Sorbonne á beinið

Viðhorf, Morgunblaðið 30. maí, 2007

Einu sinni var ég nemandi við Háskóla Íslands. Ég var víst ekki sérlega góður nemandi, og ef ég hefði farið í eitthvert alvöru fag, eins og til dæmis lögfræði eða læknisfræði eða viðskiptafræði, hefði ég áreiðanlega flosnað upp frá þessu námi. Því má segja að það hafi orðið mér til happs að ég hélt mig við kjaftafögin.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég byrjaði í skólanum hafði ég litla hugmynd um hvert endanlegt markmið mitt var með náminu - líklega hafði ég hreint ekkert markmið. Mér er nær að halda að jafnvel þótt ég væri í kjaftafögunum hefði strangt til tekið mátt segja að ég ætti ekkert erindi í háskólanám. Það var einungis fyrir skilningsríki góðra kennara að ég fékk að komast áfram, og að ég skyldi komast upp með það sem átti að heita BA-ritgerð var ekkert annað en gustukaverk umsjónarkennarans.

Á þessum árum kostaði lítið sem ekkert að skrá sig í HÍ. Mér fannst það afskaplega gott, og ég er viss um að ef rukkað hefði verið um alvöru skólagjöld hefðu bæði samviska mín og "kostunaraðilar" mínir harðbannað mér að sóa peningum í þennan svokallaða lærdóm. En ég var svo heppinn að geta setið þarna á kostnað hins opinbera, að vísu í þeim fögum þar sem kostnaður á hvern nemanda er langminnstur.

Líklega er það af þessum persónulegu ástæðum sem ég hef alltaf verið frekar hallur undir þá hugmynd að háskólar eigi að vera öllum opnir, og það eigi að vera hægt að stunda nám við þá án þess að borga skólagjöld. Það á að vera möguleiki að stunda háskólanám meira af vilja en mætti, eins og ég hef líklega gert þarna í BA-náminu. Slíkur möguleiki getur reynst villuráfandi sauðum ákaflega mikilvægur, og þeir þannig fundið sér skjól sem ella væri hvergi annars staðar að finna.

En svona hugmyndir um háskóla sem hálfgerðar félagsmálastofnanir hafa sífellt farið meira og meira halloka fyrir þeim hugmyndum að háskólar eigi að stuðla að auknum hagvexti og fyrst og fremst að skila af sér nemendum sem eru færir um að taka þátt í atvinnulífinu. Sífellt verður háværari sú krafa að þeir sem "eiga ekkert erindi" í háskólanám eigi ekki að fá að hefja það. Til að skilja sauðina frá höfrunum mun vera affarasælast að rukka myndarleg gjöld, til að fólk fari ekki að þvælast í nám nema það meini eitthvað með því. Hafi skýrt mótuð markmið strax í upphafi.

Það er svo sannarlega þessara nýju tímanna tákn að nú á að fara að stokka upp í sjálfum Sorbonne, þessum erki-ríkisháskóla með engin skólagjöld. Ég rakst á frétt um það á AP um daginn að nýkjörinn Frakklandsforseti, Nicholas Sarkozy - sem lagði áherslu á það í kosningabaráttunni að Frakkar yrðu að fara að vera duglegri að vinna - ætli að gera franska háskóla skilvirkari og hagkvæmari.

Rektor Sorbonne, Jean-Robert Pitte, vill afleggja það fyrirkomulag að allir sem klára menntaskóla eigi rétt á að setjast á háskólabekk, hann vill að háskólarnir geti hafnað nemendum sem ekki teljist eiga í þá erindi, og hann vill fá að rukka skólagjöld til að auka tekjur skólans. AP segir að þetta líti ýmsir á sem "ameríkaníseringu" og vilji ekki sjá þessar breytingar.

Í ljósi þess sem ég rakti hér að ofan um mína eigin háskólagöngu get ég ekki annað en haft nokkra samúð með þeim sem líst ekkert á þessar fyrirhuguðu breytingar á Sorbonne. En um leið hefur Pitte að því er virðist ýmislegt til síns máls, og haldgóð rök virðast vera fyrir því að "nútímavæða" skólann.

Franskir háskólar skila mun færri útskriftarnemendum en bandarískir skólar, og árið 2005 voru einungis 14,2% fullorðinna í Frakklandi háskólamenntuð, samanborið við 29,4% í Bandaríkjunum, að því er AP segir, og vitnar í tölur frá OECD. Pitte segir að flestir nemendur við franska háskóla flosni upp frá námi. Fjörutíu og fimm prósent þeirra sem hefja nám við Sorbonne ljúka ekki fyrsta árinu, og 55% klára enga gráðu.

Pitte segir að ef skólinn fái ekki að setja inntökuskilyrði fari of mikið af peningum og tíma kennara í að sinna nemendum sem "eiga í rauninni enga möguleika" á að hafa eitthvað upp úr náminu. Slíkt sé bæði sóun og um leið ávísun á hina alræmdu yfirfullu fyrirlestrarsali og tengslaleysi nemenda og kennara. Þar sem skólagjöld séu lítil sem engin - tæpar 300 evrur - þurfi fólk ekki einu sinni að kíkja í peningaveskið áður en það skráir sig til náms.

Þrátt fyrir þetta held ég að þeir sem eru á öndverðum meiði við Pitte hafi nokkuð til síns máls. AP hefur eftir forseta nemendafélags í Sorbonne að núverandi kerfi geri öllum kleift að spreyta sig, og nemendur verði metnir á grundvelli frammistöðu sinnar í háskólanum, fremur en fyrri afreka á menntabrautinni. Að ekki sé nú minnst á kröfuna um að fjárhagsstaða eigi ekki að skera úr um hvort fólk getur farið í háskóla eða ekki.

Þrátt fyrir allt tal um að styrkjakerfi geti tryggt jafnan aðgang þótt skólagjöld séu rukkuð vita allir sem til þekkja að í Ameríku eiga fátækir alls ekki möguleika á að spreyta sig í háskólunum nema þeir hafi annaðhvort sýnt afburðanámshæfileika í menntaskóla eða séu afburðaíþróttamenn.

Rektorinn í Sorbonne gengur svo langt að segja að það sé "glæpsamlegt" að hleypa inn í háskóla nemendum sem ekki séu í stakk búnir fyrir slíkt nám. Þetta er fáránleg fullyrðing. Og ég þakka mínum sæla fyrir að skoðanir sem þessi voru ekki ríkjandi í Háskóla Íslands þegar ég þvældist þangað fyrst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Hvar er sjálfstraustið drengur. Ég er viss um að enginn kennari hleypir nemanda í gegnum BA ritgerð nema hann uppfylli kröfur til hennar.  Var ekki prófdómari líka? Ég vona að námið þitt nýtist þér líka í lífinu ekki endilega bara við vinnuna þína í dag.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 2.6.2007 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband