Vindhögg

Það er enginn málstaður svo heilagur að honum megi ekki vinna tjón með því að fara fram í nafni hans með rökleysu. Vondur málflutningur er verri en enginn, því að hann grefur undan málstaðnum, rétt eins og góður málflutningur rennir stoðum undir hann.

Kjarninn í vondum málflutningi er að hann virðist ekki hafa annað markmið en sjálfan sig, það er að segja, honum er ekki miðað á mark heldur er fyrst og fremst hugsað um að ná að skjóta.

Ég held að ýmsir fylgjendur femínisma hafi að undanförnu verið dálítið duglegir við að skjóta sinn eigin málstað í fótinn með ýmsum rökleysum.

Áður en lengra er haldið vil ég endilega koma því að, að ég hef talið mig femínista, ekki síst eftir að ég eignaðist dóttur, sem nú er fimm ára, og mér fór að verða framtíð hennar hugleikin.

Það er svo ótalmargt sem femínisminn miðar að sem ég held að kæmi dóttur minni og öðrum stelpum til góða er þær vaxa úr grasi. Það sem ég tel sjálfur skipta mestu máli er að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Einnig er mikilvægt að berjast gegn kynbundnum launamun, vegna þess að launin sem maður fær segja svo margt um það hversu mikils samfélagið metur framlag manns miðað við framlag annarra (hversu mjög sem ég sjálfur og aðrir lopapeysuintellektúalar andmæla því).

En undanfarnar vikur hefur ýmis málflutningur í nafni femínismans gert að verkum að ég veit ekki alveg hvort ég má segjast femínisti, eða hvort ég kæri mig yfirleitt um það.

Má þar til taka að ég er karlkyns og kominn ískyggilega nærri miðjum aldri, og ég sá ekki betur í einhverju bloggi um daginn en að andmæli fólks af minni sort (miðaldra karlmanna) við málflutningi femínista undanfarið sé einmitt til marks um að hans sé mikil þörf.

Þetta minnir óneitanlega á kenningu Freuds um afneitun. Ef maður hreyfir mótbárum við henni má líta á það sem svo að maður sé einmitt orðinn dæmi um það sem kenningin kveður á um. Ef maður afneitar því að maður sé í afneitun þá er það náttúrulega bara staðfesting á því að maður sé í afneitun. Þessi kenning er í hópi svonefndra „teflon-kenninga" - það bítur ekkert á henni og því er ekki hægt að afsanna hana. En er hún þar með rétt?

Upplifun mín á þessum svokölluðu rökum var á þá leið að umræddur málflytjandi virtist líta svo á að ég sé sekur uns sakleysi mitt er sannað. Þarna er gengið þvert á eitt megingildi réttlætisins, það er, að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð. Grunsemdirnar einar virðast látnar duga til að fella megi dóm.

Við þetta bætist svo að þessi „rök" eru ad hominem, það er að segja, þau beinast gegn okkur miðaldra körlum á þeim forsendum að við erum miðaldra karlar, ekki vegna þess sem við gerum eða segjum.

Þetta tvennt sem hér hefur verið nefnt, umsnúin sönnunarbyrði og rök ad hominem, eru meðal þess sem í gegnum tíðina hefur greitt götu hvers kyns ofsókna. Nú er ég alls ekki að saka nokkurn mann um að kynda undir ofsóknum. Ég er einungis að reyna að útskýra upplifun mína á málflutningi sem heyrst hefur undanfarið í nafni femínisma, og átta mig á því hvers vegna mér hefur á stundum verið beinlínis brugðið þegar ég hef heyrt hann.

Ekki bætti svo úr skák frétt um að Öryggisráð Femínistafélags Íslands hefði kært forstjóra og stjórn Valitor - Visa Ísland fyrir meinta aðild þeirra að dreifingu kláms með því að Valitor sér um innheimtu þegar aðgangur að erlendum klámvefjum er keyptur með Visa-korti.

Einhver benti á að þetta væri álíka gáfulegt og að kæra banka fyrir að láta manni í hendur peninga sem hann notar til að kaupa eitthvað vafasamt.

Jæja, það má eflaust margt að þessum málflutningi mínum finna. Í fyrsta lagi mætti ef til vill benda mér á að taka mátulega mikið mark á því sem skrifað er á blogg - og kannski sérstaklega af fólki sem virðist vinna við að blogga. Í öðru lagi mætti benda mér á að láta athuga hvort ég sé nokkuð vænisjúkur (eins og mér hefur reyndar þegar verið bent á).

Þetta tvennt ætla ég að taka fyllilega til greina. Hætta að taka nema mátulega mikið mark á bloggskrifum - enda virðast þau oft skrifuð á einhverskonar sjálfstýringu, líkt og skrifarinn íhugi lítið eða ekki það sem hann skrifar - og láta athuga þetta með hugsanlega vænisýki.

Ég ætla líka að taka mark á þeim hugsanlegu andmælum að mótbárur mínar séu sjálfkrafa dauðar og ómerkar vegna þess að ég er karlmaður á miðjum aldri. Þess vegna geri ég ekki ráð fyrir að fá neinar athugasemdir við þennan pistil.

Svo getur það auðvitað verið að krafan um sönnun sektar sé á einhvern hátt karllægt fyrirbæri, og einmitt til marks um að mig skorti grundvallarskilning til þátttöku í þessari umræðu.

Ef út í það er farið er afskaplega þægilegt að vera útilokaður svona frá þátttöku í umræðunni, og settur í hlutverk óvirks áhorfanda. Það þýðir að ég get í rauninni sagt hvaða bull sem er, því að ég veit fyrirfram að það verður ekki hlustað á mig. Ég er með öðrum orðum fullkomlega frjáls. Ég get látið vaða á súðum - bara passa mig á að brjóta ekki meiðyrðalöggjöfina, þá er mér óhætt.

Ég segi bara eins og konan: Það er ekki ég sem hef yfirgefið umræðuna, umræðan hefur yfirgefið mig.

Þrátt fyrir þetta held ég auðvitað áfram að telja mig femínista, einfaldlega vegna þess að mér dettur ekki í hug að taka mark á fólki sem gefur í skyn að ég sé ekki til þess bær að taka afstöðu til mála er varða framtíð dóttur minnar.

(Viðhorf, Morgunblaðið 15. desember 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband