Laugardagur, 24. apríl 2021
"a never-ending assembly line of death"
Á Indlandi núna, "a never-ending assembly line of death" - er þetta ekki dálítið hryllileg frásögn? Eða er New York Times að ljúga að okkur? Hvað segja allar efasemdaraddirnar hérna á blog.is?
Sjá hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 30. mars 2021
Vonlaust verk
Það er því miður harla vonlítið verk að ætla að "bæta ásýnd" þessa volaða torgs. Eiginlega glatað. Arkitektúrinn sem þarna er - þessi dæmigerða, íslenska stein- og stálbitaestetík - sér til þess.
Líklega upplifum við nú niðurlægingartíma í byggingasögu landsins. Fræðingar framtíðarinnar munu geta greint hvað olli, en núna í fárinu miðju sjáum við það ekki. Rannsóknarefni af hverju byggð eru svona ljót og mannfjandsamleg hús núna.
Sennilega hefur það eitthvað með að gera að einhver tækni blindar þá sem vinna verkin. Það hefur oftast verið þannig.
Ætla að bæta ásýnd Hafnartorgs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 1. janúar 2009
Taugafræðileg útskýring á áhættusækni
Áhættusækni var eitt af einkennum íslensku útrásarvíkinganna. Samkvæmt nýrri rannsókn á áhættusækni sér taugafræðilegar skýringar. Þetta er athyglisverð lesning fyrir Íslendinga einmitt núna.
Hinir áhættusæknu hafa samkvæmt þessu minna af dópamínviðtökum í heilanum. Þetta er einnig einkenni þeirra sem eru líklegir til ofneyslu hverskyns fíkniefna.
"Animal experiments have already shown that, like humans, some respond differently to novel environments - and those who explore them are more likely to self-administer cocaine when given the chance," segir í frétt BBC.
Þetta virðist vera einhverskonar ónæmi fyrir umhverfinu, sem leiðir til þarfar fyrir meiri og sterkari áreiti en þeir þurfa sem hafa eðlilega dópamínviðtaka.
Miðvikudagur, 31. desember 2008
Trúarlíf eykur sjálfsstjórn
"Researchers around the world have repeatedly found that devoutly religious people tend to do better in school, live longer, have more satisfying marriages and be generally happier." Ný rannsókn á sígildu viðfangsefni rennir stoðum undir þá kenningu að trúarlíf auki manni sjálfsstjórn og hamingju.
New York Times segir frá þessu. Bráðathyglisvert. Ég hef ekki heyrt um þetta fyrr, en greinilega er ekki um neinn nýjan vísdóm að ræða.
We simply asked if there was good evidence that people who are more religious have more self-control ... For a long time it wasnt cool for social scientists to study religion, but some researchers were quietly chugging along for decades. When you add it all up, it turns out there are remarkably consistent findings that religiosity correlates with higher self-control.
Föstudagur, 26. desember 2008
"Irrational exuberance"
Bráðathyglisverð grein eftir sálfræðing, Stephen Greenspan, um ástæður fjárfestingamaníu á borð við þá sem greip íslensku þjóðina. Það sem líklega hefur ráðið mestu var það sem nefnt er "social feedback loop," að viðbættum "irrational exuberance" og svo dágóðum skammti af trúgirni.
Stephen þessi kveðst óskyldur Alan með sama eftirnafn, og segir m.a. frá því hvernig hann féll sjálfur í Ponzi-gildru Madoffs. Þótt greinin fjalli aðallega um Ponzi-gabb á það sem fram kemur að flestu leyti við um bólur eins og þá sem er nýsprungin hér.
Spurningin er hvort íslenska fjárfestingabólan passi ekki snyrtilega á listann yfir þær fjárfestingarmaníur sem útskýranlegar eru með "the feedback loop theory of investor bubbles" eftir Robert Schiller, sem Greenspan vitnar í.
(Stærð bólunnar má lesa úr tölum um stöðu Úrvalsvísitölunnar nú og þegar hún var hæst; núna mun hún vera tuttugu sinnum lægri en þegar bólan var þanin sem mest).
Grein Stephen Greenspan er hér.
Miðvikudagur, 26. nóvember 2008
Við erum í miðri byltingu
Enn fjölgar vísbendingunum um að Ísland sé ekki einungis í miðri fjármálakreppu heldur einnig í miðri byltingu. Ef til vill blasir ekki beint við, að nú standi yfir bylting. Þegar maður hugsar um byltingu dettur manni í hug ofbeldi og blóð, herskár mannfjöldi sem tekur á sitt vald, eins og sagt er í fréttum, opinberar stofnanir.
Hin eiginlega framvinda byltingar er aftur á móti með allt öðrum hætti, og ekki nærri eins dramatísk. Meira að segja mætti halda því fram, að kjarninn í byltingum sé svo lágstemmdur að hann fari hreinlega framhjá fjölmiðlum, sem aldrei kveikja á neinu nema það sé hávaðasamt og dramatískt.
Það sem fjölmiðlar sjá og greina frá sem byltingu eru fjöldasamkomur, þrumandi ræðumenn og því um líkt, það er að segja, atburðir sem falla að hinni fyrirfram gefnu skilgreiningu á byltingum, skilgreiningu sem fengin er úr fréttum, sögum og jafnvel kvikmyndum, en ekki raunveruleikanum, sem er allt of hægfara og tilbreytingarsnauður til að athyglisbrostnir fjölmiðlar taki eftir honum.
En hverjar eru þá þær vísbendingar um að bylting standi yfir, sem hefur mátt sjá undanfarið, ef að er gáð?
Bylting felur í sér að viðtekið viðmið hverfur og annað kemur í staðinn. Viðmið er þær fyrirfram gefnu forsendur sem ekki er efast um þegar staða mála er vegin og metin og ákvarðanir teknar um hvaða viðfangsefni það séu sem leysa þurfi, með hvaða hætti þurfi að leysa þau, hverjir megi takast á við þau, og ef til vill umfram allt hvað geti talist lausn á viðfangsefninu.
Og viðmið búa ekki síst í fólki með fastmótaðar hugmyndir og lífsgildi. Lokahnykkur byltinga er í því fólginn, að síðustu einstaklingarnir af gömlu kynslóðinni hverfa af hinum opinbera vettvangi. Hér í gamla daga var þetta fólk fjarlægt með hinum ruddalegasta hætti, oft með því að gera það bókstaflega höfðinu styttra, en sem betur fer er sá ósiður nú aflagður. Nú er fólk sent í launaða útlegð.
Byltingar byrja á mjög eindreginni tilfinningu fyrir því, að ríkjandi aðferðir dugi ekki til að leysa aðsteðjandi vanda. Hér á landi fylgdumst við þannig lengi með vonlausri baráttu Seðlabankans við að ná verðbólgumarkmiði. Margir höfðu orðið heiftarlega á tilfinningunni að verðbólgumarkmið og stýrivextir væru vitagagnslaus tæki til að leysa þann vanda sem að steðjaði.
Hérlendis hefur lengi verið um það þegjandi samkomulag að framkvæmdavaldið sé hið eiginlega löggjafarvald. Þetta sést á því, að hér er lögð mikil áhersla á að mynda ríkisstjórn með stóran meirihluta á þingi. Minnihlutastjórnir þykja algjört neyðarbrauð. Nú hefur þögnin um þetta samkomulag verið rofin, og þar með samkomulagið. Nokkrir þingmenn meira að segja stjórnarliðar vilja breytingu á þessu ríkjandi ástandi.
Ný kynslóð þingmanna og ráðherra, sem hefur öðru vísi hugsunarhátt en fyrri kynslóð, er nú skyndilega farin að láta í sér heyra, því að hún hefur orðið svo yfirþyrmandi tilfinningu fyrir því að þörf sé á nýjum aðferðum til að hægt sé að leysa aðsteðjandi vanda. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson bankamálaráðherra eru fulltrúar þessarar nýju kynslóðar.
Þau létu í ljósi þá skoðun, að efna beri til kosninga til að leita endurnýjaðs umboðs fyrir valdhafann. Þessi kynslóð telur að sú lýðræðisframkvæmd sem í kosningum felst sé svo mikilvæg að til hennar verði að grípa þrátt fyrir að ytri aðstæður séu langt í frá hallkvæmar. Þetta er til marks um öðru vísi forgangsröðun en hingað til hefur verið viðtekin.
Eldri kynslóð sýnir þessum breyttu viðhorfum andstöðu. Fulltrúar þeirrar kynslóðar eru oddvitar stjórnarflokkanna. Það er svo enn ein vísbendingin um byltingu, að átökin milli kynslóðanna eru orðin sýnileg. Framvinda byltingarinnar verður svo með þeim hætti, að smám saman skipta fleiri og fleiri úr hópi fulltrúa hins fráfallandi viðmiðs um skoðun og fallast á hið nýja. Þeir sem allra fastast standa gegn því hverfa af sjónarsviðinu. Við sáum afgerandi dæmi um þetta einkenni byltinga þegar Guðni Ágústsson sagði skyndilega af sér og fór til Kanarí. Fleiri dæmi munum við sjá þegar bankastjórar Seðlabankans hverfa um leið og bankinn verður sameinaður Fjármálaeftirlitinu.
Það hefur líka verið hluti af ríkjandi viðmiði hér á landi, að það væri hluti af íslenskri þjóðarvitund að við tilheyrum ekki Evrópusambandinu. Andstaða við ESB hér á landi hefur að miklu leyti átt rætur í þeirri hugsun að ESB-aðild væri ekki samræmanleg sjálfsskilgreiningu þjóðarinnar.
Nú má sjá vísbendingu um að þetta sé að breytast, og að bráðum hættum við að skilgreina okkur með því sem við erum ekki, og förum að skilgreina okkur með því sem við erum. Það er að segja, þjóðernishyggjan sem var stór hluti gamla viðmiðsins hopar fyrir alþjóðahyggjunni sem er hluti nýja viðmiðsins.
Þegar yfirstandandi bylting verður afstaðin verður Ísland breytt, fyrst og fremst vegna þess að hugmynd Íslendinga um sjálfa sig verður orðin öðru vísi en hún er núna. Þegar núverandi kynslóð ráðamanna hverfur af vettvangi kemur í staðinn kynslóð sem hefur mótast af erlendum hugmyndum, ekki síður en ömmum sínum.
(Birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Laugardagur, 22. nóvember 2008
"Ég hafði ekki glóru"
Hvers vegna borgaði fjárfestingarfyrirtæki á Wall Street 24 ára gömlum manni hundruð þúsunda dollara til að "veita fullorðnum ráðgjöf um verðbréfakaup"? Þessi maður lítur til baka, nú rúmlega 20 árum síðar, og skilur enn ekkert í þessu.
Sjá grein Michael Lewis hér.
Þriðjudagur, 18. nóvember 2008
Vissulega brugðust fjölmiðlar
Ástandið var eins og á unglingafylleríi: Allir urðu að drekka með, þeir sem skoruðust undan voru álitnir leiðinlegir og reknir úr partíinu.
Þess vegna er það rétt sem borgarafundur á NASA samþykkti í gær, fjölmiðlar brugðust í aðdraganda kreppunnar. Ástæðan er ofangreind fylleríslíking.
Á fjölmiðlum á Íslandi hefur lengi ríkt kreppa. Hugarfarskreppa. Flest starfsfólk hefur búið við ótta um atvinnumissi. Lengi. Ég veit ekki hvað margar "uppsagnabylgjur" hafa gengið yfir íslenska fjölmiðla undanfarin ár.
Alltaf beið maður milli vonar og ótta.
Misjafnt hvernig fólk brást við. Flestir fóru þá leið að passa sig vandlega að rugga ekki bátnum. Ef eitthvað, þá reyndu menn að "hlaupa eins hratt og þeir gátu", þ.e. gera sig ómissandi í augum stjórnenda.
Það gerir maður með því að taka undir, hátt og skýrt, í kórstarfinu. Dæmin um afleiðingar hins gagnstæða voru þarna til að varast þau.
Þótt það sé eðli mínu fjarstætt að taka undir með Davið Oddssyni get ég ekki annað en gert það nú. Á fjölmiðlunum vissum við vel hverjir "áttu okkur." Og við vissum að maður bítur ekki í höndina sem gefur manni að borða. Þeir sem það gerðu voru álitnir heimskir.
Hver man ekki eftir því þegar Mogginn bjó til sérblað (það hét að vísu ekki það) um Björgólfinn í London, eins og um væri að ræða hálfguð?
George Orwell sagði einu sinni, að versta ritskoðunin væri sjálfsritskoðunin. Það var satt hjá honum. En orsök sjálfsritskoðunar er einfaldlega óttinn við útskúfun.
Af hverju ofurseldu stjórnendur íslenskra fjölmiðla þá auðmönnunum? Í því var fólgið það sem kalla mætti "faglegt sjálfsmorð." Fjölmiðill sem ætlar að standa undir nafni getur ekki verið á klafa eigenda sem eru um leið eigendur þess sem fjölmiðlarnir eiga, eðli sínu samkvæmt, að hafa eftirlit með.
Varla er þetta svo flókið.
Samt hengdu fjölmiðlarnir sig á slíkan klafa, sem sýnir að þeir tóku sig sennilega ekki alvarlega sem fjölmiðlar.
Spurningin er: Í hvaða leik voru þeir?
Laugardagur, 18. október 2008
Ísland gangi Noregskonungi á hönd
Ég hef oft haldið því fram, alls ekki bara í gríni, að Íslendingar ættu að ganga Noregskonungi á hönd. Þau kynni sem ég hef haft af Norðmönnum og Noregi hafa sannfært mig um þetta, auk þeirrar langvinnu fullvissu minnar að það sé eitthvað í grundvallaratriðum bilað í íslensku samfélagi.
Nú hefur það síðarnefnda komið heiftarlega á daginn. Við einfaldlega kunnum ekki að höndla frelsið. Við kunnum okkur ekki hóf. Því til sönnunar blasir við smátt og stórt: Bílarnir okkar og bankarnir. Hvort tveggja vaxið okkur svo ævintýralega yfir höfuð að helst minnir á skrípamynd. Enda erum við orðin aðhlátursefni á alþjóðavettvangi og rúin ærunni, eins og glöggt kom í ljós þegar Japanar hættu við að bjóða Sinfóníuhljómsveitinni í heimsókn.
Dapurlegt hvað það blasir við að Ísland er núna í hlutverki keisarans sem sprangaði um nakinn af því að hann lét svikahrappa plata sig. En þetta hefur einhvernveginn alltaf verið hlutskipti Íslendinga. Við erum heimsþorpsfíflið, þótt við séum kannski fyrst núna að gera okkur grein fyrir því sjálf. Eina góða er, að við gleymum því líklega ekki í bráð.
Þegar fram líða stundir munu festast í erlendum tungum máltæki byggð á skírskotun í íslenskt stórmennskubrjálæði, svona eins og til eru orðtök um þýska stálið og enska séntilmanninn. Við þetta mun bætast íslenska drambið.
Þrátt fyrir þetta eigum við góða að, og Norðmenn líklega þar fremsta í flokki. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor sagði nýlega í viðtali við norskan fréttavef að það sé praktískara fyrir okkur, til skemmri tíma litið, að taka upp einhverskonar myntsamstarf við Noreg, og þar með norsku krónuna, en að halda inn í Evrópusambandið og taka upp evru, þótt það hljóti að vera langtímamarkmið. Seðlabanki Íslands verði einfaldlega gerður að deild í norska seðlabankanum.
Ég legg til að við göngum enn lengra, og gerum Ísland að fylki í Noregi. Það er leið til að bjarga bæði efnahag okkar og mannorði. Við einfaldlega lýsum því yfir að tilraunin Ísland hafi mistekist. Við klúðruðum henni.
Mér er nokk sama þótt efnahagsundrið Ísland hafi reynst vera eins og nýju fötin keisarans. Mér er líka alveg sama þótt útlendingum finnist við hallærisleg. Mér hefur hvort eð er alltaf fundist Ísland hallærislegt og oft skammast mín fyrir stærilæti íslenskra ráðamanna erlendis. En ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög dapurlegt að sjá fram á að þurfa að kenna börnunum mínum að skammast sín fyrir að vera Íslendingar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
Þriðjudagur, 19. ágúst 2008
Orðablæti
Í kynningarbæklingi frá Hinu íslenska bókmenntafélagi segir að Óraplágan eftir slóvenska samfélagsrýninn Slavoj Zizek sé vitsmunaleg rússíbanareið" og fræðilegt dýnamít". Það er langt í frá augljóst hvað átt er við með þessum lýsingum, og sannleikurinn er sá, að það dugar eiginlega ekki að lesa bókina sjálfa til að átta sig alveg á því um hvað hún er.
Þess vegna hefði verið æskilegt að formálinn að íslensku útgáfunni væri upplýsandi um bakgrunn og forsendur bókarinnar, og gæfi einhverja hugmynd um helstu áherslur í verkum Zizeks, ekki síst vegna þess að þetta er fyrsta bók hans sem út kemur í íslenskri þýðingu. En því miður er formálinn jafnvel myrkari texti en texti Zizeks sjálfs, og virðist helst vera tilraun til að herma eftir stíl hans.
Það má þó greina ýmsar kunnulegar forsendur sem virðast liggja Óraplágunni til grundvallar. Þannig virðist markmið Zizeks vera hin gamalkunna afhjúpun hulinna hvata sem leynast á bakvið það sem við gerum og segjum, og setjum fram sem viðhorf okkar og gildi. Það sem nánar tiltekið leynist þarna á bak við eru órarnir sem titill bókarinnar vísar til.
Hvergi lætur Zizek þess þó getið að þetta sé markmiðið, ef til vill vegna þess að honum er sjálfum ekki fyllilega ljóst hvað fyrir sér vakir, eða vegna þess að hann vill ekki setja upplifun lesandans á bókinni neinar skorður umfram þær sem óhjákvæmilegar eru til að yfirleitt sé hægt að lesa hana. Ef ég væri gefinn fyrir veðmál myndi ég reiða mig á fyrri ástæðuna; þá seinni mætti svo nota sem sennilegt yfirklór ef á væri gengið.
Óranna sér hvergi stað
Slavoj Zizek má hiklaust kalla Íslandsvin. Hann hefur komið hingað nokkrum sinnum og haldið fyrirlestra og lýst yfir aðdáun á landinu. Ég sá viðtal við hann sem Egill Helgason tók í sjónvarpsþætti sínum, og þar var Zizek aldeilis bráðskemmtilegur viðmælandi, líflegur og blátt áfram.
Það var því með þónokkurri eftirvæntingu sem ég hóf lestur Óraplágunnar, en ekki leið á löngu þar til augljóst var að skemmtilegur frásagnarmáti Zizeks í eigin persónu skilar sér alls ekki í skrifum hans - að minnsta kosti ekki í Óraplágunni, sem er að megninu til illskiljanlegur hrærigrautur af sjálfsögðum hlutum og skírskotunum í allt frá heimspeki Hegels til hnefaríðinga.
Illmögulegt er að koma auga á eitthvert meginþema í bókinni, nema ef vera skyldi þá hugmynd að með því að afhjúpa órana sem búa að baki athöfnum, viðhorfum og gildum megi útskýra þessar athafnir, viðhorf og gildi, það er að segja, afhjúpun óranna leiðir í ljós hvað er í raun og veru" á ferðinni. Með enn öðrum orðum, órarnir eru hinn eiginlegi sannleikur um athafnir okkar, viðhorf og gildi.
Um kvikmyndina Underground, eftir Emir Kusturica, segir Zizek: Einhvern veginn skýrir hann stöðu mála í þessum óreiðukennda heimshluta með því að draga órana að baki honum fram í dagsljósið" (bls. 173). Það er svo ýmislegt fleira sem er útskýrt" í Óraplágunni með því að draga fram í dagsljósið meinta undirliggjandi óra.
Meinta" vegna þess að þeirra sér í rauninni hvergi stað nema í rýni Zizeks. Og hvers vegna þessir meintu órar, sem hann kveðst sjá á bakvið hversdaginn, eiga að vera útskýring á því sem er raunverulega á ferðinni er ekki útskýrt. Lesandanum er látið eftir að trúa því eða ekki. Ef til vill væri þetta trúverðugra og meira sannfærandi ef málflutningurinn væri skýrari og hnitmiðaðri.
Samsæriskenning
Það dregur svo enn úr trúverðugleikanum að stundum fer textinn að hljóma eins og samsæriskenning, til dæmis í umfjöllun um meint leynistríð" breska herforingjans Michaels Rose, foringja friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna í Bosníu (UNPROFOR), og SAS-sérdeilda hans (bls. 76-77) í þágu Serba.
Skírskotanir í verk franska sálgreinandans Jacques Lacans eru fjölmargar í Óraplágunni, og ef til vill er grunnþekking á táknrófi" hans forsenda þess að ná áttum í Óraplágunni. Ef svo er hefði mátt nota formálann til að útskýra það, en því miður er slíku ekki að heilsa.
Því má vera að lesandi sem ekki nær neinum tengslum við Órapláguna sé einfaldlega utanaðkomandi athugandi", ófær um að upplifa innri mikilfengleik" (bls. 87) textans. Þá er ekki um annað að ræða en fara að ráðum Björns Þorsteinssonar, ritstjóra Lærdómsrita bókmenntafélagsins, og hrífast með og leyfa frumkraftinum í textanum að hafa sín áhrif" (bls. 399).
Ég held að það sé rétt hjá Birni að leiðin til einhverskonar vitsmunalegrar upplifunar" (að ég segi ekki skilnings) á þessum texta er að nálgast hann til að byrja með á alveg ógagnrýninn hátt, og láta sig hafa óbragðið. Ekki ósvipað og unglingar gera þegar þeir eru að byrja að drekka - hella í sig viðbjóðslegum vodkanum þangað til áhrifa hans fer að gæta og gera neysluna auðveldari.
Making of"-bók
En hvað er það þá sem Zizek er að afhjúpa í Óraplágunni? Hvernig eru órarnir sem búa að baki leiktjöldum mannlífsins?
Svo dæmi sé tekið bendir Zizek á, að í kvikmyndum sé nú komin fram ný gerð af fölsku gegnsæi," sem best komi í ljós með öllum þeim aragrúa Making of..."-mynda sem fylgi núorðið bandarískum stórmyndum. Í þessum myndum sé skyggnst á bakvið tjöldin, rætt við leikara, höfunda og ef til vill einnig tæknimenn.
Með þessum myndum sé látið líta út fyrir að framleiðsluferlið (gerð kvikmyndarinnar) sé ekki lengur dulið með afurðinni (kvikmyndinni), en sannleikurinn sé þó sá, að í stað þess að uppræta tálsýn blætisins styrkir þessi innsýn í gagnvirki framleiðslunnar í raun blekkingu blætisins" (bls. 251), það er að segja, Making of..."-myndir eru orðnar að sérstakri tegund kvikmynda sem hafa í rauninni sama hlutverki að gegna og kvikmyndirnar sem þær fjalla um, það er, þær eru afþreying.
Þverstæðan er sú að framleiðsluferlið verður ekki lengur leynilegur vettvangur hins forboðna, þess sem ekki má sýna og skal dylja á bak við blætið, heldur tekur það sjálft að sér hlutverk blætisins sem heillar okkur með nærveru sinni" (sama). Meginþverstæða síðnútímans (og ef til vill knappasta skilgreiningin á honum) er að sjálft framleiðsluferlið, afhjúpun gangvirkisins, verður að blæti sem hylur hinn ráðandi þátt formsins..." (bls. 252).
Þarna virðist Zizek skírskota til svonefndrar tæknihyggju, sem margir hugvísindamenn hafa rýnt í og gert að umfjöllunarefni undanfarna áratugi, og talið af hinu illa. Martin Heidegger var líklega þessara manna þekktastur (sbr. ritgerð hans frá 1953, Spurning er varðar tækni"), og hér á landi hefur Páll Skúlason fjallað um þetta efni.
Í dægurmenningu nútímans birtist tæknihyggjan með þessum hætti, í vinsældum hliðarkvikmynda sem fjalla um framleiðsluferlið sjálft, og það þykir sjálfsagt mál að áhorfendur myndarinnar sjálfrar viti allt um tæknina sem notuð var við gerð myndarinnar, og sjái þannig í gegnum blekkinguna sem tæknibrellurnar skapa. Í mörgum tilvikum eru tæknibrellur mun öflugri auglýsing fyrir myndir en söguþráður þeirra eða jafnvel stjörnurnar.
Hugmyndin á bak við Making of..."-myndir er sú, að þær dragi fram í dagsljósið það sem er á bak við tjöldin, og útskýri það þannig, eða sýni hvernig málum var í rauninni" háttað við tökurn á myndinni sjálfri. En Zizek gengur skrefi lengra og afhjúpar afhjúpunina, bendir á að Making of..."-myndir séu í rauninni líka blekking, þær eru sviðsettar og megintilgangur þeirra sé að selja kvikmyndina sjálfa. Þær eru ekki óháð" greining á framleiðsluferlinu.
En nú vaknar sú spurning hvort menningarrýni eins og sú sem Zizek er kenndur við geti veitt óháða greiningu á tæknihyggju nútímans, eða sé einfaldlega sjálf angi af henni. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá bækur á borð við Órapláguna sem einskonar Making of..."-bækur; það er að segja, þær fjalla um það ferli sem býr að baki menningu samtímans eins og hún birtist í menningarafurðum á borð við kvikmyndir, skáldsögur og margt, margt fleira.
Hefðbundin sannleiksleit
Hér að framan var nefnt að texti á borð við Órapláguna krefjist mikils umburðarlyndis af lesandanum og ógagnrýninnar nálgunar, að minnsta kosti til að byrja með, uns lesandinn hefur meðtekið textann nógu vel til að geta gert hann að forsendu gagnrýni sinnar á samfélagið. En hvers vegna skyldi lesandinn veita textanum þetta umburðarlyndi? Með öðrum orðum: Hvers vegna skyldi lesandinn nálgast Órapláguna á ógagnrýninn hátt?
Ýmis svör koma til greina við þessari spurningu. Ef til vill er lesandinn ungur og áhrifagjarn - eða nálgast hvaðeina með opnum huga, ef maður kann betur við það orðalag. Ef til vill hefur lesandinn séð og heyrt Zizek live" og sannfærst um að hann sé frábær hugsuður. Nú eða þá að textinn hefur tekið að sér hlutverk blætisins sem heillar okkur með nærveru sinni" (bls. 251).
Blæti (fetish) er það þegar hvöt beinist að einhverju tilteknu sem kemur í staðinn fyrir hið eiginlega viðfang, eins og til dæmis þegar kynhvöt beinist að hlutum en ekki manneskju; eða, eins og Zizek nefnir, þegar vald holdgervist í einni manneskju sem verður þess vegna viðfang blætis annarrar manneskju.
Texta- eða orðablæti myndi þá fela í sér að texti eða orð komi í stað áþreifanlegs veruleika, eða höfði sterkar til blætisdýrkandans en veruleikinn sjálfur. Að skrifa eða lesa um hlut eða athöfn er þá upplifað sem raunverulegra en að taka á hlutnum sjálfum eða framkvæma athöfnina.
Zizek virðist líta svo á (þótt ég verði að viðurkenna að ég er alls ekki viss um hver viðhorf hans eiginlega eru) að blætishugtakið feli í sér blekkingu. Að minnsta kosti má segja að upphafleg og hefðbundin skilgreining á því feli í sér staðgengil", það er, eitthvað sem kemur í staðinn fyrir eitthvað sem upphaflega var. (Orðið fetish" mun eiga ættir að rekja til portúgalska orðsins feitico", frá 15. öld, er merkti falskan hlut.)
Því má ætla að greining Zizeks á órum og blæti í menningu nútímans hafi í rauninni það óyrta markmið að leiða í ljós sannleikann sem býr að baki órunum og blætinu, eins og að framan var nefnt í tengslum við kvikmyndina Underground. Heimspekin sem Zizek hefur fram að færa er því þegar nánar er að gáð hin hefðbundna sannleiksleit sem verið hefur leiðarstef heimspekinnar allt frá dögum Forn-Grikkja.
(Lesbók, 8. mars 2008)