13.2.2007 | 10:51
Stórar fréttir
Viðhorf, Morgunblaðið, 13. febrúar, 2007.
Þetta byrjaði allt á fimmtudagskvöldið. Ég var nýbúinn að opna tölvuna þegar kunnuglegir hljómar bárust frá henni og rautt merki birtist á skjánum með orðunum "BBC News Alert". Síðan opnaðist lítill rammi með stórfréttinni.
BBC sendir ekki oft svona stórfréttatilkynningar, og þær snúast ætíð um sannkallaða stórviðburði eins og aftökuna á Saddam Hussein, mikið mannfall í tilræði í Bagdad eða framvindu mála fyrir botni Miðjarðarhafs.
En nú bar nýrra við: "Anna Nicole Smith látin, að því er lögmaður hennar segir," stóð í stórfréttarammanum undir merki BBC. Ég segi ekki að ég hafi gripið andann á lofti, en mér fannst þetta þó nógu merkilegt til að segja nærstöddum frá því.
Svo hvarflaði að mér sú hugsun að það væri út af fyrir sig merkilegt að sjálft BBC skyldi senda "news alert" um þetta. Rifjaðist upp fyrir mér þegar Associated Press og CNN sendu svipaða tilkynningu um að Britney Spears væri skilin. Merki um breytta tíma.
Það var ekki að sökum að spyrja. Fréttin sem mbl.is birti skömmu síðar um kvöldið um andlát Önnu Nicole var á svipstundu komin efst á listann yfir mest lesnu fréttirnar þar á bæ, og allan næsta dag sat hún sem fastast í efsta sætinu. Það sem meira var, þessi frétt var opnuð rúmlega helmingi oftar en næsta frétt á eftir, svo munaði á annan tug þúsunda opnana.
Ekki svo að skilja að þetta hafi komið á óvart. Fréttir af Hollywood-stjörnum og öðrum frægum stjörnum hafa lengi verið vinsælasta lesefnið á mbl.is, ásamt fréttum af heimssögulegum viðburðum, stórslysum og íþróttum.
Það hafa margir - til dæmis ötulir bloggarar - orðið til að hneykslast á þessum mikla áhuga lesenda á fræga fólkinu, ekki síst París blessaðri Hilton. Það sem Anna Nicole átti einmitt sameiginlegt með París var að hún var eiginlega ekki fræg fyrir neitt nema að vera fræg. Hún hafði ekki "afrekað" neitt - var til dæmis hvorki kvikmyndastjarna né íþróttastjarna, og ekki heldur af moldríkum komin.
Hún var bara venjuleg stelpa frá Texas sem varð stjarna, með einhverjum að því er virtist gjörsamlega óskiljanlegum hætti. Og áhugi íslenskra lesenda á dauða hennar - og öllum þeim frásögnum um líf hennar sem fylgt hafa í kjölfarið - hefur verið gríðarlegur. Ég er eiginlega viss um að fréttin um dauða hennar er einhver mest lesna frétt á mbl.is frá því mælingar hófust. Slagaði áreiðanlega hátt í fréttina um aftökuna á Saddam.
Kannski ekki skrítið að spurt væri í forundran: Hvernig má þetta vera? Ég verð að viðurkenna að í huganum spurði ég þessarar sömu spurningar. Svo fór að rifjast upp fyrir mér atriði úr sjónvarpsþættinum Boston Legal, þar sem ein aðalpersónan, lögfræðingurinn Alan Shore (leikinn af stakri snilld af James Spader), flutti varnarræðu fyrir fræga sjónvarpskonu sem sökuð var um að hafa drepið ágengan ljósmyndara (papparassa).
Í varnarræðunni sagði Shore frá rannsókn sem taugalíffræðingur hefði gert á öpum. Aparnir voru þyrstir. En þegar þeim var boðið að velja á milli þess að fá að svala þorstanum með uppáhalds kirsuberjasafanum sínum eða horfa á mynd af forustuapanum í flokknum þeirra - "fræga apanum" - vildu þeir miklu fremur horfa á myndina en svala þorstanum.
Þetta, sagði Shore, sýnir að stjörnudýrkun er öpunum eðlislæg. Heilinn í þeim er að einhverju leyti þannig úr garði gerður að þeir laðast af miklum krafti að "frægum öpum". Það sama á við um okkur mannfólkið, sem heillumst gjörsamlega af "frægu fólki".
Ég þurfti ekki að leita lengi á Netinu (ætli leitarorðin "celebrity" og "monkey" dugi ekki í Google) til að komast að raun um að þessi rannsókn var enginn uppspuni handritshöfunda þáttarins. Hún var í raun og veru gerð.
Taugalíffræðingur við Duke-háskóla í Bandaríkjunum gerði þessa rannsókn fyrir þrem eða fjórum árum á 12 rhesus-öpum, eins og til dæmis má lesa um í frétt frá árinu 2005 á vef ABC-sjónvarpsstöðvarinnar bandarísku. Niðurstöðurnar voru eins og fram kom í þættinum, að aparnir vildu fremur horfa á fræga apann en svala þorstanum. En aparnir höfðu engan áhuga á að horfa á myndir af einhverjum meðalapa.
Í frétt ABC var haft eftir líffræðingnum, dr. Michael Platt, að í augum apanna væri "frægur api" sá sem komist hefði til metorða. Og sá sem öðlast frægð og kemst til metorða hefur mat, völd og kynferðislegt aðdráttarafl; allt það sem hinir aparnir þrá umfram annað.
Það þarf kannski slatta af hugarflugi til að tengja þessa rannsókn á nokkrum rhesus-öpum við gríðarlegan áhuga heimsbyggðarinnar á bandarískri ljósku sem virðist ekki hafa unnið sér neitt til frægðar, en ég held samt að þetta segi talsverða sögu. Og þá skiptir engu máli hvers vegna stjarnan er fræg - hún er stjarna og þar með fer heilinn í okkur af stað, sama þótt okkur finnist það fáránlegt.
Það hafa margir, ekki síst síðan á fimmtudagskvöldið, hneykslast á þessum gríðarlega áhuga fólks á Önnu Nicole og París og öðru frægu fólki, og talið hann til marks um fádæma grunnhyggni og yfirborðsmennsku.
En ég held að aparannsóknin sé kannski vísbending um að þarna sé ekki um að ræða yfirborðsmennsku, heldur megi þvert á móti sjá þarna glitta í eitthvað sem býr djúpt í mannlegu eðli, sem rétt eina ferðina kemur aftan að manni.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.