Dramb er falli næst

Viðhorf, Morgunblaðið, 22. maí 2007

Ef sigur Vinstri grænna var ein aðalfréttin úr kosningunum hlýtur stórfréttin úr stjórnarmyndunarviðræðunum að vera stórkostlegt tap VG í þeim. Því vart kemur það mjög á óvart að þeir tveir flokkar sem mest fylgi hafa myndi stjórn.

Hlutskipti VG varð eiginlega þveröfugt við hlutskipti Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, þar sem hann tapaði með miklum bravúr, en hafði svo slíkan sigur í stjórnarmyndunarviðræðum að annað eins hefur vart gerst í íslenskri pólitík. Þann leik vildu ýmsir í flokknum endurtaka núna, en segja má að vit hafi verið haft fyrir þeim.

Og ef framsóknarmenn þurfa að hugsa sinn gang alvarlega í ljósi kosningaúrslitanna, og jafnvel stokka upp, hljóta VG að þurfa að líta í eigin barm í ljósi stjórnarmyndunarviðræðnanna, og jafnvel stokka upp líka.

Það hefur verið talað um að skipta þurfi um formann í Framsóknarflokknum, sem yrði skólabókardæmi um það þegar bakari er hengdur fyrir smið, þar sem útreið flokksins í kosningunum stafaði af óánægju kjósenda hans með stefnu sem fyrrverandi formaður mótaði (og til marks um pólitíska hæfileika þessa fyrrverandi formanns var að hann yfirgaf skipið áður en það sökk).

Þeim sem velta fyrir sér framtíð forustu Framsóknar má ekki yfirsjást að núverandi formaður er þegar byrjaður í harla kröftugri stjórnarandstöðu, jafnvel áður en búið er að mynda væntanlega stjórn. Framsóknarformaðurinn er búinn að "vörumerkja" nýju stjórnina á afskaplega neikvæðan hátt, með því að kalla hana Baugsstjórnina. Verður fróðlegt að sjá hver afdrif þessa vörumerkis verða.

Það má vel vera að þetta vörumerki festist við stjórnina, en þó ber til þess að líta að það er ólíklegt að fjölmiðlar grípi merkið á lofti þar sem flokkarnir sem að stjórninni standa geta væntanlega gengið að því vísu að helstu fjölmiðlar landsins verði þeim vilhallir.

En það er alveg öruggt að Framsóknarmenn munu halda þessu á lofti í öllum fjölmiðlum eftir fremsta megni, og það kann að reynast mun áhrifaríkara barefli í stjórnarandstöðunni en kannski svolítið málefnalegri gagnrýni. Þess varð greinilega vart í kosningabaráttunni hvað "vörumerking" er orðin snar þáttur í stjórnmálunum, og getur jafnvel verið mun áhrifaríkari en málaefnaleg umræða.

Vandi Framsóknarflokksins er því líklega ekki forustuvandi heldur miklu fremur fortíðarvandi. Það er ekki nóg með að hann sé sveitó, Framsóknarflokkurinn er með beinagrindur í skápnum, og það er eins og skuggi fortíðar flokksins sé svo dimmur að það sjáist ekki handa skil fram á veginn. Það er engan veginn ljóst hvaða áþreifanlegu ráð koma til með að duga flokknum við tiltektina.

Aftur á móti er það tiltölulega ljóst í hverju vandi Vinstri grænna er fólginn. Ekki er það ímyndarvandi, og ekki verður séð að óhreint mjöl sé í pokahornum. En VG þyrfti að skipta um forustusveit, því að það var hún sem klúðraði stjórnarmyndunarviðræðunum jafnvel áður en úrslit kosninganna lágu fyrir. Í þessu efni má segja að sannast hafi hið fornkveðna, að dramb sé falli næst.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn er "vöðvaflokkur," sem þarf sífellt að vera að gera eitthvað áþreifanlegt til að finnast hann vera til, þá má segja að VG sé "vitsmunaflokkur," sem þarf sífellt að vera að tala um eitthvað til að finnast hann vera til. Og flokkurinn hefur talað sig inn í hug og hjörtu stórs hóps kjósenda, og þá kannski einkum og sér í lagi þeirra kjósenda sem telja sig líta heiminn ákaflega gagnrýnum augum og eru því ginnkeyptir fyrir afdráttarlausu og uppsteytssömu orðfæri forustusveitar flokksins.

En það var einmitt þetta afdráttarleysi og þessi uppsteytshneigð sem gerði að verkum að aðrir flokkar þorðu lítið að koma nálægt VG þegar kom að stjórnarmyndun.

Það er einfaldlega svo þreytandi að eiga mikið saman að sælda við þá sem eru stórbrotnari en lífið sjálft, þótt vissulega séu þeir skemmtilegir og heillandi úr fjarlægð. Og það er einmitt úr fjarlægð sem kjósendur sjá flokkinn, en hinir flokkarnir hafa hann í návígi, og þannig lítur hann einfaldlega allt öðru vísi út.

Það er því kannski þegar allt kemur til alls rangt sem ég sagði hér að ofan að vandi VG sé ekki ímyndarvandi. Kannski er vandinn einmitt ímyndarvandi, það er að segja með þeim hætti að flokkurinn er að of miklu leyti ímyndin ein. Hann er að of stórum hluta ekkert nema orðræða, að vísu ákaflega dramatísk og grípandi orðræða, en því miður, eins og títt er um hreina orðræðu, einhvernveginn á skjön við hinn áþreifanlega veruleika.

Vinstri græn hafa alltaf verið ólöt við að hafna þeirri gagnrýni að flokkurinn geri fyrst og fremst út á mótþróa og andstöðu við það sem er. En það er þó líklega raunin, eins og reyndar úrslit kosninganna benda til. Það sem höfðaði til kjósenda og skilaði VG stórsigri var ekki umhverfisstefnan (hana höfðu aðrir flokkar líka) heldur einörð höfnun flokksforustunnar á ríkjandi stjórn. Það sem kjósendur "keyptu" var eina eiginlega stefnumál flokksins, það er að segja að fella stjórnina.

Svo heillandi og grípandi sem þessi gagnrýna stefna er úr fjarlægð kjörklefans er hún fráhrindandi í návíginu inni á þingi. Það kom glöggt í ljós í aðdraganda stjórnarmyndunarinnar að forusta VG veit ekki hvenær hún þarf að hafa stjórn á uppsteytnum í sér, og auðvitað hlýtur það að hafa orðið öðrum flokkum vísbending um að í samstarfi við VG yrði aldrei á vísan að róa, og sífellt mætti búast við kraftasóandi orðræðuuppþoti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband