Svalt starf

Viðhorf, Morgunblaðið 14. júní, 2007

Hverjar skyldu vera líkurnar á því að kennsla og hjúkrunarfræði verði einhvern tíma eftirsótt störf á Íslandi?

Nei, líklega verður það seint. Morgunblaðið vakti máls á því í leiðara á sunnudaginn að íslenskum hjúkrunarfræðingum þættu störf sín ekki metin að verðleikum. Líklega þýðir það hvort tveggja að launin séu harla lág miðað við hve krefjandi störfin eru, og svo hitt að ímynd starfanna sé ekki sérlega glansandi. Með öðrum orðum, þetta eru ekki svöl störf.

Leiðarahöfundur hvatti til þess að íslenska þjóðin gerði breytingu þarna á og færi að meta þessi störf, sem allir geta verið sammála um að eru líklega með þeim mikilvægari í samfélaginu. Það verður einfaldlega að segjast eins og er, að hjúkrunarfræðingur hefur mikilvægara hlutverki að gegna en fjárfestir. Þjóðfélag getur starfað og haldið uppi ágætum lífskjörum þótt enginn sé þar fjárfestirinn, en án hjúkrunarfræðinga getur þjóðfélag ekki verið. Svona einfalt er málið ef grannt er skoðað.

Þrátt fyrir þetta hafa Íslendingar að því er virðist óseðjandi áhuga á fjárfestunum sínum, húsunum þeirra og einkaþotunum, en um kennarana og hjúkrunarfræðingana vilja Íslendingar helst ekki þurfa að hugsa, að minnsta kosti sýna þeir fréttum af þessum stéttum lítinn áhuga, en áðurnefndir fjárfestar og forstjórar eru eins og kóngafólk á Íslandi.

Hvað í ósköpunum væri hægt að gera til að breyta ímynd hjúkrunarfræðinnar, vekja athygli á henni og veita hjúkrunarfræðingum þá virðingu í samfélaginu sem þeir eiga skilda? Er yfirleitt hægt að breyta þessu með handafli?

Líklega er aðeins eitt ráð til. En það verður að segjast að ekki er mjög sennilegt að til þessa ráðs verði gripið. Hver er ástæðan fyrir fjárfesta- og forstjóradýrkuninni á Íslandi? Jú, þeir eiga svo mikið af peningum. Ef hjúkrunarfræðingar hefðu eins og þrjár til fjórar milljónir í mánaðarlaun gæti virðingin fyrir starfinu þeirra hugsanlega farið að aukast. Það verður einfaldlega að horfast í augu við það, að svona einfalt er málið. Allt tal um aðrar leiðir er bara tal.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins höfðaði til nýs heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, í von um að hann gerði hvað hann gæti til að breyta ímynd hjúkrunarfræðistarfsins. Hvað gæti heilbrigðisráðherra gert? Ekki má greiða hjúkrunarfræðingunum hærri laun, þótt af einhverjum ástæðum sé hægt að hækka laun seðlabankastjóranna um hundruð þúsunda eins og ekkert sé.

Nei, það er ekki líklegt að Guðlaugur Þór muni breyta nokkru um ímynd hjúkrunarfræðistarfsins, eða hlutskipti hjúkrunarfræðinga yfirleitt. Það er reyndar ólíklegt að Guðlaugur muni verða sérlega eftirtektarverður heilbrigðisráðherra. Hann hefur sennilega fengið starfið sem einskonar fyrsta skref inn í ráðherrahóp Sjálfstæðisflokksins, og mun í besta falli halda í horfinu.

Ef einhver breyting á heilbrigðiskerfinu er líkleg í ráðherratíð Guðlaugs er það aukin einkavæðing, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið hafa lengið talað fyrir. Ekki er nú líklegt að það auki veg hjúkrunarfræðinnar. Ekki er einkavætt til þess að bæta kjör hjúkrunarfræðinga. Ó nei, það er einkavætt til að auðvelda auðmönnum að njóta auðsins til hins ýtrasta með því að kaupa sér skjóta og fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu.

Hér er ekki verið að halda því fram að ríkisrekstur heilbrigðiskerfisins sé skilvirk leið til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga; ég á einungis við að tilgangur aukinnar einkavæðingar er ekki að bæta kjör þeirra eða gera starfið eftirsóknarvert, eins og Morgunblaðið hvetur til að gert verði, heldur er tilgangur aukinnar einkavæðingar að auðvelda auðmönnum lífið.

Með öðrum orðum, einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er gerð fyrir auðmenn Íslands, ekki fyrir heilbrigðisstéttir Íslands (nema í þeim tilvikum þar sem þetta tvennt fer saman). Hér á ég ennfremur við, að allar líkur eru á að einu breytingarnar sem nýr heilbrigðisráðherra muni stuðla að í embætti - það er að segja ef hann yfirleitt gerir nokkuð eftirtektarvert - verði auðmönnum til góða, en ekki hjúkrunarfræðingum eða öðrum heilbrigðisstéttum.

Líklega mun svo fara, eins og svo oft áður í sögu Íslands, að björgin kemur að utan. Það verða innflytjendur sem halda uppi heilbrigðiskerfinu og hugsa á endanum um alla íslensku auðmennina þegar þeir, þrátt fyrir allt ríkidæmið, verða veikir eins og annað fólk. Á þetta munu stjórnvöld líklega veðja; að hægt verði að fá innflytjendur til að vinna grundvallarstörf í samfélaginu fyrir lúsarlaun.

Af einhverjum ástæðum verður líklega ekki fremur en verið hefur veðjað á að greiða laun í samræmi við samfélagslegt mikilvægi starfa. Það er þó hugmyndin sem liggur til grundvallar því útbreidda viðhorfi að laun til dæmis hjúkrunarfræðinga og kennara séu of lág.

Það sem virðist öllu heldur ráða því hversu mikið er greitt fyrir störf og hversu glansandi ímynd þau hafa er einfaldlega að hve miklu leyti þau snúast um peninga.

Látum nú vera þótt þetta sé ríkjandi viðhorf meðal þeirra sem starfa í fjármála- og kaupsýslugeiranum. En þetta er líka ríkjandi viðhorf hjá stjórnvöldum, sem sést til dæmis á því að laun seðlabankastjóranna eru hækkuð án þess að svo mikið sem reynt sé að réttlæta það, og í stað þess að hækka laun í heilbrigðisgeiranum á að veðja á að innflytjendur séu til í að koma hingað og sinna umönnunarstörfum fyrir smánarlaun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband