Í þykjustuleik

Viðhorf, Morgunblaðið 4. júní 2007

Hún var virkilega góð og skemmtileg greinin sem Anna Björk Einarsdóttir bókmenntafræðinemi skrifaði í Lesbók á laugardaginn var ("...nei, ég er ekki fótgönguliði, ég er skæruliði"). Ég er innilega sammála þeirri niðurstöðu Önnu að "þessi kaldhæðna "ég veit þetta allt"-afstaða sem nú tröllríður öllu" sé drepleiðinleg.

Aftur á móti get ég ekki tekið undir það sem Anna sagði næst: "Þeir bókmenntafræðingar sem sitja í dómnefndum, gefa stjörnur í Kastljósi og skrifa í yfirlitsrit eru ekki í mínu liði." Ég tel sjálfan mig vera í liði með þessum "stjörnubókmenntafræðingum", þótt ég hafi reyndar aldrei orðið þess heiðurs aðnjótandi að gefa stjörnur í Kastljósi.

Mér fannst greining Önnu á "dólgaafbyggingunni" hitta beint í mark. Hún er blekking, og aðferð til að halda andlitinu þrátt fyrir að maður geri eitthvað sem maður telur vera niðrandi, en langar samt af einhverjum ástæðum til að gera, eins og þegar femínistar finna hjá sér löngun til að vera prinsessur, eða hámenntaðir fræðingar vinna fyrir sér með því að skrifa fábrotnar blaðagreinar.

Líkingin við Seinfeld var einkar viðeigandi og upplýsandi, kannski ekki síst vegna þess að líkt og kaldhæðna "ég veit þetta allt"-afstaðan var Seinfeld til að byrja með afskaplega heillandi og skemmtilegur, en þegar frá leið varð hann drepleiðinlegur, og maður komst að því sér til nokkurrar furðu að Friends voru eiginlega miklu betri. Og ég segi þetta ekki af neinni kaldhæðni.

Það er eitthvað verulega falskt og ósannfærandi við það þegar fræðimenn "afbyggja fyrirfram hlutverk sitt, segja að það sem skipti máli sé að leika sér með hlutverkin, fara inn í þau og vinna með þau, afbyggja þau innan frá," eins og Anna orðar það. Með þessu láti fræðimennirnir í veðri vaka að þeir séu meðvitaðir um að þeir séu í þykjustuleik, og þar með sé fengin hin "kaldhæðna fjarlægð" sem geri að verkum að maður þurfi í rauninni ekki að standa reikningsskil gerða sinna. Ef maður er rukkaður getur maður sagt sem svo, ég var bara í þykjustuleik.

Anna vill ekki hafa svona þykjustuleik, og telur að menn ættu heldur að ástunda alvöru afbyggingu, neita að mæta í Kastljós og neita að skrifa í yfirlitsrit. Með öðrum orðum, gefa formunum langt nef, því að þannig verði maður ærlegur við bæði sjálfan sig og fræðin. Þannig megi forðast að þjóna valdi sem maður er í hjarta sínu á móti, eins og til dæmis peningavaldinu.

Ég er sammála Önnu um það, að þarna er á ferðinni drepleiðinlegur þykjustuleikur. En ég held að þykjustuleikur "stjörnubókmenntafræðinganna" sé fólginn í því, að þeir eru að þykjast vera í þykjustuleik. Það er að segja, allt talið um að "leika sér með formin", og jafnvel að "vinna með þau", er innihaldslaust málskrúð, til þess gert að láta líta út fyrir að maður sé meðvitaður og jafnvel í rauninni róttækur, og kannski ekki síst til að maður geti horfst í augu við sjálfan sig í speglinum. Þetta er leið til að halda andlitinu.

Með sama hætti gátu þeir sem voru svo ofurvandir að vitsmunum sínum að þeir skömmuðust sín fyrir að hafa gaman að bandarískum sjónvarpsþáttum horft á Seinfeld vegna þess að þar var látið líta út fyrir að um væri að ræða róttæka háðsádeilu á bandaríska sjónvarpsþætti.

En í raun og veru lutu Seinfeld-þættirnir nákvæmlega sömu lögmálum og aðrir bandarískir sjónvarpsþættir, og voru hreint ekkert róttækir - svo lengi sem þeir fengu áhorf var hægt að selja í þá auglýsingar og þar með hagnast á þeim. Brandarinn var því á endanum á kostnað þeirra sem voru svo meðvitaðir að þeir gátu ekki horft á bandarískt sjónvarp og töldu sig utan allra markhópa. Framleiðendur og markaðsfræðingar breyttu þeim í markhóp.

Stærsti gallinn við þennan þykjustuleik er að hann kemur í veg fyrir einlægnina sem er nauðsynleg til að fræðimennska, eins og önnur viðfangsefni manna, verði sannfærandi. Ekki síst fyrir fræðinginn sjálfan. Og það er enginn undirlægjuháttur eða barnaskapur að halda í einlægnina, þvert á móti felur það í sér mestu áhættuna. (Fyrir nú utan hvað einlægni veitir miklu meiri umbun en meðvitaður þykjustuleikur.)

Stjörnugjöf og yfirlitsgreinar sem gerðar eru af einlægni, þótt fábrotnar séu, eru þar að auki mun betri og áhættusamari bókmenntafræði en kaldhæðnisleg afbygging á stjörnugjöf og yfirlitsgreinum. Stjörnugjöf og yfirlitsgreinar snúast um bækur, en afbygging á formum snýst um bókmenntafræðina sjálfa vegna þess að hugmyndin um "bókmenntaform" er komin úr bókmenntafræði, en ekki úr bókmenntum.

Ég er því alveg sammála því sem Anna hefur eftir helsta skotspæni sínum, Jóni Yngva Jóhannssyni bókmenntafræðingi, að það sé verkefni bókmenntafræðinga að taka af skarið og fella dóma um bækur. Hún gagnrýnir hann fyrir að fella ekki dóma um "yfirlitsrit sem slík," og láta nægja að humma eitthvað um að gera sér grein fyrir takmörkunum slíkra rita.

En yfirlitsrit eru órjúfanlegur hluti af bókmenntafræðihefðinni, og getur bókmenntafræðingur tekið af skarið og fellt dóma um hefðina sem hann tilheyrir? Til að gera það þyrfti hann að fara með einhverjum hætti út fyrir hefðina og sjá hana úr fjarlægð. En ef hann gerir það, er hann þá ekki á vissan hátt hættur að vera bókmenntafræðingur?

Með því að vera kaldhæðinn að hætti Seinfelds getur maður ef til vill talið sjálfum sér og öðrum trú um að þessi fjarlægð hafi náðst. En það er blekking sem sannur fræðingur sér á endanum í gegnum. Og ef hann hefur lifað í henni svo lengi að hann þekkir sig ekki lengur í sinni eigin fræðahefð á hann hvergi höfði að halla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband