16.5.2007 | 07:28
Í minnihluta
Viðhorf, Morgunblaðið 16. maí 2007
Hvernig ætli standi á því að hér á landi hefur aldrei orðið til hefð fyrir minnihlutastjórnum? Þess í stað er allt kapp lagt á að mynda svokallaða "sterka" stjórn, það er að segja, stjórn sem hefur slíkan aflsmun á þingi að hún getur virt minnihlutann gersamlega að vettugi og farið sínu fram.
Eitt af því sem er vont við að hafa svona "sterkar" stjórnir, er að þingræðið, sem svo á að heita að ríki hér, verður að engu. Það verður ekki þingið sem ræður heldur einfaldlega ríkisstjórnin.
Afleiðing af því er síðan það sem kom í ljós í aðdraganda nýafstaðinna kosninga og í kjölfar þeirra, það er að segja stjórnarandstaða sem er orðin svo full af reiði eftir að hafa árum saman verið tilgangslaus á þingi að hún er ekki viðræðuhæf þegar kemur að myndun nýrrar stjórnar.
Það er kannski ekki nema eðlilegt að hugmynd VG um minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknar hafi fallið í grýttan jarðveg hjá framámönnum í Framsóknarflokknum eftir öll hnjóðsyrðin sem leiðtogar VG hafa í vanmáttarreiði sinni látið falla undanfarið.
Samt er hugmyndin sjálf um minnihlutastjórn að mörgu leyti góð. Ekki síst vegna þess að minnihlutastjórn verður því einungis starfhæf að þingheimur leggist meira og minna á eitt. Stjórnsæknir flokkar, eins og allir íslensku flokkarnir eru sagðir vera, eru ekki heppilegt umhverfi fyrir minnihlutastjórn. Hún fær ekki þrifist ef það er meginmarkmið þeirra flokka sem ekki eiga aðild að henni að fella hana.
Þannig má kannski segja að minnihlutastjórn sé ágætis æfing í þingræði og eiginlegu lýðræði þar sem allar raddir fá að heyrast og taka verður tillit til sjónarmiða sem stangast á við manns eigin. Ef til vill má því bæta við, að það sé til marks um lýðræðislegan þroska þegar hefð verður fyrir minnihlutastjórnum.
Íslendingar eiga þar nokkuð í land, en frændur okkar á Norðurlöndum og ýmsum öðrum nágrannaríkjum hafa náð þessum þroska. Hér gengur ennþá allt út á að fá að ráða öllu, eins og er háttur barna. Þetta kom kannski hvað berlegast í ljós í ofstækiskenndum málflutningi stjórnarandstöðunnar fyrir kosningarnar um að markmið númer eitt til tíu væri að fella stjórnina.
Hugmyndin um að nauðsynlegt sé að mynda "sterka" stjórn felur í sér að stjórnin hafi svo afgerandi meirihluta að hún sé ónæm fyrir skeytum stjórnarandstöðunnar. Það er reyndar ekkert undarlegt að einblínt sé á þessa leið þegar haft er í huga að stjórnarandstaðan hefur alltaf komið fram eins og ríkisstjórnin sé andstæðingur sem þurfi að hafa undir.
Aftur á móti hefur "sterka" stjórnin komið fram við stjórnarandstöðuna eins og uppreisnargjarnan ungling sem ekkert mark er takandi á, og það er ekki heldur til þess fallið að auka lýðræðisþroskann. En í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur einmitt látið eins og uppreisnargjarn unglingur er kannski ekki að undra að svona sé komið.
Þessi vítahringur verður vart rofinn í einni svipan. Þess er líklegt langt að bíða að íslenskt lýðræði nái þeim þroska sem líklega er nauðsynlegur til að minnihlutastjórnir frái þrifist. En kannski voru úrslit kosninganna núna eins ákjósanleg og hægt var að hugsa sér til að fyrsta skrefið verði tekið.
Ef við göngum nú út frá því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn haldi áfram stjórnarsamstarfinu með sinn eina mann í meirihluta verður sú stjórn engu að síður minnihlutastjórn vegna þess að flokkarnir fengu til samans innan við helming atkvæða. Það er þess vegna ekki alveg svo einfalt að stjórnin hafi einfaldlega haldið velli. Í vissum skilningi gerði hún það, en í öðrum gerði hún það ekki.
Það væri óeðlilegt að ný stjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna tæki ekki með í reikninginn að hún starfar í umboði minnihluta kjósenda. Það má segja að ráðherrum nýrrar stjórnar beri siðferðisleg skylda til að gleyma ekki þeirri staðreynd, og taka tillit til hennar.
Hvernig gera þeir það með áþreifanlegum hætti? Jú, með því að koma ekki fram við stjórnarandstöðuna eins og hún skipti engu máli. Nýi "meirihlutinn" á þingi varð til vegna þess hvernig kosningakerfið virkar, ekki vegna þess að meirihluti kjósenda greiddi honum atkvæði.
Frá sjónarhorni þeirra sem leggja ofuráherslu á "sterka" stjórn hljómar þetta auðvitað fáránlega og barnalega. Mikilvægi þess að stjórnin geti viðhaldið efnahagslegum stöðugleika hlýtur, að þeirra mati, að vega þyngra en einhver óljós siðferðisskylda. Ekki síst þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut, hann hefur jú alltaf verið "vöðvaflokkur" sem vill láta verkin tala fremur en vitsmunina. Og þá má stjórnin ekki fara sjálfviljug að ganga hölt.
En um leið verður stjórnarandstaðan, sem í vissum skilningi er í minnihluta en í öðrum skilningi í meirihluta, að sitja á sér og veita nýrri stjórn svigrúm. Það verður þó að segjast eins og er að það er ekki beint útlit fyrir að leiðtogar Samfylkingar og VG ætli að lækka í sér rostann, ef marka má "stórmannlegt" tilboð formanns VG til formanns Framsóknar um tækifæri til að biðja sig afsökunar. Það verður að segjast eins og er, að þetta uppátæki VG-formannsins er eitthvað það ótrúlegasta sem sést hefur í íslenskri pólitík lengi, og hefur þó aldrei verið beint skortur á steigurlætinu þar.
Hugmyndin um minnihlutastjórn, sem í sjálfu sér er allrar virðingar verð, kallar kannski fyrst og fremst á breyttar hugmyndir um hvað í því felst að vera í stjórnarandstöðu. Ef sjálfstæðis- og framsóknarmenn mynda núna "minnihlutastjórn" fá VG og Samfylking sögulegt tækifæri til að skilgreina hlutverk stjórnarandstöðunnar upp á nýtt.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt 22.5.2007 kl. 07:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.