KGA

Alan Sokal og vísindastríðið

Það er ekki oft sem atburðir í hugvísindadeildum háskóla komast í heimsfréttirnar. En uppátæki Alans Sokals rataði á forsíðu The New York Times 18. maí 1996 („það var að vísu heldur lítið í fréttum þann dag", segir Sokal sjálfur), og í kjölfarið fylgdu forsíðufréttir í International Herald Tribune, Observer og Le Monde. Segja má að með þessu prakkarastriki hafi Sokal ritað nafn sitt á spjöld hugmyndasögunnar, og líklega verður það rifjað upp með reglulegu millibili um ókomna tíð.

Sokal er 53 ára, prófessor í eðlisfræði og stærðfræði við University College í London og New York University. Hann sinnir fyrst og fremst rannsóknum í safneðlisfræði og skammtasviðsfræði. Því til viðbótar hefur hann með gabbinu fræga og skrifum í kjölfar þess skipað sér á bekk með vísindaheimspekingum.

Mikið vatn er til sjávar runnið síðan, og mikið hefur breyst í akademíunni og heiminum. Þarna um miðjan síðasta áratug geisaði einskonar kalt stríð meðal háskólamanna, þar sem vísindalega þenkjandi mönnum rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þeir sáu hvernig „vinstrisinnaðir menningarfræðingar" þóttust vita allt um vísindin, en höfðu greinilega ekki glóru um hvað þeir voru að tala. Hugvísindamennirnir sökuðu vísindamennina aftur á móti um einfeldningshátt og sögðu þá hreinlega ekki skilja innsta eðli þeirra eigin viðfangsefna - vísindanna. Þetta kalda stríð gekk undir nafninu „vísindastríðið" (science wars).

Þetta stríð er búið. Hvort Sokal átti þátt í að leiða það til lykta skal ósagt látið, enda mun tíminn einn leiða það í ljós.

(Lesbók 16. ágúst 2008)


Enn til varnar vísindunum

Hver man ekki eftir Sokal-gabbinu fræga? Nú lætur Alan Sokal enn til skarar skríða, að þessu sinni með bók sem er alveg ekta, það best verður séð, og tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið eftir að hann setti allt á annan endann í fræðaheiminum um miðjan síðasta áratug með því að gabba ritstjóra fræðitímaritsins Social Text með því að senda þeim bullgrein sem þeir birtu í góðri trú.

Enn er Sokal að koma vísindunum til varnar, en að þessu sinni sér hann óvini á bæði borð; ekki einungis póstmódernistana sem hann beindi spjótum sínum að með gabbinu heldur einnig, og kannski umfram allt, þá sem stunda gervivísindi á borð við handayfirlagningu, sem Sokal segir sumstaðar kennda í hjúkrunarfræði eins og um raunverulega sjúkdómsmeðferð sé að ræða.

Þótt hann greini grundvallarmun á póstmódernisma og gervivísindum reynist merkilegt nokk vera samhljómur þar á milli, og gervivísindamenn grípa til svipaðra meðala og póstmódernistarnir í málflutningi sínum. Og það sem virðist fyrst og fremst vekja andúð Sokals á hvoru tveggja er það sama: Skortur á skírskotun til reynslu og áþreifanlegs veruleika.

Það sem Sokal krefst er „skýr hugsun ásamt virðingu fyrir vísbendingum - einkum og sér í lagi óþægilegum og óæskilegum vísbendingum ... sem ganga gegn fyrirfram gefnum hugmyndum okkar", og segir hann þetta „mikilvægt til að tryggja að mannkynið lifi af á 21. öldinni".

Ég verð að viðurkenna að mér þykja áhyggjur Sokals svolítið yfirdrifnar, og hann tekur of djúpt í árinni þegar hann útlistar mikilvægi þess að kveða niður gervivísindamenn og póstmódernista. Vissulega eru bæði gervivísindi og póstmódernismi innantóm, en ef marka má Sokal er þetta hreinlega af hinu illa, og hann fær því á sig mynd einskonar krossfara.

Andspyrnan gegn póstmódernisma telst ekki lengur til tíðinda, og þá kannski hvað síst hér á síðum Lesbókar, þar sem birtist um árið greinaflokkur Kristjáns Kristjánssonar heimspekings um það efni, líklega einhver umtöluðustu fræðaskrif á Íslandi á síðari árum. Sokal hefur í þessari bók ekki að séð verður neinu við þessa þekktu pómóandspyrnu að bæta. Kannski er einna skemmtilegast að lesa gabbgreinina sjálfa með útlistunum hans á bullinu í hverri málsgrein um sig. Að vísu verður þetta dálítið langdregið, enda liggur við að önnur hver málsgrein sé útskýrð sem „hreint bull".

Í ljósi þess hve mjög hefur hallað undan fæti í póstmódernískum fræðum undanfarið, og líklega að hluta til fyrir tilstilli Sokals sjálfs, má kannski saka hann um að sparka í liggjandi mann, sjálfum sér til upphafningar og gróða - því þessi bók á áreiðanlega eftir að seljast vel.

En hvað þá um gagnrýni hans á gervivísindin? Eitt af því athyglisverðasta sem hann bendir á, eru tengsl gervivísinda og þjóðernishyggju. Sem dæmi tekur hann þjóðernishyggju hindúa á Indlandi, sem notað hafi gervivísindi, dulbúin sem raunveruleg vísindi, til að koma á framfæri pólitískri og trúarlegri kennisetningu, og seilast til valda á grundvelli hennar.

Talsmenn þessara indversku gervivísinda hafa lagt til atlögu gegn vísindum með því að segja þau vera „þekkingarfræðilegt ofbeldi gegn bæði manneskjum og náttúrunni". Hið vísindalega viðhorf byggist beinlínis á ofbeldisfullri afstöðu. Það sé blekking að nútímavísindi geti á hlutbundinn hátt svarað öllum spurningum sem vakna kunni. Hver menningarheimur eigi rétt á að „skapa sín eigin vísindi í samræmi við sínar eigin hefðir".

Ein helsta gagnrýni Sokals á póstmódernismann var um afstæðishyggjuna sem hann sagði einkenna hann, og höfnun á algildum sannleika. Þótt gervivísindin hafni algildi „vestrænna vísinda" eiga þau þó það markmið sameiginlegt með þeim að leita hlutlægs sannleika um veröldina. Aftur á móti skortir gervivísindin alveg þá gagnrýnu afstöðu og kröfu um áþreifanlegar vísbendingar sem einkenna eiginleg vísindi.

Megineinkenni gervivísinda er því trúgirni, segir Sokal, en megineinkenni póstmódernismans er aftur á móti efahyggja. Því virðist við fyrstu sýn sem þarna sé um að ræða algjörar andstæður, og að þessu leyti er það rétt, en í ljós kemur við nánari athugun að gervivísindi og póstmódernismi eiga margt sameiginlegt. Fyrst og fremst þennan skort á gagnrýnni hugsun og kröfu um raunverulegar, áþreifanlegar vísbendingar um að kenningar séu sannleikanum samkvæmt.

Vísindi byggjast á því hvernig reynslan hefur sýnt að veröldin sé, en gervivísindamennirnir og póstmódernistarnir stytta sér leið framhjá reynslunni og reiða sig alfarið á það sem einhver segir að sé tilfellið. En það sem þeir gera með það sem sagt er er gjörólíkt: Gervivísindamaðurinn trúir því, en póstmódernistinn hafnar því. Þess vegna líta þetta út fyrir að vera andstæðir pólar, þótt rótin sé í rauninni sú sama.

Þegar gervivísindamenn hafna algildi vestrænna vísinda leita þeir á sömu mið og póstmódernistar eftir röksemdum, og verða afstæðishyggjumenn. Þeir halda því fram, að vísindahyggja hafi ekkert með algildan sannleika að gera, heldur sé hún samfélagsleg afurð sem hafi náð útbreiðslu fyrir tilstilli ráðandi (vestrænna) afla. Vel sé hægt að hugsa sér að einhver önnur samfélagsleg afurð hefði litið dagsins ljós, og væri þá í þeirri valdastöðu sem vestrænu vísindin, sem eigi rætur í forngrískri heimspeki, séu nú í. Á endanum sé það því ekki markmiðið með vísindunum að leita sannleikans heldur að ná völdum.

Sem fyrr segir er þetta langt frá því að vera ný saga, nema að því leyti að gervivísindi eigi þetta sameiginlegt með póstmódernismanum. Sokal lætur ennfremur að því liggja að þarna sé á ferðinni samskonar málflutningur og nasistar í Þýskalandi hafi á sínum tíma notað sér til framdráttar. Sannarlega vafasamur félagsskapur það.

En er einhverjar vísbendingar að finna um að póstmódernismi, gervivísindi og trúarbrögð (sem Sokal fellir undir gervivísindi - þau krefjast trúgirni og höfnunar á algildi vestrænna vísinda) séu hættulegir óvinir vísindanna, og kalli því á öflugar varnir líkt og Sokal grípur til?

Ég held ekki. Eins og áður sagði hefur póstmódernisminn verið til lengi, og er nú þegar á undanhaldi, gervivísindi á borð við stjörnuspeki hafa verið til frá örófi alda, mun lengur en vísindin sjálf, og hið sama má segja um trúarbrögð. Þrátt fyrir þetta hefur engin hnignun orðið í vísindunum, þvert á móti. Ótal áþreifanleg dæmi má finna um ótrúlegan árangur vísindanna, og jafnvel mætti halda því fram, að uppgang vísindanna megi að sumu leyti rekja til andstöðunnar sem þau hafa mætt, og segja megi að hún hafi orðið þeim hvatning til dáða, ekki ósvipað þeim áhrifum sem samkeppni hefur á fyrirtæki.

Sokal gerir í rauninni litla og vanmáttuga tilraun til að útskýra hvers vegna þörf sé á svona kröftugum andmælum gegn póstmódernisma og gervivísindum (og þar með trúarbrögðum), og að lesandanum læðist smám saman sá grunur að Sokal sé fyrst og fremst í nöp við póstmódernista og gervivísindamenn á þeim forsendum að þeir séu loddarar sem skorti vilja (að ekki sé sagt nennu eða hæfileika) til gagnrýnnar hugsunar.

Og kannski er Sokal líka seldur undir þá sök, sem ég held að sé kannski svolítið útbreidd meðal fræði- og vísindamanna, að telja sig þess umkominn, og jafnvel hafa þá skyldu, að verja almenning fyrir ósannindum, svikum og prettum. En það er þó alveg óljóst hvaðan fræðingar og vísindamenn ættu að hafa slíka skyldu. Skylda þeirra hlýtur fyrst og fremst að vera við fræðin og vísindin sjálf, fremur en einhverskonar boðun þeirra.

Þrátt fyrir þessar efasemdir er ég alveg fullkomlega sammála því sem Sokal segir að helst sé til ráða gegn loddaraskap í fræðum og vísindum. Það þurfi að leggja meiri áherslu á það sem menn hafi að segja, fremur en stöðu þeirra og prófgráður. Í stjórnmálum ráði staða manna (þ.e. embætti) mestu um áhrif þeirra og vægi orða þeirra, en í vísindum eigi staða (t.d. innan háskóla) og gráða ekki að skipta neinu máli um mikilvægi þess sem þeir hafi að segja. Einungis beri að vega og meta það sem þeir hafi fram að færa.

En þótt ég sé sammála því, að svona ætti málum að vera háttað þá veit ég að svona er málum ekki háttað í raun og veru. Í vísindum, líkt og öllum öðrum mannlegum samfélögum, er virðingarstigi, og eins og í öllum virðingarstigum er þar mun auðveldara að hafa áhrif niður fyrir sig en uppfyrir. Slíkt er einfaldlega eðli virðingarstiga, og skiptir þá engu hvort hann er í vísindum eða stjórnmálum.

Því má þó alls ekki gleyma, að í vísindum er enginn óskeikull samkvæmt skilgreiningu, líkt og páfinn. Framhjá því verður ekki heldur litið, að krafa vísindanna um skírskotun til áþreifanlegs veruleika hefur reynst mannkyninu mun happadrýgri en skírskotun sem nær aldrei lengra en til orða og hugsjóna.

(Lesbók, 16. ágúst 2008)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband