Áhrif bóka

Viðhorf, Morgunblaðið, 16. jan. 2007

Er Draumalandið einhver áhrifaríkasta bók síðari ára á Íslandi, eða öllu heldur sú umtalaðasta? Egill Helgason sagði í Silfrinu á sunnudaginn, þegar hann ræddi við Andra Snæ, að bókin væri ein sú áhrifamesta. Það má vera að svo reynist, en ég held að það sé fullsnemmt að fullyrða að svo sé.

Ekki svo að skilja að ég ætli hér að taka upp debatt við Egil. Alls ekki. Ég ætla frekar að nota orð hans - sem hann lét falla meira eins og almenna kynningu á bókinni frekar en útpælda greiningu á þjóðfélagslegri stöðu hennar - sem tylliástæðu til vangaveltna um greinarmuninn sem hér að ofan var nefndur, á áhrifum og umtali.

Maður skyldi ætla að þessi greinarmunur væri sjálfljós. Það sem hefur áhrif leiðir nauðsynlega til breytinga á ríkjandi ástandi (eða ríkjandi hugarfari), en það sem er umtalað leiðir ekki nauðsynlega neitt slíkt af sér. Samt held ég að þessu tvennu sé oft ruglað saman, og þá einkum með þeim hætti að umtal sé talið vera til marks um áhrif. Auðvitað er eðlilegt að mikið sé talað um það sem hefur í raun áhrif. En hér liggur einungis orsakasamhengi í aðra áttina (frá áhrifum til umtals) en ekki í hina (frá umtali til áhrifa).

Það er líklega rétt að ég taki fram strax, að sjálfur hef ég ekki lesið Draumalandið, þannig að ef einhverjum lesanda þessa pistils finnst að þar með sé ég ekki marktækur í nokkurri umræðu um bókina þá getur sá lesandi hætt núna.

En aftur að þessu með umtalið og áhrifin. Á því leikur enginn vafi að Draumalandið var einhver mest selda bók síðasta árs, og þótt hún hafi komið út snemma á árinu stóð hún sig með prýði í jólabókaflóðinu. Síðasta sumar varð ekki þverfótað fyrir henni í bókabúðum, og ekki varð þverfótað fyrir höfundi hennar í fjölmiðlum. Og svo má rétt nærri geta um fyrirferð hvors tveggja í kaffihúsasamræðum.

Í ljósi þeirrar gríðarlegu umræðu sem farið hefur fram um bókina mætti ætla að hér væri um að ræða rit sem hefði gerbylt lífsháttum og/eða hugsunarhætti íslensku þjóðarinnar. Og eins og ég sagði áðan, kannski á eftir að koma í ljós að bókin hafi gert það, en enn sem komið er situr kviðdómurinn að störfum.

Það var því ef til vill ekki undarlegt að Þröstur Helgason umsjónarmaður Lesbókar furðaði sig á því - og allt að því skammaðist út af því - einhvern tíma undir síðasta vor, að stjórnvöld skyldu þegja þunnu hljóði um bókina, miðað við hvað hún hefði selst vel og vakið mikið umtal.

En ég er ekki frá því að einmitt þetta - hvað bókin fékk góðar viðtökur strax í byrjun - megi hafa til marks um að hún muni lítil áhrif hafa. Allir þeir sem tóku henni svona vel voru þegar sammála því sem í henni stóð, og það voru svo margir þegar orðnir þessarar skoðunar áður en bókin kom út að hún rokseldist. Það er ekkert sem bendir til að hún hafi selst í stóru upplögum til þeirra sem voru alveg ósammála því sem í henni stendur.

Hún getur því varla breytt miklu, því að það hugarfar sem hún predikar er þegar orðið mjög útbreitt. En um leið er ekki að undra að hún hafi orðið gífurlega vinsælt "conversation piece". Bækur sem segja má að hafi haft áhrif hafa alltaf fallið í grýttan jarðveg til að byrja með.

Og ég veit ekki nema þessi margumrædda bók geti beinlínis orðið til að draga úr því sem henni mun vera ætlað að hvetja til, það er að segja samfélagslegrar ábyrgðar gagnvart umhverfinu. Fólk keppist við að tala um hana og hnykkir á með því að hún "veki mann svo sannarlega til umhugsunar". Maður getur beinlínis sýnt samfélagslega ábyrgð sína í verki með því einu að lesa hana, og að sama skapi er (að ýmissa dómi) beinlínis óábyrgt að lesa hana ekki.

Það er að segja, í staðinn fyrir að axla með áþreifanlegum hætti ábyrgð sína í umhverfismálum og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama tekur maður sér Draumalandið í hönd og les frá upphafi til enda, lætur skína í ábyrgðartilfinningu með því að segja hvað bókin veki mann nú mikið til umhugsunar, og svo hvetur maður aðra til að gera slíkt hið sama - það er að segja lesa Draumalandið.

Bókin verður því að einskonar aflátsbréfi fyrir þá sem þykjast vita upp og sig og aðra einhverjar syndir gagnvart umhverfinu. Maður játar syndir sínar og gerir yfirbót með því að lesa Draumalandið. Jafnvel tvisvar ef syndirnar eru stórar.

Vissulega hafa sumir orðið til að andmæla bókinni, en ég held að þeir séu teljandi á fingrum annarrar handar sem það hafa gert. Og ekki hefur gagnrýni á hana orðið til að vekja svör. Því er ekki hægt að segja að bókin hafi orðið umdeild.

Það er svo sannarlega óhætt að fullyrða að Draumalandið sé umtöluð bók - líklega einhver sú umtalaðasta sem komið hefur út lengi. En það eru engar forsendur (enn sem komið er að minnsta kosti) fyrir því að segja að hún hafi orðið áhrifarík, og ekki eru heldur neinar vísbendingar um að hún sé umdeild. Þvert á móti bendir allt til að hún sé með öllu óumdeild, og það eitt út af fyrir sig er vísbending um að hún muni hafa lítil áhrif.

En það er ekki öll nótt úti. Bókin gæti enn átt eftir að hafa áhrif, það er að segja, valda breytingu á ríkjandi ástandi eða hugarfari. En slíkar breytingar verða ekki á einu sumri. Ef ungt fólk sem enn hefur ekki öðlast sterka sannfæringu les bókina kann hún að móta að einhverju leyti hugmyndir þess. Kannski einhverra sem síðar meir öðlast völd á Íslandi. Þá fyrst verður hægt að segja að Draumalandið hafi verið áhrifarík bók.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fararstjórinn

Þú verður að lesa hana. Hún hefur haft áhrif á marga og breytt þeirra skoðunum. Ég veit um marga sem hafa farið U-beygju í skoðunum sínum eftir að hafa lesið bókina, sérstaklega eftir kaflann um markaðssetingu ódýrrar orku erlendis. Lestu hana, hún er nefnilega ekki bara áhrifamikil, heldur LÍKA skemmtileg!

Fararstjórinn, 16.1.2007 kl. 10:29

2 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Sammála samlíkingunni við aflátsbréfið.

gerður rósa gunnarsdóttir, 18.1.2007 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband