15.6.2006 | 13:58
Snákar í jakkafötum
Viðhorf, Morgunblaðið, 7. júní 2006.
En maður þurfti ekki að fylgjast lengi með fréttum af gangi réttarhaldanna, frásögnum af yfirheyrslum og gagnyfirheyrslum, og einkum málflutningi saksóknara, til að komast að því að það sem þeir Skilling og Lay voru eiginlega ákærðir fyrir - og fundnir sekir um - var siðblinda. En það varð að heita eitthvað annað því að strangt til tekið er siðblinda ekki lögbrot, hún er persónuleikabrestur.
Í tilefni af dómnum yfir Skilling og Lay hafa fjölmiðlar vestanhafs fjallað dálítið um nýútkomna bók sem heitir því skemmtilega nafni Snákar í jakkafötum - siðblindingjar hefja störf (Snakes in Suits: Psychopaths Go To Work), og er eftir þá Robert Hare, fyrrverandi sálfræðiprófessor við Háskólann í British Colombia í Kanada, og Paul Babiak, iðnaðar- og fyrirtækjasálfræðing í New York, en hann rannsakar siðblindu innan fyrirtækja. Hér er stuðst við umfjöllun The Globe and Mail í Kanada um bókina.
Hare er einn helsti sérfræðingurinn í heiminum í rannsóknum á siðblindu, og er höfundur fræðilegrar skilgreiningar á siðblindu sem víða er stuðst við. Fyrir um aldarfjórðungi bjó hann svo til greiningartæki, svonefndan siðblindugátlista, sem nota má til að verjast siðleysingjunum.
Siðblinda er ekki geðveiki. Hún er, eins og fram hefur komið, persónuleikabrestur. Grundvallareinkenni hennar eru algjört samviskuleysi og fullkominn skortur á hluttekningu og samúð. Siðblindingjar eru gráðugir, sjálfselskir, svikulir, óáreiðanlegir og gjarnir á að fá óhamin reiðiköst. Þeir eru rándýrin í mannfélaginu. En við fyrstu kynni eru þeir algjörlega heillandi, skilningsríkir og sjálfsöryggið skín af þeim.
Þeir Hare og Babiak telja að á undanförnum tveim áratugum hafi orðið gríðarlega hraðar breytingar á vettvangi stórfyrirtækja í Ameríku, ekki síst vegna netfyrirtækjabólunnar sem sprakk. Hún hafi meðal annars valdið því að gömul og gróin stórfyrirtæki hafi skroppið saman og/eða runnið saman við önnur. Samkeppnin hafi líka harðnað ofboðslega. Þetta hafi, án þess að það hafi beinlínis verið ætlunin, búið í haginn fyrir fólk haldið siðblindu.
Hare gengur svo langt að fullyrða að nú sé svo komið að það sé eiginlega vænlegra til frama innan stórfyrirtækja að tileinka sér viðhorf siðblindingjanna. Þetta sé ekki síst vegna þess að í samfélaginu almennt aukist nú áherslan á yfirborð og stíl á kostnað áherslu á innihald og grunnatriði. Slíkt geri þeim siðblindu auðveldara um vik að athafna sig án þess að komast í kast við lögin.
Ekki svo að skilja að allir sem komast til metorða innan stórfyrirtækja séu fyrirlitlegir siðleysingjar. Fyrr mætti nú vera. Metorðin segja ekkert um siðgæði fólks, það eru aðferðirnar sem það beitir, og þá fyrst og fremst viðhorf þeirra til samstarfsmanna sinna, sem skera þar úr. Hare segir að líklega sé erfðagalla um að kenna - en vissulega hafi félagslegt umhverfi áhrif - að siðblint fólk finnur ekki tilfinningar á borð við depurð, ótta, sektarkennd og iðrun, þótt það hafi fullkomlega vitsmunalegan skilning á þessum tilfinningum.
En siðblindingjarnir upplifa aldrei tilfinningarnar sjálfar og geta þar af leiðandi ekki haft eiginlegan skilning á því hvernig öðru fólki - sem hefur þessar tilfinningar - raunverulega líður. Og þar af leiðandi geta siðblindingjarnir ekki sett sig í spor þessa fólks. Það mætti líkja þessu við að maður myndi lesa og læra allt sem hægt er að læra um tannpínu, en maður myndi samt ekki í raun og veru skilja þjáningu þess sem haldinn er tannpínu ef maður hefði aldrei fengið hana sjálfur.
Hare telur að í Norður-Ameríku sé um það bil eitt prósent íbúanna siðblint. Þótt siðblint fólk sé í sumum tilfellum vissulega fært um að fremja morð sé það í flestum tilvikum greint og vel upp alið og "nýti" því þennan eiginleika sinn fremur til að öðlast völd, virðingu og peninga. Siðblindingjar séu því í fæstum tilvikum beinlínis hættulegir.
Nú verður auðvitað ekkert um það fullyrt að Skilling og Lay séu siðblindir. Vera má að þeir séu bara "venjulegir Machiavellianar". En hvenær á maður að fara að hafa áhyggjur af því að ekki sé allt með felldu og að maður sem lítur út fyrir að vera traustur og öflugur starfsmaður sé í rauninni siðlaust rándýr?
Hare og Babiak hafa sett saman nýjan lista, svonefnt "Business Scan 360", sem er ætlaður fyrir fyrirtækjastjórnendur sem vilja finna siðblindingjana sem kunna að leynast innan um heiðarlega starfsmenn. Meðal tíu "hættumerkja" sem geta gefið vísbendingu um að siðblindingi sé á ferðinni eru, þótt það kunni að hljóma undarlega, að viðkomandi starfsmaður virðist yfirvegaður, hefur fágaða framkomu og heillandi persónuleika. Flestar samræður hans snúast um hann sjálfan; hann gerir lítið úr öðrum til að bæta eigin ímynd og orðspor; hann lítur svo á að fólk sem hann hefur kveðið í kútinn eða ráðskast með sé heimskt og hann er tækifærissinni, miskunnarlaus og þolir ekki að tapa.
Hættumerkin eru fleiri, en öflugasta vopn þess siðblinda er einstakur hæfileiki hans til að villa á sér heimildir - til að koma sér í mjúkinn hjá fórnarlambinu áður en hann lætur til skarar skríða.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 7.8.2006 kl. 17:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.