23.1.2007 | 13:43
Tombólubörn
Viðhorf, Morgunblaðið, 23. janúar, 2007.
Ég var einu sinni ljósmyndari á Morgunblaðinu, og meðal fastra liða í því starfi var að taka myndir af svokölluðum tombólubörnum. Það voru börn sem komu á ritstjórnina til að segja frá því að þau hefðu haldið tombólu - sem heitir víst hlutavelta á fínni íslensku - og fá tekna af sér mynd sem síðan var birt í blaðinu með texta þar sem fram komu nöfn barnanna og upphæðin sem þau höfðu safnað og hvað þau höfðu gert við ágóðann. Hann höfðu þau undantekningarlaust gefið Rauða krossinum eða einhverju öðru líknarfélagi.
Hvað er orðið af tombólubörnunum? Er Morgunblaðið hætt að birta myndir af þeim? Eða skyldu þau vera hætt að koma á blaðið? Vissulega hvarflar að manni að flutningar ritstjórnarinnar upp í Hádegismóa hafi gert krökkunum erfiðara fyrir, en eru engin börn og engar tombólur í Árbænum? Eða er ástæðan kannski einhver önnur?
Kona sem ég tek meira mark á en öðrum sagði mér að börn væru alls ekki hætt að halda tombólur, en hún hefði rökstuddan grun um að það væri ekki lengur Rauði krossinn eða slík líknarfélög sem nytu góðs af. Síðasta sumar hefðu börn meira að segja haldið fullt af tombólum í hverfinu okkar. Reyndar sagði hún að sér hefði sýnst síðastliðið sumar að börnin væru farin að færa út kvíarnar og stunda ýmsan verslunarrekstur, ekki síst að selja dótið sitt.
En það virtist vera af sem áður var með tilgang þessarar starfsemi. Konan sem ég tek meira mark á en öðrum sagðist hafa keypt eitthvað á tombólu í hverfinu okkar síðasta sumar og svo spurt krakkana sem héldu hana hvað þau ætluðu að gera við ágóðann. Það stóð ekki á svari: "Við ætlum að kaupa okkur tölvuleik."
Ég sé ekki alveg að það gengi upp að þessir krakkar færu upp í Hádegismóa á ritstjórn Morgunblaðsins og fengju birta af sér mynd í blaðinu með texta um að þeir hefðu haldið hlutaveltu og ágóðinn hefði verið svo og svo mikill og að krakkarnir væru þegar búnir að fara með hann í Skífuna og kaupa tölvuleikinn Flesheaters.
Getur verið að þetta sé helsta ástæðan fyrir því að myndir af tombólubörnum eru hættar að birtast í Morgunblaðinu, fremur en að börnin nenni ekki að leggja á sig að fara alla leið upp í Hádegismóa? Hvað segir Rauði krossinn, berst honum enn hagnaður af tombólum barna?
Ef það er nú rétt sem virðist mega álykta af ofanskrifuðu að börn séu einfaldlega hætt að gefa ágóðann af tombóluhaldi sínu og verslunarrekstri til líknarstarfsemi, fremur en að þau séu alveg hætt að stunda slíka starfsemi, blasir við sú spurning hvað valdi þessari hugarfarsbreytingu hjá börnunum. Svarið blasir reyndar líka við: Breytingar á þeim grundvallargildum sem ríkjandi eru í þjóðfélaginu. Samhjálpin hefur vikið fyrir sjálfshjálpinni.
Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort er horfið, tabúið á að einstaklingar sanki að sér miklum auðævum eða siðferðislega skyldan til að veita meðbræðrum sínum hjálp. Ég held þó að það sé fremur hið fyrrnefnda. Meira að segja Katrín Jakobsdóttir, væntanlegur þingmaður Vinstri grænna, sagði í sjónvarpi fyrir skömmu að það væri gott að bankarnir græddu mikið.
Siðferðisskylduboðið um að hjálpa þeim sem minna mega sín er líklega enn í gildi. Ef auðmenn hafa það í heiðri fá þeir siðferðislega heimild samfélagsins til sjálfsumbunar. En þar sem það er nú á almannavitorði að auðmenn greiða ekki lengur í sameiginlega þjóðfélagssjóðinn á formi skatta - þeir greiða einungis fjármagnstekjuskatt til málamynda - þurfa þeir að uppfylla þetta siðferðisskylduboð með öðrum hætti og verða að gera það sýnilega með því að fá fjölmiðla til að fjalla um það með áberandi hætti. Þetta fyrirkomulag virðist greinilega fengið að láni frá Bandaríkjunum, þar sem það hefur að margra mati gefið góða raun.
Hollenski viðskiptaráðgjafinn og sálgreinirinn Manfred Kets de Vries hefur haldið því fram að stór hluti efnaðra viðskiptajöfra sé ákaflega upptekinn af því að vinna sér inn það sem hann kallaði "éttu skít-peninga", það er að segja fjármuni sem þeir þurfi ekki að standa neinum reikningsskil á og geti ráðstafað eins og þeim sýnist án þess að kalla yfir sig skattayfirvöld eða samfélagsfyrirlitningu.
Til að eignast eitthvað sem um munar af "éttu skít-peningum" þarf maður fyrst að gjalda ríkissjóði og almenningsálitinu stórar fúlgur og þannig hefur fjármagnstekjuskattsfyrirkomulagið hérlendis að vissu leyti gert auðmönnum erfiðara um vik vegna þess að þeir hafa orðið að finna aðrar leiðir til að vinna sér inn "éttu skít-peninga".
Þetta eiga tombólubörn nútímans ef til vill eftir að læra. Að til að geta sett hundraðkall í sinn eigin tölvuleikjasjóð verða þau að gefa Rauða krossinum fjögur hundruð kall. Reyndar læðist að manni sá grunur að það séu ekki bara tombólubörnin sem eigi eftir að læra að feta þetta einstigi heldur hafi ýmsir fullorðnir nýríkir menn ekki enn áttað sig á þessu fyrirkomulagi og fari það sem kalla mætti "rússnesku leiðina", það er að segja að sanka að sér eins miklum auði og þeir framast geta og eru ósínkir á sjálfsumbunina, samanber Vladimír Pótantín, sem flutti George Michael og 40 manna fylgdarlið til Rússlands og greiddi honum sem svarar 234 milljónum króna - í beinhörðum peningum, að því er sagan segir - fyrir 75 mínútna einkatónleika á nýársnótt.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Sæll Kristján,
Sá mig tilneydda til að taka upp hanskann fyrir tombólubörn dagsins í dag sem safna peningum fyrir skjólstæðingal Rauða krossins nú sem endranær. Aldrei hafa jafnmörg börn lag sitt af mörkum eins og árið 2006 þegar 400 ungir sjálfboðaliðar söfnuðu samtals um 600.000 kr. en það er hæsta upphæð sem safnast hefur með þessum hætti. Við getum því sem betur fer ekki tekið undir það að unga kynslóðin sýni ekki meðbræðrum sínum og systrum samhug í verki - öðru nær.
Rauði krossinn hefur lagt áherslu á að fé sem safnað er með tómbólum fari í verkefni til hjálpar börnum, og hafa stríðshrjáð börn í Sierra Leone notið þessarar aðstoðar hin síðustu ár. Margt hefur breyst með flutningi Moggans upp í Hádegismóa, en nú eru teknar myndir af börnunum hér í Efstaleitinu eða deildum Rauða krossins víða um land og þær sendar svo til Morgunblaðsins og jafnframt birtar á vef Rauða krossins - www.redcross.is.
Með bestu kveðju,
Sólveig Ólafsdóttir, Rauða krossi Íslands
Sólveig Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 14:59
Takk fyrir þessa athugasemd Sólveg.
Og það er gaman að heyra að börn séu enn að halda tombólur og gefa ágóðann til ykkar. Sennilega er það flutningur Moggans hingað upp á heiði sem hefur valdið því að börnin koma sjaldnar hingað. Ég skil þau svosem vel hvað það varðar!
Kristján G. Arngrímsson, 24.1.2007 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.