14.11.2006 | 12:15
Að líta sér nær
Viðhorf, Morgunblaðið, 14. nóvember, 2006
Ég verð að viðurkenna að í langan tíma hefur fátt komið mér jafn mikið á óvart og niðurstöður könnunar, sem birtar voru í Fréttablaðinu um daginn, um afstöðu Íslendinga til hvalveiða. Rétt tæplega sjötíu prósent lýstu sig fylgjandi veiðunum. Kannski er það bara ég sem er svona laus við að hafa tilfinningu fyrir almenningsálitinu (enda er ég ekki í pólitík) en ég hef nú samt heyrt af fleirum sem komu jafn gjörsamlega af fjöllum.
Hvað veldur því að þessi niðurstaða kemur manni svona á óvart? Á hvaða grundvelli hefur maður myndað sér skoðun á því hver afstaða Íslendinga almennt sé til hvalveiðanna - og yfirleitt annarra mála sem eitthvað fer fyrir í samfélaginu? Ég ætti nú líklega ekki að þurfa að leita lengi, þar sem svarið blasir við: Af mínum eigin starfsvettvangi, fjölmiðlum. Og það sem meira er í þessu tilviki, kannski úr fréttum sem ég hef skrifað sjálfur um hvalveiðarnar.
Samt hefði ég ekki hikað við að fullyrða, ef ég hefði verið inntur álits, að það væri einungis lítill minnihluti þjóðarinnar sem væri hlynntur hvalveiðunum. Kannski í mesta lagi 30 prósent. En ef eitthvað er að marka áðurnefnda skoðanakönnun hefur greinilega eitthvað verulega mikið farið fram hjá mér.
Sú mynd sem íslenskir fjölmiðlar hafa dregið upp af deilunum um veiðarnar hefur, í ljósi þessarar skoðanakönnunar - sem ég skal viðurkenna að ég veit ekki hversu marktæk var - verið snarbjöguð. Svo einfalt er það. Af þessari mynd hefur mátt ráða, sem ég og gerði, að meirihluti þjóðarinnar væri andvígur veiðunum. Ég hefði ekki hikað við að fullyrða að svo væri.
(Ef lesandinn er algerlega ósammála þeirri gjafaforsendu minni að fjölmiðlar hafi gefið ranga mynd af almenningsálitinu í ljósi títtnefndrar skoðanakönnunar þarf hann ekki að fara lengra og getur hætt að lesa þennan pistil núna).
Þetta gefur ef til vill tilefni fyrir fréttamenn og skraffinna fjölmiðlanna til að staldra við og líta sér nær. Spyrja sem svo: Hvað klikkaði? En það verður líklega ekki gert. Það verður að segjast eins og er, að við fjölmiðlungar erum ekkert sérstaklega gefnir fyrir naflaskoðanir, og við erum yfirleitt á alltof mikilli hraðferð til að mega vera að því að velta fyrir okkur mistökum og jafnvel læra svolítið af þeim.
Nú og svo getur líka vel verið að flestir kollegar mínir séu því einfaldlega ósammála að eitthvað hafi farið úrskeiðis, og þá er eðlilegt að þeir sjái enga ástæðu til að vera með eitthvert allsherjar mea culpa.
Samt ætla ég að endurtaka spurninguna: Hvað klikkaði? Það kemur nefnilega ýmislegt til greina. Til að byrja með má nefna það sem væri alvarlegast fyrir okkur fréttafólk, það er að segja sá möguleiki að meirihlutinn í okkar eigin stétt sé andvígur hvalveiðunum og að þess vegna höfum við haft tilhneigingu til að flytja fréttir af þeim viðhorfum sem endurspegla okkar eigin, það er að segja andstöðu við veiðarnar. Ef þetta er raunin er það eiginlega svo alvarlegt mál að ég treysti mér ekki til að fara nánar út í það hér.
Annar möguleiki er sá, að við höfum gerst sek um að leita ekki nægilega vel eftir öllum viðhorfum, heldur höfum látið duga að reka hljóðnemann upp í loftið og láta hann nema þá rödd sem hæst talaði. Þetta er auðvitað afskaplega auðveldur háttur til að hafa á fréttaöflun, en um leið er þetta óttalegur slóðaháttur.
En það verður að segjast eins og er, að fjölmiðlar eru ákaflega ginnkeyptir fyrir hávaðamönnum og þeim sem tala af miklum sannfæringarkrafti. Slíkir menn eru eins og persónur í skáldsögum, og með því að leiða þá fram er hægt að bjóða áhorfendum og lesendum upp á grípandi drama. Hver vill það ekki?
Þessu til staðfestingar dugar að benda á þau ógrynni umræðuþátta sem ýmist eru að koma eða fara á sjónvarpsstöðvunum, að ógleymdum sunnudagsþættinum sem lengi hefur lifað á ofurskrautlegri en vitainnihaldslausri munngolunni úr umsjónarmanninum. Þessir þættir snúast ekki um það sem sagt er í þeim, heldur eru eins konar vitsmunalegt nautaat þar sem áhorfendur verða spenntir yfir því hvort einhverjum umræðuþátttakanda takist að reka annan á hol (eða öllu heldur gat). Þetta er með öðrum orðum sófismi.
Líklega var það þetta sem klikkaði. Raddirnar sem yfirtóku umræðuna í fjölmiðlum voru raddir skraffinnanna sem alltaf tala hátt og að því er virðist af heilagri sannfæringu. Raddir þeirra sem spurðir voru í áðurnefndri skoðanakönnun heyrðust aldrei. Og svo vildi til, að mikill meirihluti skraffinnanna er andvígur hvalveiðum og þess vegna varð heildarmyndin, sem fjölmiðlar drógu upp, bjöguð.
Það er ekki við sannfærðu hávaðamennina að sakast. Og ekki heldur alla hina (meirihlutann) sem höfðu skoðun sína í hljóði. Það voru fjölmiðlarnir sem klikkuðu. Hið yfirlýsta hlutverk þeirra er að endurspegla samfélagið, en í þessu tilviki tókst þeim það ekki. En eins og ég sagði áðan, það breytir engu. Það verður haldið áfram á sömu braut, vegna þess að íslenskum fjölmiðlungum myndi aldrei detta í hug að viðurkenna að þeim hafi orðið á í messunni.
Sem er afskaplega slæmt vegna þess að einmitt núna er í uppsiglingu annað deiluefni í þjóðfélaginu sem æskilegt væri að fjölmiðlar myndu gefa nokkurn veginn óbjagaða mynd af. Þar á ég við afstöðuna til innflytjenda. Hávaðamennirnir og fólkið með heilögu sannfæringuna er þegar byrjað að þenja sig og krefjast athygli. Að þessu sinni ætla ég að reyna að heyra í einhverjum öðrum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.11.2006 kl. 15:28 | Facebook
Athugasemdir
EF þetta er rétt hjá þér, þá vaknar sú spurning í mínum huga hvort vald fjölmiðla sé eins mikið og látið er í veðri vaka? Eða eru þeir annars ekki almennt taldir skoðanamótandi?
Annað sem mér dettur í hug er tímasetning skoðanakönnunar. Samhengi hennar við þáverandi umræðu í þjóðfélaginu. Getur ekki verið að menn séu, án þess að átta sig á því, í raun að taka afstöðu til annarra undirliggjandi þátta? Í þessu tilfelli að taka afstöðu með ´okkur´ (Íslendingum) í einhversslags stríði gegn ´hinum´? Sem þýddi að útkoman yrði önnur ef slík könnun yrði gerð þegar allt er í rólegheitunum og okkur fyndist ekki að okkur vegið?
En hvað sem öðru líður, þá er afar erfitt að komast hjá því að láta eigin viðhorf hafa áhrif á hvernig maður túlkar umhverfi sitt - auk þess sem maður velur umhverfi sitt að miklu leyti sjálfur; hvað maður les, við hverja maður talar, etc. Ef þú notar dóp heldur þú að 99% manna geri það líka. Ef þú notar það ekki heldur þú að 1% noti það. Hvorttveggja e.t.v. rétt ef viðmiðið er umhverfi hvors um sig.
gerður rósa gunnarsdóttir, 15.11.2006 kl. 21:10
... en gefur samt ekki rétta mynd af þjóðfélaginu í heild sinni. Menn eru gjarnir á að alhæfa út frá eigin upplifunum, sama hvað þeir reyna að gera það ekki.
gerður rósa gunnarsdóttir, 15.11.2006 kl. 21:17
Mig hefur reyndar alltaf grunað sterklega að vald fjölmiðla sé í raun mun minna en talað er um. Eru það ekki aðallega við fjölmiðlamenn sem tölum um þetta meinta vald? En eru lesendur ekki bara almennt skynsamari og gagnrýnni en við fjölmiðlungar hneigjumst til að halda?
Kristján G. Arngrímsson, 17.11.2006 kl. 23:04
Þetta er umhugsunarverður pistill hjá þér og ég held að rétt sé að við, fjölmiðlafólk séum ósköp sjálfmiðuð. Teljum að landsmenn allir þekki lungann úr blaðamannastéttinni, bara vegna þess að við sjálf þekkjum hvort annað. Ég er einnig sammála þvi að við séum fljót að stökkva til og leita eftir skoðunum þeirra sem hæst hafa. Það er slæmt og er líkleg tímaskorti að kenna, við vitum hver er snöggur til svars og léttir okkur vinnuna. Þá erum við komin að útgefundum blaðanna sem hafa peningahyggjuna að leiðarljósi og ekki svo gott að eiga við í markaðssamfélagi. Hitt er annað að ég er sammála þér með hvalveiðarnar; allt í kringum mig voru menn sem voru andvígir og mín tilfinnig er sannarlega að meirihluti sé andsnúinn veiðunum. Spurning hvernig spurt var í þessari könnun og hvernig staðið hafi verið að henni. Það er auðvelt að gera mistök í svona könnun ef ekki er vandað til verka.
Forvitna blaðakonan, 26.11.2006 kl. 07:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.