26.9.2006 | 12:30
Ævintýraborgin
Viðhorf, Morgunblaðið 26. september, 2006.
Það er nú vart í frásögur færandi að maður fari í vinnuna sína á morgnana. En ég ætla nú samt að færa það í frásögur.
Eins og venjulega tók ég lestina á Bræðraborgarstöð og hún bar mig sem leið liggur undir Vesturbæinn, Grjótaþorpið og inn á Aðalstrætisstöðina undir gamla Moggahúsinu. Síðan áfram undir Lækjartorg og Bankastræti og Laugaveginum endilöngum upp á Hlemm.
Svona hófst ferðin í vinnuna í huga mínum, en í bláköldum veruleikanum sat ég í bílnum mínum þessa venjulegu og þráðbeinu leið, Hringbraut, Miklabraut, Vesturlandsvegur. Ég man ekki hvar á þessari leið í þéttri bílaumferð það gerðist að ég datt út í draumóra um hvað það væri nú mikill munur ef maður gæti látið berast þessa leið í jarðlest í stað þess að fara hana akandi, einn í bílnum mínum.
Ég fór að hugsa um hvað það yrði frábrugðið ferðalag og einfaldara. Ég gæti verið viss um að lestin kæmi á stöðina mína vestur í bæ á réttum tíma, vegna þess að jarðlestir eru óháðar tiktúrum bílaumferðar. Þannig að ég gæti vitað upp á hár, eða þar um bil, hvenær ég þyrfti að leggja af stað niður á lestarstöðina.
Þegar lestin kæmi gæti ég sest inn og farið að lesa Moggann eða jafnvel bók, og gæti sökkt mér í hana þyrfti aldrei að svo mikið sem líta upp þessar fimmtán til tuttugu mínútur sem það tæki lestina að fara upp á Háls. Kannski þyrfti ég þá að grípa til þessara jafnfljótu, og það gæti orðið krefjandi í vondum veðrum. En það væri líka hægt að tengja strætóferð við hverja lestarkomu og þannig auðvelda ferðalagið.
Leiðin í vinnuna yrði þar með afslappandi og ég myndi mæta jafn, ef ekki betur úthvíldur og ég var þegar ég vaknaði. Ég dundaði mér líka við að búa til í huganum stóra og mikla skiptistöð undir Kringlunni, þar sem línurnar tvær í jarðlestarkerfinu mínu skárust. Af þessari skiptistöð var innangengt í Kringluna og jafnvel líka Hús verslunarinnar. Já, ég gleymdi að nefna áðan að frá stöðinni undir Lækjartorgi er auðvitað innangengt í fína tónlistarhúsið.
Þetta voru svo sannarlega skemmtilegar hugleiðingar, og ég er viss um að þær lyftu mér upp og gerðu mig að betri starfskrafti fyrir Árvakur þennan dag. Það var ekki fyrr en seinna að það rann upp fyrir mér að þessar hugleiðingar mínar um jarðlestarferðina í vinnuna voru í rauninni hreinræktuð fantasía. Það sem gerir þær að hreinu ævintýri er það hversu fjarri þær eru veruleikanum, og hversu fjarri því fer að þær verði nokkurntíma að veruleika.
Myndin sem ég dró upp í huga mér af Reykjavík með einfalt jarðlestarkerfi til dæmis eina línu frá Granda og upp í Mosfellsbæ, og aðra línu úr Grafarvogi og suður í Hafnarfjörð var mynd af ævintýraborg, miðað við þann áþreifanlega og blákalda veruleika sem við manni blasir og maður býr í og heitir Stór-Reykjavíkursvæðið.
Þegar þetta hvað hugarflugið hafði í rauninni leitt mig út í mikla draumóra hafði runnið upp fyrir mér var ég ekki lengur upplyftur heldur niðurlútur og fúll. Mun verri starfskraftur en um morguninn. Ég sá fram á það að þessi draumur minn yrði aldrei að veruleika. Þess í stað verð ég um ókomna tíð að eyða bestu kröftum dagsins stundinni sem orðtækið segir að gefi gull í mund í að keyra bílinn minn og passa mig á hinum bílunum, taka af stað og stoppa, gefa í og hægja á. Ekki að undra að í einhverri breskri könnun sem ég las um fyrir skömmu sagði að fólki þættu ökuferðir í og úr vinnu vera mest stressandi tímar dagsins.
Og það sem gerir þetta enn blóðugra er að ég hef kynnst því af eigin raun hvernig það er að geta upplifað þennan veruleika sem ég lét mig dreyma um þennan morgun á leið í vinnuna. Eins og svo ótalmargir aðrir sem núna eiga heima í Reykjavík átti ég einu sinni heima í útlöndum, í stórborg sem er með alvöru almenningssamgöngukerfi. Samt var þetta norður-amerísk borg sem á það sammerkt með Reykjavík að vera mikil bílaborg og gríðarlega víðfem miðað við íbúafjölda.
Ég bjó í úthverfi, en um tíma sótti ég skóla í miðborginni og fór þangað með jarðlestinni á hverjum morgni. Margfalt lengri leið en ég þarf núna að fara í vinnuna, en það rifjaðist einmitt upp fyrir mér þarna um morguninn þegar ég gleymdi mér í draumórunum, að samt var það mun þægilegra og afslappaðra ferðalag en ökuferðin er núna á morgnana. Gott ef það var ekki einmitt þessi þanki sem sem kom draumórunum af stað.
Daginn eftir þessa draumóraferð mína í vinnuna las ég það svo í fréttum að formaður umhverfissviðs borgarinnar segði ljóst að aðalumferðaræðar borgarinnar séu fullmettar. Varla held ég að þetta hafi talist til marks um ótrúlega skarpskyggni mannsins eða verið sérstök skúbbfrétt. Svo fór maðurinn að tala eins og að Sundabraut myndi leysa vandann, þannig að ekki þyrfti í raun að velta þessu máli meira fyrir sér. Hvort tveggja er rangt hjá honum Sundabraut mun ekki leysa vandann, og það þarf að velta þessu meira fyrir sér. Það hefur líka komið fram í fréttum nýlega að hér sé óhemju mikið af bílum miðað við hliðstæðar borgir í nágrannalöndunum.
Það þarf að fara að hugsa upp á nýtt um lausnir á þeirri martröð sem samgöngur í Reykjavík eru orðnar. Og það þarf að hætta að hugsa um að þétta byggðina. Þétting byggðarinnar gerir martröðina verri. Fyrst þarf að búa til neðanjarðarævintýraborgina sem ég var að lýsa hérna að ofan. Þegar hún er komin er hægt að þétta byggðina án þess að Reykjavík verði að hjarta- og æðasjúklingi.
Til að búa til alvöru borg þarf ekki fyrst og fremst að búa til gljáandi fjármálahverfi, eins og yfirvöld í Reykjavík virðast nú halda. Það sem mestu skiptir er samgöngukerfið. Núna þarf að hætta að hugsa um skammtímaumbætur á því. Sundabraut mun í mesta lagi leysa vandann til fáeinna ára. Það þarf einfaldlega að fara að hugsa um alveg nýja tegund af samgöngukerfi.
Við eigum ekki að láta okkur dreyma um það eitt að í Reykjavík rísi glæsilegt tónlistarhús og röð af glæsilegum háhýsum. Við eigum ekki að miða framtíðarhugmyndirnar við að koma okkur upp slíkum gljándi skrautgripum til að sýna gestum og monta okkur af. Þess í stað þurfum við hluti sem gera borgina betri fyrir okkur að búa í.
Eiginlega er alveg fáránlegt að manni skuli finnast það fantasíukennt að hugsa um Reykjavík með alvöru borgarsamgöngukerfi. En á meðan íbúunum finnst slík tilhugsun fantasíukennd og draumórar einir getur Reykjavík ekki talist alvöru borg. Glerhýsi á hafnarbakkanum, þar sem norðanáttin getur ausið sjónum yfir það látlaust og þakið það seltu og skít, mun ekki gera Reykjavík að alvöru borg.
Og þetta snýst ekki heldur um að fara að horfa til himins og fylla borgina af háhýsum. Ekki er langt síðan að bent var á að slíkt stangast á við veðurfræðilegar staðreyndir um borgina. Þar af leiðandi er slíkt beinlínis óskynsamlegt. Nei, það þarf þvert á móti að fara að horfa niður fyrir lappirnar á sér og auka jarðtenginguna og hreinlega byggja niður í jörðina.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:52 | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru ekki slæmar hugmyndir. Ein "lestarleið" austur-vestur og svo önnur norður suður til að tengja Kópavog - Garðabæ - Hafnarfjörð og líklega gæti hún svo runnið alla leið til Keflavíkur. Með tíð og tíma myndi austur-vestur sporið svo ná til Hveragerðis og síðan Selfoss.
En dreymdi þig nokkuð um kostnaðarhliðina?
"Stórborgin" sem ég bý í er með rétt um 3 milljónir manna, og 2. neðanjarðarspor (ef til vill 2 og hálft). Þetta er ágætis samgönguleið, en reksturinn kostar sitt (og tapið er heldur meira en á BUS). 3 milljónir (og nokkra milljónir til víðbótar í "kópavogum" hér) eru langt frá því að standa undir rekstrinum.
Samt verður ekki á móti því mælt að þetta er nauðsynlegur rekstur. En hvað ætli tapið yrði þar sem 150.000 búa?
Hins vegar þarf að huga að gatnakerfinu í Reykjavík, og er að ég held verið að því, en er vissulega nokkuð seint í rassinn gripið. Valdhafar síðustu 12 ára voru nefnilega þeim annmörkum háðir að þeir fengu engar hugmyndir til lausnar á þessum vanda, þangað til hyllti undir það að þeir yrðu settir frá völdum, sem síðan gekk svo eftir.
Þangað til áttu hins vegar að prísa þig sælan með það að sækja vinnu í austurátt á morgnana og fara í vestur á kvöldin, og vorkenna þeim sem þurfa öfuga leið.
Bestu kveðjur
G. Tómas Gunnarsson, 26.9.2006 kl. 13:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.