Höldum velli

Viðhorf, Morgunblaðið, 3.apríl, 2007

Ég las einu sinni og skoðaði afskaplega fróðlega og skemmtilega bók sem heitir How Buildings Learn - Hvernig byggingar læra - og er eftir Stewart nokkurn Brand. Eins og nafnið bendir til fjallar bókin um hús, og aðrar byggingar, og hvernig þau vaxa og þroskast með nýjum tímum, nýjum eigendum og nýjum þörfum. Húsin "læra", líkt og fólk, með aldrinum, og breytast þannig - eins og við fólkið gerum - en eru samt áfram sömu húsin. Eins og við erum áfram sama fólkið þótt áhugamálin breytist, gildismatið breytist og hárið breyti um lit.

Þetta viðhorf til húsa og annarra bygginga, að þau geti lært, vaxið og dafnað, er ekki bara einhver rómantísk hugmynd um "lífræn" hús, heldur afskaplega praktísk afstaða sem getur sparað mikið af peningum því að hún felur í sér að ekki þurfi að jafna hús við jörðu og byggja alveg ný ef starfsemin breytist heldur sé hægt að aðlaga það sem fyrir er breyttum tímum og þörfum. Þetta viðhorf hefur svo að auki þann kost að með þessum hætti er hægt að varðveita hina áþreifanlegu sögu sem mótar okkur mannfólkið.

Þetta síðastnefnda atriði er líka afskaplega þungvægt. Það sem gerir varðveislu húsa og bygginga mikilvæga er ekki aðeins varðveisla byggingasögulegra heimilda, heldur líka sá stóri þáttur sem hús eiga í að móta fólk og verða þannig snar þáttur í sjálfsmynd þess. Kannski einmitt þess vegna er svo mikilvægt að átta sig á því að hús geta lært. Þá er hægt að fara bil beggja, varðveita sögu einstaklinga og menningar, og um leið svara þörfum nýrra og breyttra tíma.

Ég skrifaði um daginn pistil um Akureyrarvöll ("Grænt á Akureyri", sjá hér að neðan) þar sem ég nefndi mikilvægi þess að fækka ekki meira grænu reitunum í bænum, og nefndi líka hvernig völlurinn er hluti af sjálfsmynd - og ímynd - bæjarins. En kannski sleppti ég því að minnast á þungvægasta þáttinn í mikilvægi þess að mannvirki á borð við Akureyrarvöll séu ekki rifin í burtu rétt sisona, það er að segja minningarnar sem tengja þessi mannvirki við líf fólks.

Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, minnti mig á þetta með skeyti sem hann sendi mér eftir að pistillinn birtist, þar sem hann meðal annars rifjaði upp spennandi tíma í kringum 1950:

"Ég er alinn upp steinsnar frá íþróttavellinum, sem krakki var ég þar flesta eða alla daga og hafði gott af. Þetta var á árunum um 1950. 1948 voru OL í London, 1952 í Helsinki, ef ég man rétt. Við, guttarnir, fylgdumst vel með öllum íþróttaviðburðum, þekktum nöfn keppenda, áttum okkar uppáhaldsíþróttamenn. Við vorum líka áhugamenn um það, að völlurinn, sem þá var í byggingu, yrði kláraður sem fyrst. Hvers vegna? Jú, ég man eftir löngum umræðum í hléum frá æfingum okkar, að ef bærinn kláraði nú völlinn gætum við auðveldlega haldið OL 1956! Draumur 10 ára gutta verður ekki alltaf að raunveruleika og OL voru fluttir til Ástralíu. Þannig fór það."

Það leikur enginn vafi á því að Akureyrarvöllur getur lært ef hann fær að vera áfram og nóg væri hægt að gera við hann, stækka og bæta aðstöðuna á honum væri vilji fyrir hendi. Ekki hef ég séð neitt sem sýnir afdráttarlaust að nauðsynlegt sé að hann hverfi. Og ekki er þetta eini reiturinn í bænum sem er "óbyggður" - þvert á móti eru þar margir skallablettir sem væri beinlínis gustukaverk að leggja undir hús, til dæmis bílastæðahús.

Eins og ég nefndi áðan er þetta ekki bara einhver rómantík. Ónei, með þessu er beinlínis hægt að spara stórfé því að það er áreiðanlega mun ódýrara að endurbæta Akureyrarvöll þar sem hann er heldur en að fara að byggja alveg nýjan völl, að ekki sé nú talað um velli, annars staðar í bænum. (En ef Þórsarar og KA-menn geta í nafni rótgróins fjandskapar ómögulega hugsað sér að samnýta völlinn legg ég til að Þórsarar fái að nota hann, þar sem hann liggur á mótum hefðbundinna Þórshverfa, það er að segja Þorpsins og Eyrarinnar).

Í fyrri pistli um völlinn varð mér tíðrætt um upprætingu Ráðhústorgsins og ferlegar afleiðingar hennar, en aftur á móti eru líka mörg dæmi á Akureyri um söguríkar byggingar sem hafa fengið að lifa og læra. Glerárstíflan er ennþá til, en er nú að auki farin að virka eins og glæsileg göngubrú yfir ána og orðin partur af gönguleið. Stöðvarhúsið er líka á sínum stað, að vísu allfjarri sinni upprunalegu mynd en engu að síður samt við sig. Það var enda engin aðkallandi ástæða til að rífa þessi mannvirki burtu, heldur hægt að nota þau með litlum tilkostnaði, og varðveita um leið söguna.

Annað alveg nýtt dæmi er fyrirhugaður flutningur veitingastaðarins Friðriks V. í gömlu bögglageymsluna neðst í Gilinu. (Reyndar eru ný hlutverk KEA-húsanna í Gilinu líka virkilega fín dæmi um hvernig hús geta lært). Ég veit reyndar ekki af hverju ég tala um "gömlu bögglageymsluna", þetta hús var byggt 1907, eins og kom fram í frétt í Morgunblaðinu í febrúar, og hefur síðan gegnt ýmsum hlutverkum, þannig að eins mætti tala um "gamla mjólkursamlagið", eins og "gamlir KEA-menn", eins og sagði í fréttinni, kalla það gjarnan. En húsið mun hafa verið byggt sem sláturhús. Þannig að þetta hefur svo sannarlega reynst fjölhæft hús. Og það er enn fært um að læra ný hlutverk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband