Er græðgi góð?

Viðhorf sem birtist í Morgunblaðinu 14. október 2005.

Fyrirsögnin á þessum pistli skírskotar til frægrar setningar úr kvikmyndasögunni. Michael Douglas mælti hana af vörum í hlutverki Gordons nokkurs Gekkos í kvikmyndinni Wall Street sem Oliver Stone gerði 1987. "Græðgi er góð," sagði hann.

Hann sagði reyndar margt fleira en þessi setning var þungamiðja myndarinnar og það sem er minnisstæðast úr henni. Græðgi var nákvæmlega það sem myndin fjallaði um og var meira að segja vinnuheiti hennar.

Þessi setning sem endurómaði af hvíta tjaldinu var hluti af lengri ræðu sem Gekko hélt í myndinni. Ræðunni lýkur svona: "Það sem ég á við, dömur mínar og herrar, er að græðgi - ef svo má að orði komast - er góð. Græðgi er rétt. Græðgi skilar árangri. Græðgi skerpir, tekur af allan vafa og er kjarninn í allri framþróun. Græðgi í öllum sínum myndum - lífsgræðgi, peningagræðgi, ástargræðgi, þekkingargræðgi - hefur einkennt framrás mannkynsins."

Því hefur verið haldið fram undanfarið að græðgi sé nú farin að setja meiri svip á íslenskt samfélag en nokkru sinni fyrr. Og það fylgir í flestum tilfellum slíkum fullyrðingum sú afstaða að þetta sé slæmt. Að vísu hafa einhverjir orðið til þess í umræðunni núna að taka undir með Gekko og þá einmitt á einhverjum svipuðum forsendum - að græðgi sé drifkraftur. Komi í veg fyrir stöðnun. Að án hennar væru mennirnir enn á steinaldarstigi.

Án þess að hérna í þessum pistli verði tekin afstaða til þess hvort græðgi er góð eða vond verður ekki hjá því komist að segja að hún sé dálítið vafasöm. Af einhverjum ástæðum fyrirverður maður sig ef maður verður var við hana í sjálfum sér - og hver verður það ekki? Getur verið að maður sé bara svona bældur eða lifir virkilega enn í þeim gömlu glæðum sem eru dauðasyndirnar sjö - þar sem græðgi var ofarlega á blaði?

Það sem Grétar Þorsteinsson vék að á ársfundi Starfsgreinasambands Íslands í síðustu viku

og kemur fram í tilvitnuninni hér að ofan er reyndar öllu líklegri ástæða þess að græðgi þykir harla nöturleg - hún er talin fela í sér afneitun á gildum á borð við samkennd og samhjálp. Hún feli í sér að sá gráðugi einblíni á eigin langanir og þrár, taki sjálfan sig fram yfir aðra. Græðgi leiði þannig til síngirni og yfirgangssemi. Hvorugt er sérlega aðlaðandi.

Hvers vegna er maður gráðugur? (Ég leyfi mér að fullyrða að enginn sé alveg laus við græðgi - þótt fólki gangi misjafnlega vel að bæla hana með sér.) Græðgi er í grundvallaratriðum óseðjandi þrá eftir meiru. Sífellt ósætti við ríkjandi ástand. En græðgi er ekki andhverfa samhjálpar (síngirni er andhverfa hennar) heldur ánægju. Að una sínu - vera ánægður - er andstæða þess að vera gráðugur.

Þetta er ekki einungis spurning um mismunandi hugtök. Þetta er beinlínis spurning um mismunandi staði í heilanum, ef marka má taugalíffræðina. Óseðjandi þráin eftir meiru á rætur að rekja til heilastöðva sem þróuðust í árdaga mannkynsins og gegnir þar efnið dópamín lykilhlutverki. Þessar heilastöðvar hafa með að gera löngunina til að seðja hungur og svölun fíkna. Ánægja á aftur á móti rætur að rekja til annarra svæða í heilanum og þar leika önnur efni aðalhlutverkið - með serótónín fremst í flokki.

Þessir tveir staðir í heilanum starfa hvor í sínu lagi. Og það er lykilatriðið. Löngunarstöðvarnar eru sívirkar og þess vegna veldur sumt manni stanslausri löngun en aldrei neinni ánægju. Eins og til dæmis nikótín. Skilin á milli heilastöðvanna valda því að ánægjustöðin getur aldrei sagt löngunarstöðinni að nú sé komið nóg og mál að hætta að langa. Nei, löngunarstöðin heldur endalaust áfram, jafnvel þótt ánægjustöðin sé á fullu. Þess vegna eru sífella og endaleysi grundvallaratriði í græðgi.

Nýlega var í The Sunday Times haft eftir breskum sálfræðingi að vestrænt hagkerfi beinlínis höfði til löngunarstöðvanna en ekki ánægjustöðvanna. (Reyndar mætti velta því fyrir sér hvort vestrænt hagkerfi - þ.e. kapítalismi - sé ekki einfaldlega afsprengi þess hvernig löngunarstöðvar mannsheilans virka, en það er önnur og flóknari saga.)

Í þessum orðum sálfræðingsins er fólgin skemmtileg og hugsanlega frjó tenging á milli taugalíffræði og hagfræði sem gefur möguleika á að fjalla um græðgi á svolítið öðrum forsendum en siðferðilegum og trúarlegum. En rétt er að taka skýrt fram, að það er ekki þar með sagt að siðferðilegu og trúarlegu forsendunum sé ýtt til hliðar og græðgi réttlætt sem "mannlegt eðli".

En af þessum líffræðilegu skýringum á græðgi má draga ályktanir sem veitt geta svör við því hvers vegna jafnvel sannfærðustu sósíalistar standa sjálfa sig að því að langa í stærri jeppa og stærra hús. Og af þessum skýringum má einnig draga ályktun sem getur útskýrt hvers vegna græðgi er í það minnsta vafasöm:

Græðgi er í rauninni andhverfa ánægju en ekki samhjálpar og samvinnu. Ályktunin sem við blasir er því sú, að græðgi eigi sér rætur í sífelldri og endalausri óánægju með það sem er. Óánægja er grunnstefið í allri tilveru þess gráðuga og ekkert útlit fyrir að nokkurntíma verði breyting á því.


Um tvítyngi

Viðhorf, Morgunblaðið 28. febrúar, 2006

Er eitthvað til sem hægt er að kalla "eiginlega ensku"? Enska er útbreiddasta tungumál sem nokkurntíma hefur verið til í heiminum. Nú er áætlað að hálfur annar milljarður manna tali hana, og samkvæmt nýlegri breskri könnun mun fjöldi þeirra sem eru að læra ensku ná tveim milljörðum innan tíu ára. Þetta kom nýverið fram í umfjöllun kanadíska dagblaðsins The Globe and Mail um stórsókn enskunnar. Bara í Kína eru núna um 250 milljónir manna að læra ensku. Þeir sem tala ensku sem annað mál eru nú orðnir fleiri en þeir sem eiga hana að móðurmáli. Og þetta fólk, sem hefur ensku að öðru máli, talar hana með sínum hætti - bætir í hana orðum og framburði.

Þetta gerist vegna þess að enskan er orðin heimsmál. Þar með er hún í grundvallaratriðum orðin öðru vísi en mál sem bundin eru við ákveðna staði í heiminum, eins og til dæmis íslenska eða finnska. Og þar af leiðandi er ekki hægt að nota sömu forsendur og mælikvarða þegar maður talar um enskuna og þegar maður talar um íslensku. Það er til dæmis ekki hægt að tala um "eiginlega ensku", þótt ef til vill sé hægt að tala um eiginlega íslensku.

Þess vegna eru það ónýt rök að segja ómögulegt að Íslendingar geti orðið tvítyngdir vegna þess að þeir geti ekki lært ensku til hlítar, og séu í rauninni mun verri í henni en þeir sjálfir halda í heimóttarskap sínum.

Það eru til óteljandi afbrigði af ensku. Hver þeirra er hin "eiginlega enska"? Það er til kínversk enska (kínenska), hindi-enska, bresk-enska, bandarísk-enska, kanadísk-enska - og hvers vegna í veröldinni ekki ísl-enska? Þótt maður sé ekki fæddur í Bretlandi getur maður náð góðum tökum á ensku. Og þótt maður sé fæddur í Bretlandi getur maður haft takmarkað vald á ensku. Ég bendi á að Bandaríkjaforseti er fæddur í enskumælandi landi. Þarf frekari vitnanna við?

Og dæmið um Bush sýnir líka að kunnátta í "eiginlegri ensku" er fjarri því að vera skilyrði fyrir því að maður komist til metorða í heiminum. Jean Chrétien, fyrrverandi forsætisráðherra Kanada í hátt í áratug, talar afskaplega "óeiginlega" og á köflum algerlega óskiljanlega ensku.

Þegar talað er um að það sé æskilegt að Íslendingar verði tvítyngdir er ekki verið að tala um að við förum öll að hljóma eins og Hugh Grant. Við myndum líklega læra einhverskonar ísl-ensku. (Ef Íslendingur talar ensku án þess að rembast sérstaklega við einhvern tiltekinn hreim kemur í ljós hreinn og tær íslenskur hreimur sem er að ég held líka mjög vel skiljanlegur). Hvort orðaforðinn er takmarkaður eða ekki fer eftir hverjum og einum, hversu lunkinn hann er við að læra tungumál. Það er ekki sjálfgefið að enskur orðaforði Íslendings sé takmarkaður og geri hann hallærislegan í augum fólks sem talar ensku að móðurmáli. Afskaplega mörgum Bandaríkjamönnum finnst ekkert hallærislegt við Bush, og leyfi ég mér þó að fullyrða að margir Íslendingar tala betri ensku en hann.

Enska sem heimsmál lýtur líka að því leyti öðrum grundvallarlögmálum en staðbundin og menningarbundin mál, að mælikvarðinn á hana er allt annar en mælikvarðinn á menningarbundin mál (til dæmis íslensku). Mælikvarðinn á ensku sem heimsmál er skiljanleiki. Enska sem heimsmál er fyrst og síðast samskiptatæki. Íslenska sem menningarbundið mál er ekki fyrst og síðast samskiptatæki. Þess vegna er ekkert vit í því að bera saman heimsensku og íslensku. Þetta eru í grundvallaratriðum gerólík fyrirbæri.

Ef út í það er farið er líklega hægt að líta á ensku sem bæði heimsmál og sem menningarbundið mál, eða öllu heldur nokkur menningarbundin mál - í Skotlandi, Englandi, Írlandi, Kanada, Ástralíu, Bandaríkjunum og vísast fleiri menningarsvæðum þar sem íbúar hafa sérstaka útgáfu af ensku að móðurmáli. En það er ekki menningarbundin enska sem verið er að tala um í umræðunni um tvítyngi.

Þeir sem eru á móti hugmyndum um að reynt verði að auka möguleika Íslendinga á tvítyngi óttast kannski sumir að með því verði íslenskunni útrýmt. En rannsóknir sem gerðar hafa verið í Kanada á börnum innflytjenda benda til að það sé engin ástæða til að óttast um móðurmálið, sé það talað á heimilinu og innan fjölskyldunnar, þótt börnin læri ensku og tali hana við vini sína (sem vísast eru sprottnir úr einhverjum allt öðrum menningarheimi og eiga sér allt annað móðurmál) og í skólanum. Þótt vissulega séu aðstæður á Íslandi og í Kanada ekki sambærilegar gefa þessar niðurstöður þó vísbendingu um að ekki þurfi endilega að hafa miklar áhyggjur af íslenskunni þótt ensku sé bætt við.

Auk þess er ástæða til að ætla að vegna þess að menningarbundið móðurmál á borð við íslensku er öðru vísi fyrirbæri en tungumál á borð við heimsensku, sem fyrst og fremst er samskiptatæki, sé lítil hætta á að það síðarnefnda gangi af því fyrrnefnda dauðu.

Hvers vegna skyldu þeir sem leggjast gegn hugmyndum um tvítyngi hneigjast til að brennimerkja talsmenn tvítyngis óvini íslenskrar tungu? Hefur yfirleitt verið reynt að komast að því hvort aukin enskukennsla og -kunnátta á Íslandi myndi í raun og veru ógna íslenskunni? Eða hafa menn að rammíslenskum hætti bara látið skáldlega eðlisávísun og málglaða menn ráða ferðinni í þessu efni?


Vandráður viðutan

Viðhorf, Morgunblaðið 6. apríl 2006:

Íslenskar grunnskólastúlkur hafa lítinn áhuga á að verða vísindamenn, og skólabræður þeirra hafa lítið meiri áhuga á því. Þetta kemur alveg greinilega fram í könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum og sagt er frá í Rannísblaðinu 30. mars síðastliðinn. Þessar fréttir voru svo sem ekki óvæntar, fyrir ekki löngu síðan sagði fréttavefur breska ríkisútvarpsins frá því að þarlend grunnskólabörn hefðu ekki mikinn áhuga á að helga sig vísindunum.

Það er reyndar fleira sem íslensk og bresk grunnskólabörn eiga sameiginlegt í afstöðunni til vísinda. Til dæmis hafa börn í báðum löndum þá ímynd af vísindamönnum að þeir séu "utan við sig og nördalegir". Það má því ætla að prófessor Vandráður viðutan, góðvinur Tinna, lifi enn góðu lífi í hugum íslenskra og breskra skólabarna.

Það kemur ekki fram í greininni í Rannísblaðinu hvort íslenskir vísindamenn hafi einhverjar áhyggjur af þessu, en í fréttum BBC var haft eftir þarlendum starfsbræðrum þeirra að þetta væri mikið áhyggjuefni. Það hefur reyndar líka komið fram, að í Bretlandi hafa menn áhyggjur af því hversu fáir nemendur leggja stund á raungreinar, og þá sérstaklega eðlisfræði.

Nú má gerast svolítið raunvísindalegur og velta því fyrir sér hvort eitthvert orsakasamhengi sé milli ímyndar vísindamanna meðal grunnskólabarna og lítils áhuga barnanna á að leggja raunvísindi fyrir sig. Börnin - bæði á Íslandi og Bretlandi - töldu að starf vísindamannanna skipti miklu máli fyrir samfélagið allt, en það dugði ekki til.

Eitt af því sem fram kom hjá íslensku börnunum var sú hugmynd að "vísindamaður" sé karlmaður í hvítum slopp. Skyldi þetta vera ein ástæða þess að stúlkur eru síður líklegar til að verða vísindamenn. Eigum við að fara að tala um vísindakonur, þegar það á við, rétt eins og farið er að tala um þingkonur? Ef ég man rétt gildir það sama um stúlkur í Bretlandi og á Íslandi, að þær eru ólíklegri en strákar til að hafa áhuga á að gerast vísindamenn, og þar skiptir orðið ("scientist") engu máli þar sem það er kynlaust. Líklega er skýringin því flóknari.

Bresku vísindamennirnir, sem hafa áhyggjur af þessari þróun mála þar í landi, telja að ein helsta ástæðan fyrir því hvernig komið er sé sú, að kennsla í raunvísindagreinum í grunnskólum sé einfaldlega ekki nógu góð. Það vanti til dæmis kennara með menntun í þeim greinum sem kenndar eru. Of mikil áhersla sé lögð á að kennarar hafi kennaramenntun.

Í greininni í Rannísblaðinu, þar sem fjallað er um rannsókn sem Kristján Ketill Stefánsson, kennslufræðinemi í Ósló, gerði, er látið að því liggja að skortur á sjálfstrausti til að takast á við raunvísindi sé helsta ástæðan fyrir því að íslensk skólabörn geta ekki hugsað sér að verða vísindamenn. Stelpurnar hafa þá líklega minna sjálfstraust en strákarnir, ef þessar niðurstöður eru lagðar saman við þær sem áður voru nefndar, að stelpur séu ólíklegri en strákar til að vilja verða vísindamenn.

En líklega er ástæðan enn flóknari. Því er haldið fram, að stúlkur séu jafnan fyrri til að öðlast félagsþroska en drengir og að þær séu félagslega meðvitaðri en þeir. Kennarar hafa sagt frá dæmum um að stelpur beinlínis þykist heimskari en þær eru til þess að forðast að fá á sig nördastimpil. Nördar eiga nefnilega erfitt með að falla inn í jafningjahópa. Það er eiginlega partur af skilgreiningunni á "nörd" að hann á fáa vini, einfaldlega vegna þess að aðrir krakkar skilja hann ekki. Og flestum krökkum - kannski stelpum sérstaklega - finnst mest um vert að eiga vini. Það er í þeirra augum mikilvægara en að vinna einhver afrek, og lykillinn að hamingjunni. Sumir krakkar hafa sagt eftir á, að í barnaskóla skipti vinirnir mestu - á efri skólastigum fari námið að verða meira um vert.

Þess vegna langar grunnskólakrakkana ekki til að verða vísindamenn, jafnvel þótt þeim finnist starf vísindamanna mikilvægt. Vísindamenn hafa nefnilega enn þá ímynd að þeir séu nördar. Þeir eru Vandráður viðutan.

Þetta er slæmt af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að þetta er á misskilningi byggt. Vísindamenn eru ekki meira viðutan en gengur og gerist. Ímyndin er röng. Í öðru lagi vegna þess að þetta dregur úr möguleikum krakkanna á að öðlast þekkingu og skilning sem þau gætu vel öðlast án þess að verða þar með að nördum. Vísindaleg þekking er öllum aðgengileg - ekki bara einhverjum "snillingum".

Og þarna dúkkaði svo ef til vill upp toppur á borgarísjakanum sem þetta mál er: Rómantíska hugmyndin um snillinginn - mann sem af innsæi sínu og náðargáfu getur fundið svör við stórum spurningum - lifir enn góðu lífi í fjölmiðlum og afþreyingarefni. Það þarf að drepa þennan snilling. Eða öllu heldur, það þarf að útrýma þessari rómantísku dellu.

Hvernig er hægt að fara að því? Það sem þyrfti fyrst og fremst að breytast er sú hugsun að vísindamenn séu gáfaðri en annað fólk. Þá myndi nördastimpillinn um leið hverfa af vísindamönnum og krökkum gæti farið að finnast óhætt að hugsa sér að verða vísindamaður. Þetta myndi ekki aðeins létta krökkunum lífið, þetta myndi líka auka veg vísindanna.


Snjöllin trúa ekki á huldufólk

Lesbók, 4. september 2004

Bandaríski heimspekiprófessorinn Daniel C. Dennett lýsti því yfir í grein í The New York Times í fyrra, að tími væri kominn til að "snjöllin" kæmu út úr skápnum. "Snjöll" er íslensk þýðing á enska orðinu "Brights", sem Dennett notar, og er því hvorugkynsnafnorð í fleirtölu - í nefnifalli eintölu er það "snjall", og beygist að sjálfsögðu eins og "fjall".

En hvað er "snjall"? Dennett segir: "Snjall er einstaklingur sem er náttúruhyggjusinni og trúir ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri. Við snjöllin trúum ekki á drauga, álfa eða páskahérann - og ekki heldur á Guð." Dennett tekur lesendum sínum vara við að líta á "snjall" sem lýsingarorð. ""Ég er snjall" er ekki mont, heldur yfirlýsing um að lífsviðhorf manns einkennist af þekkingarþorsta," segir hann.

Dennett fullyrðir að snjöllin þurfi að taka höndum saman því að þau eigi undir högg að sækja í Bandaríkjunum, þar sem þeir er ekki trúi á Guð eigi á hættu að vera gerðir hornreka í samfélagi sem einkennist af miklum trúarhita. Óneitanlega hvarflar það svo að manni, að ekki sé útlit fyrir að samtök sem beinlínis hafa það í stofnskrá sinni að félagsmenn trúi ekki á álfa gætu átt upp á pallborðið á Íslandi, því telja má víst, að huldufólk falli í þann fyrirbæraflokk sem snjöllin afneita. Og samkvæmt þessu myndi meirihluti Íslendinga ekki geta talist til snjalla.

Dennett er einn af þekktari heimspekingum samtímans, og bækur hans, sem eru ófáar, seljast vel og verða umdeildar. Afstaða hans er skýr. Í grein um hann í The Guardian í apríl síðastliðnum var vitnað í næstu bók sem væntanleg er frá honum. Þar segir meðal annars:

"Ég efast ekki um það eitt andartak, að hin veraldlega og vísindalega heimsmynd er rétt, og að hana ættu allir að hafa. Undanfarin árþúsund hefur orðið ljóst, að hjátrú og trúarsetningar verða einfaldlega að víkja." Viðbúið er að póstmódernistum detti í hug að Dennett sé í rauninni sjálfur heittrúaður - það er að segja að hann sé vísindatrúar.

Að minnsta kosti virðist ekki fara mikið fyrir efasemdum hjá honum um það mikilvæga hlutverk er hann telur snjöllin gegna í bandarísku þjóðlífi. Í greininni í NYT segir hann: "Við [snjöllin] erum í rauninni siðferðisleg undirstaða þjóðlífsins: Snjöll taka borgaralegar skyldur sínar alvarlega, einmitt vegna þess að þau treysta Guði ekki til að bjarga mannkyninu frá villuráfi."

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að kaldhæðnislegum viðbrögðum við skrifum Dennetts rigndi yfir snjöllin. Dinesh D'Souza, rithöfundur og sérfræðingur við Hoover-stofnunina, skrifaði í The Wall Street Journal að ekki færi milli mála hvað fælist í orðum Dennetts: "Snjöll eru gáfaða fólkið sem lætur ekki blekkjast af heimskulegri hjátrú."

Dennett, líkt og margir trúleysingjar, skrifar D'Souza, telur að trúleysingjar séu einfaldlega snjallari - skynsamari - en trúaðir. Þeir hugsi sem svo: "Við trúleysingjarnir beitum gagnrýnni hugsun, en þeir trúuðu trúa í blindni." En ef nánar sé að gáð komi í ljós að Dennett og hin snjöllin vaði í rökvillu, sem ef til vill megi kenna við Upplýsinguna.

Þessi Upplýsingarrökvilla sé fólgin í þeirri sannfæringu, að mannkynið geti uppgötvað sífellt meira um heiminn uns þar komi, að ekki sé meira að uppgötva. Með skynsemina og vísindin að vopni geti mennirnir afhjúpað raunveruleikan allan eins og hann leggur sig. D'Souza vísar í engan annan en Immanúel Kant, sem hann segir hafa sýnt fram á að þessi sannfæring Upplýsingarinnar gangi ekki upp.

Það má ef til vill hrista þessar athugasemdir D'Souzas af sér með því að segja að hann sé alræmt íhald og WSJ helsta hægrimannamálgagnið í Bandaríkjunum. En það verður ekki sagt um bandaríska "ríkisútvarpið", National Public Radio, að það sé íhaldsmálpípa og því ekki hægt að gera þannig lítið úr orðum Stevens Waldmans í NPR, sem var engu hrifnari af "Snjallahreyfingunni" en D'Souza.

"Ekki veit ég hvað ímyndarsmiðirnir ætluðu sér, en orðið "snjall" bendir til að þetta fólk telji sig gáfaðra en aðra. Ég geri ráð fyrir að við hin séum þá einhverskonar "ósnjöll"," segir Waldman. Þetta orðaval sé svo óheppilegt að þeir sem fundu upp á þessu (einhver tvö "snjöll" í Kaliforníu, að því er Dennett upplýsir) hefðu eins getað valið orðið "oflátungar" eða "monthanar".

Margir sem hafa tjáð sig á prenti um þetta nýja fyrirbæri - snjöllin - virðast í rauninni ekki hafa neitt á móti þessu nema orðið "snjall". Það sem orðið vísar til - einstaklings sem ekki trúir á guð og telur að finna megi náttúrulegar útskýringar á hverjueina - er enda vel þekkt fyrirbæri, og jafnvel enn frekar hér í Skandinavíu en í Bandaríkjunum. (Þó að þetta með álfana og huldufólkið veki stórar spurningar um möguleika snjalla í íslensku samfélagi).

Að skilgreina sjálfan sig sem "snjall" felur óhjákvæmilega í sér að maður aðgreinir sig með því frá öðrum og þannig er í rauninni ekki hægt að nota orðið "snjall" nema vekja um leið óminn af einhverskonar andheiti þess - ósnjall, heimskur, vitgrannur, eða eitthvað þvíumlíkt. Linda Seebach, dálkahöfundur á blaðinu Rocky Mountain News, bendir á að þessari aðferð hafi áður verið beitt með góðum árangri: "Þegar við tölum um Upplýsinguna erum við í rauninni að samsinna þeim dómi mannanna sem fundu upp það nafn, að þeir sem ekki gengu Upplýsingunni á hönd hafi setið áfram í myrkri."

Af áðurnefndri grein í Guardian að dæma er reyndar ólíklegt að sjálfsupphafningin sem manni finnst óþægilega nálæg í orðinu "snjall" valdi Dennett miklu hugarangri. Hann virðist ekki sérlega plagaður af efasemdum um eigið ágæti og réttmæti skoðana sinna. Það virðist sem hann hafi helst skapað sér nafn innan heimspekinnar með því að útskýra hvernig mörg helstu ljós hugmyndasögunnar, til dæmis Descartes og Quine, höfðu kolrangt fyrir sér. Svoleiðis gerir maður ekki nema sjálfsöryggið sé í góðu lagi og maður telji sjálfan sig bara harla snjallan.

Heimasíða snjallahreyfingarinnar er the-brights.com, og þaðan eru tenglar í margar áttir, meðal annars í það sem virðast vera kóresk og ítölsk systursamtök. Hvar eru nú íslensku snjöllin?


Lamandi hugsun

Maður sem stundum má taka mark á sagði einhvern tíma: "Ég er að verða soldið skeptískur á þetta krítíska attitjút." Það væri ef til vill oftar hægt að taka mark á blessuðum manninum ef hann kynni að haga orðum sínum á íslensku, en setninguna hér að framan mætti kannski þýða sem svo: "Ég er að verða efins um gildi gagnrýnnar hugsunar."

Orð þessa vafasama efasemdamanns eru þar að auki undarleg í ljósi þess, að oft er haft á því orð að það skorti einmitt á gagnrýna hugsun í umræðunni á Íslandi. Menn eru sagðir slá fram órökstuddum fullyrðingum og éta hugsunarlaust upp eftir öðrum einhverja hleypidóma sem væru þeir einfaldlega staðreyndir og ekki þurfi frekar vitnanna við. Að ekki sé nú minnst á þegar menn vísi í fullyrðingar yfirvalda eða "almannaróm" til að staðfesta eigin orð.

En er það alveg rétt að skortur sé á gagnrýnni afstöðu í "umræðunni"? Er ekki þvert á móti ástæða til að ætla, ef nánar er að gáð og hlustað um stund á umræðuna, að gagnrýnin hugsun vaði uppi í íslensku samfélagi sem aldrei fyrr, allsendis agalaust? (Út af fyrir sig kæmi það víst engum á óvart að skorti aga í því sem Íslendingar gera.)

Áður en lengra er haldið er rétt að staldra við - kannski í anda hinar sönnu gagnrýnu hugsunar - og spyrja hvað gagnrýnin hugsun sé eiginlega. Og þá vill svo til, að vel ber í veiði. Fyrir tæpum tuttugu árum spurði Páll Skúlason, heimspekingur og núverandi rektor Háskóla Íslands, að því í útvarpserindi hvort hægt væri að kenna gagnrýna hugsun. (Fyrirlesturinn birtist síðar í bókinni Pælingar, sem kom út 1987.) Þar segir Páll: "Gagnrýnin hugsun er fyrst og fremst fólgin í viðleitni til að rannsaka hlutina, láta engar tilhneigingar, langanir eða tilfinningar hlaupa með sig í gönur."

Þetta hljómar skynsamlega og varla getur efasemdamaðurinn sem vitnað var í hérna í upphafi hafa verið að andmæla því að farið sé eftir þessum orðum Páls? Kannski var efasemdamaðurinn öllu heldur að finna að því hversu hætt virðist við því að svokölluð gagnrýnin hugsun breytist í lamandi hugsun. Það gerist þegar menn leggja upp með gagnrýna hugsun en missa hana úr böndunum, ef svo má segja, og hún breytist í einhverskonar allsherjarneikvæðni og sjálfkrafa höfnun á orðum viðmælandans.

Gagnrýnin hugsun fer úr böndunum vegna þess að litið er á viðmælandann sem andstæðing og "samræða" við hann breytist í kappræðu. Fyrsta viðbragðið við öllu sem hann segir er að hafna því. Menn gleyma sér og verða heitir eins og í leik - samræðan verður að íþróttakappleik þar sem öllu skiptir að leggja andstæðinginn að velli. (Þess vegna eru skipulagðar kappræður eins og kenndar eru og stundaðar í íslenskum framhaldsskólum stórkostlega vafasamar). Þetta er einmitt megineinkenni allrar opinberrar "umræðu" og kannski þess vegna sem svo oft er erfitt að fá botn í hana og sjá hvort hún eigi sér eitthvert markmið annað en sjálfa sig.

Og þetta er líka megineinkenni allrar pólitískrar umræðu á Íslandi - og víðar - og ástæðan fyrir því að hún er jafn lamandi og tilgangslaus og raun ber vitni, nema maður sé í eðli sínu íþróttamaður og líti á öll mannleg samskipti sem íþróttakappleik. En þetta - að líta jafnan á viðmælandann sem andstæðing sem þurfi að sigra - hefur í rauninni lítið með gagnrýna hugsun að gera, eins og Páll benti á: "Tilhneiging manna til að finna að skoðunum og verkum annarra og jafnvel sínum eigin á í sjálfu sér ekkert skylt við gagnrýna hugsun."

Ef þetta er rétt hjá Páli má ef til vill til sanns vegar færa að það skorti á gagnrýna hugsun í "umræðunni", þótt ekki skorti þar á meinta gagnrýna hugsun sem farið hefur úr böndunum og breyst í lamandi hugsun.

En hvers vegna skyldi vera svona hætt við því að gagnrýna hugsunin, sem menn leggja upp með í góðri trú, fari úr böndunum? Líklega er skýringin sú, að það gleymist að gagnrýnin hugsun þarf sjálf á gagnrýni að halda. Ekki svo að skilja að maður eigi sífellt að draga eigin orð í efa (slíkt myndi líklega fljótt gera mann eitthvað undarlegan), heldur þarf maður að gefa öðrum færi á að gagnrýna mann. Þetta gengur auðvitað alveg þvert á grundvallarreglur kappræðunnar og er ef til vill þess vegna eitur í beinum mikilla íþróttamanna.

Og það er líklega alveg borin von að þetta geti nokkurn tíma orðið alsiða í stjórnmálaumræðu, vegna þess að lykillinn að svona sjálfsgagnrýni er fólginn í því sem annar heimspekingur, Þjóðverjinn Hans-Georg Gadamer, kallaði "hæfileikann til að hlusta á [viðmælandann] í þeirri trú, að hann kunni að hafa rétt fyrir sér". Stjórnmálamaður sem tæki upp á því að samsinna orðum pólitísks andstæðings væri eins og fótboltamaður sem viljandi skoraði sjálfsmark.

Kannski finnst einhverjum þetta hljóma eins og rassvasaheimspeki af ódýrustu og flötustu gerð, ættuð úr smiðju mjúka og skilningsríka mannsins sem er löngu orðinn úreltur. En því má ekki gleyma að ef þessi krafa á að skila einhverjum árangri verður hún að vera algild. Það er að segja, það verða allir að gera hana til sjálfra sín, og þar af leiðandi má maður ætlast til þess að viðmælandinn geri hana til sín og sé tilbúinn til að hlusta á mann og taka mark á því sem maður hefur að segja. Það mætti kannski kalla þetta "uppreisn mjúka mannsins".

(Viðhorf, Morgunblaðið, 28. apríl, 2004)


Oflæsi

Oflæsi er hugtak sem ekki hefur farið mikið fyrir í íslenskri samfélagsumræðu, þótt hér eins og annars staðar skjóti fyrirbærið sem hugtakið vísar til oft upp kollinum. Orðið er ekki að finna í splunkunýrri orðabók Menningarsjóðs og leit í gagnasafni Morgunblaðsins ber engan árangur.

Samt er oflæsi til á Íslandi. Á ensku heitir þetta fyrirbæri "hyperliteracy" og er í sem skemmstu máli það, að maður les ekki einungis það sem texti segir beint, heldur líka það sem er á bak við hann; maður finnur í honum merkingu sem er dulin, annaðhvort viljandi eða óviljandi af hálfu textasmiðsins. Að þessu leyti er oflæsi um margt líkt því að lesa á milli línanna, en millilínalestur beinist þó oftast að hlutum sem textahöfundurinn var meðvitaður um. Oflæsi snýst aftur á móti í flestum tilvikum um hluti sem textahöfundurinn er ómeðvitaður um. Tökum ýkt dæmi.

Enskunemi við Harvard fer á skyndibitastað en í stað þess að sjá á matseðlinum upplýsingar um hvaða réttir eru á boðstólum les hann úr matseðlinum hvernig auðvaldssamfélagið breytir þjóðerni (þetta var altso mexíkanskur staður) í neysluvöru og breytir hefðum í vörur sem hægt er að markaðssetja með því að gersneyða þær öllum upphaflegum, ekta einkennum.

(Þetta dæmi er reyndar stolið úr því ágæta grínblaði The Onion, 38. árg., 26. tbl. - á Netinu sem www.theonion.com - og því vísast uppdiktað. En það útskýrir nokkuð vel hvað oflæsi snýst um).

Hér er ekki ætlunin að fella neinn dóm um oflæsi, einungis útskýra hvað hugtakið merkir. Þó verður að nefna að sú hætta fylgir oflæsi að það getur orðið sjúklegt ástand. Oflæsi, líkt og svo margt annað, verður sjúklegt þegar maður hættir að hafa stjórn á því; þegar maður er ekki lengur fær um að lesa bara það sem texti segir beint, heldur getur ekki annað en séð hina meintu duldu merkingu hans.

Og það er beinlínis orðið hættulegt ef maður getur ekki séð neitt nema hina meintu duldu merkingu. Eins og ef Harvard-stúdentinn í ýkta dæminu hér að ofan gæti ekki séð út úr matseðlinum hvaða mat hann gæti keypt á veitingastaðnum, heldur gæti einungis lesið út úr seðlinum þetta með misnotkun auðvaldssamfélagsins á þjóðerni og hefðum.

Oflæsi í sinni sjúklegustu mynd er því eins konar ólæsi. Það hefur líka svipaðar afleiðingar og ólæsi, það er að segja, það útilokar hinn oflæsa (líkt og ólæsið útilokar hinn ólæsa) frá stórum og mikilvægum þætti mannlegra og félagslegra samskipta. Það einangrar mann.

En flestir sem eru oflæsir eru líka læsir á þennan venjulega hátt sem við flest erum, það er að segja, ef við lesum eða heyrum setninguna "það er rigning" leiðir hún huga okkar að vatni sem kemur ofan úr loftinu (eða að einhverju þvíumlíku) en ekki til dæmis tilvistarspekilegum vangaveltum um óyfirstíganlegan og alltumlykjandi nöturleika mannlífsins.

Það er ekki einungis hægt að vera oflæs á texta. Oflæsi getur líka hrjáð myndskynjun manns og félagsleg samskipti. Að ógleymdri pólitíkinni. Maður sem horfir á ljósmynd getur bæði séð það sem er á myndinni og metið hana út frá því - það er venjulegt læsi - og hann getur líka séð myndina sjálfa, uppbyggingu hennar, litina í henni og birtuna í henni - þá er hann eiginlega að oflesa myndina (þó alls ekki endilega sjúklega, nema hann beinlínis hætti að geta séð það sem myndin er af og geti bara séð hana óhlutbundið).

Félagslegt oflæsi lýsir sér á svipaðan máta: Maður lætur sér aldrei duga það sem aðrir beinlínis segja og gera heldur er ætíð að rýna í ástæður þess sem þeir segja og gera (meðvitaðar og þó ekki síst ómeðvitaðar); velta því fyrir sér hvernig þættir eins og útlit, þjóðfélagsstaða, hjúskaparstaða, kynferði, uppeldi og fleira í þeim dúr hefur áhrif á og jafnvel stjórnar atferli.

Sennilega eru flestir að einhverju marki félagslega oflæsir, og njóta ekki nema góðs af því. En félagslegt oflæsi á sjúklegu stigi er verulega óhugnanlegt fyrirbæri og líkist mjög ofsóknarkennd. Þetta er fólkið sem manni finnst vont að vera nálægt vegna þess að maður hefur alltaf á tilfinningunni að það geti ekki bara spjallað við mann heldur sé alltaf um leið að greina mann, flokka og dæma.

Um pólitískt oflæsi þarf ekki að fara mörgum orðum, það hefur allt verið yfirfljótandi í pólitískt oflæsum álitsgjöfum í nýafstaðinni stjórnmálabaráttu; fólkinu sem aldrei tekur einu einasta orði sem stjórnmálamenn láta út úr sér öðru vísi en með fyrirvara, og telur stjórnmál snúast í raun um annað en það sem sagt er. Þeir eru margir sem eru sjúklega oflæsir á stjórnmál.

Það er rétt að ítreka að hér er ekki verið að fella neina dóma um oflæsi, þótt rétt sé að vara við hinni sjúklegu gerð þess. Maður þarf því að vera vakandi fyrir einkennum sjúklegs oflæsis. Atvikið sem henti Harvard-stúdentinn í dæminu hér að framan er einmitt til marks um sjúklegt oflæsi á byrjunarstigi (enda ætlaði drengurinn að fara að athuga vandlega sinn gang).

Ennfremur má nefna að ef maður er farinn að fá sterklega á tilfinninguna að "einfaldur lestur" texta gefi undantekningarlaust ranga mynd - að það sem texti segir beint sé ætíð einhvers konar lygi - þá er maður í umtalsverðri hættu.

Hvað er til bragðs? Gott ráð er að lesa leiðbeiningabæklinga fyrir hvers konar tæki. Fullnýting slíks texta (þ.e., þegar maður hefur skilið textann það vel að maður getur látið tækið virka rétt) er beinlínis undir því komin að maður lesi einungis það sem hann segir manni beint, og lesi það sem allra nákvæmast. Með þessum hætti getur maður æft sig í því að forðast að detta í oflestur.

 (Viðhorf, Morgunblaðið, 27. maí, 2003)


Slæðubann

Viðhorf, Morgunblaðið, 31. mars, 2004

Einhverjar undarlegustu fréttir sem borist hafa utan úr heimi undanfarið eru - við fyrstu sýn, að minnsta kosti - fregnirnar af svokölluðu slæðubanni í Frakklandi. Þingið þar í landi hefur samþykkt lög sem banna að borin séu sýnileg, áberandi trúartákn, eins og til dæmis róðukross, gyðingakollhúfa eða slæða um höfuðið, í ríkisreknum grunn- og framhaldsskólum. Slæðubannið, sem lögin hafa verið kennd við, varðar múslímskar stúlkur.

Samkvæmt fréttum eru frönsk yfirvöld með þessu að vernda veraldarhyggjuna sem er grunnforsenda franska lýðveldisins, og draga úr hættunni á ofbeldi af trúarlegum ástæðum. Það sem ekki síst gerði þetta mál hið undarlegasta var að manni sýndist blasa við að þetta væri brot á tjáningarfrelsi, og að verið væri að vernda hugmyndir fyrir fólki sem talið væri að bæri ekki skynbragð á mikilvægi þeirra. En ef nánar er að gáð kemur í ljós að ástæða bannsins er ef til vill öllu einfaldari.

Það var nítján manna óháð nefnd, skipuð af Jacques Chirac Frakklandsforseta í júlí í fyrra, sem samdi lögin. Einn nefndarmannanna, Patrick Weil, skrifaði nýverið grein í veftímaritið openDemocracy.net þar sem hann útskýrði ástæður þess að lögin voru sett. Tilgangurinn var ekki, segir hann, að lögbinda háleitar hugmyndir um franska veraldarhyggju, heldur að vernda múslímskar stúlkur sem ekki vildu bera slæðu (hijab) fyrir ofbeldi og yfirgangi af hálfu þeirra - karlmanna í flestum tilvikum - sem vildu að þær hegðuðu sér í samræmi við boð Kóransins.

Weil rifjar upp, að 1989 hafi hæstiréttur Frakklands komist að þeirri niðurstöðu að múslímaslæður séu ekki áberandi trúartákn sem mætti banna í opinberum skólum. Þær mætti einungis banna ef farið yrði að nota þær sem tæki til að þrýsta á stúlkur sem vildu helst ekki bera þær.

Weil skrifar ennfremur: "Á undanförnum tveim til þrem árum hefur orðið deginum ljósara, að í þeim skólum þar sem sumar múslímskar stúlkur bera slæðu en aðrar ekki er því haldið stíft að þeim síðarnefndu að fylgja fordæmi hinna fyrrnefndu. Þær verða daglega fyrir þrýstingi, allt frá móðgunum til líkamsmeiðinga. Að mati ofbeldisseggjanna (sem flestir eru karlar) eru þessar stúlkur "vondir múslímir" og "hórur" sem ættu að fara að dæmi kynsystra sinna er virða boð Kóransins."

Nefndin hafi átt um tvennt að velja hvað varðaði múslímskar stúlkur í opinberum skólum: "Annaðhvort myndum við ekki gera neinar breytingar, og þar með í raun svipta þær stúlkur sem ekki vildu bera slæðu - þær voru í miklum meirihluta - valfrelsi; eða þá að við myndum leggja til að sett yrðu lög sem sviptu þær sem vildu bera slæðuna valfrelsi. Við ákváðum að veita þeim fyrrnefndu valfrelsi þann tíma sem þær eru í skólanum, en þær síðarnefndu njóta fulls frelsis þegar þær eru ekki í skólanum...Þess var því miður ekki kostur, að veita öllum fullkomið frelsi."

Það sem vakti fyrir nefndarmönnum, segir Weil, var að stúlkur sem ekki vildu bera slæðuna gætu borið fyrir sig landslög til að forðast áreiti.

Á endanum hafi ekki þótt koma til greina að fela það í hendur hverrar og einnar skólastjórnar hvort áberandi trúartákn væru bönnuð, þar sem slæðuburður sé orðinn að baráttumáli bókstafstrúarhópa um allt Frakkland, og þessi barátta fari fyrst og fremst fram í skólum landsins. Nefndin taldi ástæðu til að ætla, að hefðu skólastjórnir fengið ákvörðunarvaldið í sínar hendur hefði hætta verið á að þær lentu í bardaga við bókstafstrúarhópana.

Weil segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem lög séu sett í Frakklandi til að vernda fólk fyrir þrýstingi sem eigi sér trúarlegar rætur. Árið 1905 hafi ríki og kirkja - sú kaþólska - verið aðskilin og það hafi verið mikill sigur fyrir meirihluta Frakka, sem vildi draga úr áhrifum kirkjunnar í þjóðfélaginu og menntakerfinu. Reyndar hafi veraldlega hefðin í Frakklandi beinlínis orðið til sem vernd gegn áhrifum og í raun yfirráðum kaþólsku kirkjunnar í þjóðfélaginu. Samkvæmt þessari hefð sé það hlutverk ríkisins að vernda einstaklinginn fyrir hópþrýstingi.

En Weil segir að það hafi þó ekki verið þessi veraldlega hefð sem var forsenda niðurstöðu nefndarinnar, heldur hafi málið snúist um velferð múslímskra stúlkna. Ekki hefði komið til greina að setja bann sem þetta í háskólum eða öðrum stöðum þar sem um væri að ræða fullorðið fólk.

Þetta er mikilvægur greinarmunur sem einfaldar málið og dregur það niður á jörðina, ef svo má segja. Þessi áhersla, að banninu sé ætlað að bæta velferð barna og unglinga fremur en að tryggja viðgang veraldarhyggjunnar sem grundvallarhugsjónar í frönsku samfélagi, gerir orð Weils - og þá líklega einnig sjálft slæðubannið - fremur sannfærandi.

Samkvæmt þessu miðar slæðubannið því ekki, þegar allt kemur til alls, að því að tryggja viðgang hugmynda, heldur að öllu áþreifanlegra marki, og það breytir málinu. Verndun franskrar veraldarhyggju gæti varla talist réttlæta að tjáningarfrelsi manna væri skert. En verndun franskra barna er öllu betri og gildari ástæða.


Klisjur um karla

Viðhorf, Morgunblaðið, 21. júní, 2005

Ég gaf jakkafötin mín um daginn. Þau voru alltof stór á mig og löngu dottin úr tísku. Þau voru brún og ekki teinótt, hvort tveggja alveg út í hött miðað við núverandi tísku. Ég hef ekki í hyggju að kaupa mér ný, enda fór ég ekki í þessi brúnu nema fyrir fáeinar fermingarveislur og tvö brúðkaup.

Eftir á að hyggja voru það líklega mistök að gefa jakkafötin. Rétt ein ákvörðunin sem ég tek sem fyllir mig efasemdum. Enda er ég hræddur við að taka ákvarðanir og ég er áhættufælinn. Yfirmenn mínir vita þar að auki að ég vil ekki ábyrgð í vinnunni, og að ég hef tilhneigingu til að stelast snemma heim. Allt stafar þetta af því, að mig skortir sjálfstraust. Ég er viss um að það verður hlegið að mér fyrir að skrifa þetta viðhorf.

Af ofanrituðu má draga þá ályktun, ef það er lesið í samhengi við grein Signýjar Sigurðardóttur, "Ég er...kona", í Morgunblaðinu á sunnudaginn var, að ég sé ansi nærri því að vera kona. Að minnsta kosti er ég fjarri því að fylla út í þá mynd sem hún dregur upp af karlmönnum.

Til viðbótar því sem ég hef þegar talið upp af eiginleikum mínum get ég svo nefnt, að ég hef engan áhuga á viðskiptum og pólitík, og síst af öllu efnahagsmálum. Ég skil ekki einu sinni viðskiptafréttaflóð fjölmiðlanna og ég hef ekki glóru um hvað "S-hópurinn" er. Fótbolta hef ég aldrei þolað.

Grein Signýjar var undarlegt samsafn af fornaldarlegum klisjum og alhæfingum um karlmenn. (Ég skal ekkert segja um það sem hún fullyrðir um konur.) Eitt dæmi: "Karlar eru ánægðir með umræðuna og áherslurnar. Þeir sjá ekkert athugavert við það þó einungis þeirra sjónarhorn komi fram. Þeirra sjónarhorn er hvort eð er sannleikurinn."

Á þetta sér stoð í veruleikanum? Ekki alveg. Eitt af því sem karlar hafa alveg nýverið farið að voga sér að skipta sér af er uppeldi barnanna sinna. Þar hefur, þar til fyrir bara stuttu síðan, einokun kvenna verið alger. En á þessu sviði, sem er það mikilvægasta í mannlífinu, eru karlar fjarri því að vera "ánægðir með umræðuna og áherslurnar". Þeim finnst að þar komi þeirra sjónarmið lítið sem ekkert fram þegar á reynir. Þarna er þeirra sjónarhorn hreint ekki viðurkennt sem sannleikurinn. Þvert á móti. Þetta kemur hvað greinilegast í ljós þegar virkilega á reynir - það er að segja í forræðismálum.

Maður þarf ekki að lesa lengi á vef Félags ábyrgra feðra (www.abyrgirfedur.is) til að komast að raun um hvernig þetta mál horfir við mörgum karlmönnum. Sjónarmið þeirra má draga saman í fáein orð: Þeim finnst þeir ekki eiga neinn séns. Þetta sjónarmið kom einnig skýrt fram í norskri heimildamynd sem RÚV sýndi fyrir skömmu (og endursýndi á sunnudaginn). Körlum finnst að í þessum gífurlega mikilvæga málaflokki sé "samfélagið" þeim algjörlega andsnúið.

Þetta sama "samfélag" (hvað svo sem það eiginlega þýðir) var líka ofarlega í huga annarrar konu sem tjáði sig í Morgunblaðinu á sunnudaginn var, Oddnýjar Sturludóttur, sem hefur nýlokið við að þýða bókina Móðir í hjáverkum (I Don't Know How She Does It). Og Oddný hamraði á sömu, gömlu klisjunum um karla.

Hún fullyrti meðal annars að það væri "í rauninni skýlaus krafa samfélagsins að mæðurnar gegni aðalhlutverki í uppeldinu". Ef þetta er rétt hjá Oddnýju - sem talsverð ástæða er til að efast um - felur þetta í sér að "samfélagið" neitar í raun feðrum um að taka raunverulegan þátt í uppeldi barnanna sem þeir eiga. Slíkt er auðvitað gróft brot á mannréttindum, og þar að auki hlýtur þetta að teljast einhvers konar tilfinningakúgun sem karlar sæta að þessu leyti af hálfu "samfélagsins". Það skyldi þó ekki vera að þessi "skýlausa krafa" eigi sér rætur í þeim fordómum að karlar séu þegar allt kemur til alls ófærir um að ala upp börn?

Oddný sagði líka í viðtalinu: "Á meðan pabbar eru hér um bil aðlaðir fyrir að sinna börnunum sínum vel, taka allir því sem sjálfsögðum hlut þegar konur eiga í hlut." Þetta er út af fyrir sig undarleg alhæfing, en ef þetta er rétt, hvaða fyrirfram gefnu hugmyndir - það er að segja fordómar - geta legið þessu að baki? Skyldi þó ekki vera að það séu sömu fordómar og að ofan eru nefndir, það er, sú hugsun að það sé konum "eðlilegt" að ala upp börn en körlum ekki? Að kona sem sinnir uppeldi sé einfaldlega eðli sínu samkvæm en karl sem gerir það sé á einhvern hátt að ganga gegn eðli sínu, og þess vegna sé það sem hann gerir alveg sérstaklega eftirtektarvert?

Og ef ofangreind fullyrðing Oddnýjar er rétt, hvað segir það þá um viðhorf "samfélagsins" til feðra? Jú, samkvæmt þessu er komið fram við þá eins og börn: Eins og að stöðugt þurfi að vera að hrósa þeim fyrir það sem þeir gera til að byggja upp sjálfstraust hjá þeim. Þeim sjálfum, aftur á móti, finnst þeir bara vera að gera það sem þeim þykir skemmtilegast af öllu (vera með börnunum sínum).

Þessi framkoma "samfélagsins" við karla sem vilja sinna börnum sínum er lítilsvirðandi. Og það skyldi þó ekki vera að það séu þessir fordómar sem þegar allt kemur til alls ráða ennþá ferðinni í forræðismálum? Þar ríkir enn sú hugsun, að konum sé eðlilegt að ala upp börn en körlum ekki, og þar af leiðandi sé ekki vogandi að fela feðrum forræði barna sinna.

Það er dapurlegt að konur skuli hafa haldið upp á daginn sinn, 19. júní, með því að hjakka á klisjum og fordómum í garð karla.


Eru karlar svona?

Viðhorf, Morgunblaðið, 6. desember, 2005

Fyrir mörgum árum sagði góður vinur minn mér frá því að hann hefði einhverju sinni farið með dóttur sína, sem þá hefur líklega verið tveggja eða þriggja ára, niður að Tjörninni í Reykjavík að gefa öndunum á sunnudagseftirmiðdegi. En hann kvaðst hafa flýtt sér að drita brauðinu í fuglana og forðað sér. Það hefði nefnilega runnið upp fyrir sér að fólk sem sæi þau feðginin myndi halda að hann væri helgarpabbi. Og það vildi þessi vinur minn ekki að fólk héldi.

Ég spurði hann ekki hvers vegna hann vildi ekki að fólk héldi það. Og ég spurði hann heldur ekki hvers vegna hann hafi haldið að fólk héldi það. Því síður spurði ég hann hvers vegna honum væri ekki skítsama hvað fólk héldi. Enda hefðu svör hans við þessum spurningum ekki skipt neinu máli - hann hafði einfaldlega sagt mér hvaða tilfinningar hann upplifði, og það er ekkert vit í því að vega og meta hvort það hafi verið rétt eða rangt af honum að hafa þessar tilfinningar. Og þar að auki var ég ekki orðinn pabbi sjálfur og hefði ekki átt séns í að skilja svarið.

Þessi frásögn vinar míns rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég var einn með dóttur mína, sem er á svipuðum aldri og dóttir hans var þá, á almannafæri. Og ég fór að hugsa eins og vinur minn hafði hugsað við Tjörnina þarna fyrir mörgum árum: "Skyldi einhver sem tekur eftir okkur halda að ég sé helgarpabbi?" Eins og ég nefndi eru mörg ár liðin síðan vinur minn var við Tjörnina með dóttur sína (hún er orðin mamma og hann þar með afi, sagði hann mér um daginn) og kannski hefur tíðarandinn breyst. Ég lagði að vísu ekki á flótta, en samt: Ég skil núna hvað hann átti við þarna um árið.

Þetta voru auðvitað fordómar í okkur báðum: Við gerðum ráð fyrir að annað fólk hugsaði á einhvern tiltekinn hátt. Og það má líka segja að þetta hafi verið óþarfa viðkæmni - kannski sérstaklega í mér, þar sem tíðarandinn er svo sannarlega breyttur.

Eða hvað? Þetta er spurning um almennt viðhorf í samfélaginu til föðurhlutverksins. Undir þá spurningu falla aðrar þrengri spurningar eins og til dæmis sú, hvort karlmenn séu jafnhæfir og konur til að ala upp börn, og einnig hvort það teljist karlmannlegt að njóta þess að eiga börn. Þetta er svo auðvitað á endanum mjög mikilvægt atriði í jafnréttisumræðunni. Og ég er ekki frá því að kannski hafi verið, og sé enn, einhver fótur fyrir fordómum okkar vinanna. Hér koma tvær sögur sem benda til þess að kannski hafi tilfinningar okkar ekki verið alveg út í hött (um leið og viðurkennt skal fúslega að tvö dæmi eru ekki sönnun á neinu):

Fyrir stuttu barst í tal hjá kunningja mínum sem á barn með konu sem hann býr ekki með að barnið yrði hjá honum um komandi helgi - að hann væri altso helgarpabbi þessa barns. Ung kona sem heyrði á tal okkar greip þetta á lofti og sagði hátt, snjallt og glaðhlakkalega: "Svona eru þessir karlmenn! Troðandi typpinu á sér hvar sem er!" Þessi unga kona hafði ekki hugmynd um aðstæður kunningja míns eða forsendur þess að hann var helgarpabbi barnsins síns. Samt lét hún sig hafa það að dæma hann hástöfum, að því er virðist fyrst og fremst fyrir það að vera karlmaður.

Víst voru orð hennar alhæfing og sem slík ekki marktæk, og segja má kunningja mínum til hróss að hann virti þau að vettugi. En ég verð að viðurkenna að sjálfum hefur mér þótt þessi kona fremur ómerkilegur pappír síðan. Í orðum hennar fólst það viðhorf að hvað börn varðaði hafi karlmenn ekki áhuga á öðru en samförunum sem leiða til barna.

Um daginn skrifaði svo Guðrún Guðlaugsdóttir grein í Morgunblaðið (10. nóv.) og hélt því fram að börn væru að öllu jöfnu betur komin hjá móður en föður. Það væri einfaldlega spurning um "líkamlega gerð mannfólks". Ef að er gáð kemur í ljós að röksemdafærslan í grein Guðrúnar er í grundvallaratriðum sú sama og liggur að baki því viðhorfi að það sé æskilegra að karlmenn fari með stjórnun - bæði í samfélaginu og fyrirtækjum - eins og best megi sjá af því að þannig hafi málum verið háttað frá aldaöðli. Það sé einfaldlega staðreynd að karlar hafi jafnan verið duglegri við að mynda ríkisstjórnir og stofna fyrirtæki og stýra þeim, og fái enda miklu hærra kaup en konur. Þetta síðasta er svo sagt endanleg sönnun þess að karlar séu hæfari til stjórnunarstarfa en konur: Fyrst þeir fá hærra kaup hljóta þeir að vera starfinu betur vaxnir. Hér er ekki pláss til að útlista hvað er athugavert við þessa lógík. (Það er efni í annan pistil). Viðhorf Guðrúnar er klassísk íhaldshyggja í samfélagsmálum.

Þessi tvö dæmi held ég að dugi til að útskýra hvers vegna vinur minn forðaði sér frá Tjörninni og hvers vegna frásögn hans af því rifjaðist upp fyrir mér mörgum árum síðar. Innst inni óttumst við að ef fólk heldur að við séum helgarpabbar álíti það þar með að við séum menn sem höfum enga stjórn á typpinu á okkur og sitji nú uppi með afleiðingarnar - barn sem við eðlis okkar vegna sem karlmenn getum ekki veitt það sem það helst þarfnast, alveg sama hversu mikið við elskum það og hversu mikla ástúð og kærleika við veitum því. Og þá væri eðlilegt að fólk færi að vorkenna okkur. Kannski hugsar það: En sætt að hann skuli þó reyna...

Við frábiðjum okkur slíka meðaumkun. En umfram allt frábiðjum við okkur þá fordóma sem birtast í glaðhlakkalegri yfirlýsingu ungu konunnar og grein Guðrúnar Guðlaugsdóttur.


Góðir grannar

Viðhorf, Morgunblaðið, 30. ágúst, 2005.

Ég bjó einu sinni í snyrtilegri blokk í Vesturbænum. Hún var meira að segja snyrtilegri en aðrar blokkir í því þrifalega hverfi, enda nýrri. Nágrennið, bæði úti og inni, var harla gott. Nema stundum. Í stigaganginum mínum, sem var alltaf ryksugaður og fínn og keimur af síðustu hreingerningu lá í loftinu, bjó fólk sem greinilega fannst gott og mikilvægt að hafa umhverfi sitt snyrtilegt og góða granna. Í næstu íbúð við mig á stigapallinum bjuggu, ef ég man rétt ung hjón með barn, þótt reyndar hafi ég aldrei nokkurntíma heyrt það barn gráta. Í næstu íbúð við þau bjó flugfreyja sem átti kærasta. Í næstu íbúð við hana, og beint á móti minni á stigaganginum, bjó miðaldra maður sem sagði mér oftar en einu sinni, með sinni djúpu og brakandi rödd, að hann væri á frystitogara.

Ef ekki hefði verið þetta þykka, fína og eins og nýja teppi á stigaganginum hefði mátt heyra þar saumnál detta svo að segja allan sólarhringinn. Svefnfriðurinn var alger. Nema stundum. Ég hitti satt best að segja ekki oft fólkið sem bjó á sama stigapalli og ég. Nú má til sanns vegar færa að ég sé sjálfur ekkert sérstaklega félagslyndur, en ég held að í rauninni höfum við öll, eins og góðra granna er siður, lagt okkur svolítið fram um að láta nágranna okkar í friði. Ekki vegna þess að okkur væri sama um þá, heldur þvert á móti af virðingu fyrir þeim.

Þetta kom reyndar mest af sjálfu sér hvað manninn beint á móti varðaði - þennan sem sagði mér ítrekað að hann væri á frystitogara - þar sem hann var mánuðum saman fjarri heimili sínu. En þegar hann var heima, þá munaði ekki um það. Þá hvarf alveg keimurinn af síðustu hreingerningu í stigaganginum; svefnfriðurinn var gjörsamlega úti og stundum - jafnvel um miðjar nætur - hefði maður ekki heyrt Fokker fljúga yfir, hvað þá saumnál detta á stigaganginum, sökum drynjandi "stemmningar" úr íbúðinni beint á móti mér á stigaganginum. Þessi nágranni okkar, sem ítrekað hafði sagt mér að hann væri á frystitogara, lagði sig ekki beint í framkróka við að láta granna sína í friði. Sem er til marks um að hann hafi ekki borið mikla virðingu fyrir þeim.

Þegar hann var í landi ríkti terror í stigaganginum. Maður vissi aldrei hvað kæmi næst. En reynslan kenndi manni að maður gat þó verið viss um að lögreglan kæmi fljótlega. Lífsgleði þessa manns hékk eins og demóklesarsverð yfir höfðum nágranna hans.

Eina nóttina vaknaði ég og hafði á tilfinningunni að það hefði komið jarðskjálfti. En svo heyrði ég kunnugleg óhljóð framan af stigagangi og vissi að maðurinn á frystitogaranum væri kominn í land. Því til staðfestingar heyrði ég ryðgaða röddina í honum þegar hann hrópaði eitthvað um að einhverjir skulduðu sér mörg þúsund krónur. Síðan sagði hann hátt og snjallt að hann ætlaði að kalla á lögregluna. Nú þótti mér týra. Það hlaut eitthvað óvenju mikið að hafa gengið á ef þessi ryðkláfur, sem hlaut að vera því vanastur að lögreglunni væri sigað á sig, var farinn að hóta að kalla hana sér til liðsinnis.

Forvitnin varð því fýlunni í mér yfirsterkari og ég stóðst ekki mátið og rauk framúr og lagðist á gægjugatið í hurðinni fram á gang. Fyrir utan opnar dyrnar á íbúðinni sinni stóð nágranni minn og sendi tóninn einhverju fólki sem var að hrekjast niður stigann. Svo fór hann inn og lokaði á eftir sér og þá sá ég hvers kyns var: Það vantaði neðri helminginn á útihurðina hjá honum. Það var þá bresturinn sem hafði vakið mig - ekki jarðskjálfti. En þetta var sterkbyggð hurð og greinilegt að ekki hafði kostað nein smáræðis átök að brjóta hana svona snyrtilega í tvennt og rífa neðri helminginn af.

Eftir þetta lagðist allt í dúnalogn - gott ef ekki í nokkra daga, ef ég man rétt. Samt reyndist þessi atburður marka nokkur þáttaskil, því að upp úr þessu fór að bera á því að íbúarnir í stigaganginum hefðu misst þolinmæðina. Ungu hjónin í íbúðinni við hliðina á mér seldu og fluttu burt, enda ekki búandi með lítið barn við svona aðstæður. Ég frétti að kærasti flugfreyjunnar hefði verið kominn á fremsta hlunn með að berja óværuna niður, og ekki lái ég honum það. (Ég heyrði líka skömmu eftir þetta að konan sem átt hafði íbúðina sem ég bjó í hefði selt og flutt burt vegna þess að hún var búin að fá alveg nóg af þessu mannkerti beint á móti.) Ég flutti svo sjálfur burtu ekki löngu síðar. Og ég held að svo hafi farið að íbúunum í stigaganginum tókst að hrekja óværuna af höndum sér. Gott hjá þeim. Svona fólki, sem ber enga virðingu fyrir nágrönnum sínum, á maður að henda út.

En nábýlið við manninn sem ítrekað sagði mér að hann væri á frystitogara kenndi mér í eitt skiptið fyrir öll þá lexíu að góðir grannar eru mikilvægari en flest annað. Og ég get ekki ímyndað mér að hægt væri að hafa verri nágranna en hann. Ég vissi fátt um þennan mann annað en að hann var á frystitogara og Íslendingur í húð og hár. Ég veit ekkert hverrar trúar hann var en það bendir allt til að hann hafi verið þessarar venjulegu, íslensku lúterstrúar. Og þá verður vísast einhver, ef marka má nýlega skoðanakönnun, til að benda mér á að ég eigi sko ekki að vera að kvarta undan honum. Ég eigi bara að þakka fyrir að hann var ekki múslími.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband