Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2021
Meira af stóra Stock-málinu
Föstudagur, 19. nóvember 2021
"How can ... psychological identity claims define material categories?" spyr Kathleen Stock í þessu athyglisverða viðtali.
Þetta er heimspekilega eðlileg og góð spurning, er það ekki? Annarsvegar um að ræða áþreifanlega, efnislega staðreynd, og hins vegar óáþreifanlega hugmynd. Hvort tveggja sannarlega raunverulegt, en af tveim eðlisólíkum "kategóríum" (flokkum).
(Þetta er kannski soldið svona eins og þegar maður spyr hvernig óefnislegur Guð eigi að geta haft einhver áhrif í efnislegum heimi. (Samt ekki alveg hliðstætt). Eða hvernig Descartes sá fyrir sér að óefnisleg sál tengdist efnislegum líkama. Hann gat aldrei útskýrt það vel, blessaður, en reyndi að staðsetja tengslin einhverstaðar í heilanum, minnir mig).
Eða er það misskilningur að deilan standi um þetta. Er kannski frekar deilt um hvað hlutirnir (efnislegir, áþreifanlegir) eru kallaðir, frekar en hvað þeir eru? Snýst deilan um orð og hugsun en bara alls ekki efnisveruleika?
Það sem Stock segir er tiltölulega augljóst og skýrt, en sú æðisgengna gagnrýni sem hún hefur sætt bendir til að málflutningur hennar sé talinn beinlínis hættulegur. Er hún að halda fram hugmyndafræði - sem er þá skaðleg? Er hún ekki frekar bara að tala um áþreifanlegan, efnislegan veruleika og að hann lúti ekki sömu lögmálum og hugmyndir - verði til dæmis ekki breytt með hugmyndum?