9.5.2007 | 09:41
Borg er ekki bara hús
Viðhorf, Morgunblaðið 9. maí 2007
Framtíð Reykjavíkurflugvallar er mál sem eingöngu varðar borgina sjálfa, íbúa hennar og yfirvöld. Það er á valdi þessara aðila að taka ákvörðun um að fjarlægja völlinn úr Vatnsmýrinni. Það er meira að segja líka á valdi þessara aðila að taka ákvörðun um að setja völlinn niður að mestu í landi annars sveitarfélags, Mosfellsbæjar, uppi á Hólmsheiði.
Borgin hefur með öðrum orðum rétt til að losa sig við vandamálið og leggja það á herðar annarra.
Einhvern veginn svona er í raun og veru málflutningur undarlegra samtaka sem kenna sig við betri byggð og snúast um það eitt að fjarlægja flugvélar og annað fuglalíf úr Vatnsmýrinni og setja þar í staðinn mikið af húsum með tilheyrandi umferðarþunga og mengun.
Á þessu öllu saman á að græða svo og svo mikið. Talsmaður ofangreindra samtaka sagði í einhverjum fjölmiðli á laugardaginn eitthvað á þá leið að nýbirt skýrsla um framtíðarkosti vallarins sýndi að ekki mætti bíða eitt andartak með að fjarlægja hann og fara með upp á einhverja af nærliggjandi heiðum.
Að vísu benti nýgerð Capacent-Gallup könnun til að yfirgnæfandi mikill meirihluti landsmanna vilji hafa völlinn í Vatnsmýrinni. Þegar sú könnun var gerð höfðu þegar borist fregnir af helstu niðurstöðum rannsóknarhópsins, þannig að gera verður ráð fyrir að þátttakendur í könnuninni hafi haft vitneskju um hvað það myndi græðast mikið á því að fjarlægja völlinn og reisa í staðinn hús í Vatnsmýrinni, með allri þeirra bílaumferð sem slíku tilheyrir.
Ég hef mikinn áhuga á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Fyrir því eru margar ástæður, en hér og nú ætla ég að láta duga að nefna þá, að mig hryllir við því að mýrin verði troðfyllt af íbúðarhúsum með allri umferðinni sem því myndi fylgja.
(Var nokkuð í skýrslunni tekið með í reikninginn hversu mikið mengun í miðborginni myndi aukast af völdum aukinnar umferðar, eða reiknað með að ómengandi almenningssamgöngukerfi, eins og til dæmis rafknúnar jarðlestir, yrði reist í tengslum við nýja byggð í Vatnsmýrinni?)
Af hverju liggur svona mikið á að græða á Vatnsmýrinni peninga? Er ekki mikils um vert að hafa stórt, opið svæði í borginni? Hvers vegna ætli yfirvöld í New York hafi ekki fyrir löngu rutt Central Park og byggt þar háhýsi? Ætli sé til dýrara ónotað byggingarland í heiminum en það sem þar liggur?
Það verður að segjast eins og er, að þau rök fyrir brottflutningi Reykjavíkurflugvallar að landið undir honum sé svo verðmætt byggingarland eru einhver þau haldlausustu sem heyrst hafa í nokkru máli. Gagnrökin eru auk þess óteljandi, auk þeirra sem nefnd eru hér að ofan að byggð í mýrinni myndi valda aukinni mengun í miðborginni, sem nú þegar er orðin mengaðri en viðunandi getur talist.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið á laugardaginn þar sem hann nefndi meðal annars að flugvallarmálið er ekki eingöngu spurning um að borgarsjóður fitni svo og svo mikið, heldur er þetta einnig (og ég myndi bæta við, fyrst og fremst) réttlætismál. En ég ætla að reyna að forðast að fara út í það hér og nú, heldur horfa einungis á málið frá sjónarhorni höfuðborgarbúans.
Þetta sem ég nefndi hér að ofan um Central Park í New York hefur verið mér hugleikið lengi, og væri gaman að sjá útskýringar á því hvers vegna borgaryfirvöld þar hafa ekki byggt á svæðinu í stað þess að láta það liggja ónotað og vera þar að auki kjörlendi glæpamanna.
Einnig hef ég hugleitt hvers vegna yfirvöld í borgum eins og London og París hafa ekki þegar fært lestastöðvar út fyrir borgarmörkin í stað þess að láta þær sitja á verðmætu byggingarlandi inni í borgunum.
En hættum nú að hugsa um hvað fólk er að gera í útlöndum. Hvað varðar okkur um langa reynslu annarra? Við ráðum okkur sjálf.
Vatnsmýrarvöllurinn er eitt helsta einkenni Reykjavíkur, ásamt húsunum sem brunnu við Lækjartorg um daginn, Hallgrímskirkjuturni, Bernhöftstorfunni, Perlunni og svo mætti lengi telja. Völlurinn er einfaldlega hluti af sjálfsmynd Reykjavíkur og þannig í raun menningarverðmæti sem halda þarf í rétt eins og götumyndina á horni Austurstrætis og Lækjargötu.
Eða eru hús merkilegri mannaverk en samgöngumannvirki? Eru hús mikilvægari þáttur í umhverfi mannsins en flugvélar? Ég hef satt að segja aldrei heyrt rök fyrir því, en það er nú kannski af því að ég er ekki arkitekt, og á þar af leiðandi engra hagsmuna að gæta að byggð verði hús. Aftur á móti nota ég flugvélar mikið, sem og Vatnsmýrarvöllinn, og á þar hagsmuna að gæta.
Kannski heldur einhver að mér sé ekki alvara þegar ég segi að Vatnsmýrarvöllur sé menningarverðmæti og hluti af borgarmyndinni. En mér er fúlasta. Manngert umhverfi er ekki eingöngu hús. Borg er ekki bara hús. Borg er líka götur, gangstéttir og garðar. Við þetta má bæta að borg er líka bílar, hvort sem manni líkar betur eða verr. Og samgöngumannvirki og samgöngutæki, eins og til dæmis lestarstöðvar og lestar. Og flugvellir og flugvélar.
Reyndar finnst mér fullmikið af bílum í borginni minni, ekki síst í miðborginni og Vesturbænum, og ég skil ekki hvers vegna menn vilja stuðla að fjölgun bíla á þessu svæði með því að reisa byggð í Vatnsmýrinni. Geta samtökin um betri byggð útskýrt það fyrir mér?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:19 | Facebook
Athugasemdir
Lesandi sem ómögulega vill láta nafns síns getið sendi mér tölvupóst vegna þessa Viðhorfs og sagði meðal annars:
"Mig langar til þess að þakka fyrir greinina um flugvöllinn í blaðinu í dag. Allt sem þar er sagt er eins og skrifað frá mínum huga og ég hef svo sannarlega hugsað á þessum nótum alveg frá íbúakosningu um völlinn.
Sjálf er ég hagfræðingur, en skil ekki hve "naive" það er að láta peningasjónarmið ráða ákvörðunum sem þessum. Til skamms tíma höfum við rifið merk og söguleg hús vegna þess að það er "ódýrara að byggja nýtt" heldur en að gera við það gamla. Vantar ekki eitthvað í þroska þjóðar sem hugsar svona?
Hvers vegna ekki að ryðja næstum öllum trjágróðri í Öskjuhlíð fyrir byggingalóðir, væri það ekki stórkostlega "hagkvæmt"? Það er a.m.k ekki nokkur vandi að setja þetta upp í "hagkvæmnismódel" fyrir þá sem hafa hagfræðimenntun, en okkur var einnig kennt í hagfræði að það eru jafnframt til gildi sem ekki eru enn talin með í slíkum módelum.
Hvers vegna að fara eftir einhverjum úreltum kirkjulögum um hvíld þeirra sem látnir eru? Hvað væri unnt að reikna mikla hagkvæmni af því að byggja í Suðurgötu-kirkjugarðinum eða í Fossvogi?"
Ég þakka þessum lesanda póstinn og undirtektirnar - tek fram að ég fékk leyfi til að birta úr póstinum hérna í athugasemd.
Lesandinn sagði ennfremur:
"Hvað með rétt þeirra sem búa á landsbyggðinni um að geta sótt fundi, þjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntun og menningu til okkar sameiginlegu höfuðborgar?
Þegar sú höfuðborg var byggð upp bjuggu innan við 1/3 hluti þjóðarinnar þar. Allir landsmenn lögðu þó sitt af mörkum í að byggja upp þessa stjórnsýslu sem við höfum þar, auk lands-sjúkrahúss, mennta- og menningarstofnana. Auðvitað á þetta fólk rétt á góðum samgöngum við höfuðborg sína, að ekki sé talað um þegar samþjöppunin er eins mikil og hér á landi og sækja þarf ólíklegustu hluti til þessa höfuðborgarsvæðis."
Einmitt það sem ég vildi sagt hafa.
Kristján G. Arngrímsson, 9.5.2007 kl. 16:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.