Lesbók, 23. september, 2006 (í tilefni af málþingi um Mill).
Því hefur verið haldið fram að kveikjan að Frelsinu, sem óhætt er að segja eitthvert víðlesnasta og umdeildasta stjórnmálaheimspekirit sem til er, hafi verið óánægja höfundarins, Johns Stuarts Mills, og konu hans, Harriet Taylors, með einsleitni samfélagsins sem þau bjuggu í, og hversu lítið fór þar fyrir áræðnum og ævintýragjörnum einstaklingum sem gáfu lífinu lit.
Það hafi með öðrum orðum verið ótti Mills við að moðkenndur hugsunarháttur millistéttarinnar myndi verða allsráðandi og kæfa frjóa hugsun sem hvatti hann til dáða. Til munu vera bréfaskriftir Mills og Taylors þar sem þau ræða þessar dapurlegu horfur. Í Frelsinu má vissulega sjá víða þá áherslu sem Mill leggur á mikilvægi sjálfstæðrar hugsunar og að þeir sem að henni búa fái að rækta hana án þess að meirihlutinn (millistéttin) setji þeim stólinn fyrir dyrnar.
Ég legg því ríka áherslu á mikilvægi snillinga í samfélaginu og nauðsyn þess að veita þeim fyllsta frelsi til að þroskast til orðs og æðis, segir Mill (bls. 125). En: Frumleiki er sálargáfa, sem ófrumlegir menn geta ekki skilið, að komi að nokkrum notum ... Sannleikurinn er sá, að hversu mjög sem menn telja sig hylla raunverulega eða ímyndaða yfirburði og hylla þá jafnvel í raun, þá er hvarvetna ríkjandi tilhneiging til að leiða meðalmennskuna til æðstu valda (bls. 126).
Mill telur það sjálfljóst að einungis örsmár minnihluti sé gæddur snillingsgáfu, og að eðli málsins samkvæmt skeri þeir sig úr fjöldanum vegna þess að þeir séu gæddir ríkara einstaklingseðli en annað fólk (bls. 125). Voðinn sem stafar af útrýmingarhættu snillinganna er sá, að það séu þeir sem í rauninni haldi lífi í siðferði og trú, sem án þeirra myndu úrkynjast og verða að tómum vana. Og vanahugsun er aftur á móti hættuleg vegna þess að hún er í raun ekki annað en mót sem samfélagið býr mönnum í því skyni að spara þeim ómakið að þroskast sjálfir.
Áherslan sem Mill lagði á vitsmunalegt frelsi, áræðni og ævintýragirni, miðaði því öll að þeirri meginhugsun sem hann setti fram í einkunnarorðum Frelsisins, og fékk lánuð hjá Wilhelm von Humboldt: Öll þau rök, sem birtast á þessum blöðum, hníga að einni mikilli meginreglu: að um mannlegan þroska í ýtrasta margbreytileika sé meira vert en alla hluti aðra.
Sú vitsmunalega úrvalshyggja sem Mill aðhylltist því tvímælalaust er ef til vill ekki öllum að skapi. Enda hefur hún líklega aldrei verið það sem mest hefur þótt um vert í Frelsinu. Það hefur oftar verið túlkað sem pólitískt rit, en að vísu hafa bæði hægri og vinstrimenn skírskotað til þess, málstað sínum til varnar. Þetta hefur án efa átt hvað stærstan þátt í því hve lífseig bókin er, en hinu má auðvitað ekki gleyma að hún er kannski eitthvert best skrifaða heimspekirit sem til er. (Og íslensk þýðing þeirra Jóns Hnefils Aðalsteinssonar og Þorsteins Gylfasonar er hreint meistaraverk).
Frelsinu er iðulega flaggað sem helsta varnarriti einstaklings- og málfrelsis, en um leið samfélagsvitundar og virðingar fyrir öðrum. Til dæmis lagði Mill mikla áherslu á þann skilyrðislausa rétt sem allir einstaklingar eigi á menntun, og að ef foreldrar geti ekki gætt þessara réttinda barna sinna verði ríkið að gera það - að vísu á kostnað foreldranna eftir því sem unnt sé (sjá bls. 186).
Mill fer þó hvergi út í það hvar séu og í hverju nákvæmlega séu fólgin mörkin á milli einstaklingsfrelsis og samfélagsvitundar. Hann virðist allt að því segja að snillingar séu eiginlega mikilvægari en annað fólk (því að þeir haldi siðmenningunni á lífi), en segir aftur á móti ekkert um það hvort þetta þýði til dæmis að snillingum leyfist að hefja sjálfa sig yfir venjulegt og ófrumlegt fólk. Er til dæmis mikilvægara að þeir sem fengið hafa snilligáfu í vöggugjöf njóti menntunar en þeir sem ófrumlegir eru af náttúrunnar hendi, ef ekki er unnt að mennta báða?
Ef til vill má kalla það röklegan veikleika á málsvörn Mills fyrir snillinginn að hann gengur hreinlega út frá því sem gefnu að snilligáfa sé til. En um það má vissulega deila, og halda ýmsir því fram að snillingshugmyndin sé af rómantískum rótum runnin, og ef nánar sé að gáð standist hún ekki, frekar en hugmynd Jean Jaqcues Rousseaus um göfuga villimanninn. En jafnvel þótt maður sé algjörlega ósammála Mill um að snilligáfa sé raunverulega til dugar það engan veginn til að gera Frelsið að ómerkilegri bók.
Um það má eflaust líka deila hvort Mill hafi talið sjálfan sig til snillinga. Líklega hefur hann þó verið of hógvær til þess. Aftur á móti virðist engum blöðum um það að fletta að hann var öðru vísi en fólk var og er flest, og hann vissi það upp á sjálfan sig og fann fyrir því. Í Sjálfsævisögu sinni segir hann að faðir sinn, James, hafi alið sig upp til strangs vitsmunalífs, og svo rammt hafi kveðið að þessu uppeldi að það hafi beinlínis orðið á kostnað líkamlegs og félagslegs atgervis.
Frelsið kom fyrst út 1859 og hefur tvisvar verið þýtt á íslensku. Fyrst af Jóni Ólafssyni, og hét þá Um frelsið, og var gefin út 1886. Þorsteinn Gylfason segir í formála þýðingar sinnar og Jóns Hnefils að það verði með engu móti annað sagt en að þýðing Jóns Ólafssonar ... hafi farið fyrir ofan garð og neðan á Íslandi ... og verður þess varla vart að Íslendingar hafi lesið bókina, hvað þá að kenning Mills hafi haft minnstu áhrif í landinu (bls. 11). Ný þýðing Þorsteins og Jóns Hnefils kom síðan út 1979 og hefur verið prentuð þrisvar.
Hið íslenska kvenfélag gaf Kúgun kvenna út árið 1900 í þýðingu Sigurðar Jónassonar úr dönsku, og Bókmenntafélagið gaf þýðinguna síðan aftur út tæplega öld síðar. Upphaflega kom bókin út 1869, síðla á ævi Mills, og hefur því verið haldið fram að hann hafi vísvitandi beðið með að gefa hana út til að þær róttæku hugmyndir sem hann setti þar fram yrðu ekki til að veikja stöðu fyrri rita hans.
Þótt Kúgun kvenna hafi á sínum tíma verið róttækt rit er það nú orðið klassískt kvenfrelsisrit. Mill hélt því fram að ef frelsi væri körlum nauðsyn væri það einnig konum nauðsyn, og hafnaði þeim gagnrökum að eðli kvenna væri ólíkt eðli karla og að á þeim forsendum væri hægt að réttlæta þá fráleitu hugmynd að þessi meinti eðlismunur kynjanna gerði að verkum að frelsi væri ekki báðum nauðsyn til fulls þroska.
Þriðja bókin eftir Mill sem komið hefur út á íslensku er Nytjastefnan. Hana þýddi Gunnar Ragnarsson og Bókmenntafélagið gaf hana út 1998. Kjarni Nytjastefnunnar (sem kom fyrst út 1861) er sú siðferðilega grundvallarregla að breytni sé góð eða slæm eftir því hvort hún stuðli að hamingju eða ekki. Það er að segja, breytni er góð ef hún lætur fólki líða vel, slæm ef hún leiðir til þess að fólki líði illa.
En þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt. Mill tekur vara við því að ruglað sé saman hamingju og ánægju: Það er betra að vera óánægð manneskja en ánægt svín; betra að vera óánægður Sókrates en ánægður auli. Og ef aulinn og svínið eru ósammála þessu þá er það vegna þess að þau þekkja aðeins sína hlið málsins. Hinn aðilinn í samanburðinum þekkir báðar hliðar.
Þessar skemmtilegu setningar eru og hafa orðið efni í langar ritgerðir, en í sem stystu máli virðist Mill halda því fram að vitsmunir séu forsenda eiginlegrar hamingju. Hér bólar því aftur á vitsmunalegu úrvalshyggjunni sem nefnd var að ofan, og spyrja má hvort Mill hafi litið svo á að þeir sem frá náttúrunnar hendi státa ekki af miklu magni þess sem venjan er að kalla vitsmuni geti ekki orðið hamingjusamir þótt vissulega geti þeir verið ánægðir.
Ef til vill mætti þá einnig spyrja hvort Mill hafi litið svo á að börn geti ekki verið hamingjusöm þótt þau geti verið glöð og ánægð. Hér er vissara fara varlega og láta duga að spyrja að þessu en fullyrða ekkert. Þarna virðist þó vera á ferðinni óþægilega þröngur skilningur á hamingjuhugtakinu, og það tvímælalaust gert að skör sem er hærri en ánægjan ein.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:51 | Facebook
Athugasemdir
Nú eru nokkur ár síðan ég las þessar bækur, en skil ég það ekki rétt út frá tilvitnunum hjá þér - varðandi snillingana og hvort Mill hafi talið sig til þeirra - að ´it takes one to know one´? Var ekki frumleiki hluti snilligáfunnar (eða óaðskiljanlegur hluti??)? Og ef hann sjálfur skrifar bók snillingum til framdráttar - af því að það sé mikilvægt samfélaginu í heild að þeir fái að dafna - þýðir það að hann skilur að það sé mikilvægt, sem þýðir svo aftur að hann hlýtur að vera snillingur. Er það ekki?
Og varðandi að deila megi um hvort snillingar séu til: Hann hefur auðsjáanlega skapað sér sína skilgreiningu á því hvað þetta fyrirbæri sé; snillingur, og því ekki hægt að deila um að hans snillingur, þ.e. hans hugarsmíð, sé til. Hvort honum tekst svo að útskýra hugtakið nægjanlega fyrir öðrum þannig að þeir skilji það, er annað mál. Sem nægir ekki til að henda því út af borðinu því hugtök eru aldrei skilgreind á tæmandi hátt hvort eð er.
Ég hef sjaldan orðið fyrir jafn óvæntri ánægju af lesningu og af að lesa Mill.
Og Þorsteinn Gylfason var óneitanlega snillingur :) Það er mikill missir að honum.
gerður rósa gunnarsdóttir, 26.9.2006 kl. 20:07
Halló Kristján
Gaman að lesa þennan pistil hjá þér. Mill er einhver sem mér hefur ekki verið litið til því að í mínum geira er frekar litið til Foucault, Benjamins, Bataille, Nietcze (?) þegar kemur að því að útskýra mannlega hegðan í samhengi við listsköpun. Ég aftur á móti hef verið að fjalla svolítið um þetta í list minni. Og fyrst ég er í Svíþjóð þá hef ég verið að lesa Biblíu Skandinava "Fyktning korsar sitt spaar" eftir Aksel Sandemose sem er um svokölluð Jantelög. Nú vegna spyr ég. Má ég fá þessa bók lánaða hjá þér? og geturðu sagt mér titil hennar á ensku? kveðja Þóra
thora gunnarsdottir (IP-tala skráð) 27.9.2006 kl. 10:18
Hæ. Frelsið heitir á ensku On Liberty, og Nytjastefnan heitir Utilitarianism.
Kristján G. Arngrímsson, 27.9.2006 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.