Öld broddgaltarins

image029.jpg

Viðhorf, Morgunblaðið, 26. júní 2006 

Sir Isaiah Berlin skrifaði einu sinni heillandi ritgerð um Tolstoj. Hún heitir Broddgölturinn og refurinn (The Hedgehog and the Fox) og er meira grípandi en saga eftir Grisham, meira upplýsandi en margra tíma sveim um netið, skiljanlegri en fréttir dagsins og betur skrifuð en nokkur skáldsaga.

Byrjunin á þessari ritgerð er fyrir löngu orðin fræg, og það hefur svo oft verið vitnað í hana að varla er á bætandi. En það var þetta með góða vísu sem aldrei verður of oft kveðin...

Berlin byrjar ritgerðina sem sé á því að vitna í brot út kvæði eftir forngrískt skáld sem hét Arkilokus: "Refurinn veit margt, en broddgölturinn veit aðeins einn stóran sannleika." Þessa tilvitnun túlkar Berlin síðan á þann hátt að í grófum dráttum megi skipta fólki í tvo hópa, refi og broddgelti. Að settum hefðbundnum fyrirvörum um merkingareyðandi einfaldanir heldur Berlin því fram að þessi skipting geti að ýmsu leyti verið hjálpleg og upplýsandi. Og hún er það enn. (Í það minnsta er hún mjög skemmtileg.)

Túlkun Berlins er á þá leið að refir og broddgeltir upplifi veröldina og lifi lífinu með gerólíkum hætti. Líf broddgaltarins snýst allt um eitt meginatriði; allt sem hann upplifir skilur hann og túlkar útfrá þessum eina pól sem hann getur ekki hvikað frá vegna þess að hann sér engan annan. Fyrir broddgöltinn er lífið því tiltölulega einfalt.

Líf refsins er aftur á móti markað af fjölmörgum sjónarhólum sem hann getur skotist á milli, og hann getur skilið upplifanir sínar frá hverjum þeirra sem er. Hann gerir sér fullkomna grein fyrir því að veröldin er margbrotin og flókin smíð sem ekki er hægt að fella í eitt meginkerfi.

Það er enginn dómur fólginn í þessari skiptingu; hvorki að broddgölturinn sé þröngsýnn né að refurinn sé vingull. Berlin heldur því fram í ritgerðinni að Tolstoj hafi í rauninni verið líkari refnum en broddgeltinum, en um leið hafi hann trúað því að líf broddgaltarins væri betra og sannara en líf refsins, og reynt eftir mætti að breytast í broddgölt.

En skyldi líf broddgaltarins í raun vera eftirsóknarverðara en líf refsins? Ætli svarið við því ráðist ekki af ytri aðstæðum á hverjum tíma. Við sumar aðstæður er lífsafstaða refsins vænlegri til afkomu, en broddgaltarins við aðrar. Og svo maður reynir nú jafnvel að vera praktískur mætti halda því fram að refurinn henti vel í sum störf, en broddgölturinn í önnur.

Því hefur þannig verið haldið fram, að ætli maður sér að ná árangri í viðskiptum verði maður að finna broddgöltinn í sjálfum sér. Með öðrum orðum, maður þarf að vera stefnufastur. Í stjórnunarfræðum mun meira að segja vera til svokölluð "broddgaltarhugmynd", það er að segja, útgangspunkturinn sem allt annað miðast við og veltur á. Stóri kosturinn við lífssýn broddgaltarins er sá, að hann getur gert veröld sem við fyrstu sýn er óheyrilega flókin alveg nauðaeinfalda. Það verður því alveg kýrskýrt hvað þarf að gera, og hvað skiptir minna máli.

Í ljósi þess hvernig ytri aðstæður eru núna - þeirrar ofuráherslu og miklu athygli sem kaupsýsla hverskonar nýtur núna - er líklega alveg óhætt að segja að nú sé öld broddgaltarins. Það er að segja, um þessar mundir er betra að vera broddgöltur en refur.

En það ræðst ekki af eiginlegum yfirburðum broddgaltarins, heldur miklu fremur af því að aldarfarið er hallkvæmt broddgeltinum, hefur hann til vegs og virðingar, telur hann stefnufastan fremur en þröngsýnan, ákveðinn fremur en einstrengingslegan. Í þessu sama aldarfari er refurinn vingull fremur en víðsýnn, reikull fremur en eftirtektarsamur.

Það er ekki langt síðan refnum var hampað eins og broddgeltinum nú. Þarf ekki að fara aftur nema tvær þrjár kynslóðir - hippatíminn var gullöld refsins; í því aldarfari var broddgölturinn afturhaldssamur, þröngsýnn og fanatískur.

En núna sitja refirnir hoknir á básum sínum (sem broddgeltirnir hafa gefið það virðulega heiti "vinnustöðvar"), helteknir upplýsingafíkn og sanka að sér hinum aðskiljanlegustu vitneskjubútum sem þeim gengur þó illa að fella saman í einhverja heild. Því er alveg undir hælinn lagt hvort refurinn getur með einhverjum hætti hagnýtt sér allar upplýsingarnar sem hann sankar að sér. Líklegra er að hann verði bara ringlaður. Það hefur áreiðanlega verið refur sem bjó til hugtakið "upplýsingamettun".

Kenning Berlins um Tolstoj getur verið refum nútímans bæði huggun og holl lesning. Þar að auki bendir ýmislegt til þess að farið sé að síga á seinni hluta gullaldar kaupsýslubroddgaltanna. Eina raunhæfa leiðin til að afstýra svokölluðum menningarárekstrum - sem verða sífellt harkalegri og færast sífellt nær - er að byggja upp fjölmenningarsamfélög, og við slíkar ytri aðstæður er líklegt að það sem núna lítur út fyrir að vera vingulsháttur refsins geti blómstrað sem umburðarlyndi.

Sjálfur var Berlin refur. Hver nema sannur refur gæti séð lífið frá tveim svona gerólíkum sjónarhólum? Og hann blómstraði í lífsafstöðu refsins, en kannski var það vegna þess að þá var jarðvegurinn frjór. Það er ekki að vita hvað yrði um hann núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband