FL Group og Paris Hilton

Getur verið að FL Group og Paris Hilton eigi eitthvað sameiginlegt? Já, verðmæti FL Group og frægð Paris byggjast hvort tveggja á upplifun og væntingum annarra. Hvorki FL né Paris hafa eiginlegt eða áþreifanlegt gildi. Paris hefur ekkert sér til frægðar unnið annað en að vera fræg, og verðmæti FL er fyrst og fremst fólgið í verðmæti þess.

Engu að síður eru bæði FL Group og Paris Hilton ákaflega raunveruleg fyrirbæri. Hvað sem hver segir er FL verðmætt félag, og þrátt fyrir öll afhróp er Paris fræg. Meira að segja heimsfræg. Það breytir engu þótt forstjóri FL hafi haft fáránlega há laun miðað við frammistöðu og Paris sé kannski ekki skarpasta járnið í skúffuni. Sápukúlur eru mjög raunverulegar og fullkomlega heillandi - þangað til þær springa.

Reyndar byggjast bæði FL og Paris á gömlum merg, þótt lítið sé orðið eftir af honum. Skammstöfunina „FL" má rekja til Flugleiða, og þannig vekur „FL Group" enn hugmyndina um flugvélar, þótt félagið eigi ekki eina einustu, og hafi beinlínis farið flatt á því að reyna að koma nálægt flugrekstri á ný. Og þótt Hilton-nafnið hennar Paris skírskoti til hótelkeðjunnar, og stúlkan sé stundum kölluð hótelerfingi er fjölskyldan hennar búin að selja keðjuna einhverju fjárfestingarfélagi, þannig að Paris mun aldrei erfa eitt einasta hótel.

FL og Paris eru því núorðið ekki nema nöfnin ein og athygli annarra. Ef fjárfestarnir yfirgefa FL verður ekkert eftir nema slyppur forstjóri og svartur Range Rover, og ef aðdáendurnir yfirgefa Paris breytist hún í ofurvenjulega ljóshærða stelpu.

Kannski finnst einhverjum að það geti ekki verið nema fremur langsóttur og ódýr brandari að líkja saman einu virðulegasta fjárfestingafélagi Íslands og alræmdustu ljósku Bandaríkjanna. Ef til vill myndi einhver benda á að fjöldi manns hafi lifibrauð sitt af FL Group - margir meira að segja vel smurt - en Paris Hilton sé aftur á móti ekki annað en heimskur stelpukjáni. Þar að auki njóti FL mun meiri virðingar en Paris, og það þykir mun fínna að lesa og tala um FL en Paris.

Samt er það nú af einhverjum ástæðum svo, að lestrarmælingar á mbl.is sýna svo ekki verður um villst að áhugi á axarsköftum Paris er í raun og veru (hvað sem sem kann að þykja fínt) margfalt meiri en áhuginn á gengi FL.

Auðvitað má spyrja að því hvort verðmæti FL Group sé samt ekki raunverulegra en frægð Paris að því leyti að gengi félagsins varði beinlínis líf fólks og afkomu, en ævintýri Paris hafi ekki nema í mesta lagi afþreyingargildi.

En jafnvel þetta er ekki svo einhlítt sem virðast kann í fyrstu. Það verður ekki framhjá því litið að fjöldi manns hefur tekjur - ýmist beint eða óbeint - af Paris (eða nánar tiltekið af frægð hennar), og líklega í heildina tekið mun fleiri en hafa tekjur af FL.

Ef út í það er farið má líklega ekki á milli sjá hvort er í rauninni meiri peninga virði, Paris eða FL. Það veltur sennilega á því hvernig frægð er metin til fjár, og eftir því hvernig gengið er á bréfunum í FL þegar samanburðurinn er gerður.

Enn má halda því fram, að þeir menn sem stjórna FL Group hafi raunveruleg völd, en Paris engin. En er það virkilega svo? Ef stjórnendur fjárfestingafélaga hafa öll þau völd og áhrif sem sífellt er gumað af, hvernig stendur þá á því að þessi sömu félög hrapa í verðgildi að því er virðist alveg óháð því hvað þessir menn aðhafast? Hvað hefur valdið verðfallinu á FL Group og Exista og öllum hinum fárfestingafélögunum á síðari hluta þessa árs?

Ef marka má fjármálaskýrendur er ástæðan fyrir lækkuninni fyrst og fremst hrunið á húsnæðislánamarkaðinum í Bandaríkjunum sem hafði keðjuverkandi áhrif sem vart hefur orðið hérlendis sem á öðrum fjármálamörkuðum.

Það skyldi þó ekki vera að völd íslenskra auðmanna eigi meira skylt við frægð Paris Hilton en nokkurn hefur grunað?

Þeir eru valdamiklir vegna þess að við hin álítum þá vera það og leitum til þeirra eftir leiðsögn eins og kindur til forustusauðsins. Og okkur finnst eðlilegt að þeir hljóti mikla umbun fyrir. Þessi mikla umbun sannfærir okkur svo um hæfni þessara manna og réttmæti forustu þeirra og áhrifa. Með öðrum orðum, völd þeirra og áhrif eiga ekki síst rætur í hugum okkar hinna.

Nákvæmlega það sama gildir um frægð Paris Hilton, en í hennar tilviki er hringrásin bara svo miklu augljósari.

Gott og vel. En ekkert af ofanskrifuðu breytir hinu minnsta um það, að Paris er í raun og veru fræg, og FL Group er í raun og veru verðmætt félag. Jafnvel þótt ljóst kunni að vera að bæði verðmætið og frægðin byggist á skynjun og væntingum, fremur en áþreifanlegum hlutum.

Þetta er fráleitt nokkuð nýtt. Fyrir mörgum öldum setti írski biskupinn og heimspekingurinn George Berkeley (sem hinn frægi Berkeleyháskóli í San Francisco heitir eftir) fram þá alræmdu kenningu að „esse est percipi," sem á íslensku myndi hljóma eitthvað á þessa leið: Að vera er að vera skynjaður. Hann átti við að það eina sem maður í rauninni geti haft beina vitnesku um séu skynjanir manns og upplifanir.

Berkeley hefur oft verið hafður að háði og spotti fyrir þessa kenningu sína, og það var í sambandi við hana sem hinnar frægu spurningar var spurt: Ef tré fellur í skógi en enginn er nærri, heyrist þá eitthvert hljóð? (Svar Berkeleys sjálfs við þessari spurningu mun hafa verið á þá leið að Guð væri ætíð nálægur og heyrði allt).

En ef nánar er að gáð kemur í ljós að Berkeley hafði nokkuð til síns máls. Þegar um er að ræða verðmæti FL Group og frægð Paris Hilton er kenning hans enn í fullu gildi: Esse est percipi.

(Viðhorf, Morgunblaðið 21. desember 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband