Að skipta um skoðun

Viðhorf, Morgunblaðið 19. des. 2006

Fjölskyldustefna fyrirtækja, eins og lesa mátti um í Morgunblaðinu á sunnudaginn, er mikilvægur liður í að tryggja réttindi barna til að búa við eðlilegt fjölskyldulíf, og líka er hún mikilvægur - ef ekki hreinlega mikilvægasti - liður í að tryggja rétt feðra til að ala upp börnin sín.

Það er mikilvægt að bæta þessu atriði við það sem haft er eftir Herdísi Þorgeirsdóttur á sunnudaginn, þar sem hún vitnar í Vegvísi Evrópusambandsins 2006-2011 sem kveður á um að miðað skuli að því "að konur séu efnahagslega jafn sjálfstæðar og karlar, það er að heimur þeirra og barna þeirra hrynji til dæmis ekki við hjónaskilnað, aukinni samræmingu vinnu og fjölskyldulífs, aukinni þátttöku kvenna við stjórnvölinn í viðskiptalífinu og samfélaginu, útrýmingu á kynbundnu ofbeldi og staðalímyndum og útbreiðslu jafnréttissjónarmiða utan Evrópu".

Að tryggja körlum jafnan rétt til að ala upp börnin sín er jafnframt virk aðferð til að auka möguleika kvenna á efnahagslegu sjálfstæði og aukna þátttöku þeirra í stjórnun fyrirtækja, að ekki sé nú talað um hvað það getur breytt miklu fyrir útrýmingu á kynbundnum staðalímyndum.

Það er nefnilega tilfellið að meginástæðan fyrir því að karlar njóta ekki í raun jafns réttar og konur til uppeldis barna eru fyrst og fremst kynjabundnar staðalímyndir - öðru nafni fordómar - sem standa mun fastari fótum í íslensku samfélagi en við viljum vera láta. Vegvísir ESB ætti auk þess sem að framan er talið að kveða á um mikilvægi þess að karlar hafi jafna réttarstöðu og konur til dæmis ef kemur til skilnaðar, en það er kunnara en frá þurfi að segja að við slíkar aðstæður er hætt við að heimur karla og barna þeirra hrynji vegna þess að þeir eru ekki með "forræðislegt sjálfstæði" (sbr. "efnahagslegt sjálfstæði" kvenna). Þeir eru í mörgum tilvikum háðir konunum hvað varðar forræði barnanna, rétt eins og margar konur eru háðar körlum hvað varðar efnahagslega afkomu.

Fjölskylduvæna stefnan sem öll fyrirtæki segjast nú fylgja í starfsmannamálum er áreiðanlega til bóta fyrir alla aðila, starfsfólkið og fyrirtækin, en engu að síður er við ramman reip að draga í þessum efnum, því að þótt auðvelt sé að tala gegn kynjabundnum staðalímyndum er erfiðara að uppræta þær í raun.

Fullyrt er í greininni í Morgunblaðinu á sunnudaginn að það sé ekki nauðsynlegt að fórna fjölskyldunni fyrir starfið. Ég veit að vísu ekki hvort þarna er um að ræða sannindi sem búið er að sýna fram á með afkomutölum fyrirtækja, eða hvort þetta er bara eitthvað sem allir myndu samþykkja í orði.

Hitt hef ég aftur á móti sterkan grun um, að þegar karlar eiga í hlut sé þetta allt annað en viðtekið viðhorf. Ég held að enn sé ákaflega útbreitt það viðhorf að karlmaður eigi að velja á milli þess hvort hann taki fjölskylduna fram yfir starfsframa, eða öfugt. Og sá sem velur fjölskylduna er ekki talinn efni í háttsettan stjórnanda. Ég leyfi mér að efast um að konur þurfi að velja á milli starfsframa og fjölskyldu með jafn afgerandi hætti og karlmenn. Maður sem hefur valið fjölskylduna er þar með búinn að gera sig "ósamkeppnishæfan", og maður sem er búinn að velja starfið hefur þar með afsalað sér möguleikanum á að geta, ef til þess kemur, orðið aðaluppalandi barnanna sinna.

Það eru til óteljandi dapurleg - jafnvel beinlínis sorgleg - dæmi um menn sem hafa látið undan óyrtri kröfu vinnuveitanda og vinnufélaga og í raun látið af hendi stórt hlutverk í fjölskyldu sinni til þess að finnast þeir ekki glata möguleikum og mannvirðingu í vinnunni.

Það sem er dapurlegast af öllu við þetta er að ástæðurnar fyrir þessu hafa ekkert með að gera hæfni þessara manna til að sinna vinnunni sinni, eða vanhæfni þeirra til að sinna uppeldi barnanna sinna. Þetta hefur ekkert með að gera áþreifanlega þætti, heldur eru meginástæðurnar fyrir þessu rótgrónar staðalímyndir sem teknar eru sem óumflýjanlegur sannleikur. Með öðrum orðum, þetta sorglega hlutskipti alltof margra manna er til komið vegna fordóma og úreltra viðhorfa bæði þeirra sjálfra og vinnuveitenda þeirra, og ekki síður samfélagsins í heild. (Að ógleymdri heimskulegustu ástæðunni, sem engu að síður ræður kannski meiru en mann grunar: Þörf manna fyrir metorð og vald.)

Tökum svo eitt einfalt dæmi um gömul viðhorf sem enn standa djúpum rótum: Að kona taki sér frí úr vinnu til að sinna veiku barni þykir sjálfsagt mál. (En gleymum því ekki að um leið þykir sjálfsagt mál að hún sé með lægri laun en karlmaður.) Að karlmaður taki sér frí úr vinnu til að sinna veiku barni þykir ekki sjálfsagt mál. Aftur á móti er alveg sjálfsagt að karlmaður taki sér frí úr vinnu til að vera við jarðarför. (En án þess að þar með þyki sjálfsagt að hann hafi lægri laun en þeir sem aldrei fara á jarðarfarir.) Af hverju jarðarför en ekki veikindi barns? Við þessari spurningu er ekki til neitt skynsamlegt svar. Þetta er bara svona. Þetta er eitt lítið dæmi um birtingarmynd djúpstæðra viðhorfa, svo djúpstæðra að það má kalla þau lífsviðhorf. Slík viðhorf eiga sér oft ekki neina skynsamlega skýringu, og það eru þau sem erfiðast er að breyta. Jafnvel má halda því fram að það sé hreinlega ekki hægt að breyta þeim með handafli. Það eina sem hægt er að gera er að bíða eftir því að þau breytist.

Er það ekki dapurlegra en orð fá lýst að réttindi og velferð barna séu fyrir borð borin vegna þess að fólk þorir ekki - eða kann ekki - að skipta um skoðun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

´... bíða eftir að þau breytist' ? Og hver á að sjá um þau breytist?? Rolulegt viðhorf, landlægt, og einmitt ástæða þess að ekkert breytist.

gerður rósa gunnarsdóttir, 30.12.2006 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband