Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016

Spurningar um bankabónusa

Spurningin um háar bónusgreiðslur til s.k. lykilstarfsmanna Kaupþings er fyrst og fremst siðferðileg vegna þess að hún snýst um hvort þessar greiðslur séu réttlátar. Ákall um umræðu um þetta mál er því ákall um siðferðislega umræðu.

Það er ekki spurning um að skiptast á skoðunum um hvort þetta sé réttlætanlegt og láta svo meirihlutann ráða. Þá væri eins hægt að sleppa umræðunni og fá bara Gallúp til að gera skoðanakönnun.

Gott og vel. Þetta er siðferðisleg spurning. Og hver, ef einhver, geta þá svör siðfræðinnar orðið (önnur en bara þau að kalla eftir umræðu)?

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að kalla eftir staðreyndum, fremur en umræðu - til að umræðan geti verið um eitthvað en ekki bara að menn skiptist á að segja hvað þeim finnst rétt. Meðal þess sem gott væri að vita er hvort greiðslurnar eru í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag, því að ef svo er verður að segjast að frá siðferðilegu sjónarhorni er ekki gott að samkomulag sé rofið. Maður á að standa við gefin loforð, ekki satt? Það er rangt að ganga á bak orða sinna. Og þannig mætti tína til fleiri siðferðisleg gildi sem flestir myndu líklega fallast á.

Svo má velta því fyrir sér hvort þessar greiðslur hafi þrátt fyrir allt jákvæðar afleiðingar fyrir fleiri en bara þá fáu sem fá þær. Eru líkur á að þetta muni koma t.d. samfélaginu öllu til góða með einhverjum hætti? Í þessu samhengi má benda á að há laun lækna eru t.d. réttlætanleg á þann hátt að störf þeirra skili svo mörgu örðu fólki en bara þeim sjálfum mjög góðum afleiðingum. Á það sama við um bankamenn? Einhvernveginn læðist að manni sá grunur að svo sé ekki, þótt það liggi kannski ekki fyrir svo óyggjandi staðreynd sé.

En sá biti sem flestum reynist líklega erfiðast að kyngja er að þessir bónusar virðast eiga sér rætur í græðgi. Og græðgi er löstur. Lesti ber að forðast, en í staðinn á maður að leitast við að vera dygðugur. Að minnsta kosti er það afstaða siðfræðinnar, þannig að hún myndi hiklítið segja að ef um er að ræða græðgi séu þessir bónusar ekki af hinu góða.

Líklega eru flestir sammala siðfræðinni um að græðgi sé vond. Hófsemi er öllu betri, ekki satt? En hvernig á þá að komast að raun um hvort þetta er græðgi, og hvað er átt við með því að græðgi sé vond?

Við þessum spurningum á siðfræðin reyndar svör, en það er kannski óþarfi að rekja þau hér núna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband