Fundaflensa

Á vef New York Times í gær birtist athyglisvert viðtal við breskan lækni sem starfar í Ho Chi Minh í Víetnam og hefur meðhöndlað um tuttugu manns sem voru með fuglaflensu. NYT leiðir að því getum að þar með hafi þessi læknir - Jeremy Farrar - ásamt víetnömskum starfssystkinum sínum líklega meiri beina reynslu af meðhöndlun þessa sjúkdóms en nokkur annar í heiminum. Hann hafi þá líklega meira vit á málinu en flestir aðrir, skyldi mega ætla.

 Í byrjun viðtalsins er höfð eftir Farrar sú kaldhæðnislega athugasemd að þótt fáir menn hafi smitast af H5N1, samtals 183 síðan árið 2003, hafi ekki verið neinn hörgull á fundahöldum um flensuna. Sennilega tíu fundir per hvern smitaðan, segir Farrar. Sjálfur hefur hann haldið tölur á slíkum fundum og segir áhugann á málinu gríðarlegan. En hann segist ekki viss um að allur þessi áhugi sé til marks um að mikil hætta sé í rauninni á heimsfaraldri.

 Farrar hefur fylgst með útbreiðslu H5N1 í Asíu í mörg ár og segist telja ólíklegt að það gerist sem talað er um að hætta sé á: Að vírusinn stökkbreytist og fari að smitast milli manna. Og rökin: "Það hafa margir milljarðar af kjúklingum í Asíu smitast og milljónir manna umgengist þá - hér í Asíu erum við í nánum tengslum við fiðurfénaðinn okkar - og innan við 200 manns hafa smitast."

 Það er eitthvað sannfærandi við þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband