að drífa í sameiningunni gáfu í skyn að það hefði legið á til að fá sem mestan hagnað af henni. Þess vegna hafa menn væntanlega verið fúsir að finna orð og setningar í samstarfssamningi Orkuveitunnar sem túlka mátti á þann veg að úr fengist sú niðurstaða að ekki þyrfti í rauninni að boða eigendafund með heillar viku fyrirvara, nú eða að sú regla væri frávíkjanleg að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem líta mátti á sem uppfyllt ef eitt eða annað væri skilið og túlkað á ákveðinn máta.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þeir borgarfulltrúar sem að sameiningunni stuðluðu hafi vísvitandi gengið gegn því sem þeir telja vera bestu hagsmuni borgarbúa í því skyni að skara eld að eigin köku. Með öðrum orðum, mér dettur ekki í hug að halda því fram að þessir menn séu á nokkurn hátt spilltir stjórnmálamenn.

Mér dettur ekki heldur í hug að halda því fram að annarlegar ástæður hafi legið að baki hjá þeim mönnum sem sátu hinumegin við borðið og tókust á hendur að fá sem mestan hagnað af sölu á íslenskri jarðvarmaorku. Með öðrum orðum, mér dettur ekki í hug að halda því fram að þeir hafi vísvitandi verið að sölsa undir sig peninga og eigur skattgreiðenda. Þeir voru einfaldlega að bjóðast til að gera það sem þeir eru bestir í: Græða peninga. Og þarna liggur líklega hundurinn grafinn.

Áður en lesendur stimpla mig sósíalista og hætta að nenna að lesa þetta vil ég fá að taka fram að ég hef ekkert á móti peningum og ekkert á móti gróða. Og ég veit hreinlega ekki hvort ég er með eða á móti sameiningu REI og GGE (ég veit of lítið um málið til að taka afstöðu til þess).

En ég held, eins og ég nefndi hér að ofan, að sameiningarferlið hafi ef til vill svipt hulunni af gildismati sem kann að vera dálítið skrítið, að ekki sé sagt vafasamt. Það virðist sem menn hafi ákveðið, að ef svo og svo mikill hagnaður er í húfi sé réttlætanlegt að sleppa því að fara að með lýðræðislegum hætti. Það er að segja, ef velja þarf á milli lýðræðislegra "formsatriða" og hagnaðarhámörkunar er það síðarnefnda valið. Hagnaðarhámörkunin hefur meira gildi en lýðræðislegar leikreglur, ef á hólminn er komið.

Gott og vel, kannski er allt í lagi að sniðganga lýðræðið svona einu sinni til að græða. Ekki síst ef maður er harla viss um að lýðurinn verði ánægður með gróðann og alveg til í að þiggja hann og afsala sér í staðinn forræði í málinu. Maður á ekki að alhæfa út frá einu tilviki. Það er ekki eins og Reykjavík sé orðin að lögregluríki þótt í þessu eina tilviki hafi kannski ekki verið fylgt til hins Ýtrasta bókstaf eigendasamnings Orkuveitu Reykjavíkur.

Það mætti jafnvel halda því fram að það sé til marks um að lýðræðið hafi djúpar rætur í samfélaginu ef ekki verður mikið upphlaup út af því að lýðræðislegum leikreglum sé ekki fylgt í einu og einu tilviki. Fólk sé einfaldlega sannfært um að lýðræðið sé svo sterkt að því sé engin hætta búin þótt það sé sniðgengið svona einu sinni.

En einhvernveginn dettur manni nú samt í hug að líta á sameininguna, og hvernig að henni var staðið, sem merki um að ákveðið gildismat sé að ryðja sér til rúms í þjóðfélaginu um þessar mundir. Helsta einkenni þessa gildismats er sú skoðun að hagnaðarhámörkun hljóti að vega þyngra en nokkuð annað, jafnvel lýðræði, þegar til kastanna komi.

Enginn veit hversu útbreitt þetta gildismat er orðið meðal þjóðarinnar, en svo mikið er víst að orðstír sumra þeirra sem tekið hafa þátt í sameiningu REI og GGE verður að því máli loknu ekki jafn góður og hann var fyrir. Og þá á ég ekki eingöngu við stjórnmálamenn.

(Viðhorf, Morgunblaðið 9. október, 2007)


Íslenska til útflutnings

Viðhorf, Morgunblaðið 5. október, 2007

Ég, líkt og sennilega milljónir manna um heim allan, á hægindastól sem heitir Poäng og bókahillur sem heita Billy, að ógleymdum farsímanum mínum, sem heitir "Sótsvartur," eða eitthvað í þá áttina, en er þó betur þekktur sem Nokia.

Hlutdeild Nokia á farsímamarkaðinum í heiminum er yfirgnæfandi. Nokia 1100 síminn, sem var upphaflega hannaður fyrir fimm eða sex árum, mun vera orðinn mest selda raftæki sögunnar. Þau Poäng og Billy, ásamt öllum hinum IKEA húsgögnunum sem heita syngjandi sænskum nöfnum, eru líklega frægustu húsgögn í heimi - mun frægari en jafnvel stóllinn Barcelona eða Eames-hægindastóllinn (veit einhver lesandi hvaða stólar þetta eru?)

Þessari gríðarlegu útbreiðslu, eða "markaðshlutdeild" eins og það heitir á útrásaríslensku, hafa Nokiasímarnir og IKEAhúsgögnin náð þrátt fyrir sín norrænu nöfn, sem ekki hefur verið vikið til hliðar fyrir enskum nöfnum. (Söguna um IKEA-nafnið sjálft þekkja líklega allir, en svo að öllu sé nú til haga haldið er rétt að útskýra hér að IKEA er skammstöfun og stendur fyrir nafn Ingvars Kamprads, sem stofnaði fyrirtækið árið 1943, nafn bóndabæjarins sem hann ólst upp á í Smálöndunum, Elmtaryd, og þorpið sem bærinn tilheyrði, Agunnaryd).

Nafnið Nokia á sér aftur á móti ævafornar rætur í Finnlandi og finnskunni, svo fornar reyndar, að menn virðast ekki alveg sammála um hvernig þær liggi. En til er bærinn Nokia, sem stendur á bökkum Nokianvirta, sem er á í Suður-Finnlandi, og mun "nokia" vera fleirtölumynd orðsins "noki," sem þýðir "sót." Til að flækja málið má finna skyldleika með "nokia" og fornu, finnsku orði sem skírskotar til dýra með dökkan feld.

Út úr þessu öllusaman, með lítilsháttar blöndun við íslenska málvenju, fékk ég út hérna að ofan að síminn minn heiti "Sótsvartur." Jahérna. Hversu margir ánægðir eigendur Nokiasíma skyldu hafa hugmynd um þetta alltsaman? Líklega fæstir.

Á rölti í gegnum risastóru IKEA-búðina í Garðabænum um daginn fór ég að velta því fyrir mér, á meðan augun hvörfluðu frá snúningsstólnum Snille til hillunnar Järpen, að líklega hefðu fá tungumál í sögunni gert jafn víðreist í heiminum á jafn skömmum tíma og sænskan hefur gert með IKEA.

Þegar svo bætist við, að sænskan er fráleitt mikið heimsmál verður áreiðanlega úr alveg einstakt fyrirbæri. Látum vera þótt sænskar bókmenntir stuðli að útbreiðslu sænskunnar í heiminum - en að húsgagnaverslun skuli gera slíkt er áreiðanlega fátítt. Og með svipuðum hætti hefur Nokia laumað smáræði af finnskri menningararfleifð út um víða veröld og gert hana tungutama allri heimsbyggðinni.

Skyldu nú vera til einhver hliðstæð íslensk dæmi? Björk kemur auðvitað strax upp í hugann. Eða á maður frekað að segja Bjork? Og það verður ekki séð að "Baugur" hafi orðið því fyrirtæki til trafala í útrásinni, eða "Kaupþing" (Kaupthing?) sett þann banka í spennitreyju.

Nei, dæmin sýna að íslenskunni er alveg jafn vel treystandi á alþjóðavettvangi og sænskunni og finnskunni. Það er fullkominn óþarfi að búa til ónefni á borð við "Reykjavik Energy Invest," svo tekið sé alveg splunkunýtt dæmi.

Af hverju mátti það fyrirtæki ekki eins heita til dæmis "Reykjavíkurorka"? Mætti svo einfalda nafnið í "Reykjavík orka" þegar farið verður að selja afurðina, jarðvarmaorku, á erlendum vettvangi - nú eða nefna fyrirtækið einfaldlega "Orka," sem er alveg ekta íslenska, en um leið jafn þjált og til dæmis "Nokia."

Það er ekki gott að segja hvort menn óttast að verða álitnir sveitó ef þeir vilja nota íslensk orð á alþjóðavettvangi, eða hvort þá skortir einfaldlega ímyndunarafl, kjark og þor. Ef eitthvað af þessu er ástæðan má benda mönnunum á, að Baugi (Group) verður líklega seint borin nesjamennska eða roluskapur á brýn. Og að "Björk" er áreiðanlega eitthvert verðmætasta vörumerki sem til hefur orðið á Íslandi fyrr og síðar.

En þeim sem ekki treysta sér til að hafa íslensk nöfn á fyrirtækjunum sínum þegar þeir fara með þau á alþjóðlegan vettvang er vorkunn. Sú hugmynd að íslenska geti beinlínis verið útflutningsvara virðist í fyrstu vera í besta falli langsótt, og í versta falli uppskrift að markaðssjálfsvígi.

Hvorki IKEA né Nokia voru upphaflega ætluð til útflutnings. Það er ómögulegt að segja hvort þessi nöfn hefðu orðið fyrir valinu ef útrás hefði beinlínis verið markmiðið með stofnun þessara fyrirtækja. Mér er þó sem ég sjái íslenskan nútímaviðskiptajöfur fara með vörur sínar í verslun í New York undir rammíslenskum nöfnum - til dæmis hægindastólinn "Bókaorm" - þótt sala á honum hafi gengið vel á Íslandi undir því nafni. Nei, bókaormurinn kæmi áreiðanlega til New York undir nafninu "Bookworm," eða jafnvel einhverju allsendis óskyldu nafni.

En við nánari athugun kemur í ljós, að ef vel er að verki staðið og ekki rasað um ráð fram getur íslenska orðið fyrirtaks útflutningsvara, sem þar að auki er alveg ókeypis og birgðirnar óþrjótandi.

Í þessu efni sem öðru skiptir þó einna mestu að kunna sér hóf, og kannski væri til dæmis óráðlegt að reyna að selja íslenska vöru í Los Angeles undir nafninu "Vaðlaheiði." Af eigin reynslu veit ég að enskumælandi fólki getur beinlínis "vafist tunga um höfuð" ef það þarf að segja "Arngrímsson" upphátt. En því tekst það nú reyndar með smá æfingu.


Gott mál

Viðhorf, Morgunblaðið 27. september, 2007

Ég held að Íslendingar séu almennt mun betri í ensku en þeir gera sér grein fyrir. Þess vegna væri alveg áreiðanlega grundvöllur fyrir því að íslensk fyrirtæki, sem hafa mikil samskipti við önnur lönd og eru með starfsstöðvar erlendis, færu að nota ensku sem vinnumál. Það myndi ennfremur gefa starfsfólkinu tækifæri til að læra enskuna enn betur.

Það er fastur liður í tvítyngisumræðunni sem reglulega skýtur upp kollinum að vitnað er í málsmetandi íslenskumenn sem hafa fullyrt að Íslendingar séu alls ekki eins góðir í ensku og þeir haldi. Þessar fullyrðingar hinna málsmetandi manna eru hafðar sem rök - jafnvel hin hinstu - fyrir því að allt tal um tvítyngi sé rugl og þvaður.

Ég man ekki eftir því að hafa heyrt meira en þessar fullyrðingar. Hinir málsmetandi hafa ekki það ég man fært rök fyrir staðhæfingum sínum. Samt eru þær teknar góðar og gildar, eins og um endanlegan sannleika sér að ræða. Líklega er það vegna þess ósiðar sem er útbreiddur í íslenskri umræðuhefð að skírskotun til yfirvalds sé fullgild sönnun. Talið er vega þyngra hver maðurinn er, eða hvaða stöðu hann gegnir, en hvaða rök hann hefur fyrir máli sínu. Þetta er eins og þegar trúardeila er afgreidd með tilvísun í heilagt rit, Biblíuna eða Kóraninn.

En hvað hef ég þá fyrir mér í þeirri fullyrðingu að Íslendingar séu almennt betri í ensku en þeir geri sér grein fyrir?

Ég verð víst að viðurkenna að ég hef ekki mörg rök fyrir þeirri fullyrðingu. En þar með er hún eiginlega jafngild og gagnstæð fullyrðing hinna málsmetandi, að minnsta kosti þar til þeir færa einhver rök fyrir sinni. Á meðan þeir gera það ekki standa orð þeirra gegn mínum, og segja má að báðar fullyrðingarnar séu jafn rakalausar. Með öðrum orðum, fullyrðing mín í upphafi þessa pistils er jafngild fullyrðingum hinna málsmetandi. Nema náttúrlega að bent sé á að þeir séu málsmetandi en ég ekki. En eins og ég sagði, það dugar ekki. "Skírskotun yfirvalds" er rökvilla.

En setjum nú sem svo, að hinir málsmetandi hafi rétt fyrir sér en ég rangt, og að Íslendingar séu í raun og sannleika ekki eins góðir í íslensku og þeir haldi sig vera. Hvaða ályktanir mætti draga af því? Þýðir það að enginn möguleiki sé á tvítyngi á Íslandi, og tómt mál að tala um það? Eða þýðir það að Íslendingar þurfi að læra ensku betur og æfa sig í henni ef þeir ætli sér tvítyngi?

Ég hallast frekar að síðari kostinum. Ef Íslendingar fara fyrr að læra ensku - jafnvel strax í fyrsta bekk - og þurfa að tala hana og skrifa í daglegri rútínu, til dæmis í vinnunni, eru allar líkur á að enskukunnátta þeirra verði almennt mun betri en hinir málsmetandi telja hana nú vera.

Þá vaknar auðvitað sú spurning hvort það sé æskilegt að Íslendingar verði tvítyngdir. Það virðist sem margir þátttakendur í hinni reglubundnu tvítyngisumræðu telji slíkt óæskilegt vegna þess að það muni draga úr íslenskukunnáttu Íslendinga.

En er það líklegt? Eru manninum ásköpuð einhver takmörk fyrir því hvað hann getur lært mikið mál, þannig að ef hann lærir svo og svo mikið af einu máli minnki "kvótinn" sem hann á eftir fyrir annað mál?

Nei, ég held að við höfum engan svona fyrirfram gefinn kvóta. Þess vegna er ekkert sem segir að aukin enskukunnátta þurfi endilega að draga úr íslenskukunnáttu. Enda er það líklega ekki þetta sem hinir málsmetandi óttast, heldur hitt, að því meira sem Íslendingar æfa sig í ensku því minna æfi þeir sig í íslensku, og það leiði til þess að þeir verði ekki eins góðir í íslensku og ella.

Setjum nú sem svo að þetta sé rétt. Ef maður notar jöfnum höndum íslensku og ensku verður maður í hvorugu málinu jafn góður og maður yrði í máli sem maður notaði eingöngu. Fyrir vikið myndi staða íslenskunnar veikjast eftir því sem staða enskunnar myndi styrkjast, líkt og tungurnar séu á vogarskálum og einungis úr takmörkuðu magni lóða að spila.

En þarna kemur aftur í ljós veikleiki í röksemdafærslunni. Það er alls ekki gefið að úr takmörkuðu magni lóða sé að spila. Eins og að framan sagði, það er enginn fyrirfram gefinn kvóti á tungumálum. Hvers vegna skyldi íslenskunni ekki geta vaxið enn ásmegin um leið og enskukunnátta Íslendinga eykst?

Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að enskukunnátta okkar er almennt meiri núna en hún var fyrir til dæmis 25 árum. Eru einhver merki um að staða íslenskunnar sé að sama skapi veikari?

Enn eru skrifaðar og gefnar út bækur á góðri íslensku, ekki satt? Og jafnvel fleiri en voru gefnar út fyrir aldarfjórðungi. Enn eru til fjölmiðlar á íslensku, og jafnvel fleiri og fjölbreyttari en voru þá. Nú eru til íslenskar kvikmyndir, sem voru engar fyrir 25 árum (að minnsta kosti ekki með tali). Almennt eru íslenskir pennar síst latari nú en á árum áður.

Að þessu sögðu er freistandi að slá því fram, að staða íslenskunnar hafi beinlínis styrkst um leið og enskukunnátta hefur vaxið. En þess þarf ekki. Að segja margt benda til að íslenskan sé jafn sterk nú og áður dugar fyrir þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi ekki tapað neinu á því að læra meiri ensku. Þvert á móti hafa þeir grætt verulega (og þá á ég ekki við peningagróða) með því að bæta við þekkingu sína og hugsun.

Reynslan er áreiðanlegri vegvísir en staðhæfingar manna - jafnvel þótt þeir séu málsmetandi. Og reynslan virðist benda til að íslenskunni sé ekki hætta búin þótt Íslendingar læri og noti ensku.


Bölvað upphátt

Viðhorf, Morgunblaðið 17. september, 2007

Sú var tíðin að íslenska þjóðin kunni aðeins ein viðbrögð við ofríki ráðamanna, og það var að bölva í hljóði og halda síðan áfram að strita til að hafa í sig og á. Þegar kom að næstu kosningum voru þessir sömu ráðamenn kosnir næstum rússneskri kosningu og þeir héldu því áfram að beita sömu kjósendur sama ofríkinu.

Ýmislegt bendir nú til að tímarnir séu breyttir. Íslendingar eru margir hverjir hættir að bölva í hljóði og farnir að gera það upphátt. Og það sem meira er, þeir eru farnir að bregðast við ofríki ráðamanna með öðrum hætti en að láta það yfir sig ganga. Í stað þess að bölva bæjarstjórninni safna þeir undirskriftum.

Hverju eru Íslendingar aðallega farnir að mótmæla? Að undanförnu hefur mikið borið á mótmælum við byggingar- og skipulagshugmyndum sem virðast til þess gerðar að gæta fyrst og fremst hagsmuna byggingaverktaka fremur en íbúa á þeim svæðum sem skipulagið og byggingatillögurnar ná til.

Þeim sem mótmæla virðist vera mjög uppsigað við háhýsi. Íbúum í nágrenni byggingarreits vestur á Granda í Reykjavík fannst skipulagsyfirvöld borgarinnar ætla að ganga á bak orða sinna og setja á reitinn mun hærri hús en áður hafði verið gert ráð fyrir. Viðbrögð borgaryfirvalda voru vægast sagt furðuleg: Þegar væri búið að taka heilmikið tillit til íbúanna í grenndinni, hvort virkilega væri ekki komið nóg af slíkri tillitssemi? Með öðrum orðum, borgaryfirvöld virðast líta á þessa borgara sem andstæðinga sína, ekki sem fólkið sem borgaryfirvöld vinna hjá.

Íbúar í Þorpinu (eða Holtahverfi) á Akureyri eru margir ósáttir við hugmyndir um að reistar verði átta hæða blokkir á grænum reit upp af Sandgerðisbót og hafa afhent bæjaryfirvöldum mótmæli og hugmyndir um öðru vísi uppbyggingu og nýtingu á reitnum. Ekki hafa enn borist fregnir af viðbrögðum bæjaryfirvalda, en þau eiga væntanlega eftir að ræða mótmælin - og nýju tillögurnar - á fundi.

Kópavogsbúar eru þó líklega einna duglegastir við að mótmæla austur og vestur, og hafa andæft hugmyndum um skipulag bæði á Kársnesi og á Nónhæð. Bæjarstjórnin hefur að því er virðist tekið heldur dræmt í andmælin, og virðist helst vilja halda ótrauð sínu striki með að byggja á báðum stöðum.

Nú má velta því fyrir sér hvort öll þessi mótmæli eigi sér rætur í einhverri dulinni þörf fyrir að vera á móti öllum sköpuðum hlutum, svona eins og Vinstri græn hafa verið sökuð um að vera haldin, eða jafnvel andstöðu við allar breytingar. Hvort hér sé um að ræða afturhalds- og íhaldssemi sem er dragbítur á framfarir og því ekki ástæða til að taka tillit til.

En ef nánar er að gáð kemur í ljós að það er ekki ástæða til að ætla að svo sé. Í öllum tilvikum hafa íbúarnir fært fram rök fyrir því hvers vegna þeir eru mótfallnir fyrirhuguðum framkvæmdum, og það sem meira er, þeir hafa útlistað hvað þeir vilji fá í staðinn. Það er yfirleitt það sama: Þeir vilja að umrædd svæði verði nýtt til hagsbóta fyrir íbúa í grenndinni.

Þannig sögðu íbúar við Nónhæð í andmælum sínum til bæjarstjórans í Kópavogi, að þeir krefðust þess "að áfram verði gert ráð fyrir að svæðin þjóni fyrst og fremst íbúunum m.a. með görðum og grænum svæðum í anda þess sem heitið var þegar hverfið var skipulagt í upphafi."

Andmæli íbúanna vestur á Granda voru líka á þá lund að borgaryfirvöld stæðu við þær hugmyndir sem fyrst var lagt upp með, það er að segja að á reitnum umdeilda yrði einungis byggð sem væri svipuð að vöxtum og byggðin i næsta nágrenni.

Þeir íbúar í Þorpinu á Akureyri sem hafa andmælt hugmyndum um að reist verði háhýsi á reit sem nú er grænn hafa einnig lagt fram tillögur um hvernig megi verja reitnum á annan máta, það er að segja þannig að hann bæti nærumhverfi íbúanna sem þegar eiga heima í grennd við hann.

Þeir leggja sumsé til að þarna verði "útbúið útivistarsvæði fyrir fjölskyldur með malbikuðum göngustígum" og áfram verði "mikið af gróðri á svæðinu, runnar meðfram göngu/hjólastígum og mikið af trjám. Í miðju svæðisins yrði blómatorg með bekkjum." Byggð verði lágreist og einungis í jaðri svæðisins.

Þau íbúamótmæli sem hér hafa verið tíunduð eru því aðallega byggð á tvennum forsendum, að því er virðist: Í fyrsta lagi að borgar- eða bæjaryfirvöld standi við áætlanir sem þegar hafa legið fyrir, og í öðru lagi að í stað mannvirkja komi græn svæði til útivistar fyrir þá sem þegar eiga heima í grenndinni.

Það sem fólk hefur áhuga á er því þetta: Græn svæði og orðheldni yfirvalda.

Kannski er það nýtt að Íslendingar leggi áherslu á þessa hluti. Áhugi á umhverfinu, bæði nær og fjær, hefur líklega ekki verið fyrirferðarmikill meðal þjóðarinnar fyrr en nú á seinni árum, en hann fer svo sannarlega vaxandi.

Og líklega er það alveg splunkunýtt að kjósendur ætlist til þess að ráðamenn standi við það sem þeir hafa sagt. Hingað til hefur einfaldlega verið gengið að því sem gefnu að stjórnmálamenn séu jafn dyntóttir og óáreiðanlegir og veðrið, og aldrei á vísan að róa hvað setta stefnu varðar, frekar en veðurspána.

Eru þetta jákvæð nýmæli, eða til þess fallin að auka óstöðugleika og hefta framfarir? Verða fyrirtæki og framkvæmdamenn eftirleiðis að búa við það að dyntir misgáfaðs og verkfælins almúga setji þeim skorður? Eða er þetta einfaldlega lýðræði í sinni sönnustu mynd?


Hótel Akureyri

Viðhorf, Morgunblaðið 7. september, 2007

Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að húsið á Hafnarstræti 98 á Akureyri, Hótel Akureyri, verði rifið og í staðinn byggt Guð má vita hvað. Verður þetta niðurrif stórkostlegt menningarsöguslys eða bæjarhreinsun?

Húsið er svo sannarlega ekki fallegt í því ástandi sem það er núna. Það virðist helst sem ekkert hafi verið gert við húsið síðan það var byggt árið 1923, annað en að breyta því á stöku stað eftir því sem hentaði breyttu hlutverki hverju sinni. Afleiðingin er sú að húsið lítur út eins og margstöguð og úr sér gengin flík.

Ég veit ekki hvort til eru ljósmyndir af húsinu eins og það var nýbyggt, nema það má sjá grilla í það í gömlum götumyndum úr Hafnarstrætinu, og þá virðist það hafa sett sterkan svip á götuna.

Það er kannski tilgangslaust að velta því lengur fyrir sér hvort rík ástæða væri til að varðveita húsið og gera það upp. Bæjaryfirvöld vilja ekki koma nálægt málinu og segja núverandi eigendur hússins ráða örlögum þess. Og eigendurnir segjast bara bíða eftir því að bærinn láti rífa og það á jafnvel að gerast strax í þessum mánuði.

En þar sem fyrirhugað niðurrif hefur vakið deilur, og þar sem um er að ræða hús sem á sér sögu sem er hluti af sögu Akureyrar og hluti af hjarta bæjarins, gæti verið ómaksins vert að inna eigendur hússins eftir því hvort þeir hafi velt því eitthvað fyrir sér að þeir kunni að vera með í höndunum verðmæti sem ekki teljast einungis í peningum.

Einnig mætti spyrja bæjaryfirvöld að því hvort þau séu alveg handviss um að þeirra hlutverk í þessu deilumáli geti ekki verið í neinu öðru fólgið en að fela afdrif hússins alfarið í hendur eigenda þess. Ef um væri að ræða eitthvert hús niðri á Eyri eða úti í Þorpi, svo dæmi séu tekin, væri kannski fullkomlega eðlilegt að bæjaryfirvöld segðu málið sér óviðkomandi, en á Akureyri er Hótel Akureyri ekki bara eitthvert hús í einhverju hverfi.

Má ekki með nokkrum rétti ætlast til þess að bæjaryfirvöld leggi mat á hvað teljist menningarsöguleg verðmæti í bænum og hlutist til um að gæta þeirra? Það hefur verið dálítið undarlegt að fylgjast með framgöngu bæjaryfirvalda á Akureyri í skipulagsmálum undanfarin ár. Engu er líkara en bæjarstjórnin hafi verið staðráðin í því einu að ryðja burtu öllum helstu einkennum bæjarins, og það hefur meira að segja gengið svo langt að hugmyndir voru uppi um að grafa burt miðbæinn næstum í heilu lagi.

Stafar þetta af því að bæjaryfirvöld hafa nákvæmlega enga mótaða stefnu í skipulagsmálum og láta einfaldlega dynti manna sem eiga mikið af peningum og eru haldnir stjórnlausri framkvæmdagleði ráða ferðinni? Eða stafar þetta af því að þeim sem kosnir hafa verið til að stjórna málum bæjarins finnst bærinn svo skelfilega ljótur og mannvirkin í honum svo menningarsögusnauð að þeir sjá þann grænstan að strika út það gamla og byrja á nýrri sögu?

Setjum nú sem svo að ég ætti alveg ofboðslega mikið af peningum og byðist til að reisa nýtt, sérhannað leikhús og afhenda það Leikfélagi Akureyrar til afnota með því skilyrði að ég fengi Samkomuhúsið keypt til niðurrifs og heimild til að byggja mér einbýlishús í gotneskum stíl þar sem Samkomuhúsið stendur nú. Væru bæjaryfirvöld til viðtals um þetta?

Það myndu sannarlega allir hagnast, bæði bærinn og leikfélagið, og ég fengi að búa þar sem mig hefur alltaf langað til að eiga heima. Myndu bæjaryfirvöld ekki sjá neina meinbugi á því að Samkomuhúsið yrði rifið, svo fremi sem LA fengi annað heimili (og meira að segja mun leiklistarvænna) og enginn kostnaður félli á bæjarsjóð?

Ég er ekki að leggja menningarsögulegt verðmæti Hótels Akureyrar að jöfnu við Samkomuhúsið, heldur spyrja hvort bæjaryfirvöld myndu draga línu einhvers staðar og segja hingað og ekki lengra? Hvar væri þá sú lína? Eða er það afstaða yfirvalda í bænum að þar sem "menningarsögulegt gildi" er afstætt og óhjákvæmilega komið undir mannlegu mati sé þegar á hólminn kemur ekki hægt að draga neina línu?

Hver hefðu orðið örlög gamla barnaskólans, sem stendur við hliðina á Samkomuhúsinu ef eigendur fjárfestingabankans Saga Capital hefðu ekki ákveðið að endurbyggja hann með glæsibrag? Ég leyfi mér að fullyrða að menningarsögulegt gildi barnaskólans verður lagt að jöfnu við gildi Samkomuhússins.

Einhverntíma stóð til að rífa skólahúsið, og mikið vildi ég óska að það hafi verið að frumkvæði bæjaryfirvalda sem hætt var við að jafna það við jörðu. Ég veit ekki hver ákvað að endurbyggja húsið, en hafi yfirvöld ekki hvatt til þess væri gaman að vita hvort þeim hafi staðið nákvæmlega á sama. Finnst þeim kannski bara að tal um varðveislu gamalla húsa sé óraunsæ fúaspýtnakofarómantík?

Ég skal viðurkenna að ég veit lítið sem ekkert um sveitarstjórnalög, og það getur vel verið að í slíkum lögum séu beinlínis ákvæði um að bæjar- og sveitarstjórnir megi ekki kosta varðveislu gamalla húsa. En þetta er ekki einungis spurning um lagabókstafi. Núverandi bæjarstjórnarmeirihluti á Akureyri, sem og sá fyrrverandi, hefur ekki sýnt snefil af myndugleika í skipulagsmálum, heldur virðist eingöngu rekinn áfram af bláköldum peningasjónarmiðum.

Myndugleiki gæti til dæmis birst í því að bæjarstjórnarmeirihlutinn sýndi að hann beri skynbragð á sögu bæjarins eins og hún verður lesin úr húsunum sem risið hafa, eitt af öðru, hvert á sínum tíma og hvert eftir einkennum síns tíma, og þannig smám saman gert bæinn að þeim bæ sem hann er. Ef bæjaryfirvöld telja það algjörlega utan síns verkahrings að velta svona hlutum fyrir sér gætu þau sem best sparað peninga með því að leggja niður skipulagsnefnd bæjarins.


Uppreisn í miðborginni

Viðhorf, Morgunblaðið 29. ágúst, 2007

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi gætti þess vandlega í sjónvarpsviðtali um helgina að bera lof á lögreglumennina sem hann og fleira Samfylkingarfólk hafði farið með á vaktina í miðborg Reykjavíkur þá um nóttina. Dagur tók fram að íslensku lögregluþjónarnir væru hreint ekki eins og kleinuhringjaétandi löggurnar sem maður sér í bandarískum bíómyndum.

Þessi síðastnefnda athugasemd hans var nú dálítið hallærisleg og einhvernvegin skot yfir markið, en það var þó gott hjá honum að tala um það að lögreglan ynni gott og vanþakklátt starf þarna á ófriðarsvæði 101. Mér finnst líka gott hjá Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra að hnykla vöðvana á armi laganna svolítið.

En Dagur hefði í þessu sambandi mátt hafa orð á því sem miklu skiptir þegar friðelskandi borgarbúar hafa nú allt í einu tekið upp á því að höfða til lögreglunnar að skakka næturleikinn í 101, það er að segja smánarlegum laununum sem lögreglumönnunum eru greidd fyrir varðstöðuna.

Það vita allir sem vilja að reyndir lögreglumenn hafa verið að segja upp störfum vegna lélegra launa, en lögreglumennirnir sjálfir ræða það ekki opinberlega, sem er á sinn hátt afskaplega virðingarvert. Þess vegna hefði verið flott hjá Degi að taka upp hanskann fyrir lögreglumennina að þessu leyti, í stað þess að segja eitthvað kjánalegt eins og það að þeir séu ekkert að borða kleinuhringi á næturvaktinni.

Hún er óneitanlega athyglisverð þessi uppreisn sem þögli meirihlutinn virðist nú vera farinn að gera gegn hávaðasama minnihlutanum sem leggur undir sig miðborgina um nætur um helgar, og í skjóli myrkurs og ölæðis veldur þar í besta falli ferlegum sóðaskap og í versta falli eignaspjöllum og alvarlegum áverkum.

Hvað kemur til? Af hverju núna? Tölur benda ekki til þess að ástandið hafi versnað sérstaklega upp á síðkastið. Hvað hefur þá breyst? Líklega er það upplifun fólks á ástandinu í miðborginni sem hefur breyst, og líka er farið að örla á þeirri hugmynd að þetta sé kannski ekki ofureðlilegt og óumbreytanlegt ástand sem maður geti ekki gert annað með en að sætta sig við.

Skyndilega eru málsmetandi miðborgarbúar farnir að tala um að þeir séu jafnvel hálf smeykir í nærumhverfi sínu á nóttunni. Þetta er ekki fólk sem er þekkt að því að reka einstrengingslegan bindindisáróður. Þvert á móti hefur það hingað til talað fyrir umburðarlyndi, frjálslyndi og skemmtilegheitum.

En núna er þetta fólk að því er virðist farið að krefjast síns eigin réttar - til svefnfriðar, þó ekki væri annað. Grein Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur á miðopnu Morgunblaðsins á mánudaginn var metfé. Grípandi lýsing á upplifun hennar á stöðu mála, og slíkt segir mun meiri sögu í þessum efnum en tölulegar staðreyndir, vegna þess að þetta mál snýst um samskipti fólks.

Þegar svo er skipta tölulegar staðreyndir um fjölgun eða fækkun tilkynntra afbrota á tilteknu svæði engu máli. Tölulegar staðreyndir myndu kannski skipta meginmáli ef um kaupsýslu væri að ræða, en þetta eru ekki viðskipti heldur samskipti.

Ég verð þó að segja að ég skil vel viðhorf lögreglumannanna sem Fríða lýsti í greininni. Þeir verða að velja sér orrustur af gaumgæfni og ekki eyða kröftum í það sem er minniháttar vegna þess að alltaf má reikna með að rétt handan við hornið bíði bókstaflega átök þar sem þarf að hafa undir snarbrjálaða menn.

Merkilegt má telja að lögreglumennirnir séu yfirleitt til í slaginn fyrir þau lúsarlaun sem þeir fá. En um þá gildir líklega það sama og aðrar umönnunarstéttir á Íslandi og víðar. (Því að auðvitað eru lögreglumenn að sinna umönnunarstarfi þegar þeir fara heim með meðvitundarlausa unglinga, eða koma í veg fyrir að ölóðir sjóðstjórar og blaðamenn berji hvorir aðra í spað).

Þeir sem eru í umönnunarstörfum láta sig nefnilega oft hafa það að þiggja léleg laun vegna þess að samfélagslegt mikilvægi starfa þeirra er á sinn hátt umbun erfiðisins. (Þó er vægast sagt siðferðislega vafasamt af hálfu valdhafanna að gera út á þetta, eins og þeir virðast gera). Þeir sem aftur á móti sinna störfum sem ekki eru samfélaginu jafn mikilvæg verða hinsvegar að fá öðru vísi umbun, og hún er í langflestum tilvikum í formi auðs og valda, og/eða athygli fjölmiðla og almennings.

Þeir síðarnefndu eru því í raun mun háðari þeim fyrrnefndu en útlit kann að vera fyrir ef fljótt er á litið. Á þetta reynir nú í Reykjavík á fleiri vígstöðvum en einum, og eru miðborgarvígstöðvarnar aðeins eitt dæmi - að vísu afskaplega dramatískt.

Fróðlegt verður því að fylgjast með hvernig orrustunni um miðborgina lyktar. Mun lögreglunni endast mannskapur til að koma á einhverskonar friði, eða neyðast þeir sem friðarins óska til að hækka laun lögreglumanna svo að fjölga megi nægilega í stéttinni til að hún geti haft hemil á villtum borgurum? Að minnsta kosti er það ekki rétta aðferðin að skammast út í lögregluna.

Fríða Björk sagði í grein sinni að það sem ylli ósköpunum í miðborginni væri skortur á velsæmi og tillitssemi. Þar hitti hún naglann á höfuðið. Þess vegna kemur tvennt til greina til að bæta ástandið: Að fara og tala um fyrir næturgestum miðborgarinnar og fá þá til að gæta velsæmis og vera tillitssamir; eða að þeir verði fjarlægðir - þá væntanlega af lögreglunni.

Er líklegt að þessi mannskapur taki fortölum?


Í fyrirmyndarríki fegurðarinnar

Um bókina Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins, eftir Friedrich Schiller, útg. Hið íslenska bókmenntafélag. Lesbók 25. ágúst 2007.

Þegar Ólafur Kárason Ljósvíkingur gengur á jökulinn og þar með á vit örlaga sinna í lok Heimljóss Halldórs Laxness telur hann sig vera að ganga á vit hinnar hreinu fegurðar, inn í tilveru sem er að öllu leyti laus við hinn áþreifanlega veruleika - í tilveru þar sem "búa ekki framar neinar sorgir...þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."

Í upphafi sögunnar, þegar Ólafur er barn, er "lángt síðan hann byrjaði að þrá óskiljanlega huggun." Sagan fjallar um þær hremmingar sem verða á vegi Ólafs í leit hans að þessari huggun, og í lokin virðist hann finna hana með því að ganga inn í ríki fegurðarinnar. En til þess að komast þangað verður hann að yfirgefa veruleika hins áþreifanlega heims, því að allt í heimi hlutanna hefur reynst honum fjötur um fót og komið í veg fyrir að hann fyndi huggunina sem hann hafði leitað frá því hann var barn.

Heimsljós felur þannig í sér ákveðna fagurfræði, eða hugmynd um hvað fegurðin er, og kannski umfram allt hvað hún er ekki: Fegurðina er aldrei hægt að öðlast í þessum heimi, hann er grófur og ruddalegur, miskunnarlaus og skilningslaus. Samkvæmt þessari fagurfræði er fegurðin einna líkust Guðsríki, og maður öðlast hana ekki fyrr en maður segir skilið við jarðlífið. Þetta er harkaleg fagurfræði; fegurðin gerir samkvæmt þessu ómannlegar kröfur. Líkindin við kenningar ómannúðlegustu afbrigða kristninnar eru auðvitað augljós, en það er önnur saga.

Sú fagurfræði sem Schiller bar á borð í bréfum sínum um fagurfræðilegt uppeldi mannsins er öllu hógværari og mannúðlegri, því að samkvæmt henni er fegurðin órofa tengd hinum áþreifanlega heimi sem maðurinn býr í, og ef hann afneitar þessum heimi fyrirgerir hann í rauninni möguleika sínum á að upplifa fegurðina og öðlast skilning á henni. Samkvæmt Schiller hefði Ólafur Kárason skáld því endanlega fyrirgert möguleikanum á að öðlast huggun fegurðarinnar með því að ganga á jökulinn og bera þar beinin.

Samkvæmt hugmyndum Schillers er fegurðin einskonar sáttasemjari þeirra öfga sem bítast á í manninum, annarsvegar óyfirvegaðra náttúruhvata hans, sem leita aldrei eftir öðru en tafarlausri fullnægingu líkamlegra hvata einstaklingsins; og hins vegar skilyrðislausra krafna hreinnar skynsemi, sem taka ekkert tillit til mannlegra þarfa og hafna því að einstaklingurinn skipti máli. Schiller, líkt og Hegel og fleiri þýskir hughyggjumenn, var ákaflega gagnrýninn á ofuráherslu Upplýsingarinnar á einræði skynseminnar, og taldi ógnarstjórnina sem fylgdi í kjölfar frönsku byltingarinnar sýna hvernig það einræði birtist í raun.

Fegurðin sameinar og skapar víxlverkun á milli efnis og forms. Upplifun fegurðar er hvorki fólgin í algjörlega óyfirvegaðri skynjun, án allrar mótunar af hálfu hugsunarinnar, né skilningi á hreinu formi sem hefur verið hreinsað af öllu innihaldi. "Við þurfum því ekki lengur að vera í vandræðum með að finna leið frá því ósjálfstæði sem fylgir okkur sem skynverum til siðferðislegs frelsis, þegar fegurðin hefur sýnt að þetta tvennt getur farið fullkomlega saman, og að maðurinn þarf alls ekki að flýja frá efninu til þess að rækja hlutverk sitt sem andleg vera" (bls. 231).

Þessu hlutverki gegnir fegurðin ekki aðeins í listum og menningu. Hið fagurfræðilega uppeldi mannsins nær til allra þátta mannlífsins, jafnt listsköpunar sem stjórnmála og afstöðu til náttúrunnar. Hugmyndir Schillers um það síðastnefnda fela hvorki í sér að manninum beri að láta náttúruna með öllu ósnortna og einungis tengjast henni með því að skynja hana, né að hann skuli takast á við hana og ekki tengjast henni nema að því marki sem hann nytjar hana. "Hinn siðmenntaði maður gerir náttúruna að vini sínum og virðir frelsi hennar um leið og hann hemur duttlunga hennar" (bls. 83). Fagurfræðileg afstaða til náttúrunnar felur í sér að henni er sýnd virðing, en um leið er trúað á "vilja hennar til að hlýða...leiðsögn" (bls. 255).

Bréf Scillers um fagurfræði bera skýr merki um skyldleika við skrif annarra helstu postula þýsku hughyggjunnar, eins og til dæmis Hegels. Hér má sjá glöggt dæmi um hvernig díalektísk orðræða mjakast áfram með rykkjum og skrykkjum í ýmsar áttir - virðist oft hafna því sem hún var nýbúin að fullyrða, svo að lesandinn verður dálítið ringlaður - en þarna er í rauninni um að ræða að sami hluturinn er skoðaður (sagður) frá öðru og þá kannski andstæðu sjónarhorni til þess að leiða betur í ljós hvernig hann er í raun og sanni.

Þannig fer Schiller á mikið og skáldlegt flug undir lok síðasta bréfsins í lýsingum á "hinu fagurfræðilega" ríki þar sem manninum hefur verið beint inn í hugsjónaheiminn. En hann lýkur ekki máli sínu með því að segja að hann boði mönnunum þarna mikinn fögnuð og frelsun, heldur staldrar skyndilega við og spyr hvort þetta ríki sé í rauninni til einhvers staðar. Hvort þessi hugsjón geti virkilega orðið að áþreifanlegum raunveruleika.

Svarið einkennist af varkárni: Þetta ríki er vissulega til sem þörf í sálum yfirvegaðra manna, en sem eiginlegur veruleiki má í mesta lagi ætla að það gæti verið að finna "hjá fáeinum útvöldum hópum" (bls. 256). Með öðrum orðum, það er ekki mögulegt sem áþreifanlegur veruleiki alls mannkyns. Raunveruleiki hins fagurfræðilega ríkis er því ákaflega takmarkaður, en þar með er alls ekki sagt að við verðum að hafna hugmyndinni og setjast við teikniborðið á ný, eins og er gjarnan krafa síðari tíma heimspekinga ef hugmyndir ganga ekki fullkomlega upp. Slíkt væri blekkingarleikur. Það er einfaldlega hluti af sannleikanum um hið fagurfræðilega ríki að það er hugmynd en ekki framkvæmdaáætlun.


Sarko sprettur

Viðhorf, Morgunblaðið 22. ágúst, 2007

Franskir heimspekingar hafa löngum verið vandir að vitsmunum sínum. Þeim er líka í mun að ekkert varpi skugga á ímynd Frakklands sem heimalands yfirvegaðrar gagnrýni og hugsunar.

Það er líklega þess vegna sem að minnsta kosti einn franskur spekingur hefur harmað að nýi forsetinn, Nicolas Sarkozy, skuli fara út að hlaupa á hverjum morgni, hundeltur af fjölmiðlamönnum sem hafa ekki vanist því að geta tekið myndir af forseta lýðveldisins með bera fótleggi og löðrandi í svita.

Fjölmiðlar hafa haft eftir umræddum heimspekingi, Alan Finkelkraut, sem mun hafa verið einn helsti forsprakki 68-hreyfingarinnar (það kann að útskýra ýmislegt), að það sé beinlínis niðurlægjandi að forseti lýðveldisins skuli láta sjá sig sveittan og hlaupandi.

Gott og vel. Finkelkraut fær kjánahroll og finnst heimskulegt að skokka. Vill kannski heldur að forsetinn sitji gáfulegur á Café Flora með nikótíngula fingur og yppti öxlum eins og sönnum frönskum gáfumanni sæmir. En málið er ekki svona einfalt. Finkelkraut þessi - og ef marka má fjölmiðla eru ýmsir landar hans og fagbræður honum sammála - lítur svo á, að skokk ("le jogging" heitir það víst) hafi pólitíska vídd og sé einhvernvegin hægrisinnað.

Hvernig fá menn það út? Skokk - og væntanlega önnur líkamsrækt - er birtingarmynd sjálfhverfrar hugsunar. Hugsun skokkarans hverfist um hans eigin líkama, en leitar ekki út fyrir búkinn á vit hreinna hugmynda sem eru altækar og þannig ekki bundnar neinni tiltekinni "hér-veru" (svo maður bregði nú fyrir sig heimspekilegu orðalagi).

Skokkarinn leitast við að rækta sjálfan sig, og vegna þess að ræktunin beinist að líkamanum er hún bundin við skokkarann sjálfan, en leitar ekki út fyrir hann. Skokk er því einstaklingshyggja. Þar að auki felur skokk og líkamsrækt í sér stjórnun og rekstur líkamans og er því í eðli sínu kapítalískt athæfi. Að ekki sé nú minnst á að skokk og skipulögð líkamsrækt er upprunnin í Bandaríkjunum, og tengist þannig menningareyðandi fyrirbærum á borð við McDonald´s.

TimesOnline sagði að Finkelkraut hefði komið fram í sjónvarpi og beðið Sarkozy þess lengstra orða að hætta þessu ósæmilega athæfi. Skokk væri fyrir neðan virðingu forseta Frakklands. Þess í stað lagði Finkelkraut til, að Sarkozy færi í gönguferðir að hætti Sókratesar og Rimbauds, og fleiri andans stórmenna.

Finkelkraut sagði í sjónvarpinu: "Vestræn menning, í sinni glæsilegustu mynd, varð til í gönguferð. Ganga er athæfi sem höfðar til tilfinninganna og hugsunarinnar. Skokk er stjórnun á líkamanum. Skokkarinn segir: Ég stjórna. Það hefur ekkert með yfirvegun að gera."

Nú má vera að Finkelkraut hafi verið að grínast. Franskir heimspekingar hafa löngum verið gjarnir á að meina ekkert með því sem þeir segja og yppta bara öxlum ef einhver andmælir þeim. Vegna þess að orðræða, en ekki rökræða, er grundvöllur franskrar nútímaheimspeki. En setjum nú sem svo, að Finkelkraut hafi verið fúlasta alvara. Hvernig væri þá helst hægt að svara honum?

Í fyrsta lagi mætti benda á að afstaða hans virðist ganga út frá aðskilnaði sálar og líkama, það er að segja, hann virðist ekki líta svo á að ástand líkamans hafi nein áhrif á hugsunina og sálina. Getur ekki verið að með því að fara út að hlaupa sé Sarkozy - og ótal aðrir skokkarar - ekki einungis að hugsa um líkamann heldur einnig um hugann og sálina? Það hafa ótal rannsóknir sýnt fram á að líkamsrækt getur gefist jafn vel, og jafnvel betur en lyf gegn þunglyndi.

Nýleg bresk rannsókn leiddi í ljós að það þarf ekki nema örstuttan sprett, hálfa mínútu eða svo, til að skerpa hugann til muna. Þátttakendur í rannsókninni voru 22. Þeir tóku einn stuttan sprett (á reiðhjóli reyndar) eins og lungun leyfðu, og í 75 mínútur á eftir fundu þeir til minni spennu, reiði og hugsunaróreiðu. Höfundur rannsóknarinnar er dr Dominic Micklewright, við Háskólann í Essex, og segir hann að mikil líkamleg áreynsla í stutta stund þreyti hugann og setji hann aftur á byrjunarreit.

Það þarf auðvitað ekki að vitna í neinar tilteknar rannsóknir til að sýna fram á að líkamsrækt hefur bætandi áhrif á huga og sál. Þetta eru álíka viðtekin vísindaleg sannindi og að jörðin er hnöttótt. Þess vegna er undarlegt að frönsku heimspekingarnir skuli halda því fram, að le jogging snúist um stjórnun líkamans. Það er allt eins líklegt að þetta óvirðulega athæfi franska forsetans miði að því að hreinsa hugann. En það er kannski ekki mjög heimspekilegt að hreinsa hugann, eða hvað?

Við nánari athugun kemur í ljós, að það sem Finkelkraut og aðrir sem gagnrýna Sarkozy fyrir skokkið hafa í rauninni í huga er ekki að skokk sé slæmt fyrir sálina og andann (það stangast einfaldlega á við staðreyndir að halda slíku fram). Nei, þeim finnst skokkið sverta ímynd forsetans, og þar með Frakklands sem heimalands skynsemi og vitsmuna. Skokk samræmist ekki ímynd frönsku vitsmunaverunnar.

Aðalatriðið í þessari gagnrýni á afstöðu Finkelkrauts er það, að þeir eru í rauninni ekki að hugsa um inntak og áþreifanlegan veruleika, heldur ímynd og yfirborð. Það er ekki sérlega vitsmunalegt. Ef út í það er farið, hafa ekki ímynd og yfirborð verið talin ein helstu einkenni amerískrar neysluhyggju og kapítalisma?

Það skyldi þó ekki vera að ímynd og yfirborð séu, þegar skyggnst er undir yfirborðið, stórir þættir í franskri vitsmunahyggju?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband