Kosningaflugvöllur

Það er útaffyrir sig góð hugmynd hjá Birni Inga að flytja Reykjavíkurflugvöll út á Löngusker - og verður áreiðanlega hægt að semja við Seltirninga um afnot af skerjunum - en samt verður nú að segjast eins og er að það er eitthvað brogað við að flugvöllurinn skuli vera svona mikið í umræðunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar þar sem hann heyrir ekki undir borgarstjórn heldur samgönguráðuneyti.

Ég skrifaði Viðhorf um þetta fyrir allnokkru síðan og kópípeista það hérna fyrir neðan. Kannski er þetta til marks um að kosningarnar snúist í raun um lítið annað en ókeypis leikskóla sem allir flokkarnir eru í raun sammála um en deila bara um aðferðina við það. Líklega rétt hjá höfundi Staksteina í Mogga að kosningabaráttan sé fádæma daufleg.

Jæja, hérna er Viðhorfið um flugvallarmálið, það hét "Umræðuflugvöllur", og birtist í Morgunblaðinu um miðjan september í fyrra:

Umræðan um framtíð Vatnsmýrarinnar og þar með Reykjavíkurflugvallar er farin á loft rétt eina ferðina en með harla undarlegum formerkjum, svo ekki sé meira sagt. Flokkarnir sem sjá fram á að berjast um hituna í borgarstjórnarkosningum, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, hafa gert flugvallarmálið að einu helsta bitbeini kosningabaráttunnar þótt flugvöllurinn heyri alls ekki undir borgarstjórn heldur samgönguráðuneytið. (Og Sturla hefur staðið sig með mikilli prýði í málinu.) Það er vægast sagt undarleg barátta í uppsiglingu þarna. Menn keppast um að taka sem einarðasta og flottasta afstöðu til hluta sem þeir ráða í rauninni engu um. Kannski eru þarna komin umræðustjórnmálin frægu - hreinræktuð umræða, tært rifrildi, alveg án tengsla við nokkurn áþreifanlegan veruleika. Ekkert nema orðasennur. Baráttan fyrir þessar kosningar verður orðræðubarátta. Að vissu leyti er flugvallarmálið hið fullkomna mál fyrir orðræðubaráttu. Borgarstjórnarflokkarnir geta óhræddir látið vaða hvaða fullyrðingu sem er, því að undir niðri er vitað að þeir bera enga ábyrgð á flugvellinum og þar af leiðandi er gulltryggt að þeir þurfa aldrei að standa við nokkurn skapaðan hlut af því sem þeir segja. Enda hafa menn ekki dregið af sér. Nýjasta snilldin er tillaga vinstrimanna um að efna til hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar miðað við að flugvöllurinn hverfi þaðan. (Þegar Steinunn Valdís var spurð hvað ef flugvöllurinn fer ekki, fór hún undan í flæmingi.) Og ekki nóg með það. Það á að fá heimsfrægan arkitekt til að taka þátt. Gott ef Hollendingurinn Rem Koolhas var ekki nefndur í því sambandi. Að vísu alveg óljóst með hvaða hætti Koolhas skyldi "koma að málinu" og fróðlegt væri að vita hvort hann veit sjálfur að hugmyndin er að stimpla Vatnsmýrarskipulag með nafninu hans. Það virðist því sem borgarstjórn sé tilbúin að eyða stórfé í að fá heimsfrægt nafn bendlað við skipulag sem borgarstjórn hefur aftur á móti ekki sjálf vald til að framfylgja. Þarna er því enn á ferðinni hrein umræða, án beinna tengsla við áþreifanlegan veruleika. Verst hvað þetta ætlar að verða dýr umræða, dýrt nafn. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hingað til ekki sagt margt um flugvallarmálið, og maður hafði haldið að það væri einfaldlega vegna þess að þeir væru að því leyti raunsærri en Samfylkingarfulltrúarnir að þeir gerðu sér grein fyrir því hvernig málið er í rauninni vaxið. En nú hefur brugðið svo við að uppúr foringja sjálfstæðismanna skreppa stórar fullyrðingar um að flugvöllurinn skuli burt. Þetta er í fyrstu illskiljanlegt upphlaup, þangað til það rennur upp fyrir manni að Vilhjálmur er greinilega búinn að fatta eðli flugvallarumræðunnar - að hún er hrein orðræða og honum er óhætt að segja hvað sem er. Staksteinaskrifari Morgunblaðsins lét svo til sín taka í þessari orðræðu um daginn og fullyrti að sjálfstæðismenn hefðu nú "tekið forustuna" í flugvallarmálinu. Það er erfitt að koma auga á í hverju þessi meinta "forusta" sjálfstæðismanna getur verið fólgin. Nema þá ef væri því að hafa tekið hvað afdráttarlausasta afstöðu, notað hástemmdustu og gildishlöðnustu orðin. En verður Staksteinahöfundur þá ekki að viðurkenna að með því að nefna nafnið á heimsfrægum arkitekt hafi Samfylkingarmenn átt ansi sterkan leik? Gott ef ekki tekið forustuna aftur. Sjálfstæðismenn eiga því varla annars úrkosti en reyna að nefna arkitekt sem er frægari en Koolhas. Ég sting upp á Kanadamanninum Frank Gehry, sem teiknaði Guggenheim-safnið í Bilbao og er að segja má í kjölfarið frægasti arkitekt í heimi einmitt núna. Í þessu orðakapphlaupi, sem hafið er milli Sjálfstæðisflokks og vinstrimanna í borginni, virðist ýmislegt ætla að fara fyrir ofan garð og neðan. Engum virðist þykja merkilegt að í Vatnsmýrinni er ekki bara mannlíf heldur líka dýralíf, og þá kannski ekki síst fuglalíf. Hafa kríurnar verið spurðar? Svona alveg án gamans, hefur eitthvað verið spáð í það hvaða áhrif þétt íbúðabyggð í Vatnsmýrinni muni hafa á kríubyggðina í Tjörninni? (Athyglisverðan og fágætan vinkil á Vatnsmýrarmálið mátti sjá í grein Sigríðar Ásgeirsdóttur, formanns Dýraverndunarsambands Íslands, á bls. 36 í Morgunblaðinu á sunnudaginn). Og það virðist líka ætla að gleymast alveg í flugvallarorðræðunni í kosningabaráttunni í borginni að þessi blessaði flugvöllur er fjarri því að vera eitthvert einkamál Reykvíkinga. Mætti jafnvel ganga svo langt að segja að hann komi þeim mun minna við en öðrum landsmönnum. Reykvíkingar þurfa ekki á flugvellinum að halda til að komast á fullkomnasta sjúkrahús landsins í hvelli ef mikið liggur við. Reykvíkingar þurfa ekki á flugvellinum að halda til að eiga greiða leið að höfuðborginni. Það verður að segjast eins og er, að utan af landi séð lítur flugvallarumræðan í Reykjavík hálfhjákátlega út. Það er erfitt að koma auga á um hvað fólkið er eiginlega að tala. Að minnsta kosti verður ekki séð að umræðan snúist um neitt áþreifanlegt. Það er í mesta lagi deilt um hvernig pótemkíntjöldin, sem kjósendum eru sýnd, skuli líta út.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband