11.4.2006 | 20:46
"Guð er dauður en hárið á mér er óaðfinnanlegt"
Observer sagði um helgina frá nýrri bók þar sem franski heimspekingurinn Bernard-Henry Levy, betur þekktur sem BHL, er gagnrýndur harðlega og sagður tilgerðarlegur svikahrappur og holdtekja þess allra versta í frönsku menntalífi þessa dagana. Ég verð að viðurkenna að það hlakkaði í mér.
Ég vissi fyrst um tilvist þessa merka heimspekings fyrir fáeinum árum þegar ég sá grein um hann í Vanity Fair, með myndum af honum og fallegu konunni hans, leikkonunni Arielle Dombasle. Vægast sagt hlýtur að teljast fátítt að heimspekingar komist á síður þessa tímarits. En maður getur svosem haldið í vonina ...
Ókei, ég veit ekkert um heimspeki BHL og ég man satt best að segja ekkert af því sem ég las um hann í Vanity Fair hérna um árið. Ég reyndi að lesa eitthvað í greinaflokki sem hann skrifaði nýlega í Atlantic Monthly um för sína til Bandaríkjanna - í fótspor Alexis deTocqueville - en það var eitthvað svo ruglingslegt að ég gafst upp.
En BHL mun vera mikil fjölmiðlastjarna í Frakklandi og Observer segir hann klæðast "hættulega fráhnepptum, hvítum skyrtum, jakkafötum frægra hönnuða" og mælska hans sé ótvíræð. Hann hefur skrifað einhverjar "rannsóknarskáldsögur" sem seljast í metupplögum.
Í nýju bókinni er hann sakaður um ritstuld, uppspuna, hræsni og að njóta góðs af tengslum sínum við fjölmiðla sem verndi hann fyrir allri gagnrýni. Segir Observer. Höfundar bókarinnar segjast hafa reynt að sundurgreina "BHL-kerfið". Observer hefur eftir öðrum höfunda bókarinnar, Olivier Toscer: "Við teljum að fjölmiðlar hafi búið til goðsögn sem er undirstaða þess sem BHL er og þess sem hann gerir." Toscer er blaðamaður. Hann segir að BHL sé orðinn að "heilagri kú" í Frakklandi og gagnrýni á hann sé ekki leyfð. Semsagt einhverskonar Garðar Hólm-dæmi, nema hérna er Garðar Hólm heimspekingur.
Það þarf líklega ekki að taka fram að BHL er moldríkur - hann á íbúð á Vinstri bakkanum, hús í Suður-Frakklandi og höll frá átjándu öld í Marrakech. (Gott ef myndirnar í Vanity Fair voru ekki teknar þar). Blasir náttúrulega við að maðurinn hljóti að eiga sér öfundarmenn og skóníðinga. Observer segir að í nýlegri grein um hann hafi verið settur saman frasi: "Guð er dauður en hárið á mér er óaðfinnanlegt".
Er ekki löngu kominn tími til að Lesbók Morgunblaðsins taki manninn upp á sína arma? Í það minnsta fræði íslensku þjóðina um hann og "heimspeki" hans. Og í guðanna bænum hafiði myndir með!
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.