Um réttlæti og málagjöld

Umsögn um bókina Justice and Desert-Based Emotions, eftir Kristján Kristjánsson. Ashgate, London, 2006. 230 bls. (Morgunblaðið, 9. maí).

SVONEFNDUR "naturalismi" í heimspeki (ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort hyggilegra væri að nefna hann náttúruhyggju eða eðlishyggju á íslensku) kveður í grófum dráttum á um að heimspekin geti leitað í smiðju annarra fræða og vísinda eftir aðferðum og tækni til þekkingarleitar. Reyndar er naturalisminn ekki strangt skilgreindur, en þó má segja að helsti kjarninn í honum sé að ekki er lengur litið svo á að sérstök heimspekileg aðferð veiti öruggari þekkingu en aðferðir annarra fræða og vísinda. Lögð er áhersla á að tekið sé tillit til greinanlegra staðreynda og raunverulega aðferða, til dæmis vísindanna. Um leið var slakað á kröfunni um gagnrýna afstöðu. Því má segja að með naturalismanum hafi heimspekin verið leidd af þeirri braut að segja fyrir um hvernig hlutirnir skuli vera og notuð til greiningar á því hvernig málum er í raun háttað.

Sú spurning sem Kristján Kristjánsson tekst á við í þessari bók er hvort réttlæti tengist með einhverjum hætti tilfinningum fólks. Þess vegna leitar hann liðsinnis í sálfræði, félagsfræði og kennslufræði til að grafast fyrir um hverjar tilfinningar fólks gagnvart réttlæti raunverulega eru, en fæst ekki einungis við skilgreiningu hugtaksins með því sem kalla mætti heimspekilegum hætti. Kristján segir að innan heimspekinnar hafi að undanförnu orðið meginbreyting á hugmyndum og skrifum um réttlætishugtakið. Horfið hafi verið að nokkru leyti frá þeirri hefðbundnu nálgun að líta á réttlæti fyrst og fremst sem eiginleika opinberra stofnana, eins og John Rawls hafi til dæmis gert í einu frægasta heimspekiriti 20. aldar, Kenningu um réttlæti (A Theory of Justice), 1971, og að spurningin um réttlæti sé þá fyrst og fremst spurningin um það hvort og þá hvernig sameignlegum gæðum sé skipt.

Þess í stað séu heimspekingar farnir að hugsa um réttlæti sem eiginleika fólks. Spurningin er því sú, hvernig raunverulegt fólk hugsi raunverulega um réttlæti. Hvað finnst fólki að átt sé við þegar talað er um réttlæti? Væri Kristján hér á hefðbundnum rökgreiningarheimspekislóðum myndi hann væntanlega snúa sér að því að smíða rökþétta skilgreiningu á réttlætinu sem væri alsendis óháð því hvernig fólk í raun og veru hugsar um réttlæti, en þar sem Kristján hefur hér gerst merkisberi ofnagreinds naturalisma vill hann fremur að leitað verði á slóðir sál- og félagsfræði til að komast að því hverjar hugmyndir fólk í raun og veru hefur um réttlæti og að heimspekinni verði síðan beitt sem greiningartæki á þær, kannski ekki ósvipað því hvernig líffræðingar beita vísindagrein sinni sem tæki til greiningar á gögnum sem safnað hefur verið úti í náttúrunni.

Ef til vill má því segja að með þessum naturalisma, sem líklega verður talinn meginþráðurinn í heimspeki síðari hluta 20. aldar (og nafn Ludwigs Wittgensteins þar helsta kennileitið), hafi heimspekin reynt að komast niður á jörðina. Heimspekingar eru teknir til við að fjalla um raunverulegar hugmyndir, það er að segja, hugmyndir sem fólk í raun og veru hefur, í stað þess að einbeita sér kannski frekar að mögulegum hugmyndum og þá jafnvel harkalegri gagnrýni á þessar raunverulegu hugmyndir fólks vegna meintra röklegra mótsagna í þeim. Heimspekingarnir hafa því leitað til félagsvísindanna eftir aðstoð við að komast að því hverjar þessar raunverulegu hugmyndir fólks eiginlega eru. Helsti áhrifavaldurinn í þessari þróun heimspekinnar eru auðvitað raunvísindin.

Kristján segir það vera eitt helsta markmið sitt með bókinni að "færa rök fyrir nauðsyn á samvinnu heimspekinga og félagsvísindamanna í umfjöllun um réttlæti" (bls. 6), auk þess að "kanna hlutverk málagjalda í réttlætinu" og "útskýra aukinn áhuga" heimspekinga á tilfinningaþætti réttlætishugtaksins. Ennfremur segist Kristján leitast við að kanna þær tilfinningar sem helst eiga rætur í hugmyndinni um málagjöld og draga fram tengsl umfjöllunar sinnar við nýlega þróun mála í þróunar- og félagssálfræði. Þá vill hann réttlæta málagjöld með siðferðislegum hætti, og þær tilfinningar sem eiga rætur að rekja til hugmyndarinnar um málagjöld. Að lokum segist Kristján svo veita ráð um hvernig fjalla skuli um réttlæti og málagjöld í siðferðiskennslu í skólum. (Þetta síðastnefnda atriði varðar svo í rauninni spurningu sem er í sjálfri sér mjög athyglisverð, og Kristján fjallar um í lokakafla bókarinnar. Það er að segja, hvort kenna eigi í skólum hvað sé dyggð og hvað ekki, eða hvort láta eigi duga að kenna nemendum aðferðir við að leggja sjálfir mat á slíkt. Kristján segir að það hafi sýnt sig að það sé ekki nóg að ætla einungis að kenna aðferðir).

Ég hef ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort Kristján nær þessum yfirlýstu markmiðum sínum í bókinni. Að allri uppbyggingu er þetta mjög hefðbundin rökgreiningarheimspekibók, og það gerir hana þægilega og aðgengilega fyrir lesendur sem eiga slíkri uppbyggingu að venjast. Enda eru þeir væntanlega meginmarkhópur bókarinnar; aðrir heimspekingar sem taka þátt í þeirri umræðu sem bókin er framlag til. Markhópurinn veit upp á hár að hverju hann gengur. Aftur á móti virkar þessi stranga formbinding kannski fráhrindandi fyrir "almennan" lesanda og dregur þannig úr möguleikum hans á að átta sig á þeim hugmyndum sem settar eru fram í bókinni. Honum kann að finnast hún ruglingsleg og dálítið þraskennd. En þannig er nú einu sinni lífið í akademíunni, utanaðkomandi sýnist gjarnan að það sé tómt þras. Ég get ekki heldur lagt á það mat hvort bókin hefur fram að færa eitthvað nýtt í þeirri umræðu sem hún er framlag til, en sú staðreynd að hún er gefin út af akademísku forlagi bendir til að svo muni vera.

En það væri vissulega fróðlegt að vita hvað félagsvísindamönnunum sem Kristján biðlar til finnst um bókina; hvort þeim finnst hún skiljanleg og hvort þeim sýnist að hún gæti nýst með þeim hætti sem höfundur segir henni ætlað að gera, auk þess að vera framlag til tiltekinnar umræðu innan akademískrar heimspeki. En Kristján ætlar bókinni líka enn eitt hlutverkið, og það er líklega fremur óvenjulegt fyrir bók af þessu tagi. Hann leggur hana fram eins og sáttahönd; sem framlag til friðarferlis með aðild heimspekinga og félagsvísindamanna, sem Kristján segir að hafi löngum eldað grátt silfur saman. Það má segja að Kristján sé að sumu leyti að grafa stríðsöxina sjálfur, en ekki aðeins að hvetja aðra til að gera slíkt, því að í fyrri skrifum sínum hefur hann ekki vandað félagsvísindamönnum kveðjurnar, eins og til dæmis í bókinni Þroskakostum, ritgerðasafni sem kom út 1992. Þar fór hann eiginlega háðuglegum orðum um til dæmis kennslufræði og félagsfræði og sagði það fólk sem stundaði hug- og félagsvísindi löngum hafa verið þungt haldið af hinni illræmdu afstæðishyggju, sem heimspekingar - og þá fyrst og fremst rökgreiningarheimspekingar 20. aldar - hafa litið á sem helsta óvin sinn og að ætla mætti alls mannkyns.

Nú veit ég ekki hvort Kristján hefur með tímanum linast í heittrúnaði sínum (eins og mönnum er jú títt með auknum þroska), eða hvort hann telur félagsvísindamenn hafa náð áttum og horfið frá afstæðishyggjuvillunni. En mér finnst sáttatónninn í honum nú vera tvímælalaus kostur á þessari bók.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband