Klisjur um karla

Viðhorf, Morgunblaðið, 21. júní, 2005

Ég gaf jakkafötin mín um daginn. Þau voru alltof stór á mig og löngu dottin úr tísku. Þau voru brún og ekki teinótt, hvort tveggja alveg út í hött miðað við núverandi tísku. Ég hef ekki í hyggju að kaupa mér ný, enda fór ég ekki í þessi brúnu nema fyrir fáeinar fermingarveislur og tvö brúðkaup.

Eftir á að hyggja voru það líklega mistök að gefa jakkafötin. Rétt ein ákvörðunin sem ég tek sem fyllir mig efasemdum. Enda er ég hræddur við að taka ákvarðanir og ég er áhættufælinn. Yfirmenn mínir vita þar að auki að ég vil ekki ábyrgð í vinnunni, og að ég hef tilhneigingu til að stelast snemma heim. Allt stafar þetta af því, að mig skortir sjálfstraust. Ég er viss um að það verður hlegið að mér fyrir að skrifa þetta viðhorf.

Af ofanrituðu má draga þá ályktun, ef það er lesið í samhengi við grein Signýjar Sigurðardóttur, "Ég er...kona", í Morgunblaðinu á sunnudaginn var, að ég sé ansi nærri því að vera kona. Að minnsta kosti er ég fjarri því að fylla út í þá mynd sem hún dregur upp af karlmönnum.

Til viðbótar því sem ég hef þegar talið upp af eiginleikum mínum get ég svo nefnt, að ég hef engan áhuga á viðskiptum og pólitík, og síst af öllu efnahagsmálum. Ég skil ekki einu sinni viðskiptafréttaflóð fjölmiðlanna og ég hef ekki glóru um hvað "S-hópurinn" er. Fótbolta hef ég aldrei þolað.

Grein Signýjar var undarlegt samsafn af fornaldarlegum klisjum og alhæfingum um karlmenn. (Ég skal ekkert segja um það sem hún fullyrðir um konur.) Eitt dæmi: "Karlar eru ánægðir með umræðuna og áherslurnar. Þeir sjá ekkert athugavert við það þó einungis þeirra sjónarhorn komi fram. Þeirra sjónarhorn er hvort eð er sannleikurinn."

Á þetta sér stoð í veruleikanum? Ekki alveg. Eitt af því sem karlar hafa alveg nýverið farið að voga sér að skipta sér af er uppeldi barnanna sinna. Þar hefur, þar til fyrir bara stuttu síðan, einokun kvenna verið alger. En á þessu sviði, sem er það mikilvægasta í mannlífinu, eru karlar fjarri því að vera "ánægðir með umræðuna og áherslurnar". Þeim finnst að þar komi þeirra sjónarmið lítið sem ekkert fram þegar á reynir. Þarna er þeirra sjónarhorn hreint ekki viðurkennt sem sannleikurinn. Þvert á móti. Þetta kemur hvað greinilegast í ljós þegar virkilega á reynir - það er að segja í forræðismálum.

Maður þarf ekki að lesa lengi á vef Félags ábyrgra feðra (www.abyrgirfedur.is) til að komast að raun um hvernig þetta mál horfir við mörgum karlmönnum. Sjónarmið þeirra má draga saman í fáein orð: Þeim finnst þeir ekki eiga neinn séns. Þetta sjónarmið kom einnig skýrt fram í norskri heimildamynd sem RÚV sýndi fyrir skömmu (og endursýndi á sunnudaginn). Körlum finnst að í þessum gífurlega mikilvæga málaflokki sé "samfélagið" þeim algjörlega andsnúið.

Þetta sama "samfélag" (hvað svo sem það eiginlega þýðir) var líka ofarlega í huga annarrar konu sem tjáði sig í Morgunblaðinu á sunnudaginn var, Oddnýjar Sturludóttur, sem hefur nýlokið við að þýða bókina Móðir í hjáverkum (I Don't Know How She Does It). Og Oddný hamraði á sömu, gömlu klisjunum um karla.

Hún fullyrti meðal annars að það væri "í rauninni skýlaus krafa samfélagsins að mæðurnar gegni aðalhlutverki í uppeldinu". Ef þetta er rétt hjá Oddnýju - sem talsverð ástæða er til að efast um - felur þetta í sér að "samfélagið" neitar í raun feðrum um að taka raunverulegan þátt í uppeldi barnanna sem þeir eiga. Slíkt er auðvitað gróft brot á mannréttindum, og þar að auki hlýtur þetta að teljast einhvers konar tilfinningakúgun sem karlar sæta að þessu leyti af hálfu "samfélagsins". Það skyldi þó ekki vera að þessi "skýlausa krafa" eigi sér rætur í þeim fordómum að karlar séu þegar allt kemur til alls ófærir um að ala upp börn?

Oddný sagði líka í viðtalinu: "Á meðan pabbar eru hér um bil aðlaðir fyrir að sinna börnunum sínum vel, taka allir því sem sjálfsögðum hlut þegar konur eiga í hlut." Þetta er út af fyrir sig undarleg alhæfing, en ef þetta er rétt, hvaða fyrirfram gefnu hugmyndir - það er að segja fordómar - geta legið þessu að baki? Skyldi þó ekki vera að það séu sömu fordómar og að ofan eru nefndir, það er, sú hugsun að það sé konum "eðlilegt" að ala upp börn en körlum ekki? Að kona sem sinnir uppeldi sé einfaldlega eðli sínu samkvæm en karl sem gerir það sé á einhvern hátt að ganga gegn eðli sínu, og þess vegna sé það sem hann gerir alveg sérstaklega eftirtektarvert?

Og ef ofangreind fullyrðing Oddnýjar er rétt, hvað segir það þá um viðhorf "samfélagsins" til feðra? Jú, samkvæmt þessu er komið fram við þá eins og börn: Eins og að stöðugt þurfi að vera að hrósa þeim fyrir það sem þeir gera til að byggja upp sjálfstraust hjá þeim. Þeim sjálfum, aftur á móti, finnst þeir bara vera að gera það sem þeim þykir skemmtilegast af öllu (vera með börnunum sínum).

Þessi framkoma "samfélagsins" við karla sem vilja sinna börnum sínum er lítilsvirðandi. Og það skyldi þó ekki vera að það séu þessir fordómar sem þegar allt kemur til alls ráða ennþá ferðinni í forræðismálum? Þar ríkir enn sú hugsun, að konum sé eðlilegt að ala upp börn en körlum ekki, og þar af leiðandi sé ekki vogandi að fela feðrum forræði barna sinna.

Það er dapurlegt að konur skuli hafa haldið upp á daginn sinn, 19. júní, með því að hjakka á klisjum og fordómum í garð karla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband