Daily Mail fjallar um heimspeki (Kathleen Stock)
Laugardagur, 16. október 2021
Það er sannarlega ekki oft sem breska "götublaðið" The Daily Mail fjallar um heimspekinga, en nú hefur hin alræmda Kathleen Stock, prófessor við University of Sussex, orðið þess heiðurs aðnjótandi.
En það kemur ekki til af góðu. Hópur nemenda við háskólann gerir sitt besta til að hrópa hana af á þeim forsendum að hún sé transfóbísk. Nemendur vilja ekki koma fram undir nafni og hafa því sameinast í "leynimakki" eins og The Times segir frá.
Um daginn birtu breskir heimspekingar opið bréf til stuðnings Stock, þar sem þeir lýsa afstöðu hennar á þá leið að hún "takist á við þá spurningu hvort skipt skuli út kyni (sex) fyrir sjálfskilgreinda kynvitund (gender) í öllu lagalegu, pólitísku og félagslegu samhengi, eins og nú er vilji fyrir í Bretlandi."
Heimspekingarnir taka fram að ef til vill sé það rangt hjá Stock að enn sé að finna mikilvægar aðstæður þar sem kyn sé mikilvægara en kynvitund, en mestu skipti þó að hægt sé að ræða þessi mál opinskátt.
Í frétt The Times segir að Stock telji að fólk geti ekki breytt líffræðilegu kyni sínu, og hafi hún viðrað þessa skoðun sína opinberlega, m.a. á samfélagsmiðlum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.