13.1.2008 | 11:05
Sameign í einkaeigu
Í frétt á mbl.is á fimmtudagskvöldið kom fram, að mannréttindanefndin telur ekki að kvótakerfið sem slíkt sé í sjálfu sér ósanngjarnt. Aftur á móti leiða tilteknir þættir í íslensku útfærslunni á kvótakerfi til ósanngirni. Nákvæmlega tiltekið er kjarninn í niðurstöðu nefndarinnar þessi:
Útfærslan á kvótakerfinu á Íslandi leiðir til ósanngirni vegna þess að með sölu og leigu á kvóta breytist sameign þjóðarinnar í raun og veru í einkaeign kvótahafans. Nefndin segir ekki að kvótakerfi sem slíkt sé ósanngjarnt.
Fyrstu viðbrögð sjávarútvegsráðherra við fréttum af úrskurði mannréttindanefndarinnar voru á þá leið að hann teldi skorta á að nefndin rökstyddi þá niðurstöðu að kvótakerfi væri ósanngjarnt. Ekki nema von að ráðherrann sæi hvergi rök fyrir slíkri niðurstöðu, því að þetta var alls ekki niðurstaða nefndarinnar.
Hún tók heldur ekki afstöðu til kvótakerfis hvarvetna í heiminum - heldur einungis til kvótakerfis eins og það hefur verið útfært hérlendis. Það er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafni ekki úrskurði nefndarinnar vegna misskilnings á honum.
En sjávarútvegsráðherrann sagði reyndar líka að úrskurðurinn yrði tekinn til nákvæmrar skoðunar, þannig að væntanlega mun hið sanna koma í ljós, og þá verður ráðherranum væntanlega líka ljóst að nefndin færir mjög sterk og einföld rök fyrir niðurstöðunni, nefnilega þau, að samkvæmt íslenskum lögum séu fiskiauðlindirnar sameign þjóðarinnar, og því fái ekki staðist að í raun og veru sé farið með kvótann eins og hann sé einkaeign þeirra sem hafa fengið hann úthlutaðan.
Ekki hef ég hugmynd um hvort úrskurðir mannréttindanefndarinnar eru á einhvern hátt bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Því hefur verið haldið fram að nefndin starfi á grundvelli alþjóðlegra samninga sem Íslendingar séu aðilar að, og því séum við skuldbundin til að hlíta úrskurðum nefndarinnar. En þetta er vísast túlkunaratriði.
Aftur á móti verð ég að segja eins og er að mér finnst það ekki vera neitt túlkunaratriði að framsal á kvóta er ósanngjarnt. Og mér finnst rök nefndarinnar fyrir þessu - að með þessum hætti breytist sameign í raun og veru í einkaeign - vera alveg skotheld. Einföld og auðskiljanleg, og þar af leiðandi sannfærandi.
Samt finnst mér ólíklegt að nokkuð muni breytast í útfærslu kvótakerfisins. Til þess eru of miklir hagsmunir í húfi. Verst að það eru einkahagsmunir fárra sem verða ofan á sameiginlegum hagsmunum margra. Hvers vegna láta stjórnvöld það viðgangast?
En þessi niðurstaða nefndarinnar gæti þó haft áhrif á umræðuna um kvótakerfið hér heima fyrir með þeim hætti að draga fram tiltekna þætti málsins og útfærsluatriði, í stað þess að umræðan sé á allt eða ekkert"-stiginu sem hún virðist hafa verið föst á og snúist um kvótakerfið í heild sinni. Slík umræða hefur í raun og veru haft þau áhrif að festa kerfið í sessi.
Ef niðurstaða mannréttindanefndarinnar nær að lyfta umræðunni á hærra plan," eins og skáldið sagði, kann hún að verða fyrsta skrefið að því að koma á einhvers konar sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið, og að hinar sameiginlegu auðlindir þjóðarinnar komi henni allri sem jafnast til góða, en verði ekki forsenda aukinnar misskiptingar í þjóðfélaginu, eins og nú er.
Það læðist líka að mér sá grunur að umrædd niðurstaða mannréttindanefndar SÞ verði til að auka tiltrú margra Íslendinga á alþjóðlegum stofnunum, og gæti jafnvel orðið til þess að beina einhverjum á þá braut að telja aukin áhrif slíkra stofnana á innanlandsmálin geta aukið jafnræði og sanngirni í þjóðfélaginu.
Auðvitað blasir við að alþjóðadómstólar og -nefndir geta tekið hlutlausa afstöðu til málefna sem hliðstæðar innlendar stofnanir geta ekki verið hlutlausar um vegna persónulegra tengsla og vináttubanda sem gera næstum því úti um við alla möguleika á hlutlægni á Íslandi.
Ekki væri það þá í fyrsta sinn sem björgin bærist að utan. Ætli það sé ekki tilfellið að það hafi fyrst og fremst verið alþjóðlegar stofnanir og erlendir hugmyndastraumar sem hafa í gegnum tíðina bætt hag íslenskrar alþýðu og losað hana undan oki innlendra höfðingja.
Ég veit vel að það þykir gamaldags og jafnvel hallærislegt að rifja upp setningu vökulaganna - sem höfðingjafulltrúarnir á Alþingi voru andvígir á sínum tíma - og ég veit satt að segja ekki hvaðan hugmyndin að þeim var komin. Líklega þó úr einhverjum útlendum kratisma sem fyrir einhverja guðsblessun hafði borist hingað til lands.
Samt kemur sú lagasetning oft upp í hugann sem dæmi um það hvernig afstöðu höfðingjanna á Íslandi til alþýðunnar hefur jafnan verið háttað, og er líklega enn. Þess vegna er ástæða til að gleðjast yfir úrskurði mannréttindanefndarinnar, þótt hún hafi ekki gagnrýnt fiskveiðistjórnunarkerfið sem slíkt heldur fyrst og fremst þá útfærslu þess sem hérlendis hefur tíðkast.
(Viðhorf, Morgunblaðið 12. janúar 2008)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.