6.2.2007 | 09:58
Feneyjar Íslands
Viðhorf, Morgunblaðið, 6. febrúar 2007.
Þótt ég sjái ekki fram á að hafa nokkurntíma ráð á að flytja þangað sjálfur skal ég viðurkenna að mér fannst flott - næstum því spennandi - skipulagshugmyndin sem fjallað var um á baksíðu Morgunblaðsins á miðvikudaginn og sýndur uppdráttur af. Þannig að kannski eru eftirfarandi pælingar bara til orðnar vegna þess að ég er bitur yfir því að eiga enga möguleika.
Hugmyndin er altso að á uppfyllingu við Örfirisey verði til einskonar Miami Beach, með sex til átta hæða blokkum og einbýlishúsum sem rísa "beint upp úr sjónum". Innan um yrðu svo eflaust skemmtibátahafnir.
Björn Ingi Hrafnsson, formaður starfshóps borgarinnar um framtíð Örfiriseyjar, sagði í blaðinu að þetta væri spennandi tillaga sem byði upp á "flotta stemningu". Og Oddur Víðisson, framkvæmdastjóri Þyrpingar, sem lagði tillöguna fram, sagði að þarna skipti nálægðin við hafið öllu.
En spurningin er hvort sú nálægð verði kannski einum of mikil, og þá á ég ekki við ölduna sem getur orðið svo kraftmikil þarna að hún brýtur reglulega malbikaða göngustíginn meðfram grandanum og eys þangað hnullungum neðan úr fjöru.
Það sem ég á við eru öllu heldur tíðindin sem Morgunblaðið og allir aðrir helstu fjölmiðlar heims - nema í Kína, fréttist síðar - voru uppfullir af aðeins tveim dögum síðar, það er að segja skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um hlýnunina í andrúmslofti jarðar og hugsanlegar afleiðingar hennar. Ein af þessum afleiðingum, sem reyndar hefur verið mikið rædd lengi, er hækkun yfirborðs sjávar.
Tölurnar sem vísindamenn hafa verið að leggja fram um þessa hækkun eru allt frá því að vera slíkar að maður ypptir bara öxlum, yfir í einhverja metra. Á föstudaginn, þegar IPCC-skýrslan var lögð fram, var haft eftir loftslagsfræðingi að ef ekki yrði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda hlyti svo að fara að Grænlandsjökull bráðnaði og þá myndi yfirborð sjávar hækka um einhverja metra.
Þá myndi ég ekki vilja eiga heima í Hólma-hverfinu í Örfirisey. Loftslagsfræðingurinn sem vitnað var í í fréttinni nefndi að afleiðingar hlýnunarinnar gætu orðið alvarlegar fyrir láglendi á borð við Flórída og Manhattan, mörg svæði í Vestur-Evrópu og Bangladesh, svo dæmi væru tekin.
Í sömu frétt frá AP var haft eftir öðrum vísindamönnum sem sátu í IPCC að eftir aðeins eina öld yrði yfirborð jarðar mjög frábrugðið því sem það er núna, allt vegna hlýnunar andrúmsloftsins, sem væri svo eindregin að það væru engar líkur á að hún myndi stöðvast.
Á föstudaginn birti The Guardian frétt um rannsókn sem birt var skömmu áður en skýrsla IPCC þar sem breskir loftslagsfræðingar héldu því fram að spár nefndarinnar um hækkun sjávarborðsins væru sennilega of jákvæðar. Rannsóknin sýndi að frá 1993 til 2006 hækkaði yfirborðið um 3,3 millimetra á ári að meðaltali, en í skýrslu IPCC frá 2001 var spáð hækkun um tæpa tvo millimetra. Samkvæmt þessu megi búast við því að fram til aldamóta geti hækkun sjávarborðsins numið allt að 88 sentímetrum. IPCC hefur aftur á móti aðeins spáð í mesta lagi 43 sentímetra hækkun. Í frétt Guardian kemur fram að verði hækkun sjávarborðsins svona mikil steðji hætta að bæði London og New York. Ættum við að bæta Reykjavík á listann?
En þetta hljómar alltsaman eitthvað svo fjarstæðukennt. Eru þetta ekki bara ýkjur í vísindamönnum sem vilja vekja athygli á sér og fá að verða frægir í sínar fimmtán mínútur? Ættu þessir "vísindamenn" ekki frekar að snúa sér að því að skrifa vísindaskáldsögur? Og eru það ekki bara stælar að fara að gera lítið úr glæsilegum hugmyndum um framtíðarskipulag Reykjavíkur með því að draga þær inn í loftslagshlýnunarþvargið?
Ég skal viðurkenna að kannski er ég að mála með helst til breiðum pensli, en ég held samt að úr þessum tveim fréttum sem birtust í sömu vikunni - um hugmyndirnar um framtíðarskipulag Örfiriseyjar og um skýrslu IPCC - megi þó lesa það, að hérna á litla Íslandi gengur lífið sinn vanagang líkt og við teljum að fréttirnar um það sem fjallað er um í skýrslunni séu okkur jafn óviðkomandi og fréttirnar um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs.
Vissulega hafa allir íslenskir fjölmiðlar samviskusamlega fjallað um skýrsluna eftir að hún kom út, og loftslagsbreytingaspár hafa verið reglulega í fréttum um árabil, þar á meðal umfjöllun um spár um hækkun yfirborðs sjávar. En hérlendis hefur þetta eingöngu verið umræða - tal. Fjölmiðlar hafa alfarið haft málið á sinni könnu, og aðrir verið lausir allra mála, þar á meðal þeir sem sjá um skipulagsmál.
Með öðrum orðum, umræðan um loftslagsbreytingarnar - sem eru ekki bara einhver "framtíðarmúsík" heldur þegar byrjaðar - hefur enn ekki verið tekin alvarlega hérlendis. Spár um hækkandi hitastig og áþreifanlegar breytingar því samfara eru ekki teknar með í langtímaskipulagningu íslensks veruleika, og kannski verður Hólma-hverfið við Örfirisey alveg óvart líkara Feneyjum en Miami Beach þegar fram líða stundir.
En ég verð samt sem áður að viðurkenna að mér finnst þetta flott skipulagshugmynd, og ég væri alveg til í að flytja til Feneyja Íslands. En því miður held ég að það sé beinlínis rangt hjá Oddi hjá Þyrpingu að svona hverfi verði "ekki bara fyrir fólk yfir fimmtugu með peninga". Kannski ekki bara fyrir fólk yfir fimmtugu, en þetta verður alveg örugglega bara fyrir fólk með peninga.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.