Andlegur hafís

Viðhorf, Morgunblaðið, 10. apríl

Fyrirsögnin hérna að ofan er fengin úr predikun Karls Sigurbjörnssonar biskups á páskadagsmorgun, og ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta einhver flottasta og öflugasta líking sem ég hef séð lengi. Þess vegna mátti ég til með að fá hana að láni.

Ég veit að vísu ekki hvort ég er alveg sammála Karli um að valið standi kvitt og klárt á milli þess hvort maður vilji standa á "hafís tómhyggju og vantrúar, eða í vorþey trúarinnar". Tómhyggja er að mörgu leyti gagnmerk hefð, evrópsk að uppruna, ekki mjög gömul miðað við kristnu trúarhefðina, en nógu löng miðað við ævi manns sem er núna í byrjun 21. aldar að nálgast miðjan aldur.

Sú auðn og dauði hugsunarinnar sem Karl lýsti svo snilldarlega í predikun sinni stafar af því að hugsunin hefur ekkert við að fást, en togstreitan á milli trúar og tómhyggju hefur einmitt reynst ríkuleg uppspretta andlegs fóðurs. Og þessi togstreita lifir góðu lífi hérna í íslensku samfélagi enn þann dag í dag, og gefur andlega næringu (svo undarlega sem það nú kann að hljóma).

Karl sagði ennfremur að andstaða gegn kristninni sæist nú í áróðri gegn trúnni, eins og tómhyggjan sé nú beinlínis boðskapur, en ekki aðeins skortur á trú. Ef tómhyggja er boðskapur blasir við hvert meginboðorð hennar er: Hin frægu orð Friedrichs Nietzsches, "Guð er dauður." (Rétt er þá að halda til haga því sem Nietzsche bætti við: Við höfum drepið hann.)

En þessi orð heimspekingsins voru ekki boðskapur. Hann var að lýsa ríkjandi ástandi. Honum þótti ákaflega miður að svona væri komið. Eiginlega alveg skelfilegt - enda missti hann vitið, blessaður. Kannski má því segja að tómhyggja sem boðskapur stafi af misskilningi á Nietzsche.

En þessi "trúarsetning tómhyggjunnar", svo nöturlega sem hún hljómar, hefur orðið ríkuleg uppspretta hinnar fullkomnu andstöðu sinnar: Andlegs lífs. Þetta er þó kaldhæðni sem tómhyggjusinnar hljóta að kunna að meta. Fáir heimspekingar hafa búið til jafnmikið af andlegu fóðri og Nietzsche; með öðrum orðum, fáir heimspekingar hafa í rauninni haft jafnmikil áhrif og hann.

Lýsing Nietzsches á framgangi tómhyggjunnar í kjölfar dauða Guðs er vel þekkt, en í ljósi þess hvernig Karl lýsti hinum andlega hafís ("engin algild gildi né lögmál virðast lengur virt, allt er falt, rétt og rangt er einungis álitið afstætt. Eða öllu heldur, aðeins aflsmunur. Hinn auðugi og sterki hefur rétt fyrir sér... áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld, mátt hins hrausta, sterka og stælta") er gaman að rifja hana upp.

Ef Guð er dauður kemur ofurmennið í staðinn og mótar þau lögmál og gildi sem við hin höfum í heiðri. Sjálft er ofurmennið aftur á móti hafið yfir öll lögmál og gildi, en er þess megnugt að leggja öðrum lífsreglurnar. Þessi sýn Nietzsches á merkilega vel við vestrænt nútímasamfélag - jafnvel bara íslenskt nútímasamfélag.

Ofurmennin okkar eru auðjöfrarnir - fjárfestarnir og bankastjórarnir sem ákvarða vextina sem við borgum, ákveða verðið á málningunni sem við kaupum, og eru líka fyrirmyndir okkar; það sem við hvetjum börnin okkar til að verða. Þetta eru mennirnir (já, allt karlar) sem við lesum endalaust um í fjölmiðlum og allar stelpur dreymir um að giftast og eignast með stór hús og hraðskreiða bíla.

Vísast finnst einhverjum þetta nöturlegt, en um leið einhvern veginn svo óhjákvæmilegt. Einfaldlega lýsing á hinum kalda veruleika sem við búum við. Með öðrum orðum: Lýsing á andlegum hafís. Eina raunhæfa leiðin til að losna úr þessum viðjum virðist þá vera að verða sjálfur að ofurmenni (eða giftast því) og hefja sig þannig yfir okurvextina og málningarverðið með því að koma sér í þá aðstöðu að geta sjálfur ákvarðað það fyrir aðra.

Það sem gerir tómhyggjuna svo aðlaðandi sem raun ber vitni er að hún virðist ganga út á að horfast í augu við þennan nöturlega veruleika. Hún er raunsæi, byggist á bláköldum staðreyndum; hreinni skynsemi. Frá sjónarhóli tómhyggjunnar er trúin blekkingarvefur; lygi til að forða okkur frá því að þurfa að horfast í augu við nöturleika heimsins eins og hann er í raun og veru. Að trúa á einhvern guð - að ekki sé nú talað um himnaríki og eilíft líf - er eins og að stinga hausnum í sandinn. Það er heimska.

Að afneita allri trú felur því ekki síst í sér yfirlýsingu um að maður sjái í gegnum blekkingavefinn og horfist í augu við raunveruleikann, sama hversu jökulkaldur hann kann að vera. Að afneita trú er að berja sér á brjóst og lýsa því yfir að maður sé sko enginn heimskingi, heldur gáfumenni. Eiginlega vitsmunalegt ofurmenni. Þarf ekki á neinni hjálp að halda - síst af öllu frá einhverjum biskupi!

En á endanum er brandarinn auðvitað á kostnað þessara vitsmunalegu ofurmenna. Þau þrífast ekki í andlegum hafís. Til að halda á sér hita fara þau að berja á trúnni, en það er skammgóður vermir, eins og það jafnan er að bíta í höndina á þeim sem gefur manni að borða.

Því að það er ekki hægt að aðhyllast tómhyggju eina og sér eins og kenningu, vegna þess að eins og nafnið bendir til boðar hún ekkert. Tómhyggja, eins og allar hugsunarhefðir sem ganga út á að hafna öllum hefðum, er óhjákvæmilega háð því sem hún hafnar, og verður því, líkt og öll sníkjudýr, að gæta þess vandlega að drepa ekki hýsil sinn.

Kristnin er aftur á móti öflug hefð með djúpar rætur og getur því sótt sér næringu langt niður í mannkynssöguna. Þess vegna gæti kristnin áreiðanlega án þessarar óværu verið, en þar eð kærleikur og fyrirgefning eru grunngildi kristninnar getur hún ekki einu sinni vísað sníkjudýrunum á dyr, heldur þvert á móti styrkir kærleika sinn og fyrirgefningu með því að skjóta skjólshúsi yfir þau.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrirgefðu að ég spyr, ertu frelsaður Kristján?

Matthías Ásgeirsson 

Matti (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 22:47

2 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Breiðstrætið er svo auðfarið þegar maður rásar mikið.  Annað er með þröngar götur réttlætis, þær eru vandfarnari.  Er spurningin um trú eða tómhyggju ekki líka einfaldari og þægilegri þegar maður er orðinn stór og sterkur.  Í trúnni eru svo margar leiðinlegar reglur að fara eftir.  Tómhyggjan býður upp á endalausa skemmtun og frelsi.  Svo getur maður alltaf leitað til prestsins ef eitthvað kemur uppá.   

Magnús Vignir Árnason, 13.4.2007 kl. 23:46

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er ágætt aflestrar, en mér finnst þú falla í gamla gryfju, það er að álykta sem svo að ef þú ert "ekki þetta", þá hlýturðu að "vera hitt".  Svona nokkurskonar útgáfa af "ef þú ert ekki með okkur þá ertu á móti okkur".  Svona angi af svart/hvíta heiminum sem svo margir virðast vilja búa til.

Tilfinningin sem ég fá við lesturinn er að ef einhver er ekki kristinn, dýrkar hann "Mammon", er boðberi auðhyggjunar, býr almenningi tálsýnir og afvegaleiðir hann, arðrænir hann býr honum skurðgoð.  Enginn millilvegur sé til, hver og einn verður að velja hvora leiðina hann vill feta.

Ekkert er hins vegar fjær sannleikanum. 

Annars bið ég að heilsa, ég veit ekki hvenær eða hvort ég kem heim, en fitaðu alikálfinn til slátrunar.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2007 kl. 00:56

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei Tommi minn, ég er alls ekki að halda því fram að ef maður sé ekki með þá hljóti maður að vera á móti. Þetta er enginn Bush-ismi. Og mér dettur ekki í hug að halda því fram að ef maður trúi ekki á guð þá sé maður vondur mammonsdýrkandi. Það getur áreiðanlega veitt manni andlega næringu að græða peninga, því það þarf mikla útsjónasemi og yfirlegu til að vera góður í bisness. Og síðast en ekki síst er auðvitað ekkert sem segir að ef maður stundi kaupsýslu geti maður ekki trúað á guð. Fyrr mætti nú vera.

En siðferðisleg afstæðishyggja - sem er í raun það sama og að vilji þess sem nýtur aflsmunar ráði - er mér ekki að skapi, og hún er fylgifiskur tómhyggju.

Hvort ég er frelsaður ... fyndið hvernig sumir virðast líta svo á, að ef maður er ekki skilyrðislaust á móti guði og kirkjuyfirvöldum þá hljóti maður að vera frelsaður (sem oftar en ekki felur í sér þá duldu merkingu að maður hafi eiginlega gengi af göflunum). Talandi um með-eða-á-móti hugsunarhátt að hætti George Bush!

Kristján G. Arngrímsson, 15.4.2007 kl. 15:20

5 identicon

Láttu ekki svona Kristján, þetta er út í hött, ég gaf mér ekkert.  Ég spurði  beint út því mér fannst það heiðarlegt, hví getur þú ekki svarað?

Ertu trúaður?  Ertu kristinn?  Það var það sem ég heyrði og ég vildi bara spyrja þig í stað þess að gera ráð fyrir að svo væri.

Ég næ bara ekki að skilja skrif þín í öðru ljósi.  Væri ekki heiðarlegt af þér að koma hreint fram?  Sér í lagi í ljósi þess að í þessum morgunblaðspistli skrifar þú meðal annars um mig, þó óbeint sé.

Matthías Ásgeirsson

Matthías Ásgeirsson (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 15:11

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það sem ég vildi nú koma að hér í athugasemd á undan (veit ekki hversu vel það hefur tekist) er að það er fjöldi fólks sem er ekki kristið, græðir ekki peninga, hefur sína sinn "siðferðisstandard" frá öðrum uppsprettum heldur en kristninni og plummar sig býsna vel.  Hvort það gengur á mjóum eða breiðum vegi fer svo líklega eftir því hvaðan er horft.

Það er líka reginfirra að halda að þeir sem ekki trúi séu einn hópur, sem sameinist gegn kristninni, líklega er varla til sundurleytara "mengi" og forsendur fyrir "trúleysi" margvíslegar.

G. Tómas Gunnarsson, 17.4.2007 kl. 16:06

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er alveg rétt Tommi að þeir sem ekki trúa eru margbreytilegur hópur, og það eru líka þeir sem trúa. Og siðferðisstandardinn á sér ýmsar rætur, sá kristni er einn. Hann er alls ekki sá eini rétti.  Reyndar sagði ég nú framarlega í pistlinum að ég væri ekki viss um að þetta væri jafn einfalt og biskupinn sagði að valið stæði milli trúar og trúleysis, og í framhaldinu fór ég að tala um tómhyggjuna sérstaklega, og ég held í alvöru að hún standist ekki sem lífsafstaða og siðferðisstandard því að það er í henni sjálfstortímandi mótsögn, þ.e. hún er hefð sem hafnar öllum hefðum. Þetta er ekki svo einfalt að ef maður er ekki kristinn þá hljóti maður að vera tómhyggjusinni. En ég held að maður hljóti óhjákvæmilega að vera "einhvers-sinni", þ.e. að hafa einhverja sannfæringu sem á sér svipaðar rætur og trú, til dæmis kristin trú, þ.e. að vera sögubundin hefð. Tómhyggja, eins og ég skil hana, felur í sér að öllu slíku er prinsippelt hafnað, og það held ég að gangi ekki upp.

En Matthías, ég var alls ekki að skrifa um þig. Ég var að skrifa um tómhyggju, og ég veit ekki hvort hún er þín afstaða. Og ég sé ekki að það skipti neinu máli hvort ég er kristinn eða ekki. Spurningu þinni langar mig mest til að svara á þá leið að ég sé ekki og hafi aldrei verið kommúnisti. Af hverju skiptir máli hvort ég er kristinn eða ekki? Ég veit það varla sjálfur.

Kristján G. Arngrímsson, 17.4.2007 kl. 18:24

8 identicon

Kristján kýs að tala bara um tómhyggju en biskupinn talaði alls ekki einungis um tómhyggju, heldur tómhyggju og Vantrú.  Mér finnst kga gera sér upp fáfræði með því að líta framhjá síðara orðinu og þeirri gagnrýnu umræðu sem verið hefur um kristni hér á landi síðustu árin.  Biskup er ekki að ráðast á heimspekistefnuna tómhyggju heldur þá trúleysingja sem gagnrýnt hafa Þjóðkirkjuna og starf hennar, t.d. Vinaleið.  Ég get ekki túlkað skrif kga öðruvísi en sem ómálefnalega árás á þá sem hafa gagnrýnt trúarbrögð og kirkju hér á landi.   A.m.k. voru skrif biskups af því taginu og kga tekur undir þau.

kga skrifar:
"En á endanum er brandarinn auðvitað á kostnað þessara vitsmunalegu ofurmenna. Þau þrífast ekki í andlegum hafís. Til að halda á sér hita fara þau að berja á trúnni, en það er skammgóður vermir, eins og það jafnan er að bíta í höndina á þeim sem gefur manni að borða."

Reyndu  að segja mér hvernig þessi skrif fjalla ekki um mig, jafnvel óbeint, þegar ég er meðal þeirra sem "afneita allri trú"?  

"Kristnin er aftur á móti öflug hefð með djúpar rætur og getur því sótt sér næringu langt niður í mannkynssöguna. Þess vegna gæti kristnin áreiðanlega án þessarar óværu verið, en þar eð kærleikur og fyrirgefning eru grunngildi kristninnar getur hún ekki einu sinni vísað sníkjudýrunum á dyr, heldur þvert á móti styrkir kærleika sinn og fyrirgefningu með því að skjóta skjólshúsi yfir þau."

Þetta skrifar annað hvort kristinn maður eða spaugari.

Það hefur komið fram að kga er illa við vísindin (eða a.m.k. þegar fulltrúar þeirra gagnrýna hindurvitni).  Honum er illa við tómhyggju, líkar ekki við þá sem gagnrýna trúarbrögð (a.m.k. kristni) og hann sér ekkert nema kærleika og fyrirgefninu þegar þú skoðar kristni.

Kristján kallar Richard Dawkins "yfirlætislegan vindbelg" en virðist þykja mikið til orða biskups koma.   Ég veit hvorn þeirra ég myndi kalla yfirlætislegan vindbelg ef ég þyrfti að rökstyðja mál mitt.

Hvernig ætlast þú til þess að fólk túlki skrif þín? 

Matthías Ásgeirsson

Matti (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 18:40

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Fólk túlkar auðvitað skrif mín út frá sínum eigin forsendum, og það getur bara vel verið að ég hafi óbeint verið að skrifa um þig, Matthías, en ég segi það alveg satt að það var þá óvart. Ég hafði þig ekki í huga þegar ég skrifaði um andlega hafísinn. (Ertu viss um að biskupinn hafi haft "vantrú" með stóru vaffi?)

Mig langar dálítið að vita af hverju það skiptir þig svona miklu máli að geta stimplað mig kristinn. Er það nokkuð til hægðarauka svo að dæma megi mig og það sem ég segi fyrirfram ómerkt?

Svo langar mig bara til að nefna að það er nú varla afdráttarlaust til marks um að manni sé illa við vísindi að maður skrifi eitthvað gagnrýnið um þau? Ég hef haldið því fram að vísindin eigi sér takmörk og ekki sé hægt að veita trúverðuga vísindalega skýringu á öllu. Þetta er ekki það sama og að hafna vísindum alfarið. Ég held reyndar að flestir vísindamenn myndu vera mér sammála um þetta. Svo hef ég sagt að sannleika megi finna á fleiri vegu en með vísindalegum rannsóknum. Þetta þýðir ekki að vísindin segi engan sannleika. Þetta þýðir bara að ég telji að sannleikshugtakið sé víðtækara en nemur vísindunum. (Reyndar má kannski segja að vísindin segi engan sannleika vegna þess að þau geta jú aldrei sannað neitt endanlega, en það yrði alltof langt og flókið að fara útí hér).

Eitt í sambandi við trúna: Maður sem hafði samband við mig eftir að ég skrifaði um andlega hafísinn benti á að margir hafi haldið því fram að kristnin sé "hugsandi trú", sem ég held að megi skilja eitthvað á þann veg að hún sé ekki blind trú. Eða er kannski "hugsandi trú" þversögn, svona eins og "kvæntur piparsveinn"?

Kristján G. Arngrímsson, 17.4.2007 kl. 19:52

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, eitt enn: Ég vil biðjast afsökunar á óviðurkvæmilegum orðum sem ég lét í fljótfærni falla um Richard Dawkins. Þau voru vægast sagt ómálefnaleg og hreinlega heimskulegt "slip" sem ég get vonandi látið mér að kenningu verða. Sjálfselska genið er ofarlega á leslistanum hjá mér.

Kristján G. Arngrímsson, 17.4.2007 kl. 20:44

11 identicon

Eða er kannski "hugsandi trú" þversögn, svona eins og "kvæntur piparsveinn"?


Sæll Kriskján!

Ég álít hugsandi trú ekki vera þversögn en aftur á móti mótar trúin hugsunina og kemur í veg fyrir að hún geti að fullu verið gagnrýnin. Það sýnir sig best á ofurviðkvæmni þeirra trúmanna sem verða fyrir gagnrýni. Í stað þess að taka við gagnrýninni og skoða þau rök sem að baki liggja brestur yfirleitt á með miklum sárindum og orðagjálfri um að nú sé verið að vega að því með ósæmilegum hætti sem mönnum er heilagt.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 09:58

12 identicon

Og eitt enn: Það er fullkomlega absúrd þegar guðfræðimenntað fólk bregst við gagnrýni á þennan hátt. Það segir okkur einfaldlega að þessir fræðimenn geti ekki fjallað um fræði sín á fullkomlega faglegan máta, því trúin sjálf flækist þar fyrir þeim.

Í guðfræðinni ætti trúin að vera objektíft umfjöllunarefni en ekki frumforsenda til að þrífast á.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 10:04

13 identicon

Ég reyndi að senda setja þessa athugasemd inn á miðvikudag en fékk alltaf villumeldingu, geri nú lokatilraun.

Ég skrifaði vantrú með stóru vaffi af gömlum vana, þarna átti að vera lítið vaff. Það breytir ekki merkingunni.

Fyrirsögn viðhorfspistils er fengin frá biskup sem sagði: "Hinn andlegi hafís guðleysisins lónar fyrir landi, og ískalda og vonarsnauða þoku stafar frá honum." Ég get ekki skilið pistil þinn öðruvísi en að þú takir undir orð biskups. Ég er viss um að það sama gildir um þúsundir lesenda Morgunblaðsins.  Jafnvel þó þú sért bara að ræða tómhyggju, þá ræðir þú tómhyggju í samhengi biskups sem tengir hana trúleysi.

"Mig langar dálítið að vita af hverju það skiptir þig svona miklu máli að geta stimplað mig kristinn. Er það nokkuð til hægðarauka svo að dæma megi mig og það sem ég segi fyrirfram ómerkt?"

 Mig langar ekkert að stimpla þig, ef ég vildi stimpla þig hefði ég fullyrt að þú værir kristinn á bloggsíðu minni eða á Vantrúarsíðunni. Ég spurði, þú neitar að svara. Af hverju?

Ég dæmi ekki það sem fólk segir fyrirfram ómerkt á þeim forsendum að það sé kristið en ég les það vissulega í ákveðnu ljósi. Þannig myndi ég ekki eyða tíma í að rökræða síðustu málsgrein viðhorfspistilsins ef þú værir trúaður í hjarta þínu því slík rökræða myndi aldrei lúta rökrænum lögmálum heldur myndi hún snúast um tilfinningar þínar - og ég stend ekki í slíku stappi á bloggsíðum annarra.

Auðvitað er þér frjálst að hafa hvaða skoðun sem er á Dawkins en ég hvet þig til að horfa á rökræður hans. Þú sérð fáa ljúfari og hófstilltari menn. Hann er aftur á móti sekur um að fara hörðum orðum um trúarbrögð og um slíkt fólk virðist í lagi að segja hvað sem er - eins og páskaprédikun biskups er dæmi um.  Hver ætli viðbrögðin yrðu ef einhver framámaður í þjóðfélaginu viðhefði álíka orð um kristið fólk? Það yrði vafalítið ekki tekið undir þau í viðhorfspistli Morgunblaðsins.

Matthías Ásgeirsson

Matti (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband