Færsluflokkur: Bækur
9.5.2006 | 12:45
Erfiðir menn
(Viðhorf, 9. maí).
"Ég hef alltaf beðið eina mjög stutta bæn til Guðs. Hún er svona: "Góði Guð, gerðu óvini vora hina fáránlegustu." Þetta hefur Guð veitt mér." (Voltaire um Rousseau).
Bresku fréttamennirnir og rithöfundarnir David Edmonds og John Eidinow sérhæfa sig í skrifum um erfiða menn - það er að segja, menn sem hafa verið skapstirðir með eindæmum og átt í útistöðum við samtíð sína. Edmonds og Eidinow tóku fyrst upp þennan þráð í bókinni Wittgenstein's Poker, þar sem þeir fjölluðu um heimspekinginn Ludwig Wittgenstein, nánar tiltekið eitt lítið atvik í Cambridge þegar Wittgenstein og Karl Popper voru leiddir saman og sá fyrrnefndi missti stjórn á skapi sínu og hótaði að ganga í skrokk á þeim síðarnefnda með skörungi.
Síðan skrifuðu Edmonds og Eidinow um Bobby Fischer í bókinni Fischer at War (sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið) og nýjasta afurð Bretanna tveggja er svo Rousseau's Dog, sem fjallar um svissneska skaphundinn Jean-Jacques Rousseau, og þá einkum hörð átök hans við skoska heimspekinginn David Hume, sem aftur á móti virðist hafa verið einstakur ljúflingur (í París var hann kallaður le bon David), sem þó að vísu "missti sig" gjörsamlega vegna yfirgengilegrar tortryggni og aðdróttana Rousseaus.
Sagan sem Edmonds og Eidinow rekja í Hundi Rousseaus gerist á upplýsingaöldinni, og helstu persónur hennar eru auk Humes og Rousseaus menn eins og Voltaire, Valpole og Grimm, að ógleymdum hefðardömunum í París sem héldu andans mönnum "salon" þar sem ekki var nú töluð vitleysan. Sagan hefst um það bil sem landar Rousseaus eru búnir að fá alveg nóg af vænisýki hans og yfirdrepsskap og hafa eiginlega hrakið hann á brott frá Genf. Þaðan berst hann til Parísar og svo loks til Bretlands með hjálp Humes, sem lætur sem vind um eyrun þjóta aðvaranir um að hann sé að "ala nöðru við brjóst sér". En það kemur á daginn að Hume, líkt og flestir aðrir sem kynntust Rousseau að ráði, missti alla þolinmæði gagnvart honum og sneri algerlega við honum baki.
Hundur Rousseaus er ekki fræðibók. Maður verður lítils vísari um hugmyndir Rousseaus og Humes af lestri hennar. Höfundarnir leggja alla áherslu á að útlista persónuleika söguhetjanna, muninn á þeim og hvörfin sem verða í samskiptum þeirra. Andleg slagsmál þessara tveggja andans stórmenna eru inntak bókarinnar og því má kannski segja að þetta sé eins konar skemmtisaga úr menntamannaheimum - "Fight Club" fyrir bókabéusa. Að minnsta kosti virðast ýmsir samtímamenn Rousseaus og Humes hafa fylgst með atganginum í þeim úr hæfilegri fjarlægð og haft gaman af. Þar að auki höfðu greinilega mjög margir horn í síðu Rousseaus - þar á meðal Voltaire, sem áleit hann uppskafning af verstu sort - og fannst þetta gott á hann. (Samanber það sem haft er eftir Voltaire um Rousseau hér að ofan).
Hume kemur reyndar ekkert sérlega vel út úr þessu heldur. Honum virðist hafa verið mikið í mun að koma vel fyrir og að fólki líkaði við sig, og konur í París höfðu hann hálft í hvoru eins og kjölturakka - og þótti fínt. En kynnin af Rousseau settu Hume alveg út af ljúfa laginu. Kannski er það satt sem segir á einum stað í bókinni, að heilbrigt fólk geti ekki gert brjálað fólk heilbrigt, en brjálað fólk geti gert heilbrigt fólk brjálað.
En meginviðfangsefni bókarinnar er nú samt, eins og nafn hennar bendir til, persóna Jean-Jacques Rousseau. Dregið er fram býsna margt miður fagurt um hann, eins og til dæmis að hann eignaðist fimm börn en yfirgaf þau öll á hæli fyrir "óvelkomin börn" í París. Konan sem hann átti þau með og var lífsförunautur hans, Thérese Le Vasseur, var varla læs og Rousseau virðist hafa komið fram við hana eins og hún væri þjónn hans. Hann var moldríkur því að bækur hans seldust vel, en samt þóttist hann lítt efnaður. Hann var heilsuhraustur, en samt lífhræddur og síkvartandi. Það var sagt um hann að hann væri sífellt með uppsteyt til að vekja á sér athygli, og að þótt hann talaði sífellt um að þrá það eitt að vera í friði væri friður og ró það eina sem hann þyldi ekki.
Það var mikið sport að gera at í Rousseau, og Hume virðist hafa átt hugmyndina að einni meinlegustu athugasemdinni um hann, en kjarninn í henni var að Rousseau hefði óendanlega þörf fyrir að vera ofsóttur. Eða var hann eins og Ljóti andarunginn, sem allir voru vondir við en var í raun fagur svanur? Nei, af bók Edmonds og Eidinows má ráða að kannski hafi verið nokkuð til í því að Rousseau hafi ekki aðeins verið haldinn ofsóknarkennd heldur beinlínis ofsóknarþörf.
Ef til vill hefur honum verið þetta á einhvern hátt meðfæddur fjandi, og því ekki nema von að hann sæi djöfla í hverju horni. Sá sem er óttasleginn hlýtur jú að gera ráð fyrir að hin eðlilega og rökrétta ástæða ótta - aðsteðjandi hætta - sé fyrir hendi og leitar hennar því sífellt. En þegar óttinn á sér ekki ytri orsakir heldur innri verður leitin endalaus, og maður eins og Rousseau, sem tók ekki mark á neinu nema eigin tilfinningum, á í raun enga mögulega leið út úr slíkum ógöngum.
Enda er niðurstaða þeirra Edmonds og Eidinows alls ekki sú, að Rousseau hafi verið illmenni sem réttast sé að fyrirlíta. Þeir komast fremur að því, að hann hafi verið óheppinn með lundarfar og það hafi gert honum (og reyndar fleirum) lífið leitt alla tíð. Hann verðskuldi því fyrst og fremst meðaumkun.
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)