Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Siðblinda

Líklega er það tilfellið að maður skyldi alltaf vara sig á heillandi og aðsópsmiklum sterkum leiðtogum. Allar rannsóknir hafa lengi bent til þess að mikill sjarmi og sjálfsöryggi séu helstu einkenni siðblindu (psychopathy). Siðblint fólk er "predatorar samfélagsins" - rándýr sem fara sínu fram og hika ekki við að gera það sem þeim sýnist við annað fólk. 

Nú eru þetta fráleitt ný sannindi og þess vegna mjög athyglisverð spurning hvers vegna ekkert breytist. Hvers vegna við höldum áfram að trúa á og treysta stjórsjarmörum og viljasterkum mönnum - þegar margbúið er að sýna fram á að við ættum alltaf að varast þá.

Talsverðar líkur eru á að einhver mjög heillandi og sterkur leiðtogi sem maður treystir fullkomlega nákvæmlega núna sé síkópati.  


Hógværi pólitíkusinn

Er hann til? Er nema von að maður efist? Og gæti verið að hógværð sé það sem vantar í íslenska pólitík til þess að auka virðingu fyrir stjórnmálastéttinni? Einhverstaðar las ég um daginn að það væri næstum því klisja að hógværð væri forsenda lýðræðis - svo sjálfsögð væru þau sannindi.

En hvers vegna er það almenna reglan í íslenskri pólitík að fólk segi ekki af sér - finnist það jafnvel fráleit hugmynd?

Nú er ekki gott að segja hvort það er að hógvært fólk fari ekki í pólitík, eða að pólitík geri mann hrokafullan. En hitt er alveg ljóst að hroki er löstur. Hógværð er dygð.

Kannski yfirsést pólitíkusum að hógværð er ekki andstæða hroka einvörðungu, heldur er hógværð líka andstæða undirlægjuháttar. Hógværð er - eins og dygðir eru - millivegurinn milli lastanna tveggja, hroka og undirlægjuháttar.


Óháðir vísindamenn?

Ef Félag atvinnurekenda lét "vinna fyrir sig skýrslu" er alveg tómt mál að tala um að það hafi á nokkurn hátt verið "óháð" skýrsla, eins og Ólafur Stephensen segir í frétt RúvUm leið og "óháðu vísindamennirnir" hans Ólafs voru ráðnir til að vinna skýrslu fyrir Félag atvinnurekenda hættu vísindamennirnir að vera óháðir.

Og ef umræddur læknir "dregur pólitískar ályktanir" af vísindalegri þekkingu þá hlýtur það sama að eiga við um Félag atvinnurekenda. Það má vel vera að "áhættan af innfluttum mat" sé lítil sem engin, en það er nú bara hræsni í Ólafi að gera lítið úr gagnrýninni á þeim forsendum að hún sé af pólitískum toga, og láta þannig í veðri vaka að hans eigin ályktun sé alveg ópólitísk og þarafleiðandi miklu trúverðugri.

 

 


Háværa þögnin

Er nauðsynlegt að almenningur beri sérstaka virðingu fyrir þingfólki? Yfirleitt virðist gengið út frá því að svarið við þessari spurningu (væri hennar yfirleitt spurt) sé já.

En ef raunverulegur áhugi er fyrir því af hálfu alþingisfólks að virðing almennings fyrir Alþingi aukist þarf líklega að byrja á því að þingfólk fari að sýna almenningi meiri virðingu. Virðing er gagnkvæm, að minnsta kosti núorðið og liðin sú tíð að virðing komi sjálfkrafa með háum embættum.

En það er ekki endilega augljóst að alþingisfólk hafi í raun og veru áhuga á því að virðing Alþingis aukist. Til að virðingin aukist þyrfti nefnilega að lækka þingfararkaupið talsvert, svo að alþingisfólk sé ekki lengur hluti af "opinberu yfirstéttinni" sem skammtar sjálfri sér laun.

Þurfi þingfólk að velja á milli hárra launa og aukinnar virðingar er kannski líklegra en hitt að háu launin yrðu fyrir valinu. Að minnsta kosti hefur ekki enn sést nein vísbending um annað, og ekki heyrst múkk frá þingfólki um þetta mikilvæga mál. Þessi háværa þögn bendir til að almennt velji þingfólkið frekar háu launin en virðinguna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband