Hvað er heilsufélagsfræði?

Lesbók, 4. des. 2006; um bókina Heilbrigði og samfélag; heilsufélagsfræðilegt sjónarhorn, eftir Hermann Óskarsson

Sú var tíðin að ef maður fann til einhversstaðar í skrokknum eða leið eitthvað undarlega fór maður til læknis, og hann skar úr um hvort maður var veikur eða ekki. Ef læknirinn fann ekkert að fór maður heim aftur með verkinn eða undarlegheitin óbreytt, en samt heilbrigður. Með öðrum orðum: Ef læknirinn fann ekkert að manni þá var ekkert að manni. Og ef ekkert var að manni, þá var maður heilbrigður. Það var því engu líkara en að læknirinn gæti með náðarvaldi sínu einu gert mann alheilbrigðan. Er nema von að læknar hafi verið - og séu ef til vill enn - einskonar hálfguðir?

Vísast hefur það þó ætíð verið og er jafnvel enn breytilegt frá einum lækni til annars og líka einum "sjúklingi" til annars hvort málum er svona háttað. Samt grunar mig að þetta hafi kannski verið algengara viðhorf en hitt hérna áður fyrr, en nú sé málum öðru vísi farið. Hvað hefur þá breyst?

Mestu hefur þar ráðið breyttur almennur skilningur á heilbrigðishugtakinu. Það er að segja, að vera heilbrigður er ekki það sama núna og það var fyrir einni öld, eða svo. Þessi breyting á hugtakinu hefur orðið með þeim hætti að merking þess hefur orðið margþættari og flóknari. Það er ekki einungis að upplifun einstaklingsins sjálfs á heilsufari sínu sé hluti af heilbrigði hans, allskyns ytri, félagslegir þættir eru orðnir liðir í heilbrigðinu.

Greining á þessum félagslegu þáttum og áhrifum þeirra á heilbrigði er viðfangsefni heilsufélagsfræðinnar, sem dr. Hermann Óskarsson, dósent í félagsfræði við Heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri, leitast við að útskýra í Heilbrigði og samfélag; heilsufélagsfræðilegt sjónarhorn. Margbreytileiki heilbrigðishugtaksins sést vel á mynd af "áhrifaþáttum" heilbrigðis á bls. 45, en auk sjúkdóma og læknavísinda hafa þættir eins og mataræði, stéttarstaða, fjármál, efnahagsástand, menning og jafnvel stefna stjórnvalda áhrif á heilbrigði.

Þá er til dæmis einnig nokkuð hjálplegur við útskýringu á viðfangsefnum Hermanns greinarmunurinn sem hann fær lánaðan hjá félagsfræðingnum David Field á sjúkdómum og veikindum. "Sjúkdómur" vísar "til læknisfræðilegrar túlkunar á meinafræðilegum afbrigðileika sem birtist sem röð vísbendinga og sjúkdómseinkenna" (bls. 33). Sjúkdómur er með öðrum orðum það sem er að í efnaferlum líkamans. "Veikindi", aftur á móti, vísa til upplifunar sjúklingsins sjálfs á ástandi sínu. Það er að segja, veikindi eru verkurinn sem maður finnur. Og eins og margir vita er engin trygging fyrir því að læknir geti linað verk.

Þetta er kennslubók og eðli málsins samkvæmt er í henni hafsjór fræðihugtaka. Því kann að verða villugjarnt fyrir lesandann nema hann njóti leiðsagnar kennara sem getur stýrt honum á helstu kennileiti. Ef til vill hefði verið til bóta ef höfundurinn hefði reynt að tálga hnitmiðaða skilgreiningu á heilsufélagsfræðinni strax í upphafi, til dæmis með því að útlista í sem fæstum orðum hvert viðfangsefni hennar er, fremur en að byrja á almennri útskýringu á félagsfræði og þoka sér svo smám saman að stað heilsufélagsfræðinnar innan hennar.

En það er á Hermanni að skilja að heilsufélagsfræði sé tiltölulega ný af nálinni, og það kann að vera óvinnandi vegur að skilgreina afdráttarlaust fræðigrein sem enn er að ná þroska og ávinna sér sjálfstæðan tilverurétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband