Grænt á Akureyri

Viðhorf, Morgunblaðið, 20. febrúar, 2007 

Þótt ég hafi aldrei getað neitt í fótbolta verð ég að viðurkenna að mér þykir vænt um fótboltavöllinn á Akureyri, þennan sem er í miðbænum og hefur verið þar frá því ég man eftir.

Kannski er þessi væntumþykja mín í garð vallarins einhver misskilin íhaldssemi og á rætur í minningum um vor- og sumarkomu sem alltaf mátti merkja á því hvernig völlurinn grænkaði og blómstraði, og þegar hann var orðinn iðjagrænn var það eins og endanleg staðfesting á því að sumarið væri komið.

Kannski er ég í undirvitundinni hræddur um að ef völlurinn fari muni ekki lengur koma sumar á Akureyri. Það verður að minnsta kosti ekki nærri því eins greinilegt ef þetta stóra, græna svæði hverfur úr miðbænum.

Það hafa margar undarlegar hugmyndir komið fram um framtíðarskipulag Akureyrar á undanförnum árum, og vissulega er sú hugmynd að láta fótboltavöllinn í miðbænum víkja fyrir verslunarmiðstöð ein af þeim minna undarlegu. Og vissulega er skiljanlegt að áhugi sé fyrir því að nýta þetta svæði undir eitthvað sem skilar meiri tekjum en völlurinn gerir, ekki síst ef Þór og KA hafa mestan áhuga á að byggja upp sín eigin íþróttasvæði.

En ég segi eins og Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi sagði í Morgunblaðinu á laugardaginn: Innst inni finnst mér að völlurinn eigi að vera áfram á sínum stað. Og það eru ekki "eintóm tilfinningarök" fyrir þeirri afstöðu að vilja halda í völlinn.

Ef til vill eru ekki fyrir því sérlega sterk peningaleg rök, en bæjaryfirvöld á Akureyri hljóta eins og önnur yfirvöld á Íslandi að fara að gera sér grein fyrir því að sífellt fleiri Íslendingar eru farnir að meta ýmis gæði ofar peningum. Nýlegt dæmi um það kom einmitt fram á Akureyri fyrir skemmstu, þegar Hólmkell amtsbókavörður og fleiri stungu upp á því að Akureyri yrði opinberlega lýstur hæglætisbær.

Við þetta má svo bæta, að það er nú ekki eins og Akureyri hangi á horriminni, og bæjarstjórnin hlýtur að hafa efni á að taka tillit til fleiri sjónarmiða en peningalegrar hagkvæmni þegar skipulag bæjarins er mótað. Meðal þess sem hægt er að byggja skipulagshugmyndir á eru heildarsvipur og saga þess sem skipuleggja á, hvort sem um er að ræða eitt hús eða heilan bæ. Einnig er vinsælt að læra af mistökum. Hvort tveggja má segja að eigi við um skipulag Akureyrar.

Einn af vinum vallarins, Jón Hjaltason sagnfræðingur, nefndi í Morgunblaðinu á laugardaginn að gildi vallarins væri ekki síst fólgið í því að hann væri mikilvægur þáttur í heildarsvip bæjarins. Með hvaða hætti er völlurinn slíkur þáttur? Til sanns vegar má færa að grænt hafi lengi verið einn helsti einkennislitur Akureyrar, enda er þetta gróðursælasti bær á landinu. Reykjavík, aftur á móti, er grá á litinn.

Fótboltavöllurinn í miðbænum er einn stærsti græni pensildrátturinn í þessum bæjarsvip, og af því að hann er í hjarta bæjarins má halda því fram að hann sé mikilvægari pensildráttur en jafnvel lystigarðurinn. Grænir reitir eru eitt helsta einkenni Akureyrar, ekki síður en kirkjan, gilið og Nonnahús. Það er því rétt að hugsa sig vandlega um áður en einn mikilvægasti græni reiturinn sem mótar þennan svip er upprættur.

Að nefna grænt í hjarta bæjarins leiðir svo hugann að öðrum rökum fyrir því að halda vellinum. Bókstaflegur miðpunktur Akureyrar, Ráðhústorgið, var grænn og mjúkur, og líkt og fótboltavöllurinn var torgið eins og lífræn árstíðaklukka sem sýndi litbrigði náttúrunnar mitt í steyptu borgarumhverfinu og markaði þannig sumarkomuna - og líka haustið. Á sólríkum sumardögum var hægt að sitja á blettinum, innan við lágt grindverk sem umlukti hann, líkt og í skjóli fyrir bílunum og öðrum ys og þys. Eins og fótboltavöllurinn var torgið einn mikilvægasti græni bletturinn í bænum. Hann er horfinn, og með honum hvarf mikið af karakter miðbæjarins. Það er óþarfi að halda áfram að fækka þeim reitum í miðbænum sem hafa verið helstu einkenni hans.

Kannski þykir einhverjum fáránlegt að segja mikilvægi knattspyrnuvallar í því fólgið að hann sé grænn reitur. Er mikilvægi vallarins ekki einfaldlega fólgið í því hvort hans er þörf til að spila á honum fótbolta? Með öðrum orðum, er mikilvægi hans ekki fyrst og fremst fólgið í hagnýtu gildi hans?

Um flesta knattspyrnuvelli mætti þetta áreiðanlega til sanns vegar færa, en ég held að þegar um völlinn á Akureyri er að ræða sé málið ekki lengur svona einfalt. Vegna staðsetningar sinnar og langrar sögu er hann orðinn að meiru en einungis fótboltavelli. Eins og Akureyrarkirkja er ekki bara einhver kirkja, og Súlur eru ekki bara eitthvert fjall. Völlurinn er eitt af helstu kennileitum bæjarins, og gildir þá einu hvort verið er að spila á honum fótbolta eða ekki. Reyndar er ég sannfærður um, að svo lengi sem völlurinn verður á sínum stað verður spilaður á honum fótbolti, þannig að hann mun líka halda hagnýtu gildi sínu.

Hafa verður í huga að helstu stoðir Akureyrar eru nú aðrar en þær voru fyrir ekki svo mörgum árum. Og þar með hefur sjálfsmynd bæjarins líka breyst. Akureyri er ekki lengur iðnaðarbærinn sem hún var á blómatíma Sambandsverksmiðjanna og KEA, og tími Akureyrar sem útgerðarbæjar er um það bil að renna út.

Núna er Akureyri fyrst og fremst þekkt sem skóla- og íþróttabær. Kunnustu "stofnanir" bæjarins eru líklega Háskólinn og Hlíðarfjall. Þessari breyttu sjálfsmynd fylgja breytingar á grundvallargildum, og þessi breyttu gildi verða að vera forsendur ákvarðana í skipulagsmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband