Hreinleikaspírall
Þriðjudagur, 7. desember 2021
Fyrirbærið hreinleikaspírall (e. purity spiral) er skilgreint sem það "ástand þegar fylgjendur tiltekinnar hugmyndafræði verða sífellt ákafari og einstrengingslegri uns þeir snúast gegn hver öðrum".
Í ágætum þætti á BBC4 í fyrra var fyrirbærið skilgreint m.a. sem einhverskonar "moral outbidding" - kannski á íslensku siðferðisyfirboð, þegar keppst er um að verða siðferðislega "hreinni" en næsti maður.
Í þættinum segir Gavin Haynes:
"Hreinleikaspírall myndast þegar samfélag fer að einblína á eitt og sama gildi [e. value] sem á sér ekkert hámark og hefur enga almenna skilgreiningu sem sátt ríkir um. Afleiðingin verður einskonar siðferðislegur ætisofsi [e. feeding frenzy]. Öfgakennd dæmi um hreinleikaspíral er Deiglan, rauðu varðliðarnir hans Maós eða sýndarréttarhöld Stalíns."
Kannski má þó segja að þekktasta dæmið um hreinleikaspíral sé ógnarstjórnin í Frakklandi í kjölfar byltingarinnar. Byltingarmennirnir kepptust við að vera sem hreinastir í byltingarandanum svo ekkert mátti út af bera. Úr varð sífelld yfirboð í byltingarandanum og þeir sem ekki voru nógu hreinir lentu í fallöxinni. Sem kunnugt er linnti ekki látum fyrr en sjálfur Robespierre var gerður höfðinu styttri.
Stundum er talað um að byltingin éti börnin sín. Hugmyndin um hreinleikaspíral getur útskýrt hvernig og hvers vegna það gerist.
Sagan virðist kenna að hreinleikaspíralar endi nokkurnveginn alltaf á sama veg. Hættan er sú að sagan haldi áfram að endurtaka sig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.